Blik 1969/Hetjan fótalausa og eiginkonan, II. hluti
En hvað um Jón S. Sigurðsson, efnalega afkomu hans og framfærslu?
Engin voru þá sjúkrasamlög hér á landi, engar slysabætur, engir sjóðir til styrktar örkumla fólki.
Orðið „sveitarómagi“ var Jóni S. Sigurðssyni eitur í beinum. Hvernig gat hann hugsað sér að verða sveitarómagi, verða þurfalingur sveitar sinnar, ef til vill það sem hann átti eftir ólifað - ef til vill langa ævi, því að fílhraustur var hann líkamlega að öllu öðru leyti. Átakanlegt þótti fólki að sjá þennan hrausta mann, sem verið hafði karlmennið mikla, fara höktandi á hnjánum troðnar götur milli húsanna á Fjarðaröldunni, bröltandi á fjórum með skinnvafninga um hnén þeim til hlífðar.
Fyrst framan af eftir að Jón S. Sigurðsson gréri sára sinna, vafði hann skinnrenningum um hnéskel og legg til þess að draga úr sársaukanum, er hann reyndi að hreyfa sig. Menn ræddu um það sín á milli, hvort ekki mundi kleift að smíða honum einskonar stígvél til að ganga á, svo að sárindin yrðu ekki eins tilfinnanleg.
Nokkur skóverkstæði voru þá á Austfjörðum, þar sem jöfnum höndum voru smíðaðir skór og gert við skó, og margir skósmiðir voru þar vel færir í grein sinni, en enginn þeirra gaf þess kost lengi vel að smíða „stígvél“ handa Jóni fótlausa, eins og hann var jafnan nefndur, eftir að hann missti fæturna. Einnig skráir presturinn þannig nafnið hans í bækur kirkjunnar. Það viðurnefni dró vissulega ekki úr andlega sársaukanum.
Um eða eftir 1890 settist að í Vestdal í Seyðisfirði ungur Landeyingur, Pétur Sigurðsson frá Kúhól í Landeyjum. Hann var lærður skósmiður og stundaði þá iðn þarna í fjölmenninu, sem þá var þar. Þessi sunnlenzki skósmiður gaf loks kost á því að smíða „skó“ handa Jóni S. Sigurðssyni. Það tókst svo vel, að undrun sætti. Hællinn var undir hnjánum, og leggstúfnum var smeygt aftur í „leistinn“ á „stígvélinu“. Á slíkum stígvélum gekk Jón Sigurðsson síðan, það sem hann átti eftir ævinnar eða hart nær fjóra áratugi.
II
N. Nielsen „Factor“ í „Ytri-Höndlunarstaðnum“ í Eskifirði gat oft verið gamansamur náungi. Blótsamur var hann nokkuð á stundum, og íslenzkan hans var aldrei upp á marga fiska, þótt hann héldi sjálfur, að hann kynni hana lýtalaust.
Hann var sagður kvenhollur nokkuð, danski verzlunarstjórinn.
Við „Höndlunina“ vann Sigurður verkamaður Ólafsson. Hann og Sigurður skáld Breiðfjörð voru bræðrasynir, með því að Eiríkur Sigurðsson bóndi í Rifgirðingum, faðir skáldsins, og Ólafur Sigurðsson, faðir Sigurðar verkamanns, voru bræður.
Eitt sinn kom Nielsen verzlunarstjóri að máli við Sigurð Ólafsson, verkamann sinn við verzlunina, og hvatti hann til að læra beikisiðn til fullnustu, svo að hann gæti um langa framtíð haft þau störf á hendi við hina dönsku verzlun þarna í „Ytri-Höndlunarstaðnum“ í Eskifirði.
Sigurður Ólafsson fór að ráði verzlunarstjórans og fullnumaði sig í beykisiðninni úti í henni Kaupmannhöfn.
Þegar hann kom svo heim úr ferð þeirri vorið 1824, fannst honum sjálfum hann vera verulega fínn maður og mikill maður, sem ætti það vissulega skilið að bera ættarnafn eins og Danirnir við „Höndlunina“ og frændi hans í skáldastétt. Þarna skorti hann vissa hluti til þess að öll tilvera hans bæri þessa merki, áþreifanleg merki í daglega lífinu, að hann hefði fullkomlega tileinkað sér danska menningu, útlærður beykir, sigldur og forframaður.
Sigurður Ólafsson hafði kynnzt starfsmönnum í beykisiðn í Kaupmannahöfn, sem unnið höfðu með Sigurði skáldi Breiðfjörð, frænda hans, er hann nam þar beykisiðn á öðrum tug 19. aldarinnar. Þeir áttu skemmtilegar minningar um hann.
Var það annars ekki upplagt, að taka sér ættarnafnið Breiðfjörð hér á Austurlandi? hugsaði Sigurður beykir. Og svo gerði hann það: Sigurður Breiðfjörð Ólafsson beykir, mikið og fallegt nafn, sem hæfði sigldum beyki og fór vel í verzlunar- og kirkjubókum!
Og svo var það kvennaspursmálið. Vissulega þurfti hann að eignast einhverja fasta unnustu úr því sem komið var. Átti hann annars ekki að hlusta á tillögu „Factorsins“ í þeim efnum? Aðeins nokkrum dögum eftir að Sigurður Breiðfjörð Ólafsson kom heim frá náminu í Kaupmannahöfn, hafði verzlunarstjórinn ymprað á kvennamálunum við hann og nefnt hana Guðrúnu Ásmundsdóttur, vinnukonuna í „factorshúsinu“. Hún var - aðeins 17 ára, gerðarleg, myndarleg og kröftug. „Factorinn“ hafði látið að því liggja orð við Sigurð beyki, að verzlunin mundi hækka við hann kaup, ef hann staðfesti ráð sitt sem fyrst og ekki sízt, ef ástir tækjust með honum og henni Guðrúnu Ásmundsdóttur, vinnukonunni, hinum mikla kvenkosti.
Á þessa leið hafði factorinn komizt að orði við Sigurð beyki Ólafsson, er hann vildi sannfæra hann um hið fagurgerða og fullmótaða konuefni hans, sem aðeins beið þess að mega segja jáið, - játast ástum beykisins: „Fanden gale mig, tú tarf faa tag i ein kæraste, sem er kraftig og fínn í Töjet, han er född og voksen frem, einn fínaste stúlkur í heile Höndlunarstaden. Tað er Gudrun Asmundsdotter." Síðan bætti hann við þessum orðum eftir dálitla umhugsun: „Jeg mener det godt med dig“. Áður en Sigurður beykir hafði áttað sig, voru þau Guðrún og hann harðtrúlofuð. Dásamlegt var það og hún veitti honum allt, sem hún gat honum í té látið. Meginið af hinu fékk hann hjá verzlunarstjóranum, sem var í sjöunda himni, - enginn eins og hann - hvernig sem á því stóð.
Um haustið, í nóvember 1824, ól Guðrún unusta sínum fyrsta barnið, þá liðlega 17 ára. Sumir stungu saman nefjum um það, að meðgöngutími hennar væri svona í styzta lagi miðað við komu beykisins heim í „Höndlunarstaðinn“. En hvaða tíma hafði sigldur beykir með hækkandi laun í öðrum vasanum og einlæga vináttu verzlunarstjórans í hinum til þess að gera sér grein fyrir náttúrulegum meðgöngutíma kvenna? Ekki gengu ærnar lengur með en 5 mánuði. Það vissi Sigurður Breiðfjörð Ólafsson með vissu frá því að hann var smali. Til ánna var hleypt um áramótin og bændurnir fengu fullþroskuð lömb úr þeim í maílokin eða þar um bil.
Sigurður Breiðfjörð Ólafsson kvæntist Guðrúnu barnsmóður sinni og unnusta 30. apríl 1826, enda var hún þá vanfær að öðru barninu, aðeins 19 ára gömul.
Þessi beykishjón í „Ytri-Höndlunarstaðnum“ á Eskifirði eignuðust saman 10 börn á fyrstu 20 árum samlífsins.
Þegar þriðja barnið var fætt, sagði Sigurður Breiðfjörð Ólafsson beykir börnin sín til sveitar. Taldi sig þá ekki lengur geta séð þeim farborða. Þó var hann ekki alls kostar ánægður með sjálfan sig í þessum viðskiptum við sveitarsjóðinn. Var ekki alveg viss um, nema einhver kynni að leggja honum þessi viðskipti út til lasts. Þess vegna skipti hann um „ættarnafn“. Og nú skyldi vera verulega danskur blær yfir því. Hann kallaði sig Hjörth. Herra Sigurður Hjörth Ólafsson beykir og frú Hjörth: Undursamlegt var það!
Og svo hélt frú Guðrún Ásmundsdóttir áfram að ala honum börnin, og þau voru svona hér um bil jafnharðan send til vandalausra eða venzlafólks til forsjár og framfærslu. Sum voru þannig alin upp niðursetningar á kostnað sveitarinnar, voru gjörð að sveitarómögum. Onnur ól venzlafólk upp á sinn kostnað.
Seinustu árin sín hér í heimi lifði beykir þessi hálfgerður ef ekki algjör niðursetningur á Sómastöðum í Reyðarfirði. Þá hafði hann fyrir nokkrum árum hætt að láta skrifa sig Hjörth. Eitthvað hafði breytzt innra með honum með aldri og lífsreynslu. Hann hét þá bara Sigrrður Ólafsson og flutti að lokum á einum eins og sjálfur verzlunarstjórinn og allir hinir, með fínu ættarnöfnin dönsku, er hann hafði lokið dagsverki sínu hér í henni verzlu. Sú jafnaðarmennska við lokin var þó alltaf huggun gegn vonbrigðum og lítillækkun tilverunnar hér í þessum heimi. Sigurður Ólafsson beykir var 61 árs, er hann hvarf til feðra sinna. Það var árið 1855. Þá hafði Guðrún kona hans dvalizt fjærri honum nokkur ár, hvernig svo sem á því stóð. Hún dvaldist norður á Sævarenda í Loðmundarfirði hjá dóttur sinni Sigríði, húsfreyju þar.