Jón Jónsson í Gvendarhúsi
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Jón Jónsson“
Jón Jónsson í Gvendarhúsi var sonur Jóns Símonarsonar bónda á sama stað og tók við búi eftir föður sinn. Jón var ævinlega kenndur við Gvendarhús og jafnan nefndur Gamli Jón í Gvendarhúsi. Hann var kvæntur Sesselju Jónsdóttur frá Kastala, systur Hannesar lóðs og voru þau Jón og Sesselja barnlaus.
Jón þótti um margt sérkennilegur í háttum. Til að mynda tamdi hann hrafn sem varð svo hændur að honum að hann sat jafnan á öxl húsbónda síns. Var bura Jóns ævinlega útdrituð á bakinu eftir hrafninn. Gestrisni þeirra Jóns og Sesselju var einnig annáluð og fór enginn þar frá garði, nema hafa þegið góðgerðir, lútsterkt ketilkaffi og vindil á eftir. Skipti þá engu hvort um var að ræða fullorðna eða börn. Þau hjón voru barnlaus en sérlega barngóð.
Jón var á sínum tíma einn af liðsmönnum í Herfylkingu Vestmannaeyja. Hann átti einnig sæti í hreppsnefnd Vestmannaeyja. Í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, (1. bindi bls. 287) segir að „gamli Jón Jónsson í Gvendarhúsi hafi verið skýrleiksmaður mikill og óskjallfrómur.“
Jón lést árið 1919, þá háaldraður.
Margar sögur eru tilgreindar af Jóni og bera flestar með sér að hann hefur bæði verið vel greindur og sömuleiðis orðheppinn.
Ég hélt það væri ágirnd
- Eitt sinn sem oftar kom Jón í Gvendarhúsi inn í Edinborgarbúðina sem var í eigu Gísla J. Johnsens kaupmanns. Svo bar við að kaupmaður var sjálfur í búðinni. Hann tók Jóni af mestu alúð, bauð honum inn fyrir búðarborðið og vildi sýna honum ýmsar vörur í búðinni. Þetta fágæta tækifæri jók á forvitni Jóns svo að hann gerðist alláleitinn um að handleika vörur í hillum, opna skúffur og gægjast í þær svo að kaupmanni fór að þykja nóg um.
- „Já, og hvað er svo í þessari skúffu, Gísli minn?“ spurði Jón og bar sig til að opna hana. „Það er forvitni,“ sagði kaupmaðurinn og fannst nú Jóni sem mesta alúðin væri horfin úr röddinni. „Nú, þá hefur mér skjátlast,“ sagði Jón. „Ég sem hélt að það væri ágirnd.“
Þær þóttu ekki óhreinar þá
- Öðru sinni var Jón staddur í Edinborgarbúð. Brynjúlfur Sigfússon organisti var þar einnig staddur. Jón bóndi hafði hönd á mörgu sem hann sá eins og fyrri daginn. „Láttu þetta vera,“ sagði Brynjúlfur organisti, „þú ert óhreinn á höndunum.“ „Þær þóttu ekki óhreinar þegar ég greiddi þér atkvæði til þess að vera organisti,“ læddi Jón út úr sér.
Fyrirgefðu Gideon minn
- Eitt sinn varð Jóni í Gvendarhúsi það á að reka handlegginn í stefnið á skipinu Gideon er hann gekk fram hjá því í Hrófunum. Þá varð honum að orði: „Fyrirgefðu Gideon minn, ekki ætlaði ég að meiða þig.“
Í gamanbrag sem ortur var snemma á síðustu öld, er lýst mannlífi og bæjarbrag í Eyjum á þeim tíma. Þótt liðin sé nær öld síðan bragurinn var ortur, lifir hann enn góðu lífi og er óspart kyrjaður á mannamótum, ekki síst þjóðhátíð. Í einu erindinu kemur Jón í Gvendarhúsi við sögu:
- Gamli Jón í Gvendarhúsi gekk þar fyrstur inn,
- Gaui, Mangi, Jón í Hlíð og Lindi og konsúllinn.
- Þeir borguðu allir eina krónu eins og samið var,
- sem átti að geymast þangað til um næstu kosningar.
Þarna mun lýst hreppsnefndarfundi í Eyjum en auk Jóns í Gvendarhúsi koma þarna við sögu Gaui sem er Guðjón Jónsson á Oddsstöðum. Mangi sem er líklega Magnús Guðmundsson frá Vesturhúsum. Jón í Hlíð er Jón Jónsson í Hlíð útgerðarmaður. Lindi er Erlendur Árnason trésmiður á Gilsbakka og konsúllinn er Gísli J. Johnsen kaupmaður og breskur konsúll í Eyjum.
Annað erindi úr þessum brag, einnig vel þekkt, fjallar um sundskálann á Eiðinu.