Blik 1962/Eftirminnileg knattspyrnukeppni
Eftirminnileg knattspyrnukeppni
KAPPLIÐIÐ ÚR EYJUM 1920.
Aftasta röð frá vinstri: Hjálmar Eiríksson frá Vegamótum, Jóhann Bjarnasen úr Garðinum, Georg Gíslason frá Stakkagerði, fararstjóri, Filippus Árnason frá Ásgarði, Kristinn Ólafsson frá Reyni.
Miðröð frá vinstri: Lárus Árnason frá Búastöðum, Sigurður Sveinsson frá Sveinsstöðum, Árni Árnason frá Grund.
Fremsta röð frá vinstri: Óskar Bjarnasen frá Dagsbrún, Guðmundur Helgason frá Steinum, markvörður, Jón Jónasson frá Múla.
Í fyrra birtist þessi mynd í Bliki en þá misritaðist ártalið (1925 í stað 1920). Einnig nafn Jóns Jónassonar. Biðjum velvirðingar á þessum mistökum.
Í ágústmánuði árið 1920 komu í boði Íþróttafél. „Þórs“ og „K.V“ knattspyrnumenn frá Reykjavík til Eyja. Það voru „Víkingar“ styrktir til keppni af nokkrum mönnum úr knattspyrnufél. Fram, en Fram var þá Íslandsmeistari í knattspyrnu. Hér voru leiknir tveir knattspyrnuleikir. Í þeim fyrri sigruðu Reykvíkingar með 6 mörkum gegn 3, en í þeim síðari varð jafntefli, 3 mörk gegn 3. Það var aðalleikurinn og var leikinn á Þjóðhátíðinni. Var hann allharður en þótti vel leikinn og skemmtilegur. Reykjavíkurmönnum fannst þeir ekki fara neina sérstaka sigurför hingað og undu hálf illa sínum hag. Fannst þeim, að þeir hefðu átt að geta sýnt og sannað meiri yfirburði í knattspyrnu en raun varð á í kappleikjum sínum við okkur Eyjamenn. Eftir keppnina hér buðu Framar, þ.e. Íslandsmeistararnir, okkur Eyjamönnum að koma á Íslandsmótið í knattspyrnu á sinn kostnað. Skyldi mótið fara fram í september þá um haustið í Reykjavík.
Að sjálfsögðu þekktust Eyjamenn þetta góða boð, þótt þeir vissu fyrirfram, að um sigurför yrði ekki að ræða, og að þá hyggðu Reykvíkingar að hefna rækilega ímyndaðra ófara sinna í Eyjaferðinni.
Til þessarar annarrar Reykjavíkurfarar Eyjamanna í knattspyrnu, sú fyrsta var farin árið 1912, völdust eftirtaldir menn. (Þeir höfðu verið aðalmenn knattspyrnunnar í Eyjum að undanförnu):
1. Georg Gíslason, fyrirliði og fararstjóri, miðframherji.
2. Jóhann A. Bjarnasen, Dagsbrún, vinstri innframherji.
3. Kristinn Ólafsson, Reyni, vinstri framherji.
4. Hjálmar Eiríksson, Vegamótum, hægri framherji.
5. Filippus G. Árnason, Ásgarði, hægri innframherji.
6. Lárus G. Árnason, Búastöðum, vinstri framvörður.
7. Sigurður Sveinsson, Sveinsstöðum, miðframvörður.
8. Árni Árnason, Grund, hægri framvörður.
9. Jón Jónasson, Múla, vinstri bakvörður.
10. Óskar A. Bjarnasen, Dagsbrún, hægri bakvörður.
11. Guðmundur Helgason, Steinum, markvörður.
12. Ólafur Ólafsson, Reyni, varamaður.
13. Gunnar H. Valfoss, verzlunarm., varamaður.
14. Magnús Stefánsson, fyrrv. sýsluskrifari (Örn skáld Arnarson), varamaður.
Hinn síðastnefndi var þá farinn héðan fyrir skömmu til Hafnarfjarðar, en kom þaðan og sameinaðist okkur til leiks í Reykjavík.
Við fórum frá Eyjum 27. ágúst með g.s. Ísland. Það var að koma frá Danmörku og hafði að þeirra tíma sið viðkomu í Eyjum á leið sinni til Reykjavíkur. Öll skip komu þá við í Eyjum í utanlandssiglingum og tóku hér eða affermdu vörur, póst og farþega. Í þessari ferð skipsins voru margir farþegar þar á meðal Gísli J. Johnsen, sem ætlaði áfram til Reykjavíkur, Halldór Gunnlaugsson. héraðslæknir, sem fór í land í Eyjum, o.fl. Halldór læknir sagði við okkur um borð, er hann kvaddi og óskaði okkur góðrar ferðar:
„Sýnið nú Reykvíkingum í tvo heimana. Þið getið það hæglega, strákar.“ Hann var mikill íþróttaunnandi og fyrsti leikfimikennari í Eyjum, sem heitið gat.
Við vorum kátir og hressir, Eyjastrákarnir, á leiðinni, því að veður var gott og enginn sjóveikur. Við fengum ágætar veitingar, sem þjónninn skrifaði á reikning Fram og „de tolv Hr. Fodboldspillere“. Vorum við síðan nefndir svo af skipshöfninni, ef við þörfnuðumst einhverrar þjónustu á leiðinni. Brytinn var okkur mjög innan handar um margt. Hann var bezti náungi, en einhver sá feitasti maður, sem ég hefi séð. Hann þurfti að nota alveg sérstakt lag til þess að komast út og inn um eldhúsdyrnar, sem voru víst eins og aðrar dyr skipsins.
Þegar til Reykjavíkur kom, varð eiginlega allt í uppnámi vegna komu okkar. Strangar heilbrigðisreglur höfðu verið í gildi (vegna innflúenzunnar) og voru einhverjar varnir enn við hafðar. Þegar við nú komum með skipinu, sem var eins og áður segir að koma frá Danmörku, var ákveðið að við færum í sóttkví, sem aðrir farþegar skipsins, 3—5 daga. Okkur Eyjamönnum fannst þetta að sjálfsögðu skrambi hart og harla einkennileg ráðstöfun, þar eð við vorum allir búnir að fá flenzuna. Þess utan hafði Halldór læknir farið í land í Eyjum og enginn gert athugasemdir við það. Efalaust hefur hann fylgzt með heilbrigði farþeganna á leiðinni og álitið allt í lagi. En hvernig sem það nú annars var, þá skyldum við allir í sóttkví, sem aðrir farþegar samkv. boði landlæknis. Hversvegna vissi enginn okkar. Útlitið var því ekki gott með kappleikinn. En þá kom Gísli J. Johnsen til sögunnar. Einhvernveginn greiddi hann úr þessari flækju, sem svo mörgum öðrum enn verri fyrir Eyjamenn yfirleitt, þannig, að heilbrigðisyfirvöldin samþykktu að sleppa okkur öllum við sóttkvína. Það voru okkur mikil gleðitíðindi og var Gísla Johnsen þakkað með fögrum orðum og fyrirbænum.
Meðan á þessu sóttvarnarþvargi stóð, hafði „Íslandið“ legið úti á ytri höfn. Strax og málið leystist, var haldið að hafnarbakkanum, þar sem við Eyjamenn hlupum kátir og sprækir svo að segja í fangið á Frömurum og Víkingum, sem fjölmennt höfðu til móttöku okkar. Aðrir farþegar þurftu víst einhverjir að fara í sóttkví og þá líklega þeir, sem ekki höfðu fengið flenzuna. Á hafnarbakkanum var strax slegið upp skyndiráðstefnu um það, hve margir okkar Eyjamanna þyrftu rúm og fæði. Þeim, sem vildu, hafði verið ráðstafað til gistingar á Hótel Skjaldbreið, en til fæðis í matstofu, sem var til húsa í Iðnó. Nokkrir vildu búa úti í bæ hjá vinum og vandamönnum, en aðrir kusu heldur að vera á gistihúsinu eða höfðu ekki val um annað húsnæði. Á Skjaldbreið voru þessir: Filippus G. Árnason, Jón Jónasson, Jóhann Bjarnasen, Lárus Árnason, Gunnar Valfoss, Guðmundur Helgason. Úti í bæ voru: Sigurður Sveinsson, hjá föður sínum í Kirkjustræti 8,
Georg Gíslason, hjá Kristínu systur sinni, Grundarst. 11,
Óskar Bjarnasen hjá Nicolai Bjarnason í Suðurgötunni,
Kristinn og Ólafur Ólafssynir hjá vandafólki sínu,
Árni Árnason hjá Gunnari Schram, símritara, Stýrim.st. 8, Magnús Stefánsson bjó í Hafnarfirði, sem fyrr getur.
Hjálmar Eiríksson, hjá Hjálmrúnu föstursystur sinni Bræðraborgarstíg 38.
Skömmu eftir komu okkar í borgina, var skundað upp í matstofuna í Iðnó. „Verten“ var víst ekki eitthvað vel undir komu okkar búinn og sagðist ekkert hafa ætilegt. Samt fengum við afbragðs góðar kjötbollur og fleira góðgæti, sem við nutum af hjartans lyst, og var allfurðulegt, hvað við gátum innbyrt af matnum.
Um kvöldið var ranglað um bæinn um stund en síðan haldið á Skjaldbveið til skrafs og ráðagerða um komandi kappleiki. Einnig hresstum við upp á sálina með lútsterku rjómakaffi og kökum. Var það borið fram af yndislegum stúlkum, sem báru hvítar svuntur og höfuðbúnað, hvíta sokka, en svarta kjóla og skó. Það var einkennisbúningur fyrir Hótel Skjaldbreið og þótti smekklegur. Ég hygg að Elías Hólm hafi þá rekið gistihúsið.
Samkv. ákvörðun fyrirliðans mættu allir morguninn eftir suður á Melavelli til æfingar. Georg bað okkur að æfa varlega, svo að enginn meiddist. Þó fór svo, að tveir okkar meiddust lítillega. Verst var, að þarna var um grjótharðan malarvöll að ræða. Slíkum velli vorum við óvanir með öllu. Eyjamenn voru í þann tíma á undan mörgum öðrum og höfðu góðan grasvöll innan við Hástein. Honum var síðar breytt í malarvöll, en nú mun í ráði að breyta honum aftur og gera þar grasvöll.
Á Melavellinum hoppaði boltinn einhver ósköp og miklu meir en við áttum að venjast. Þetta gerði okkur mikinn óleik þá strax og enn meiri síðar. Það tekur góðan tíma að venjast slíkum vallarumskiptum og útheimtir malarvöllur raunverulega allt aðra meðferð knattar.
Fyrsta daginn skoðuðum við borgina. Héldum við hópinn og vöktum nokkra athygli, þar eð spurzt hafði undra fljótt að við Eyjamenn ætluðum að taka þátt í knattspyrnumótinu. Við vorum víst hálfgerðir útlendingar í augum Reykvíkinga. Georg var strangur við okkur um góða og prúðmannlega framkomu og gætti okkar vel fyrir öllum utanaðkomandi áhrifum! Við hlýddum honum skilyrðislaust og er mér óhætt að fullyrða, að hann var ánægður með framkomu okkar í hvívetna.
Miðvikudaginn 1. sept mátti sjá eftirfarandi auglýsingar í bæjarblöðunum um kappleik Vestmannaeyinga, sem þá léku sinn fyrsta leik á mótinu. Það var við Knattspyrnufélag Reykjavíkur.
Dagbl. „Vísir“ sagði: „Í kvöld keppa Vestmannaeyingar og K.R. — Allir út á völl. Mjög spennandi leikur. Tekst Eyjamönnum að sigra hið sterka lið
K.R.-inga?“
Ekki vantaði slagyrðin. Í Morgunblaðinu stóð þetta m.a.: „Í kvöld mun mörgum þeim, er áhuga hafa á knattspyrnu, verða gengið suður á Íþróttavöll. Þar eigast við, keppa, Vestmannaeyingar í fyrsta sinn við K.R. Sýndu Eyjamenn það
á dögunum, er þeir kepptu við „Víking“ og „Fram“ í Eyjum, að þeir eiga marga góða knattspyrnumenn. Munu margir bíða úrslita leikjanna, sem þeir taka þátt í, með mestu eftirvæntingu. Við birtum hér mynd af hinu ágæta kappliði Vestmannaeyinga.“
Við reyndum að taka þessu öllu með ró, en óneitanlega urðum við þó varir við nokkra taugaæsingu. Við ætluðum að mýkja okkur dálítið upp á vellinum þennan morgun. En þegar þangað kom, var verið að valta og kríta völlinn, svo að við komust ekki að honum. Við héldum því niður á Skjaldbreið og fengum okkur kaffisopa, meðan fyrirliðinn talaði kjark í okkur og leiðbeindi um ýmislegt. Sérstaklega tók hann fram að leika létt og prúðmannlega, forðast hrindingar og hörku, en sýna þó í engu neinn undirlægjuhátt. Við gætum leikið vel góða knattspyrnu, ef við aðeins hefðum það í huga hver og einn að gera allt sem bezt og verða Eyjunum til sóma á leikvelli. Síðan ræddi hann um leikaðferð og vallarhegðun yfirleitt.
K.R.-liðið var mjög sterkt og harðskeytt. Þar var Gunnar Schram símritari, miðframherji. Skotmaður var hann góður, fljótur á spretti og harður í horn að taka, ef því var að skipta. Upphlaup hans voru snögg og hættuleg. Þá má minnast Kristjáns Gestssonar, miðframvarðar. Hann var afar duglegur, mjög fljótur og góður leikmaður í hvívetna. Einnig minnist ég bakvarðarins, hins landskunna Jóns ,,á gullskónum“. Það var frískur maður, harðduglegur varnarleikmaður, sparkaði fast og langt, og hefir sennilega fengið nafn sitt þar af. Annars held ég, að hann hafi verið Þorsteinsson og skósmíðameistari að iðn. Með K.R. lék þá Þjóðverji?, mikill og sterkur og nokkuð við aldur, en frábær leikmaður og fljótur á spretti. Hann var fastur fyrir og ágengur við Jón Jónasson, okkar, en hann lét slíkt ekki á sig fá og má segja, að þar hitti skr... ömmu sína.
Dómari í þessum fyrsta leik okkar var Egill Jacobsen kaupmaður, bezti knattspyrnudómari sem þá var. Við vissum, að leikurinn mundi verða snarpur og við ábyggilega stórtapa, en ekki dugði að leggja árar í bátinn að óreyndu. Egill var mjög vingjarnlegur í okkar garð og bauð okkur velkomna til leiks hlýjum orðum. Annars setti Erlendur Ó. Pétursson mótið og mælti mjög vingjarnlega til okkar. Man ég sérstaklega eftirfarandi orð hans: „Eyjamenn munu tæpast sigra á þessu móti, en trú mín er sú, að Reykvíkingar fái sig fullreynda af þeim, áður en lýkur leikjum hér. Ég býð þá hjartanlega velkomna til keppninnar og óska þeim af einlægni góðs gengis á mótinu.“
Leikurinn hófst með allmikilli hörku af hálfu K.R., sem auðsjáanlega ætlaði sér að ná fljótt frumkvæði í leiknum. Við reyndum þess vegna að halda í við hörkutólin og sýndum enga linkennd. Fljótt kom í ljós, hve harður völlurinn var og okkur erfiður viðureignar um að hemja knöttinn. K.R.-ingar gerðu mark hjá okkur í miðjum hálfleik og annað rétt fyrir lok hálfleiks, hvort tveggja óverjandi mörk. Ekki tókst okkur að gera mark hjá þeim þrátt fyrir góðar tilraunir.
Í seinni hálfleik vorum við öruggari og ekki eins feimnir við mannfjöldann. Við vorum líka farnir að venjast svolítið vallarskömminni. Við gerðum hverja hrinuna eftir aðra að marki K.R., en ekki tókst okkur að koma knettinum í netið. Svo kom þriðja markið frá K.R. Það var hálfgert vafamark vegna rangstöðu, en Egill dæmdi það mark og hefir það eflaust verið rétt, því að hann var mjög góður og réttsýnn dómari. Þá fór okkur að hitna í hamsi. Gerðum hvert áhlaupið af öðru og lá leikurinn eigi síður á K.R. Loks tókst okkur að skora mark úr snöggu upphlaupi og vel uppbyggðu. Mannfjöldinn hrópaði, og hvatningarorð um fleiri mörk dundu á okkur. Leikurinn hélzt fjörugur og lá enn á K.R., en ekki tókst okkur að gera mark þrátt fyrir mikla sókn. Þegar 10 mínútur voru eftir af leik, tókst Schram enn að brjótast í gegn og skora mark. Við hertum sóknina og má alveg merkilegt heita, að við skyldum ekki koma knettinum í netið. Rétt undir leikslok tókst svo K.R. enn að skora mark hjá okkur úr þvögu og þannig lauk þessum fyrsta leik okkar með sigri K.R., 5 mörkum gegn einu.
Öllum kom saman um, að við hefðum átt skilið að gera fleiri mörk, þar eð við hefðum átt síðari hálfleikinn ekki síður en K.R.
Morgunblaðið sagði um þetta 3. september:
„Í fyrrakvöld áttust við Vestmannaeyingar og K.R.-ingar í knattspyrnu. — Fóru leikar svo, að K.R. gerði 5 mörk en hinir eitt. Í liði þeirra er Georg Gíslason tvímælalaust bezti maðurinn, en marga menn höfðu þeir mjög efnilega. Skortir það helzt á leik þeirra, að þeir eru óvissir í að sparka á knöttinn og alltof mörg spörkin urðu þeim til óleiks sjálfum. Einkum bar á þessu í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik sýndu Eyjamenn glöggt, að þá skortir ekki þol og var viðureignin hin snarpasta og mikil sókn af þeirra hálfu að marki K.R., þó ekki tækist þeim að koma knettinum í það nema einu sinni. Þeir áttu fyllilega skilið að gera fleiri mörk í síðari hálfleiknum. Það hefði verið réttmætt.“
Við vorum óánægðir með leikinn, þegar við hittumst á Skjaldbreið um kvöldið. Fannst okkur markamunurinn að vonum mikill. Samt gátum við verið ánægðlr með dóma fólksins og síðan blaðanna. K.R.ingar voru engin lömb að leika við í þá daga, harðfrískir keppnismenn, vel æfðir og vitanlega vanir sínum harða heimavelli. Enginn meiddist í þessum hildarleik og var það fyrir mestu.
Um kvöldið var gengið um bæinn. Árni og Hjálmar höfðu keypt sér forláta vasaljós og fannst sjálfsagt að prófa ljósmagn þeirra. Þeir lýstu því upp í glugga á 3ju hæð á stóru húsi við Vesturgötuna, sennilega nr. 1 eða 2. Komu þá í ljósglampann tvö andlit, sem hörfuðu úr ljósgeislunum. Við vorum svo að spígspora hjá V.B.K. Allt í einu komu þar 2 lögregluþjónar og var þeim mikið niðri fyrir. Sögðu þeir þá tvo okkar, sem með vasaljósin væru, hérmeð tekna fasta fyrir ókurteislega framkomu á götum úti, með því að lýsa upp í glugga íbúðarhúsanna. Þetta væri freklegt brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Við báðumst auðmjúklega fyrirgefningar og fararstjóri bað okkur griða, en allt kom fyrir ekki. Þjónar réttvísinnar voru hinir ströngustu og heimtuðu okkur framselda tafarlaust. En allt í einu sagði annar þeirra: „Hva... eru þetta ekki fótboltastrákarnir úr Eyjum?“ Jú. Jú. Við sögðum svo vera. ,,Já, mér sýndist þetta. Mér sýndist ég þekkja ykkur piltana.“ Hann borðaði þá á matstofunni í Iðnó. „Blessaðir verið þið ekki með þessi vasaljós,“ sagði hann. „Þið gerið allt vitlaust með þeim.“ Við lofuðum bót og betrun, og lagaðist þetta svo, og sluppu sökudólgarnir með áminningu um góða hegðun.
Annar leikur okkar Eyjamanna var við gestgjafana, þ.e. Fram. Það var 3. september. Morgunblaðið sendi frá sér sérstakan fregnmiða um kappleikinn með myndum af báðum kappliðunum og miklum slagorðum um komandi leik.
- Fregnmiðinn.
Fram setti sitt sterkasta lið í kappleikinn og voru það engir aulabárðar í knattspyrnu. Allt úrvalsmenn, sem voru landfrægir kappar. Má þar til nefna Friðþjóf Thorsteinsson, hinn fræga center forward, eins og það hét þá, þ.e. miðframherja, Tryggva Magnússon, center half, miðframvörð, Pétur Sigurðsson „fullback,“ Pétur Hoffmann, Eirík Jónsson og Viðar
Vík, var víst Norðmaður, svo að einhverjir séu nefndir, að ógleymdum markverðinum, Kjartani Þorvarðarsyni, sem álitinn var bezti markmaður landsins.
Ekki vorum við Eyjamenn neitt sérlega kvíðnir. Við vissum, að við mundum tapa fyrir Fram, en það var sjálfsagt að berjast til þrautar og falla með sæmd. Dómari í þessum leik var víst Areboe Clausen, frægur knattspyrnumaður. Við hann voru kennd hin svonefndu „Clausenspörk“, kraftmikil, há og löng, sem Sigurður okkar Sveinsson brá stundum fyrir sig í vörninni með góðum árangri. Þau voru í hans tíð stundum nefnd „sixpence spörk“, og hann jafnvel nefndur Siggi sixpence meðal knattspyrnumanna.
Strax í upphafi leiksins við Fram var auðséð, að við myndum fá meira en nóg að gera, a.m.k. í vörninni, því að strax í upphafi leiks varð sókn Framara æðisgengin, en þeir léku af mestu lipurð og prúðmennsku, notuðu mikið svonefnt „short pass“, stuttan samleik, höfðu miklar og hraðar skiptingar og gættu vel síns staðar og mótleikara, virtist helzt vera maður móti manni í sókn og vörn. Við höfðum einnig fengið fyrirmæli fyrirliða okkar um slíkan leik og reyndum að gera okkar bezta í að fylgja fram þeim fyrirmælum. Þótt sókn Framara væri þung og áköf, höfðum við í fullu tré við þá, vörðumst knálega og sóttum á af festu og þunga. Var leikurinn mjög jafn, og hygg ég, að hinir fjölmörgu áhorfendur hafi verið meir en lítið hissa yfir frammistöðu Eyjamanna, ekki síður en við sjálfir. Hylli áhorfenda áttum við mikla og má segja með sanni, að allt lyki nær því á reiðiskjálfi af hrópum og hvatningarorðum til beggja liðanna. Rétt fyrir hálfleikslok tókst Fram að gera mark hjá okkur. Voru þar aðallega að verki þeir Tryggvi Magnússon, Eiríkur Jónsson og Friðþjófur Thorsteinsson. Friðþjófur var mjög hættulegur skotmaður, upphlaup hans eins og eldingar og skotin eins og þrumur. Var Filippus settur honum til höfuðs og hafði hann nóg að gera. Í hálfleik vorum við harla ánægðir með útkomuna. Enginn hafði búizt við að standast snúning í þessum hildarleik. Viðar Vík bakvörður sagði við leikbyrjun, að þeir skyldu bursta Eyjamenn með minnst 10 mörkum, svo að eitt mark var ekki mikið í hálfleik.
Dagblaðið Vísir sagði um þetta 4. sept.: „Í gær áttust við á íþróttavellinum Vestmannaeyingar og Fram. Í fyrri hálfleik var líkt um sókn og vörn hjá báðum félögunum. Fram kom knettinum aðeins einu sinni í mark hjá Eyjamönnum en með
herkjunni þó...“ Af þessu sést, hve vel Eyjamenn hafa staðið sig.
Seinni hálfleikur hófst með mikilli sókn af beggja hálfu. Gekk svo lengi, að hvorugur gerði mark. Áhorfendur voru mjög æstir og hrópuðu í sífellu mikil hvatningarorð til beggja liðanna. Rétt hjá markinu okkar stóðu margir áhorfendur. Það var eystra markið. Guðmundur hafði staðið sig mjög vel í markinu og yfirleitt dró vörnin hjá Eyjamönnum að sér mikla athygli, því að hún var ágæt. Leikurinn gekk mjög hratt úr vörn í sókn og sókn í vörn. Hvergi var slakað á og virtist vel horfa fyrir okkur. Þá allt í einu koma Framarar vaðandi með knöttinn, sem lendir við fætur Óskars Bjarnasen. Hjá markinu okkar stóð stúlka með rauða húfu eða hatt, fríð og fönguleg. Hún kallar nú hástöfum og heyrðist það langt yfir: „Hertu þig, Óskar, fljótur, Óskar.“ Ekki þekkti hann stúlkuna, og enginn okkar, en svo mjög varð honum um hróp hennar, að hann sneri sér við, leit til hennar, og í einhverju fáti gaf hann boltann með föstu sparki til markmanns okkar. Guðmundur átti sízt von á þessari sendingu og var þessvegna algjörlega óviðbúinn, svo að knötturinn smaug fram hjá honum í markið. Þetta voru grátleg mistök, og bölvaði margur hressilega, a.m.k. við framverðirnir drógum í engu af ljótum munnsöfnuði. Guðmundur sagðist líka hafa bölvað sér til ósóma og skammar.
Ekki var tími til þess að vera að harma orðinn hlut. Leikurinn hófst aftur. Framherjar okkar geystust fram með knöttinn. Jóhann Bjarnasen átti fast skot, sem fór í þverslá. Pétur Sigurðsson hreinsaði frá og Eiríkur fékk knöttinn og gaf hann inn á miðjuna til Friðþjófs. Þar hófust kapphlaup milli hans og Filippusar og varð Friðþjófur að skjóta fyrr en hann ætlaði. Skotið var fast, lenti í einum okkar manni og af honum í mark. Það var óverjandi, hálfgert slysamark. Þetta hafði einhver lamandi áhrif á okkur og dofnaði leikurinn um stund. Þó urðu nokkur góð upphlaup á báða bóga. En róðurinn var þungur, þar eð Fram hafði fengið 3 mörk á okkur.
Rauðhúfan var ekki horfin af sjónarsviðinu. Nei, vissulega ekki. Aftur koma Framarar þeysandi með knöttinn, sem hafnaði hjá vörninni, sem fylgt hafði fast eftir utan af vellinum ásamt Eiríki Jónssyni utan af jaðrinum, komizt fram fyrir upphlaupið og stöðvað það.
Þá baulaði Búkolla — þá kallaði Rauðhetta: „Passið ykkur Vestmanneyingar, passið ykkur.“ Við hróp hennar truflaðist vörnin svo allt fór í handaskolum. Voru Framarar, þ.e. Eiríkur Jónsson, fljótur að nota tækifærið og skora mark með fallegu hliðarskoti. Fram hafði fengið 4 mörk á okkur. Allt getur átt sér stað í knattspyrnu, jafnvel hin ótrúlegustu mistök. Að vonum var þetta feikna áfall fyrir okkur, og vorum við bæði hryggir og sárir. Guðmundur var alveg eyðilagður og mjög miður sín, því að rétt síðar fékk hann lausan knött utan af velli, sem hann hefði auðveldlega getað varið, en missti hann og lenti hann í netið. Skömmu síðar lauk leiknum með sigri Fram, 5 mörkum gegn engu. Það hefðu eins getað verið 3 og 1 eftir gangi leiksins og allajafna 3 og núll, þar eð eitt markið gerðum við sjálfir.
Vísir sagði 4. sept um hálfleik þennan:
„Í seinni hálfleik stóðu Framarar sig mjög vel og urðu mörkin alls 5 gegn engu Fram í hag. Vörn Vestmannaeyinga var ágæt í fyrri hálfleik og raunar í þeim síðari líka, en þó bar nokkuð á taugaóstyrk hjá markmanninum um skeið.“ ... Var það nokkur furða? Ekki var minnzt á sjálfsmarkið.
Um kvöldið var þessi leikur mikið ræddur á Skjaldbreið og vorum við sárir út í Óskar og vörnina, en saltvondir út í stúlkuna með rauðu húfuna. En til hvers var að æðrast? Óskar var einn okkar allra bezti maður, harðduglegur og leikinn, þótt þetta óhapp kæmi fyrir. Við áttum honum mikið að þakka rómaða vörn okkar Eyjamanna á mótinu. Í rauninni gátum við verið ánægðir yfir frammistöðu okkar. Hún hafði þrátt fyrir allt verið betri en nokkur bjóst við.
Síðasti leikur okkar var við Víking. Þá þekktum við marga hverja vel og persónulega og kunnum á þeim lagið, ef svo mætti segja. Þann 7. sept. kom Morgunbl. með auglýsingu yfir þvera síðu með stóru letri: ,,Í kvöld kl. 6 keppa Vestmannaeyingar og Víkingar. Allir ættu að sjá þessi tvö félög, sem áttust við í Vestmannaeyjum, keppa nú í annað sinn. Kappleikurinn verður afar spennandi. Allir út á völl ... “ Svo sagði frá því, að Víkingur hafi sigrað K.R.-inga með 2 mörkum gegn engu og leikurinn verið hinn atgangsharðasti. Lauk svo greininni með þessu: ,,Í kvöld keppa svo Vestmannaeyingar við Víkinga og má búast við engu minni alvöru af beggja hálfu.“...
Við höfðum tapað fyrir K.R. með 5 gegn einu en Víkingar svo unnið K.R. með 2 gegn engu. Voru nokkrar líkur fyrir, að við stæðumst eitthvað atgang Víkinga? Tæplega. En við vorum ákveðnir að berjast til þrautar og falla með sæmd.
Það var auðséð, að Reykvíkingar vildu sjá okkur, þessa útlendinga, leika knattspyrnu, því að fjölmenni var mikið á vellinum og enn meira, en þegar við lékum við Fram. Er til leiks kom, var okkur fagnað vel og hvatningarorð hrópuð jafnt til beggja liðanna. Leikurinn hófst með miklu fjöri. Egill Jacobsen dæmdi leikinn. Víkingar léku fast og var auðséð, að þeir voru ákveðnir í því að bursta okkur eftirminnilega. Hættulegasti maður þeirra var Helgi Eiríksson, miðframherji, ákaflega fljótur að hlaupa, viss skotmaður og kraftmikill leikmaður. Annars áttu Víkingar marga mjög góða menn, harða af sér og hina fræknustu leikmenn.
Fyrri hálfleikur var harður og jafn og gáfum við Víkingum ekkert eftir. Fólkið á vellinum var lífgandi og skemmtilegt og gaman að leika fyrir það. Fyrri hálfleik lauk með því að ekkert mark var skorað. Var hann fast en prúðmannlega leikinn og hélt Egill dómari niðri hverskonar víxlsporum með röggsamlegum dómi og réttlátum.
Í leikhléi veittu Víkingar okkur gosdrykki og spjölluðu við okkur sem jafningja sína. Hrósuðu þeir þessum leik okkar og töldu hann okkar bezta leik. Sást það og greinilega, að við vorum farnir að venjast vellinum og haga knattmeðferðinni eftir því.
Seinni hálfleikur hófst með mikilli ágengni og snerpu. Hvorugur vildi láta sinn hlut eftir liggja. Um miðjan hálfleik náði Helgi snöggu upphlaupi og skaut mjög föstu skoti, sem Guðmundur varði meistaralega eins og svo margt annað. Rétt á eftir gerðu Eyjamenn snarpa hrinu. Sigurður Sveinsson fékk knöttinn og gaf hann fram til Georgs, hann viðstöðulaust yfir á jaðarinn til Hjálmars, sem hljóp upp. Filippus fylgdi fast eftir ásamt vinstri innherja Víkings, og hægra framherja Eyjamanna (Árna). Vörn Víkinga þrengdi að Hjálmari, svo að hann gaf knöttinn til Filippusar. Hann hafði ekki möguleika á að gefa hann til Georgs, svo að hann gaf lítið eitt aftur og til Árna framvarðar, sem var „frír“, hann gaf til Georgs, sem stóð innan við vítateigslínu Víkings og „frír“ af hægri innherja og þrumaði Georg viðstöðulaust óverjandi skoti í hægra hornið á marki þeirra Víkinga. Húrra hrópin og klappið kvað við og fólkið ætlaði að rifna af æsingu. Þetta þótti mjög vel uppbyggt áhlaup og útfærsla þess prýðileg. Víkingar brugðust fast við þessu og varð sókn ákaflega þung og mikil á báða bóga, sem hélzt lengi án þess að mark yrði skorað. Þá lenti knötturinn hjá Helga Eiríkssyni, sem gerði snöggt upphlaup og gaf yfir til hægri jaðars. Jaðarsmaður brunaði áfram og gaf svo yfir til Helga skáhalt framan við mark okkar innan vítateigs og skaut Helgi viðstöðulaust lágum óverjandi knetti, sem lenti í einum okkar manna og af honum í mark Eyjamanna. Það var veifað og hrópað, æsingurinn var mikill í fólkinu og kapp leikmanna færðist enn í aukana. En allt kom fyrir ekki. Fleiri mörk voru ekki gerð. Við höfðum náð jafntefli við Víkinga, sem sigrað hafði K.R.-inga.
Leikur þessi þótti með afbrigðum fjörugur og mjög vel leikinn, svo við máttum vera ánægðir með úrslitin.
Morgunblaðið lýsti leiknum lítið, en sagði, að hann hefði verið mjög spennandi, einkum seinni hálfleikurinn.
Vísi sagði 8. sept.: „Vestmannaeyingar sækja sig í knattspyrnunni. Þeir gerðu jafntefli við Víking í gærkvöldi í mjög góðum og æsandi leik. Fram hefur nú sigrað á knattspyrnumótinu. Þeir gerðu 16 mörk en engum tókst að gera mark hjá þeim og er þetta einsdæmi í knattspyrnu á Íslandi.“
... Um Vestmannaeyinga segir svo í heild í blaðinu ...:
„Vestmannaeyingar vörðust
vasklega enda er vörnin ágæt
og markmaður þeirra fimur
með afbrigðum. Átti liðið honum mikið að þakka. Er vafasamt, að betri markmaður sé til
á landi hér. Vestmannaeyingar
eru ekkert lamb að leika við.
Þeir fara ekki héðan með sigur
af hólmi, en með fullri sæmd.
Ef byrja ætti aftur á mótinu,
mættu Reykvikingar sannarlega
vara sig á þeim. Vísir óskar
þeim góðrar heimferðar og
þakkar þeim komuna til mótsins.“ ...
Kvöldið eftir var haldinn dansleikur okkur til skemmtunar. Að því stóðu öll knattspyrnufélögin í Rvík. Fyrst var til ætlazt, að allir mættu í dökkum fötum, en þar sem við höfðum ekki slík föt meðferðis (fæstir okkar líklega átt slík föt, þ.e. samkvæmisföt), var horfið frá því. Ekki var mikill áhugi hjá okkur á dansleiknum, en samt fórum við allir. Mjög var vandað til dansleiksins, enda kostaði inngangur 5 krónur, sem var allmikill peningur 1920. Ekki kunnum við allir að dansa eða varast það, en sumir skokkuðu eitthvað. Flestum okkar var það sameiginlegt að vera feimnir við fallegt og glæsilega klætt kvenfólkið, og bætti það ekki úr skák. Þó dönsuðu þeir Georg og Hjálmar, Filippus og Árni nokkra dansa, en aðrir minna. Stjórnendur dansleiksins komu okkur fyrst út á gólfið með því að hafa dömufrí og létu Bernburg spila „sagte Vals med Tryk“ eins og hann nefndi það í gamni. Stúlkurnar toguðu okkur út á gólfið, hvern af öðrum. Þær vildu auðsjáanlega gera sitt til þess að skemmtunin yrði okkur sem ánægjulegust. Ekki sáum við „uppáhaldið okkar“, þessa rauðhúfuðu, og litum við þó eftir henni.
Heim til Eyja fórum við með Sterling. Höfðum við einn klefa með 4 rúmum. Þar voru mikil þrengsli. Við hrepptum versta veður, og voru menn sjóveikir á þessari 20 kl.tíma ferð til Eyja. Skipstjóri var Einar Stefánsson. Hann var okkur mjög vinveittur, bauð okkur öllum í kaffi við skipstjóraborðið og spjallaði við okkur. Hann harmaði það að geta ekki gert ferðina þægilegri, en skipið var fullt af farþegum og ekkert rúm að fá. En í matsalnum máttum við vera eins og við vildum milli mála. Þegar að Eiðinu kom, fóru sumir þar í land en aðrir fóru fyrir Klettinn, ásamt öllu okkar hafurtaski, og fórnuðu þar sinni síðustu fórn í þessari knattspyrnuferð til Reykjavíkur.
Þar með lauk þessari eftirminnilegu annari ferð knattspyrnumanna í Eyjum til Reykjavíkur. Þótt við sæktum þangað ekki sigur að mörkum til, var ferðin okkur til góðs og mikils hróðurs. Eyjamenn þóttu góðir leikmenn og prúðir í allri framkomu. Georg sagði líka í skilnaðarhófinu í Rvík mjög á þessa leið: „Ég veit, að við komum seinna til keppni, ekki í hefndarhug heldur vinarhug, til þess að sýna enn betri knattspyrnu og notfæra okkur þá leiktækni, sem við höfum numið af ykkur í þessari ferð. Ég samþykki fúslega, að við eigum margt eftir ólært af ykkur, en það gleður mig og leikmenn mína, að heyra ykkur viðurkenna, að tap okkar orsakaðist ekki af vanmætti heldur vegna óheppni, sem mér og fleirum finnst að skrifa megi að nokkru á reikning hins glæsilega kvenfólks, sem svo mjög hefur skartað í hinum fagra rauða lit okkur til aðdáunar, klæðst í lit ástarinnar!“ Þessi orð vöktu almennan fögnuð þar eð allir vissu um stúlkuna okkar, stúlkuna með rauðu húfuna.
Að síðustu set ég hér ummæli íþróttablaðsins „Þróttar“ um knattspyrnuför þessa yfirleitt:
,,... Fram bauð Vestmannaeyingum að senda kapplið á haustmótið í Reykjavík. Úrslit urðu þau á mótinu, að Eyjamenn höfðu minnstan markafjölda af fjórum félögum. Er ekki þar með sagt, að þeir séu lélegustu knattspyrnumennirnir og bendir margt á, að svo hafi alls ekki verið. Enda fengu þeir góða dóma þeirra, er á horfðu. Eitt af því, sem spillti mjög fyrir Eyjamönnum, var það, að þeir höfðu engan tíma til þess að venjast íþróttavellinum, sem er grjótharður samanborið við grasvöllinn í Eyjum. Er því af ýmsum ástæðum hiklaust óhætt að telja úrslit kappleikjanna, sem háðir voru í Vestmannaeyjum milli Eyjamanna og Reykvíkinga í sumar, réttari mælikvarða á knattspyrnukunnáttu Vestmannaeyinga.“ („Þróttur“. 1920—1921).
Þá er frásögn um þennan nær gleymda knattspyrnuviðburð lokið. Ég hefi dregið fram í dagsljósið allar heimildir, bæði munnlegar og úr blöðum þess tíma, en hefi mörgu orðið að sleppa, sem þó ekki breytir frásögninni. Aldrei vissum við, hver þessi stúlka með rauðu húfuna var, en það er hinsvegar stúlka með rauða húfu og fagurt andlit, sem við ferðalangarnir 1920 munum aldrei gleyma.