Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Ljóð ''Hallfreðar''

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. ágúst 2013 kl. 22:47 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. ágúst 2013 kl. 22:47 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Viglundur færði Ritverk Árna Árnasonar/Ljóð ''Hallfreðar'' á Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Ljóð ''Hallfreðar'')
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit



Hallfreður var skáldanafn Magnúsar Jónsonar á Sólvangi, formanns, kennara og ritstjóra Víðis.

Úr fórum Árna Árnasonar


AUSTFIRÐINGAMÓT
í VESTMANNAEYJUM 10. febrúar 1934.
Lag: Þú bláfjallageimur
VIÐ sjáum í anda þín sólgylltu fjöll
og sæinn svo kyrran, fagran, sléttan.
Við horfum á firðina hvíta eins og mjöll
og hlýtt á vanga finnum blæinn léttan.
Þess minnumst við einnig, og munum það vel,
er magnþrungin hríð af norðurleiðum,
til byggðanna sendi hin svörtu kólguél,
og særinn rauk sem fönn á köldum heiðum.
Um aldirnar stóðstu það, orkunnar láð,
og ísanna stóru bræddir löngum.
Þú kennt hefir börnunum vilja, dug og dáð
og drengskap rækta fram að ystu töngum.
Við minnumst þín ylríka Austfjarðasveit
með árdegis hreina fjallablæinn.
Og gott er að muua þann gullna bernskureit,
er geislahjúpur skreytir land og sæinn.
Vor gleði var einlæg og gullvæg og sönn,
og glumdi svo undir tók í fellum,
er skutumst sem leiftur á skíðum niður fönn
og skautum beittum þar á glærum svellum.
Vér unnum þér stórgerða Austfjarðaströnd,
með órudda marga framavegi,
og vonum að arfarnir öll þín rækti lönd,
og auki hróður þinn með hverjum degi.
Hallfreður


TIL
GUNNARS ÓLAFSSONAR
KONSÚLS Á SJÖTUGSAFMÆLI HANS
18. FEBRÚAR 1934
Frá samborgurum í Vestmannaeyjum


Lag: Ég vil elska mitt land...
HEYRIÐ sögunnar mál,
þar til sigurs er stál
talið sjálfsagt og öruggt
í hverskonar stríð.
Þó mun vilji og þor,
hafa víkingsins spor,
einna verklegast mótað
frá ómunatíð.
Hérna sjáum vér hann,
þennan sjötuga mann,
er með síungum vilja,
að hetjunnar sið,
sýnir drengskap og tryggð,
vekur dugnað í byggð,
og með dáðríki höfðingjans
örvar sitt lið.
Mætti landið vort senn
eignast líka þér menn,
mundi leiðin til sjálfstæðis
greiðast að mun.
— Mundi áhugans hjör
bæta amlóðans kjör,
svo að óttast ei þyrftum
vér manndómsins hrun.
Þú ert víkingur enn,
svo að vandræðamenn
fá ei veg þínum spillt
yfir mannlífsins dröfn.
Þér er létt um að sjá,
hverri leiðinni á,
muni liðugust sigling
í örugga höfn.
Vér, sem þekkjum þig best,
viljum þakka þér mest
fyrir þróttmikinn drengskap
og karlmennskulund.
Megi auðnunnar völd
gera ævinnar kvöld
bæði ylríkt og bjart
fram á síðustu stund.
Hallfreður


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit