Friðrik Jesson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. júní 2006 kl. 11:17 eftir Margret (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. júní 2006 kl. 11:17 eftir Margret (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Friðrik Jesson: Fæddur 14. maí 1906 Dáinn 3. september 1992 Friðrik var forstöðumaður Náttúrugripasafnsins í fjöldamörg ár, íþróttakennari, kennari og ljósmyndari. Hann tók fjölda mynda í Eyjum af bæjarlífinu, náttúrunni, þjóðhátið, bátum og fleiru.


Hann var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs 1921 og lengi í stjórn þess og varð síðar heiðursfélagi þess. Hann starfaði einnig með sameiningarfélaginu KV og íþróttaráði því sem stjórn ÍSÍ setti á laggirnar 1928. Fyrir þessi störf hlaut Friðrik þjónustumerki og síðar heiðursorðu ÍSÍ. Stjórn FRÍ sæmdi hann garpsmerki fyrir afrek í frjálsum íþróttum.

Friðrik var leikfimikennari við Barnaskóla Vestmannaeyja frá 1929 og hélt því starfi til 1963. Hann kenndi einnig við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1929-32. Á árunum 1921­-34 kenndi hann sund við sundskálann undir Löngu í sex sumur. Eftir að sjólaugin upphitaða tók til starfa í nóvember 1934 kenndi Friðrik þar sund að sumrinu til ársins 1963. Að tilhlutan Vestmanneyinga fengust 1925 samþykkt á Alþingi heimildarlög um sundskyldu. Fjögur sveitarfélög notfærðu sér heimildina. Eitt þeirra Vestmannaeyjar. Þegar 1935 tóku um 70% sundskyldra unglinga sundpróf. Í sjó höfðu aldrei fengist fleiri en 30%. Friðriki tókst að framkvæma sundkennsluna sem skyldunám af alúð, svo að nemendur tækju henni ekki sem þvingun. Í Reykjavík var efnt til mikils skólamóts í leikfimi 1937. Friðrik hélt þangað með stóra flokka stúlkna og drengja frá Barnaskólanum. Fyrir frammistöðuna hlaut skólinn viðurkenningu. Friðrik var fágætur kennari. Hafði ekkert fyrir aga, hvetjandi og alúðlegur í framkomu. Það var eftirsjá að honum, er hann eftir 30 ára störf hvarf til annarra starfa, enda eru stöðurnar við íþróttakennsluna þreytandi.

Friðrik fæddist í Norður-Hvammi í Mýrdal 14. maí 1906. Þar var þá prestssetur. Faðir Friðriks, sr. Jes Anders Gíslason (f. 1872, d. 1961), var þá prestur í Mýrdalsþingum. Faðir Jes var Gísli útvegsbóndi og kaupmaður að Hlíðarhúsum í Vestmannaeyjum, Stefánssonar stúdents í Selkoti, Austur-Eyjafjallahreppi, Ólafsonar gullsmiðs og bónda á sama stað. Kona hans Guðlaug Stefánsdóttir frá Laufási við Eyjafjörð, var dótturdóttir Steins Hólabiskups Jónssonar. Móðir Gísla föður sr. Jes var Anna Jónsdóttir prests í Miðmörk, Vestur-Eyjafjallahreppi, og konu hans Ingveldar Sveinsdóttur, föðursystur Einars skálds og sýslumanns Benediktssonar. Önnunafnið er komið frá Önnu Eiríksdóttur systur Jóns Konferensráðs en hún er ein formæðra Friðriks.