Ritverk Árna Árnasonar/Black Prince

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. ágúst 2013 kl. 15:22 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. ágúst 2013 kl. 15:22 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar
Black Prince

Þann 12. janúar 1932 strandaði breski togarinn Black Prince við Eiðið í Vestmannaeyjum.
Hann hafði leitað í var norðan Heimakletts í austan fárviðri, en tók þá niðri á skerinu Loka og kom óstöðvandi leki að honum.
Skipið losnaði af skerinu, og tókst skipverjum að koma því að Eiðinu, þar sem togarinn strandaði.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná svarta prinsinum af strandstað, tókst það ekki, og bar hann þarna beinin. Þetta ljóð Árna er greinilega ort á vakt hjá Símanum, því að það er skrifað á símskeytaeyðublað frá Landssíma Íslands.

Til er frásögn Árna af því, er togarinn kom að Álsey og fylgir hún hér:
Í annað skipti kom togari að Álsey. Það var togarinn Black Prince. Sá hann til mannaferða þar og að flagg var á kofanum. Hélt hann þá, að þarna væru skipbrotsmenn, sneri við og kom inn á poll, þ.e. höfnina í Álsey.
Var þá báturinn settur á flot og farið um borð, en þegar þangað kom urðu skipsmenn hálfgramir yfir því, að þetta skyldu vera veiðimenn og allt í lagi hjá þeim. Hafa máske álitið, að veiðimenn hafi svona hálfvegis gabbað þá á togaranum með fánanum, sem verið hafði uppi vegna komu sókningsbátsins þennan dag út í Álsey. Hvorki fengu þeir vott né þurrt hjá skipinu, og sigldi það svo sína leið frá Álsey, en viðlegumennirnir settu bát sinn í naust.
Síðar strandaði Black Prince á Eiðinu sem kunnugt er og bar þar beinin. (Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012).

Black Prince kom brotinn af hafi
í blindhríðar veðri og sjó.
Vígbráður klettur úr kafi
knálega í brjóst honum hjó.
Harðnaði heljarleiðið,
hamingjan þrotin var.
Hann komst þó undir Eiðið
og hólpinn sig taldi þar.
Ægir tók þá til orða
(hans orð hafa gildi jöfn).
Það má ekki feigum forða,
þá feigðar er stýrt í höfn.
Bylgjurnar hrammana hristu,
hröktu Black Prince í land.
Kuldi og glettni hann kysstu,
kominn var hann í strand.



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit