Blik 1941, 2. tbl./Á gægjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. október 2009 kl. 16:16 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. október 2009 kl. 16:16 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1941, 2. tbl./Á gægjum“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Á GÆGJUM.


Heil og sæl, nemendur og kennarar Gagnfræðaskólans.
Í vetur hefi ég haft betri aðstöðu en oft áður til þess að fylgjast með félagsmálum og skemmtanalífinu í skólanum ykkar. Því veldur náið vinfengi við Sollu og Gunsu, Rúa og Adda. Einnig hafa þeir Fiddi og Sæmi verið mér hliðhollir á stundum.
Af sérstakri tilviljun sá ég söngleikinn „Kúrekarnir frá Texas“, sem var hrífandi og listrænn.
Leikstjóri var Árni Guðjónsson frá Breiðholti, en aðalleikandinn var nefið á B.T. Sá drengur mun vissulega geta sungið með sínu nefi, þegar það stækkar og festist.
Ég sá einnig ástaræfintýrið „Björsi barón á biðilsbuxunum.“ Það féll mér vel í geð. Sérstaklega dáðist ég að séra Dodda, hversu hann bað hennar Bertu eðlilega og ásthrifinn.
Ó, ég hugsaði til minna æskuára, þegar ég hafði biðla á hverjum fingri og meira en það. En aldrei bað mín neinn eins einlæglega og Doddi bað Bertu í leiknum. Satt að segja fann ég til afbrýðisemi, þótt gömul sé. — Já, hann Doddi sá kemur til með að geta biðlað, drengurinn sá, þegar honum vex fiskur um hrygg. — Þá dáðist ég ekki síður að henni Bertu, hvað hún hryggbraut hann með miklum myndugleik, enda var „Björsi barón“ hálfgerður flibbaræfill. Þannig eigum við að vera, stúlkurnar. Við erum tíðum of ginkeyptar í ástamálum og makkinu, og metum okkur sjálfar of lítils oft og tíðum, þegar mannleysur og drykkjularfar leita eftir kunningsskap okkar eða ástum. Ég hefi mikla lífsreynslu í þessum efnum, því að ég hefi nú slitið barnsskónum fyrir tugum ára og látið ástarvíti gelgjuskeiðsins og duggarabandsáranna verða mér til varnaðar. Annars hefði ég kannske lent í branzanum nú eins og hinar fitlgjörnu drósir. Ójá, en sleppum því hér og snúum okkur að leiknum. — Þarna lék hún Sólveig stútungsrontu af hreinni snilld. Ella vinnukona var réttur maður á rétt um stað, — já, afbragð. Þá var háðfuglinn hann Skúli með sirtingspottlokið svarta svona heldur bærilegur. Hann minnti á gamlan útlifaðan kardínála frá miðöldum.
King-Cole-kórinn eða kálfuglarnir eins og þeir eru stundum kallaðir, þessir söngelsku drengir, hafa nú hafið söngiðkanir sínar á ný. Ég fékk fyrir sérstaka gestrisni og náð skólastjórans að hlusta á sönginn í eitt sinn.
Hljómskáli þeirra er snyrtiherbergið hennar Júllu eins og fyrri daginn og þar ilmar allt af hárvötnum og púðri.
Kjörlög kórsins eru þessi:
„Skúlaskeið,“ „Eiríkur reið með björgum fram,“ „Kátir voru karlar,“ „B.B.T. og B.B.E: brugðu sér á kreik.“ Það er danslag kvöldsins; „Addi spilar, Dunna dansar, dillar Ella sér.“ Það er danslag miðnæturinnar. Svo er „síðasta danslagið“: „Sólveig sofnar, sólin rís“. Það er danslag dagrenningarinnar. B.T. er söngstjóri kórsins eins og áður og hefir nú báðar hendur heilar. Halli litli er dyravörður ennþá, þó að aðaltónfræðingur kórsins, Hebbi Jói, segi að hann sé í mútum. Erlingur er formaður kórsins, en Doddi féhirðir.
Enn hefi ég ekki minnzt á það bezta, sem mér þykir máli skipta frá gægjum mínum um gáttir skólans. Það er ársfagnaðurinn ykkar. Það leikur ekki á tveim tungum, að hann er sú bezta skemmtun, sem haldin hefir verið í skólanum um langt skeið, segja þeir, sem bezt vita. Það yrði of langt mál að skrifa um allt það, sem ég sá og heyrði þarna hjá ykkur þetta undursamlega kvöld og þessa unaðslegu nótt. Þó skal minnzt á nokkur atriði. Fyrst skal fræga telja: hljómsveit skólans. Þarna stemmdu fimm ungir snillingar saman mismunandi hljóðfæri. Hebbi Jói þandi dragspilið eins og sjálfur Alfreð okkar blessaður væri þar kominn. Addi blés í lúðurinn, svo að dúfurnar í bekknum hans viknuðu við; Jónas seiddi fram yndislega töfratóna á kattagarnirnar sínar; Rikki sló trumbuna á báðar hendur svo að buldi í og Óski litli lék á orgelið eins og sjálfur Beethoven. Það voru þær dásemdir í list tónanna, að Helgi og Alfreð undruðust, svo að þeir hvö ekki hafa snert hljóðfæri síðan vegna minnimáttarkenndar. Svo fór um sjóferð þá.
Þá sannaðist það um nóttina, að nazistunum í skólanum varð bumbult af gyðingakökunum. Hún G. fékk innantökur, hann M. fékk kveisu; B.T. seldi upp lifur og lungum og Gilla varð um og ó. Þessir unglingar hafa þó ekki verið kvellisjúkir um dagana frekar en Kveldúlfur gamli, eða svo tjá mér kunnugir. — Af pönnukökunum og matarástinni fara minni sögur, þó hefir enhvers orðið vart í öðrum bekk, og viðbragð hefir fundizt snefti nr. 5 í 1. bekk. Í 3. bekk er það allt alvarlegra og róttækara — hér taka þeir fyrir munninn á mér.
Gleðileg jól, farsælt nýár! Þakka ykkur fyrir gamla árið.

Ykkar einlæg
Tobba Teits