Blik 1955/Gult, grænt og blátt
GULT — GRÆNT OG BLÁTT
Þú verður aldrei svo gamall, að þú gleymir Heimakletti: gulu bergi
móti sól, brimsorfnu, hreggbörðu í bláum sjó, grænum brekkum ofar; efst á myndinni dimmblá himinfirrð. Sama þótt þú farir um fjarlæg lönd: enginn er sú Kalifornía, enginn sá Krímskagi, að slíkt megi gerast; — ekkert mun stoða: Heimaklettur verður þar — í hugskoti þínu gulur og grænn við bláan flöt, bláan bakgrunn. Þú verður aftur lítill drengur austur á Skansi horfandi á menn uppi í Hettubergi eins og flugur að bora inní fjallið. Og látið dýnamit í holurnar, og mennirnir forða sér í skúta á Neðri-Kleifum. Sólin er brennheit á gulu berginu og bergið í Hettu rofnar með ægigný — fuglinn tvístrast úr grænum brekkunum og stærðarbjörg steypast framaf hengiflugi niður í sandinn undir Löngu. — Eða maður situr með háf undir Siggasteini og sveiflar eftir lunda með mörg síli í nefinu.
Og þú sjálfur bara að horfa á Heimaklett: allt þetta flóð gulra lita undir grænni hettu við bláan sjó og blátt loft. Bara að horfa, horfa lengi: mínútur eða eilífð; bátar í forgrunninum, stórir bátar, litlar fleytur og niðri í sjónum koli og smáupsi og marhnútur.
Og síðan nótt og allt þetta gula brúnt, æ dekkra, loks svart (það græna líka): skuggamynd — útlínurnar eina við dimmbláan himin með stellu pólaris þarna og stórabirni hérna.
Sama þótt þú sért staddur á öðru landshorni með útsýn til annars fjalls undir merki oríons: lokirðu augunum er það Heimaklettur, bergið gult með lóðréttum línum utan Danskató þversum og kollurinn grænn fyrir ofan og svo blátt víðernið.
Það er mikill gagnfræðaskóli að horfa á Heimaklett, þennan gula risa með græna kollinn við bláan himin; öllum gagnfræðaskólum meiri — Hver sem skynjar þessa litríku tign og verður af allri sál sinni og öllu hjarta sínu snortinn töfrum hennar — hefur tekið mesta gagnfræðapróf í heimi. Hann hefur staðizt próf sjálfrar náttúrunnar, próf mannlífsins og komizt feti nær því að ráða lífsgátuna: öðlazt ástina til landsins og þjóðarinnar — þá sönnu ást, sem felur í sér ástina til allra landa móður jarðar og til allra þjóða hennar. Hann hefur öðlazt náðargáfuna að njóta æðstu fegurðar, jafnt í því stóra og hinu smáa: tignar fjallsins, dásemdar blóms og daggar, bliks í barnsauga, tónaflóðs hljómvöggulags.
Þessvegna er Heimaklettur þér samnefnari allrar þessarar tignar, allrar þessarar fegurðar. Og einmitt þessvegna hefur þú víðsýni til að sjá fegurðina til beggja handa: til vinstri röð fjalla margra gerða — til hægri bláan sjó, brattar úteyjar, duggu á miði, hvítt segl ef vel lætur — og bak við Jökulinn í upphafinni fegurð.
En eigi að síður festist auga þitt aftur við Heimaklett. Og hvað sem þú verður gamall, hvert sem leið þín liggur: aldrei muntu gleyma þessari gulu og grænu dýrð á mörkum dýpsta bláma, sem sögur fara af.