Guðmundur Ingi Guðmundsson (skipstjóri)
Guðmundur Ingi Guðmundsson var fæddur í Hafnafirði 22. október 1932. Hann lést 14. júní 2006. Foreldrar Guðmundar Inga voru Guðmundur Þórarinn Tómasson og Steinunn Anna Sæmundsdóttir. Árið 1959 kvæntist Guðmundur Ingi Kristínu Pálsdóttur frá Þingholti í Vestmannaeyjum. Kristín og Guðmundur Ingi eignuðust fjögur börn, Guðmund Huginn, Bryndísi Önnu, Pál Þór og Gylfa Viðar. Guðmundur og Kristín eiga 10 barnabörn.
Þegar Guðmundur var 13 ára hóf hann sjómennsku, fyrst sem messagutti en síðan sem háseti á togurum meðal annars frá Reykjavík og Ísafirði. Guðmundur fluttist til Vestmannaeyja árið 1955 og hóf eigin útgerð fjórum árum síðar þegar hann keypti Huginn VE 65. Guðmundur Ingi og fjölskylda hafa síðan átt þrjú skip með sama nafni, en seinni skipin voru skráð Huginn VE 55 og voru öll nýsmíði.
Guðmundur Ingi sat í stjórn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og kom að fleiri fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi.
Guðmundur Ingi var virkur í félagsstarfi skipstjóra og útvegsbænda í Vestmannaeyjum og Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi heiðraði hann fyrir vel unnin störf. Einnig var hann félagi í Akóges og Golfklúbbi Vestmannaeyja og studdi mjög við bakið á ÍBV.
Guðmundur Ingi var alla tíð farsæll skipstjóri og útgerðarmaður og í dag er Huginn VE eitt glæsilegasta skip íslenska fiskveiðiflotans. Guðmundur Ingi var aflakóngur Vestmannaeyja 1972 og 1982-1986.
Heimildir
- Morgunblaðið. 24. júní 2006. Minningargreinar um Guðmund Inga Guðmundsson.