Blik 1960/Landakirkja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. maí 2010 kl. 11:21 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. maí 2010 kl. 11:21 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



Landakirkja


Á undanförnum árum hafa miklar endurbætur og breytingar átt sér stað á Landakirkju í Vestmannaeyjum bæði utan veggja og innan. Vissulega hafa Eyjabúar sýnt það í verki, að þeir kunna að meta þessa veglegu kirkju, sem er ein elzta kirkja landsins og glæsilegt guðshús á íslenzkan mælikvarða. Á næstliðnum árum hafa eikarbekkir verið settir í kirkjuna, keypt í hana stórt og fullkomið pípuorgel, „haustmannaloftið“ svo kallaða tekið burtu og ýmsar aðrar breytingar gerðar til bóta á lofti kirkjunnar. Mesta átakið hefur þó orðið það að byggja við kirkjuna veglegan og voldugan stöpul, sem gjörbreytir útliti hennar, setur hana voldugleikablæ og tignarsvip. Eru þá ekki gleymd þau þægindi öll við notkun kirkjunnar, sem leiðir af viðbygging þessari og stækkun bæði fyrir sóknarbörnin og hina ráðandi menn guðshússins.

ctr
Landakirkja.

Í byrjun októbermánaðar 1959 komu kirkjulegir gestir til Vestmannaeyja. Sjálfur biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurbjörn Einarsson, prófasturinn í Kjalarnesþingi, séra Garðar Þorsteinsson, og sóknarprestur í Hallgrímssókn í Reykjavík, séra Sigurjón Árnason, heimsóttu Eyjarnar til þess að taka þátt í vígslu hins nýbyggða stöpuls Landakirkju.
Hinn 4. október fór vígslan fram. Hún hófst kl. 2 um daginn með því að biskup, prófastur, sóknarprestar og sóknarnefnd gengu í skrúðgöngu frá barnaskólahúsinu til kirkju með ýmsa kirkjumuni. Fremstir fóru þeir Páll Eyjólfsson, sóknarnefndarformaður, og Þórður Gíslason, meðhjálpari, og báru tákn hins trúarlega ljóss í höndum sér, kerti kirkjunnar.
Næstir á eftir þeim gengu þeir Björn Finnbogason og Steinn Ingvarsson, sóknarnefndarmenn. Björn bar handbók í hendi en Steinn biblíu. Næstir þeim fóru Steingrímur Benediktsson og Friðfinnur Finnsson, sóknarnefndarmenn, og báru hökla kirkjunnar. Þá gengu í skrúðgöngunni sóknarprestarnir séra Jóhann Hlíðar og séra Halldór Kolbeins.
Næstir þeim prófasturinn séra Garðar Þorsteinsson, séra Sigurjón Árnason, sem var hér þjónandi prestur 1924—45 að árinu 1938—1939 undanskildu, er séra Halldór Kolbeins þjónaði fyrir hann. Síðastur í Skrúðgöngu þessari gekk biskupinn í biskupsskrúða.
Í kirkju þjónaði biskup fyrir altari, séra Sigurjón Árnason prédikaði og prófastur las ritningargreinar í kórdyrum.
Að kvöldi vígsludagsins hafði sóknarnefndin boð inni í húsi K.F.U.M. og K. við Vestmannabraut fyrir marga bæjarbúa. Þar voru margar ræður fluttar og margar heillaóskir fram bornar Landakirkju og söfnuði til handa og blessunar.

Páll Eyjólfsson.

Hér birtir Blik að þessu sinni nokkra mola úr ræðu sóknarnefndarformannsins, Páls Eyjólfssonar, þar sem m.a. eru teknar úr reikningum athyglisvarðar tölur varðandi framlög Eyjamanna til framkvæmda við kirkjuna o.fl.
„... Þegar sóknarnefndin undirskrifaði samning um byggingu orgelsins við firmað I. Starup og Sön í Kaupmannahöfn í marz 1952 fyrir danskar kr. 44.500,00, voru til í orgelsjóði Landakirkju kr. 19.000,00. Uppsett kostaði orgelið kr. 182.000,00. Sú mikla bjartsýni, er ríkti í hugum okkar sóknarnefndarmanna við undirskrift samningsins, lét sér ekki til skammar verða, því að nú eins og fyrr kom hlýhugur og velvilji safnaðarins til kirkjunnar svo berlega í ljós, að á árinu 1952 og 1953 gaf söfnuðurinn til orgelkaupanna kr. 103.842,00. Stærsta gjöfin var frá Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja kr. 30.000,00. Í dag, er við höfum verið viðstödd, er biskup Íslands, herra Sigurbjörn Einarsson, vígði turn Landakirkju og endurvígði kirkjuna, er rétt og skylt að greina frá því í stórum dráttum, hve raunverulega margar hendur hafa verið út réttar til hjálpar og styrks við turnbygginguna. Nöfn skulu eigi nefnd, því að hin smæsta sem hin stærsta gjöf hafa allar verið gefnar með sama huga og í sama augnamiði.
Þegar sóknarnefndin hóf byggingu kirkjuturnsins, voru til í sjóði kirkjunnar kr. 1.000.00, sem var hin fyrsta gjöf til turnbyggingar við Landakirkju, gefin af Guðmundi heitnum Magnússyni, trésmíðameistara, til minningar um Helgu konu hans Jónsdóttur, en auk þess kr. 54.980,52, sem var endurgreiðsla á bátagjaldeyri vegna orgelkaupanna. Orgelið varð að kaupa inn á svo nefndum bátagjaldeyri. En fyrir velvilja og skilning fjármálaráðherra Eysteins Jónssonar voru allir tollar eftirgefnir, og fyrir það

Myndin er tekin 1. okt. s.l., er vígsla hins nýja kirkjustöpuls og endurvígsla Landakirkju hófst. Kirkjumunir bornir til kirkju.
Á efri myndinni fara meðhjálpari og sóknarnefndarmenn, sem greindir eru hér frá vinstri til hægri: Þórður Gíslason, meðhjálpari, og Páll Eyjólfsson, sóknarnefndarformaður; Steinn Ingvarsson og Björn Finnbogason; Friðfinnur Finnsson og Steingrímur Benediktss.
Neðri mynd frá hægri til v.: Séra Halldór Kolbeins, séra Jóhann Hlíðar, séra Sigurjón Árnason, séra Garðar Þorsteinsson og síðastur biskupinn herra Sigurbjörn Einarsson.
Ljósm.: Þráinn Guðmundsson, Landagötu).

fékkst endurgreiðsla bátagjaldeyrisins. Fyrir þetta skal Eysteini Jónssyni færðar beztu þakkir. Þetta var nú allt það fé, sem sóknarnefndin hafði til umráða til framkvæmdar turnbyggingu við Landakirkju, en Ólafur Kristjánsson, sem teiknaði turnbygginguna, áætlaði að hún mundi kosta frá kr. 300—350.000,00. Ólafur Kristjánsson gerði meira en gera teikninguna að byggingunni. Hann var okkur ráðunautur við framkvæmdirnar og ávallt reiðubúinn að sinna okkar kvabbi og kalli. Og það sem meira var um vert, að hann hefur aldrei tekið eyri fyrir sitt ágæta starf fyrir kirkjuna. Og vil ég enn færa honum þakkir safnaðarins fyrir störf hans og hlýhug til Landakirkju, og óska ég honum fyrir það allrar guðsblessunar.
Kostnaðurinn við bygginguna varð miklu hærri en upphaflega var áætlað vegna síhækkandi byggingarkostnaðar o.fl. Hann er nú orðinn samkvæmt dagbók kirkjunnar kr. 586.908,94.
Peningagjafir til byggingarinnar á árunum 1955—1958 nema kr. 350.678,98. Stærst er framlag frá bæjarsjóði Vestmannaeyja kr. 50.000,00 og gjöf frá Lifrarsamlagi Vestmannaeyja kr. 30.000,00.
Frá því núverandi sóknarnefnd byrjaði að starfa, hefur hún skrásett allar peningagjafir, sem kirkjunni hafa borizt. Skráðir eru 1859 gefendur og gjafir samtals kr. 452.128,45.
Fleiri gjafir hafa og Landakirkju borizt, svo sem dúkur á altari, altarisklæði, hökull, messuvínskanna, tvær biblíur, (önnur ljósprentuð Guðbrandarbiblía) og síðast í dag var henni gefið rikkilín. Allar þessar gjafir þakka ég af hrærðum huga.
Þá vil ég leyfa mér að þakka fyrrverandi biskupi, herra Ásmundi Guðmundssyni, fyrir þau lán, er hann veitti okkur bæði úr Hinum almenna kirkjusjóði Íslands og Kirkjubyggingasjóði, svo og fyrir alla hans fyrirgreiðslu, sem hann hefur veitt okkur í sóknarnefndinni og fyrir skilning hans og velvilja við okkar málefni. Ég bið honum, konu hans og börnum guðsblessunar.
Ennfremur vil ég færa þakkir bankastjóranum hér, sem ávallt hefur sýnt okkur mikinn skilning. Alltaf hefur hann greitt götu okkar í fjármálum, þegar kirkjan hefur þurft þess með.
Þá hefur bæjarfógetinn, hr. Torfi Jóhannsson, sem hefur á hendi innheimtu sóknargjalda, sýnt okkur mikinn velvilja og hjálpfýsi og veitt okkur mikilsverðar fyrirgreiðslur. Fyrir það þökkum við honum alúðlega.
Að endingu þakka ég svo öllum ónefndum fjær og nær, sem á einn og annan hátt hafa stutt að framgangi þessara framkvæmda, sem sóknarnefndin hefur unnið að fyrir Landakirkju á undanförnum árum.“