Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Halda skal á hafið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. desember 2011 kl. 17:36 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. desember 2011 kl. 17:36 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Halda skal á hafið“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit


Halda skal á hafið.


Um miðja 16. öld kom Danakonungur, sem um þær mundir rak einokunarverzlun í Vestmannaeyjum, sér upp fiskibátum þar, og hóf stórfelldan útveg á mælikvarða þeirra tíma. Árið 1577 var skipastóll hans í Vestmannaeyjum orðinn sextán stórskip, sexæringar, teinæringar og tólfæringar. Stærst þessara skipa voru tólfæringarnir, og voru þeir fimm talsins um þessar mundir. Voru þeir engar smáfleytur, enda er talið að þeir væri sumir 36 fet stafna á milli, og breidd og dýpt að því skapi. Voru þeir svo erfiðir og þungir í setningi, að konungur lét gjöra með ærnum kostnaði spil til þess að setja þá í hróf eftir hvern róður. Í nálega tvær og hálfa öld hélzt þessi danski útvegur í Vestmannaeyjum, ýmist á snærum hinna dönsku einokunarkaupmanna eða konungs, eftir því hvorir ráku verzlunina, því skipin fylgdu verzlunarstaðnum, eins og kúgildi fylgja jörðum. Mátti enginn, sem sjó stundaði í Vestmannaeyjum, ráða sig í skiprúm hjá öðrum fyrri en konungsskipin voru að fullu mönnuð.
Þau urðu endalok þessa skipastóls, að hann var seldur á opinberum uppboðum á árunum 1790 og 1791 til hæstbjóðanda. Þá voru konungsskipin 13 að tölu, og seldust þau flest öll við mjög lágu verði, á tvo og þrjá ríkisdali, því að þau höfðu ekki komið á sjó síðan árið 1773 og voru því orðin fúin og af sér gengin flest þeirra, og sum ekki sjófær. Nöfn á skipum þessum voru flest úr biblíunni, t.d. Andrés, Abraham, Jósúa, Jakob, Gideon, Gabríel, Daníel o.fl. því líkt.
Frá því árið 1773 hafði verið ördeyða að heita mátti hverja vertíð, svo að hásetar fengust ekki á skipin af meginlandi, og sum árin hallæri svo geysilegt, að mannfellir varð víða um land, einkum meðan Móðuharðindin geisuðu. Á þessum árum fækkaði fólki svo í Vestmannaeyjum, að undir aldamótin 1800 voru þar aðeins 173 sálir, og margar jarðir í eyði og tómthúsin lögð niður.
Meðal þeirra skipa, sem seld voru á uppboðinu í Vestmannaeyjum, var engin tólfæringur. Höfðu þeir smám saman týnt tölunni, ýmist fyrir elli sakir eða af slysum, og engir nýir verið byggðir í þeirra stað. Tólfæringurinn Rafael hafði verið lánaður vermönnum úr Skaftafellssýslum, og var hann seldur þar, vegna þess að öll tormerki voru á því talin, að hægt væri að koma honum aftur út í Vestmannaeyjar.
Í munnmælum er sú sögn, að vermenn hafi fengið einn tólfæringinn lánaðan upp í Miðbælisvarir undir Austur-Eyjafjöllum með skreið og vörur og hafi hann orðið þar til. Mun það hafa verið Rafael. Þetta var um lokin, og máttu vermennirnir hafa skipið uppi þangað til þeir kæmi aftur út til róðra um það bil að næsta vertíð byrjaði. Tókst lendingin vel, og var skipið sett upp að Miðbæli, og átti að hvolfa því þar. Þegar búið var að reisa skipið upp á rimina, blöskraði mönnum hæð þess og treystu sér ekki til þess að taka á móti því slysalaust. Hlupu þeir, sem við áttu að taka, allir undan og féll skipið til jarðar og laskaðist mjög mikið. Bar skipið þarna bein sín.
Um annan tólfæring er sú sögn, að hann hafi hrakið frá Vestmannaeyjum í útsynningsroki og farizt með allri áhöfninni í brimi við Austur-Eyjafjöllin. Af skipshöfninni er sagt, að tólf menn hafi rekið á Miðbælisfjörur, og væri þeir jarðaðir í tveimur gröfum í Miðbæliskirkjugarði, sjö í annari, en fimm í hinni. Hafa leiði þessi sézt fram á þennan dag.
Þá er sögn um það, að tvo tólfæringa hafi hrakið frá Vestmannaeyjum í útsynningshroða. Formenn fyrir skipum þessum voru feðgar og höfðu þeir samflot. Þegar þá hafði hrakið alllangt í austur og þeir voru orðnir úrkula vonar um að ná Eyjum, töluðust þeir við og ráðguðust um hvað gjöra skyldi. Segir sagan, að faðirinn hafi sagt: „að halda skyldi á hafið,“ en sonurinn: „að setja skyldi upp og sigla í Sandinn.“
Urðu þeir ekki sammála og lauk svo, að hvor hélt sína leið. Aldrei framar spurðist til föðurins, og var talið víst, að skipið hefði farizt með allri skipshöfn. Sonurinn sigldi upp í Sandinn upp á líf og dauða. Braut hann skip sitt í spón í lendingunni, en bjargaðist með allri skipshöfn sinni lífs af.
(Heimildir: Þjóðskjalasafn A. 57. I. o.f1. og Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri: Slysfarir, manntjón og sjóhrakningar).