Blik 1946. Ársrit/Þáttur nemenda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. nóvember 2009 kl. 11:58 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. nóvember 2009 kl. 11:58 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þáttur nemenda

Keflavíkurför

Þriðjudaginn 3. júlí 1944 þrömmuðum við Ásta niður á Steindórsstöð í Reykjavík. Að þessu sinni átti leið okkar að liggja til Keflavíkur.
Samferðafólkið var af ýmsu tagi, svo sem stórútgerðarmenn, skólakrakkar, fínar frúr, hermenn og skrítnar kerlingar, — fyrir utan okkur Ástu, auðvitað.
Allt gekk slysalaust.
Á leiðinni var kona nokkur alltaf öðru hvoru að spyrja bifreiðarstjórann, hvar Innri-Njarðvík væri. Bifreiðarstjóranum leiddist rausið í konunni, og hét að síðustu að segja henni, þegar við kæmum að Innri-Njarðvík. En þegar við ókum þar fram hjá, var bifreiðarstjórinn alveg búinn að gleyma loforði sínu. Við Ytri-Njarðvík mundi hann eftir því. Sneri hann þá við og ók í skyndi miklu til Innri-Njarðvíkur, því að þar hélt hann, að konan ætlaði úr.
Þegar þangað kom, tilkynnti hann konunni, að nú værum við í Innnri-Njarðvík.
— „Jæja, — já“, sagði konan, „svo að þetta er Innri-Njarðvík. Systir mín sagði mér, að sér fyndist svo einkar vinalegt hérna, svo að mig langaði bara að sjá, hvernig hér liti út. Annars ætla ég úr í Ytri-Njarðvík.“
Ekki er hægt að lýsa uppistandinu, sem varð í bifreiðinni við þessa fregn.
Þegar til Keflavíkur kom, var móttökunefnd á staðnum til að taka á mói okkur. Frá dvölinni í Keflavík er önnur saga.

Á. H. II. bekk.


Klukkan mín og ég

Það eru til margs konar vekjaraklukkur í þessum heimi. Alls staðar eru þessir gripir illa liðnir og jafnvel hataðir, en samt eru þeir bráðnauðsynlegir. Sumir þessara kostagripa eru búnir til úr gljáandi nikkel, aðrir eru allavega litir. Sumir ganga rétt, aðrir flýta sér eða seinka sér. Ég átti eina; hún var fágurblá. Þegar ég fékk hana, var hún afarfögur, en ekki leið á löngu, þar til ég fór að sjá, hvern mann hún hafði að geyma. Á morgnana hringdi hún svo illilega, að eftir mánuð var vesalingurinn fótbrotin á öðrum fæti, vegna stöðugra ferða á gólfið. Nú í vetur held ég, að hún hafi verið hálfvitlaus, annaðhvort af elli eða af illri meðferð. Hún stóð á skrifborðinu hjá mér hallaðist út í aðra hliðina. Blái liturinn var gersamlega horfinn. Hún gekk oftast á brokki, en stundum fékk hún æðisköst, þannig, að hún tók til að hlaupa í kapp við sjálfa sig. Það var líka einkennilegt, að hún var næstum því hætt að hringja, og þegar hún söng ekki sinn ámátlega, skerandi morgunsöng, varð ég reið og henti henni frá mér, eins langt og ég gat. Eftir þetta hvarf hún mér alveg sjónum og hef ég ekki frétt neitt af þessum tryggðarvini, síðan ég rak hann úr minni þjónustu, enda hef ég víst ekki verið neitt eftirsóknarverður húsbóndi.

E. Á. II. bekk.


Skrítinn reimleiki

„Góðan daginn, Óli.“
„Góðan daginn, Kalli, hvað segir þú í fréttum?“
„Ég skal segja þér dálítið, sem kom fyrir mig í nótt, ef þú gætir þess að segja engum það.“
„Já, blessaður, segðu mér það. Ég lofa að segja það engum.“
„Jæja, ég vaknaði við það í nótt, að ég heyrði eitthvert þrusk í herberginu mínu. Ég glaðvaknaði undir eins, eins og nærri má geta, og skimaði út í myrkrið. Ég ætla ekki að lýsa þeirri hræðslu, sem greip mig, þegar ég sá gráa og loðna ófreskju stefna í áttina til mín. Ég hrökk undir sængina og hnipraði mig í einn hnút. Þannig lá ég skjálfandi langan tíma, en hversu lengi, veit ég ekki. En þegar ég vaknaði um morguninn, var mér mjög starsýnt á kisu litlu, þar sem hún lá og sleikti sólskinið og skildi ég þá, hvers kyns reimleikar þetta höfðu verið.
Í fyrstu ætlaði ég að lemja kisu fyrir athæfið, en mér brást hugur, þegar ég sá, hve sakleysislega hún horfði á mig. Fór ég því fram í eldhús og náði í mjólk og gaf henni.
Ég get ekki annað en hlegið, þegar ég hugsa um það, hvað þetta var allt kjánalegur daugagangur.“

Á. K. 1. bekk.