Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Vinirnir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. mars 2018 kl. 21:13 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. mars 2018 kl. 21:13 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit


Vinirnir
Vinirnir

Jim varð dálítið hnugginn, er hann vaknaði í gróðrarblettinum. Villi hafði yfirgefið hann um nóttina og farið með mestan hluta farangurs þeirra. Sandstormurinn hafði valdið þeim þungum búsifjum. Bíllinn var á kafi í sandi og ómögulegt að bjarga honum. Jim hafði meitt sig í öðru hnénu og var ekki fær um að ganga neitt að ráði. Hann undraðist það ekki, þótt vinur hans væri horfinn. Hann hafði verið að hugsa um að segja Villa að halda áfram ferð sinni og skilja sig eftir. Annars átti Jim alltaf von á því, að sér eða þeim yrði bjargað, þó að sú von styddist ekki við neinar skynsamlegar líkur eða möguleika. — Mary! Þeir elskuðu hana báðir. Það var þó eitt, sem Jim átti bágt með að fyrirgefa Villa. Hann hafði tekið öll skothylkin að einu undanskildu. Mestallan vistaforðann hafði hann einnig farið með og báðar vatnsflöskurnar. Hvað átti hann að gera með þetta eina skot? Var það ekki kveðja frá Villa, sem þýddi: „Skjóttu þig.“ Jim heyrði hávaða í loftinu. Hann kom auga á hauk með dúfu í klónum. Jim miðaði vandlega og skaut haukinn. Hann vildi bæði losna við þetta eina skot og frelsa dúfuna. Haukurinn féll til jarðar án þess að sleppa bráð sinni. Jim varð að losa hina titrandi dúfu úr klóm ránfuglsins. Þetta var bréfdúfa. Óveðrið hafði hrakið hana af leið. Bréf það, sem hún flutti að þessu sinni, var til manns í Algier. Þessari dúfu átti Jim líf sitt að launa. Hann reif fjöður úr stéli hauksins, skar til fjaðrapenna og ritaði með blóði ránfuglsins frásögn um það, hvar hann væri niðurkominn. Hét hann svo 1000 pundum í verðlaun þeim manni, er bjargaði honum frá aldurtila. Var það ekki framkvæmanlegt nema í flugvél. Jim gaf dúfunni mat og drykk og lét hana hvíla sig yfir nóttina. Í sólarupprás næsta morgun hóf dúfan sig til flugs og flaug í norðurátt.
Eftir átta daga var Jim kominn til London. Mary var glöð, er hún sá hann. Og Jim fékk þá hugmynd, að hann væri henni eins hjartkær og Villi. Hún nefndi ekki Villa á nafn, fyrr en þau höfðu talað lengi saman. Jim gaf ekki nákvæma skýrslu. Hann sagði aðeins, að þeir hefðu orðið viðskila við hvorn annan í sandstormi. Sagði hann, að Villi mundi segja henni nánar frá því, er hann kæmi.
Það liðu ennþá 14 dagar þar til Villi kom til London. Jim hafði borgað þjóni hans 5 pund til þess að hann gæti leikið dálítið á hann. Þjónninn lofaði að gera Jim viðvart þegar í stað eftir að Villi væri kominn heim.
Villi kom heim. Þjónninn lét Jim vita um það. Og hálfri klst. áður en Villi kom í heimsókn til Mary, var Jim þangað kominn. Hann var klæddur hitabeltisbúningi þeim, er hann bar í eyðimerkurförinni. Var hann bæði rifinn og óhreinn og óbreyttur frá því, er þeir félagar voru saman.
Jim hafði fengið Mary til að samþykkja að þegja yfir þessu uppátæki. Er Villi kom inn í herbergi Mary, sagði hann strax, eftir að hafa heilsað henni: Mary! Jim er ekki með mér. Jim er dáinn.“
Samstundis kom Villi auga á Jim úti í horni. Þar stóð hann hreyfingarlaus, án þess að depla augunum. Villa varð hverft við og hopaði á bak aftur. Hann mælti: ,,Guð minn góður! Hverju sætir þetta? Þarna stendur Jim.“
Mary horfði út í horn og lézt ekkert sjá.
„Ég skil þig ekki. Hvað ertu að segja, Jim? Á hvað ertu að góna. Ég sé ekkert í horninu annað en pálmann. Þú sérð ofsjónir.“
Villi hélt áfram að stara út í hornið. Hann ranghvolfdi augunum. Hann strauk hendinni yfir ennið og augun í þeirri von, að sýnin mundi hverfa. Hann mælti: „Mér sýndist ég áreiðanlega sjá Jim þarna úti í horninu fyrir framan pálmann.“
Mary: ,,Þú ert veikur, Villi. Þú hefur fengið hitasótt.“
„Nei, þetta er aðeins ímyndun,“ svaraði Villi. „Eyðimerkurlífið hefur ávallt þessi veiklandi áhrif. Nú er sýnin horfin.“ Þessu skrökvaði Villi. Hann sá Jim vitanlega. „Mary! Pálminn hefur vaxið mjög í seinni tíð.“
„Vaxið! Hver?“ spurði Mary forviða.
„Pálminn. Hvað annað,“ svaraði Villi.
Svo sagði Villi lygasögu af ferðalaginu. Hann bar sjálfum sér söguna mjög vel. Hann þóttist hafa borið Jim langan veg í sandstorminum, þar til þeir komu að gróðrarbletti. Hann kvaðst hafa vonazt eftir að hafa getað borið Jim til byggða eftir nokkra daga hvíld. ,,En Jim framdi sjálfsmorð einn morguninn,“ mætli hann, „hann missti kjarkinn og skaut sig.“
Er Villi hafði þetta mælt, kom Jim fram úr horninu og sagði: „Þú lýgur því. Áttu vindling?“
Villi var stilltur eins og sannur Englendingur. Hann rétti Jim vindlingahylkið, hneigði sig og fór.

Tveir vinir.


Trúboðinn (á bæn): ,,Ég þakka þér, Guð, að allt er eins og það er, því að hvernig ætli að annars færi?“