Blik 1952/Skólamál

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. febrúar 2010 kl. 11:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. febrúar 2010 kl. 11:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit SIGURÐUR FINNSSON, settur skólastjóri =Skólamál= <br> <br> [[Mynd: 1952, bls. 11.jpg|350px|thumb|''Sigurður Finnsson, settur...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit



SIGURÐUR FINNSSON, settur skólastjóri

Skólamál



Sigurður Finnsson, settur skólastjóri.

Það er barið að dyrum. Ég opna, og úti fyrir stendur lítill drengur. Hann deplar augunum drýgindalega og býður mér gellur í soðið. Við ljúkum viðskiptum okkar og litli fisksalinn heldur af stað með börurnar sínar. Hann er á að gizka 10 ára gamall, og er því á skólaskyldualdri.
Verður þessi drengur nýtur maður í þjóðfélaginu, ef honum auðnast að komast til fullorðisára? Getum við, ég og þú, nokkru um það ráðið, hvort þarna er á ferðinni verðandi þjóðfélagsþegn, sem vinnur landi sínu gagn, verður þjóðinni til sóma og sjálfum sér trúr á krókavegum tilverunnar, eða hvort hann verður viljalaust rekald í hafróti mannlífsins, ófær til þess að vinna þjóð sinni til heilla?
Eftir að ég eignaðist börn hefi ég oftar spurt mig slíkrar spurningar heldur en áður. Ég skil nú betur áhyggjur foreldra, kvíða þeirra og óvissu um framtíð barna sinna. Ég skil, að foreldrar gera miklar kröfur til skólanna, kennaranna, fræðsluráða og æðstu skólastjórnar landsins. Foreldrar þurfa að geta kynnzt starfi þessara aðilja; og það verður að vera gert með góðvilja og skilningi af allra hálfu.
Við erum öll uppalendur, svo framarlega sem við umgöngumst börn að einhverju leyti. Enginn getur vitað nema eitthvert barn taki hann sér til fyrirmyndar í atferli sínu. Ábyrgðin, sem á okkur hvílir, er því auðsæ. Athafnir okkar geta greipzt í huga viðkvæmrar barnssálar og haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar til góðs eða ills. Drengurinn, sem ég gat um að framan, er aðeins eitt dæmi af mörgum. Með framkomu okkar, orðum og gjörðum getum við haft víðtæk áhrif á slíkar barnssálir hundruðum og jafnvel þúsundum saman. Þeir, sem augunum loka fyrir þessari staðreynd, skaða þjóðfélagið, naga óafvitandi rætur undan siðgæði og velmegun þjóðar sinnar. Þeir vinna gegn öllu því, sem ríkið, þ.e. þjóðin, leitast við að byggja upp með skólalöggjöf og barnavernd. Það er oft rætt um hið mikla fjármagn, sem eytt er til uppeldismála, en þess er sjaldnar getið, að oft eru starfandi í næsta nágrenni skólanna stofnanir, sem leynt og ljóst líðst það að vinna gegn áhrifum skóla og annarra uppeldisstofnana. Virðist vera mikil þörf á auknu eftirliti hins opinbera með skemmtanalífi unglinga.
Þann 1. febrúar 1947 tóku gildi ný lög um almenna fræðslu og eiga þau að vera komin í framkvæmd árið 1953, eftir því sem fræðslumálastjórn ákveður í samráði við hlutaðeigandi fræðsluráð. Lög þessi eru þegar komin til framkvæmda víðast hvar á landinu, og síðastliðið haust samþykkti Fræðsluráð Vestmannaeyja í einu hljóði eftirfarandi.
1. Skólaskylda samkvæmt nýju fræðslulögunum gangi í gildi hér að hausti 1952.
2. Húsnæði til verknáms verði gert nothæft í nýju gagnfæðaskólabyggingunni, enda er það skilyrði þess, að skólaskyldan verði framkvæmd.
Fyrir skólamálaritgerð þeirri, er Jón Sigurðsson birti í II. árgangi Nýrra félagsrita 1882, valdi hann þessi orð úr skýrslu Bessastaðaskóla 1840 sem einkunnarorð:
„Það sem almennings heillum viðkemur, á að vera öllum kunnugt. Mest er það umvarðandi, að íslenzkir sjálfir fái elsku til skóla vors.“
Foreldrum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvað þessi ákvörðun hefir í för með sér. Og þar eð mér virðist mörgum ganga illa að átta sig á skólagöngu barna og skólaskyldu samkvæmt hinum ofangreindu nýju ákvæðum, mun ég reyna að gera þessu máli nokkur skil. Í stuttu máli er skólakerfið nýja þannig:
Börn eru skólaskyld það ár, er þau verða 7 ára. Þau stunda síðan nám í barnaskóla þar til á því ári, er þau verða 13 ára. Þá eiga þau að ljúka veru sinni í barnaskólanum með barnaprófi. Þau sem ekki standast próf, er gert ráð fyrir að séu í barnaskóla einu ári lengur og þreyti próf ári síðar. Hefst nú nýtt skólastig, er tekur tvö ár, þ.e. til þess árs, er börnin verða 15 ára. Á þessu stigi eru börnin skólaskyld, en nám þeirra fer fram í gagnfræðaskóla. Lokapróf þessa stigs nefnist unglingapróf, og lýkur með því skólaskyldunni. Eins og áður segir er nemandinn tvö síðustu skólaskylduárin í gagnfræðaskóla. Þar er nám þeirra aðgreint í bóknám og verknám. Sami unglingur getur aðeins verið í annarri deildinni. Þó er gert ráð fyrir, að nemandi geti skipt um deild, ef sérstök ástæða ber til.
Vilji nú einhverjir halda áfram, setjast þeir í 3. bekk gagnfræðaskóla og taka miðskólapróf í lok þess skólaárs. Nokkur hluti þess prófs er landspróf, þ.e. prófverkefni eru þau sömu um allt land í hinum bóklegu greinum. Þeir, sem ná ákveðinni lágmargseinkunn í landsprófsgreinunum (sú einkunn er nú 6) öðlast réttindi til þess að setjast í menntaskóla eða kennaraskóla. Við miðskólapróf er reiknað með einkunnum í öllum námsgreinum, bóklegum sem verklegum, til aðaleinkunnar. Haldi nemandi áfram námi fjórða veturinn í gagnfræðaskóla, lýkur hann gagnfræðaprófi.

Sigurður Finnsson.