Blik 1948/Glíman við Guð
Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri:
GLÍMAN ViÐ GUÐ
Fyrir nokkrum árum var sá háttur upp tekinn í Gagnfrœðaskólanum okkar, að flytja nemendum stutt erindi einu sinni í viku, 15—30 mín. í hvert sinn, þegar þrengsli í skólanum eigi hamla.
Skólastjóri og fastir kennarar skólans skiptast á um að flytja þessi erindi. Nemendur kalla þau „hugvekjur“ og hafa mætur á þeim.
Efni þeirra eru jafnan ýmis mál, sem œskulýðinn varðar, svo sem íþróttir, almennir mannasiðir, bindindismál, hreinlæti, skólastarfið, uppeldismál o. fl. Að þessu sinni birtum við hér eina slíka „hugvekju“, sem skólastjóri hefir gefið Bliki.
Ritnefndin.
Kæru nemendur!
Þegar það féll í minn hlut síðast að flytja ykkur „hugvekju“, fór ég nokkrum orðum um „frjálsu mennina“, sem ég nefndi svo. Gat ég þá nokkurra manna, sem skráð hafa nöfn sín á blöð mannkynssögunnar með dáðríku og göfugu starfi. Einnig minntist ég nokkurra Íslendinga.
Allt voru þetta menn, sem ekki létu bugast, þótt á móti blési og á gæfi, heldur fórnuðu margir þeirra hiklaust einalegri velferð sinni, starfskröftum sínum og jafnvel lífi fyrir göfuga hugsjón. Þetta voru andlega sterkir menn, traustir stofnar, sem stóðu af sér hörð veður.
Í fyrrakvöld var ég að hugleiða, hvað ég skyldi helzt rabba um við ykkur í þessari „hugvekju“. Rétt í þeirri andrá hófst lestur 12. Passíusálmsins í útvarpið. Sálmarnir eru lesnir þar nú á föstunni, eins og þið vitið.
Þessi sálmur fjallar um iðrun Péturs.
- Pétur þar sat í sal
- hjá sveinum inni.
- Tvennt hafði hanagal
- heyrt að því sinni.
- Pétur þar sat í sal
Áður en haninn gól tvisvar, hafði Pétur afneitað meistaranum, læriföður sínum, þrisvar. Þið kannizt mæta vel við þessa sögu.
Tveir af lærisveinum Jesú brugðust honum. Júdas sveik hann í hendur óvinanna. Hann iðraðist og svipti sig lífinu. Iðrunartilfinningin, — sektarkenndin — gjörði meir en að beygja hann, hún braut hann.
Pétur missir kjarkinn ,þegar mest reynir á hann. Hann ann þá heitar stundlegu frelsi sínu og lífi en sannleikanum. Sál hans, andi hans, er ekki frjáls heldur í fjötrum.
Pétur sver og sárt við leggur, að hann þekki ekki Jesú, að því er virðist af einskærri bleyðimennsku. Þegar við lesum þessa frásögn, vitum við eiginlega ekki, hvort við eigum heldur að vorkenna Pétri eða reiðast við hann.
Var Pétur ekki bjargið, sem meistarinn vildi byggja á? Sá Jesús svona illa, hvað í Pétri bjó, — veiklun hans og hugleysi? Víst þekkti Jesús þennan galla á Pétri, — en hann þekkti líka góðmálminn í honum, gullið í sálu hans.
Þessi iðrunarstund Péturs var veigamikið augnablik í ævi hans og lífi. Aldrei hefði Pétur orðið það, sem hann varð, ef hann hefði ekki lifað þessa iðrunar og reynslustund og liðið þessa niðurlægingu. Nú þekkti hann sjálfan sig. Hann harmaði veiklun sína og hugleysi.
Iðrunargráturinn bræddi sorann úr sálu hans. Guð herti hann í skóla reynslunnar.
Á stundu iðrunarinnar glímdi Pétur við guð sinn og sigraði. Eftir þá stund átakanna var Pétur bjargið, sem aldrei brást. Hann lét að lokum lífið fyrir trú sína á meistarann og dyggð sína og hollustu við kenningar hans. Hér eftir gerði hann hiklaust það eitt, sem hann vissi, að var satt og rétt.
Ég sagði, að Pétur hefði glímt við guð sinn á stundu iðrunarinnar og fengið sigur. Hvers vegna kemst ég svona að orði? — Það vil ég segja ykkur.
Í 1. Mósebók er sagt frá ungum manni, sem glímdi við guð. Ég hirði ekki um að rekja söguna eins og hún er skráð þar, heldur eins og ég man hana frá því, að ég las kristin fræði í barnaskóla.
Þannig er sagan á þessa leið:
Ungur maður að nafni Jakob er ósáttur við bróður sinn. Hann finnur innra með sér, að hann hefir gert á hluta hans og vill sættast við hann. Hann hefir samvizkubit.
Á leiðinni til bróðurins kemur sjálfur guð til hans og þeir glíma. Guð bíður hærri hlut í glímunni, þó að Jakob haldi enn í hann dauðahaldi. Guð biður þá Jakob að sleppa sér. En hann mælti: „Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig.“ Það gerði guð.
Enga skýringu fengum við börnin á þessari sögu. Okkur þótti hún í meira lagi kynleg og ótrúleg. Hafði guð þá gengið um jörðina og talað við menn og jafnvel glímt við þá? Hversvegna var hann hættur þessu nú? Nei, þessi saga hlaut að vera helber vitleysa. Þannig hugsuðum við börnin.
Ef til vill hafa sum barnaskóla systkini mín enn þessa skoðun á sögunni. Ég hefi skipt um skoðun. Af mínum sjónarhól séð er sagan gimsteinn. Hún felur í sér ævarandi sannleika, sem á erindi til allra manna, og ekki sízt til hugsandi æskumanna.
Jakob hefir vonda samvizku.
Hann er óánægður með sjálfan sig, þessi ungi maður. Guðsröddin í honum glæðist. Sál hans er vettvangur átaka. Guðsröddin sigraði. Jakob kom úr þessum eldi sterkari, betri og víðsýnni maður, en hann áður var. Það fór um hann sem Pétur. Og hvers vegna? Vegna þess að hann sleppti ekki fá sér meðvitundinni um guð í sál sinni. Hann naut blessunar hinnar helgu raddar og þroskaðist við ylinn af henni.
Nemendur mínir, — ég vona, að þið skiljið mig. Ungi maðurinn Jakob getur verið ég eða þú, sérhver okkar.
Leiðin til þroskans liggur um grýtta refilstigu, villugjarna urðarvegi og alls kyns erfiðleika.
Hver mundi ofðstír Péturs postula hafa orðið, ef hann hefði aldrei iðrast, ef hann hefði aldrei glímt við guð sinn á stundu iðrunarinnar, aldrei séð að sér og svo gefizt upp í baráttunni við sjálfan sig. Þá hefði Pétur aldrei orðið það, sem hann varð: hin sterka sál, bjargið, sem meistarinn byggði musteri sitt á.
Það ungmenni, sem sífellt er ánægt með sjálft sig og aldrei finnur til sektar, hvorki gagnvart guði, sjálfu sér, foreldrum sínum eða öðrum, er ekki þroskavænlegt ungmenni.
Æskulýður, sem er árvakur um eigin skyldur og gætir vel þess neista, sem leynist innst með honum og leitast við að glæða hann eftir löngum, það er æskulýðurinn, sem skapar okkur öllum glæstar framtíðarvonir um íslenzku þjóðina og íslenzka lýðveldið, — Ísland, með gróandi þjóðlíf og þverrandi tár, sem þroskast á guðsríkisbraut.
Ég óska þess innilega, að þið megið öll tilheyra þeim flokki.
Ég vil að lokum óska þess, nemendur mínir, að þið hugleiðið þessi orð mín í einrúmi og reynið að skilja þá baráttu, sem Pétur og Jakob háðu, — skilja gildi glímunnar við guð.