Ritverk Árna Árnasonar/Magnús Eiríksson (Vesturhúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. ágúst 2015 kl. 15:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. ágúst 2015 kl. 15:23 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Magnús Eiríksson á Vesturhúsum fæddist 9. febrúar 1860 og lést í Reykjavík 15. apríl 1917.
Foreldrar hans voru Eiríkur Eiríksson tómthúsmaður í Helgahjalli 1860, síðar bóndi á Vesturhúsum, skírður 3. mars 1827, d. 1880, og kona hans Katrín Eyjólfsdóttir húsfreyja í Helgahjalli og síðar á Vesturhúsum, f. 28. júní 1834, d. 2. apríl 1915.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Magnús sálugi Eiríksson var meðalhár, en þrekinn og var sagður vel sterkur. Hann var sérstaklega sérlundaður maður og þótti alleinkennilegur í háttum. Hann var góður vinur vina sinna og vildi mjög hjálpa þeim, er erfitt áttu. Hann var og sagður ríkur maður og kunni vel með fé sitt að fara.
Eftir að hann kom frá Ameríku var fullyrt, að hann hefði eitthvað lagt af fé til Gísla J. Johnsen og það fé gengið til verslunar hans. Var Magnús a.m.k. eitthvað viðloðandi þá verslun og stundum þar við afgreiðslu, bæði í pakkhúsi og innivið. Lék hann sér þá oft við, ef börn komu með 2 eða 5 aura að kaupa sælgæti, að hann lét þau fá fyrir 25 til 50 aura virði og oftast 25 eða 50 aura tilbaka. Oft hafði Gísli Johnsen séð þessar aðfarir Magnúsar, en lét sem hann sæi ekki, - hvers vegna vissi enginn.
Magnús var til lunda í Álsey lengi. Lítill veiðimaður í háf, en duglegur við holuveiðar og að bera fugl frá hinum, kippa og aðstoða á ýmsan hátt. Hann var góður við strákana, ef hann var einn með þeim, en lét þá afskiptalausa ella. Væri þeim eitthvað gert, brást hann reiður við og rétti hag þeirra og málstað. Hann var blíður, innan kuldans.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.