Ritverk Árna Árnasonar/Afmælis- og heillastökur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. ágúst 2013 kl. 14:00 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. ágúst 2013 kl. 14:00 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> ::::::Úr fórum Árna Árnasonar <br> ::::::<big>Kristinn Sigurðsson, Landagötu 15 a</big> :::::: Eftir sextugt aft...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Kristinn Sigurðsson, Landagötu 15 a
Eftir sextugt aftur fer
almenningi um flest,
en guð og lukkan gefur þér
gleðilega heilsu og rest.
Lukkusól á líf þitt skíni,
lýsi ævi fagra, langa.
Sextugan þig sæmdin krýni,
sanni mögur Eyja og dranga.
Ei þér verði æfin þung
eða neitt til baga.
Hún er ævi alltaf ung
eins og í fyrri daga.
Vestmannakór 25 ára
Fjórðung aldar farin leið
fegrar unaðs minning sanna.
Drottning listar dýrstum meið
dafni í kóri Vestmannanna.
Íþróttafélagið Þór

Um árabil var veröldin í Vestmannaeyjum í sumra hugum blá og græn, eftir því, hvort þeir voru í Þór eða Tý, íþróttafélögunum í Eyjum. Árni Árnason var Þórari alla tíð, keppti fyrir félagið í frjálsum íþróttum og knattspyrnu á sínum yngri árum. Þá var hann og byrjaður að taka saman ágrip af sögu Íþróttafélagsins Þórs er hann lést.
Þetta kvæði sendi hann félaginu á 40 ára afmæli þess 9. september 1953:

Þórsmenn, standið allir eitt,
Eyjalandið hvetur.
Félagsandinn ykkur leitt
úr öllum vanda getur.
Heilir fylgið fornum sið,
fram að sækja, aldrei renna.
Félags- öllum út á við
erfiðleikum skal ég brenna.
Tómas Guðjónsson
afmæliskveðja á sextugsafmæli 13. janúar 1947
Ef Heimaey ætti sér marga mögu,
Já, menn eins og þig í hennar sögu,
eflaust þá væri búsæld betri
og batnandi líf með hverjum vetri.
Heill sit nú höldur,
heiðri krýndur,
Heimaeyjar
sannur sonur,
af sínum átthaga.
Signi þig sextugan
sæmdarmanninn,
mund sú hin máttka,
er menn alla skapti.
Á áttræðisafmæli Guðjóns á Oddsstöðum:
Þú ert höldur, snjall og hreinn,
hatar nöldur, reifur, glaður.
Þinn er skjöldur sómi einn,
sannur fjöldans heiðursmaður.
Friðrik Jesson, Hóli, fimmtugur
Þinn er bestur bautasteinn,
betri en annar varasjóður.
Ávallt verið hjartahreinn,
hugljúfur og drengur góður.
Mundi í Draumbæ fimmtugur
Ákafleg aflakló
er hann í fuglató,
fagurt á fé í mó,
fimlega nikku sló.
Bjargmaður, bílstjóri,
bóndi og skipstjóri.
Kristmundar skál,
nú kallar vor sál.

Í glósubókum Árna er þetta ljóð að finna, uppskrifað með hans hendi. Forsaga þess er sú, að Oddgeir Kristjánsson, sem þá var forstjóri Bílastöðvar Vestmannaeyja, vildi gleðja einn af bílstjórum stöðvarinnar, sem hélt upp á fimmtugsafmæli sitt, Kristmund Sæmundsson í Draumbæ.
Annaðhvort hefur Oddgeir ort kvæðið og Árni skráð það eftir honum eða, sem líklegra er, að Árni hafi samið það fyrir hann. Þessi afmælisdrápa er ort undir þekktu lagi, Hertogasöngnum úr Rigoletto eftir Verdi, en Mundi hafði miklar mætur á laginu og spilaði það oft á harmonikku, bæði í úteyjum sem og á skemmtisamkomum ungs fólks fyrir ofan Hraun. En nú hélt Oddgeir upp fyrir hraun og söng drápuna fyrir Munda. Spurði hann síðan, hvernig honum hefði líkað. „Jú, þetta var ágætt hjá þér, Geiri minn,“ sagði Mundi. „En hvernig vissirðu, að ég samdi lagið?“

Helgi Jóhannesson:
Helgi, — þig heiðra ber,
heillaósk sendi þér,
fertugum allt fært er,
fimmtugum engu verr.
Fáðu gæði farsældar
frír við mæðu alla.
Lifðu í næði lukkunnar
og lúxusævi karla.
Á.Á.
Kveðið á fimmtugsafmæli
Árin fljúga ört á braut,
ótal margt þau gefa.
Sorg og gleði synd og þraut,
saman glitæð vefa.
Hvergi nærri er komið kvöld,
kæti og gleði farin.
Þó við horfum hálfa öld
hverfa í sollinn marinn.
Beztu óskir viljum við
vanda á þessum degi.
Verði þér indælt afmælið
og allt á lífsins vegi.
Og kærar þakkir fyrir dýrðardaga,
draumaefni verður þeirra saga.
Fyrir gott sem gerðir mér
góðra beztur vina,
hjartanlega þakka þér,
þarmeð samfylgdina.
Við 80 ára strönd
undu hlýjum vegi.
Bak við skýin ljóma lönd
og ljós af nýjum degi.
Til brúðhjóna:
Alda faðir ykkur leiði
undir sól í fjallaheiði,
frið á ykkar framtíð breiði,
fram að hinsta skeiði.
Leiði hjónin lífsins braut
lukkan bjarta og sanna.
Ykkur farsæld falli í skaut,
friður og ástin manna.
Heill hjóna bæti
hnoss og ágæti,
erfð og inræti,
efst í hásæti.
Kveðið um vin og félaga
Þó að fenni í farin spor
forn ei gleymast kynni.
Bið ég Eyja æskuvor
orni sálu þinni.
Fyrrum karskur var og kubbur,
kvennabósi, drykkjusvelgur,
lágur vexti, stríðinn stubbur,
skemmtinn þótti ærslabelgur.
Um þig leiki unaðsblær
ævidags í halla,
vors og sólar sonur kær,
sómi eyja fjalla.
Ýmsar vísur
Eftir sextíu ára bil
ertu hress og glaður.
Hamingjan þér hossi til
hundrað ára, – maður.
Elfur tímans áfram líður
öld er hálf að baki runnin.
Farsæld enn og frægð þín bíður,
fjölþætt störf af manndáð unnin.
Lifðu heill með létta sál,
laus við allan vanda.
Á þessum degi þína skál
þamba ég í anda.
Eignist þú barna-barna-
börnin sem allra flest.
Lifðu meðan þig langar,
líði þér æ sem bezt.
Þú ert frændi, frjáls í lund,
frískur, snar og glaður.
Vertu alla ævistund
auðnu- og heiðursmaður.
Gakktu frændi fagra braut,
fjör og þróttur dafni.
Gæfan æ þér gangi í skaut,
gleðin ríki í stafni.
Gleðin saklaus, helg og hrein
hjá þér jafnan vaki.
Á þér sorg og mannamein
mjúkum höndum taki.
Litla stöku læt þér tjá
ljúfa kveðju mína.
Allt, sem framtíð fegurst á,
falli á lífsbraut þína.
Ævidagsins aftansól
örmum vefji drenginn,
upp á sextugs sjónarhól,
sem í dag er genginn.
Á árshátíð í Félagi bjargveiðimanna:
Vinkonur kæru og vinir,
vilji er okkar mál,
að hefja upp glösin sem hinir
og hrópa svo ykkar skál.
Heill sittu halur
heiðri krýndur
í gæfu-gengi
til góðrar elli.
Sól þér og sumar
sífellt brosi,
vinurinn væni,
vandur að orðum.
Bið ég og blessunar
búi þínu,
kærri konu
og knáum sonum.
Ævi ykkar allra
alfaðir leiði
og lífi að lokum
í ljósheimum annist.
Á.Á.
Leika við þig lífið megi
létt og fjörugt göngulag.
Færi þér á fertugsdegi
fortuna sinn auðnuhag.
Þó að eldist hár og hold,
hverfist tíma baugar.
Orðstír þinn um fuglafold
fögur minning laugar.
Oft við ræður kyrrlátt kveld
kært var næði tveimur.
Beggja glæddi innra eld,
annar fæddist heimur.
Lifðu heill sem haukur fjalla
hvass í sjón með skyggna brá,
þegar yfir hæstu hjalla
horsku flugi svífur á.
Tímans rás er takmark sett,
talan fyllist ára.
Áfram svífi ljúft og létt
líf þitt eins og bára.
Þótt um varnir virðist fátt,
vonarstrengi hertu.
Sigldu enn í sömu átt,
sólar megin vertu.
Að þér laðist óskin klár,
óskaddaður hvergi sár.
Lifðu glaður öld og ár,
afreksmaður hærugrár.
Eg vil til þín óskum benda,
að sem blóm í grænni hlíð
fáir þú til leiðarenda,
og lánið elti alla tíð.
Hamingjunnar hendi frá
hljóttu gæfu sanna.
Þínar brautir breiðist á
blessun guðs og manna.
Farðu á skautum farsældar
framhjá brautum glötunnar.
Gakktu á skíðum gæfunnar
í grænum hlíðum lukkunnar.
Svo margan klettinn þú kleifst að brún
og knerri beittir með segl´i við hún
gegn stormi og reiðum sæ,
að fríð mun þér útsýn og friðsæl höfn,
er fleyi þú stýrir af svalri dröfn
til Eyja í aftan blæ.



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit