Blik 1940, 7. tbl./Ég kveð og þakka

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. október 2009 kl. 12:07 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. október 2009 kl. 12:07 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

JÓN ÓLI:

ÉG KVEÐ OG ÞAKKA

Hér í Vestmannaeyjum er æskunni miklu fórnað til þess að búa hana sem bezt undir manndómsárin. Henni er það í sjálfsvald sett, hvort hún leggur út í lífið illa undirbúin, eða hún með hagnýtu námi, bóklegu og verklegu, er stælt til sigursælla átaka gegn hverju því, sem að höndum kann að bera.
Þetta mikla hlutverk, að búa æskuna að meira eða minna leyti undir starf manndómsáranna, hafa skólar bæjarins á hendi, og þá einkum Gagnfræðaskólinn. Þar lærir æskan ekki aðeins að verja tíma sínum til hagnýtra starfa og hagnýts náms, heldur og einnig að temja sér heilbrigt skemmtana- og félagslíf. Henni er þar bent á veginn, sem okkur æskumönnunum ber að ganga til þess að verða eitthvað meira en dauður bókstafur í starfinu fyrir bættum hag byggðarlags og alþjóðar.
Æskan hér á því láni að fagna, að allir kennarar Gagnfræðaskólans virðast gera sér það að helgri skyldu að láta námstímann verða gullkorn í æfi okkar unglinganna.
Bindindi er haldið að nemendunum, samt ekki svo, að það þreyti þá á nokkurn hátt. Félagsandinn, sem ríkir innan skólans, skapar það, að nemendurnir verða móttækilegri fyrir þá fræðslu og áhrif, sem þeir hljóta þar og verða fyrir. Ég er sannfærður um það, að áhrif skólans á hug og líf okkar unglinganna hverfa ekki strax að loknu námi. Það mega þau heldur ekki gera. Við eigum að vera sjálfum okkur trú, þó að við hverfum undan áhrifum kennara okkar, og halda fast við þá lífsstefnu, sem þeir hafa viljað skapa okkur. Þegar ég nú hætti námi í skólanum og hverf til starfa við framleiðsluna, þá kveð ég skólann með innilegum árnaðaróskum og þakklæti fyrir það, sem hann veitti mér. Ég vildi mega byggja á þeirri undirstöðu, sem skólinn hefir lagt mér, svo að ég gæti að lokum tekið undir með Einari heitnum Benediktssyni, þar sem hann segir: “Það ortu guðir lífs við lag, ég lifi í því minn æfidag og dey við auðs þess djúpu brunna.“

Jón Óli.