Sigurður Ólafsson (Vegg)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. október 2013 kl. 21:58 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. október 2013 kl. 21:58 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Sigurður í Vegg.

Sigurður Ólafsson, Sigurður í Vegg, fæddist 10. október 1860 og lést 10. mars 1931. Sigurður bjó í húsinu Vegg við Miðstræti, en það hús er horfið.

Sigurður var formaður á eigin bát og var hann með Sigurð gamla Sæmundsson og Óla í Miðhúsum með sér. Árni Árnason símritari fór sinn fyrsta túr með Sigurði, en Sigurður var iðinn við að taka unga stráka með í túra.

Kona Sigurðar var Guðrún Þórðardóttir, f. í Vestmannaeyjasókn 19. ágúst 1849 d. 12. júní 1921.

Þau áttu eitt barn, Ólaf Diðrik Sigurðsson, frá Strönd.

Foreldrar Sigga í Vegg voru Ólafur Diðrik Benediktsson, f. í Mosfellssókn í Grímsnesi 6. ágúst 1837 d. í Vestmannaeyjum. 11. nóvember 1860 og Guðríður Sigurðardóttir, f. í Vestmannaeyjasókn 1834.


Ólafur Diðrik Benediktsson og Anna Valgerður Benediktsdóttir voru systkini. Hann hafði komið til vistar hjá sr. Jóni Austmann og konu hans Þórdísi Magnúsdóttur, föðursystur Önnu og Ólafs. Presthjónin komu Ólafi til Danmerkur þaðan sem hann kom aftur með iðnmenntun, hann var snikkari eða húsgagnasmiður eins og það heitir nú. Ólafur Diðrik Benediktsson kvæntist Guðríði þ. 30. ágúst 1860 en hann drukknaði 11. nóvember sama ár, mánuði eftir að Guðríður ól þeirra eina barn, Sigga í Vegg.

Guðríður giftist aftur þremur árum síðar þ. 16.10.1863, Ólafi Einarssyni 1836 - 1916. Ólafur Einarsson og Ólafur Diðrik voru vinir og mætti segja að sá fyrrnefndi hafi reynst ekkju þess síðarnefnda vel í hennar raunum. Þau áttu síðan fimm börn og komust fjögur þeirra á legg. Eitt þeirra var Ólafur Diðrik Ólafsson frá Bjargi 1865 - 1913. Hann drukknaði í sjóróðri þ. 9. apríl 1913 ásamt þremur öðrum.


Heimildir

  • Árni Árnason. Tólf ára háseti. Heima er best. 1960.
  • Guðlaugur Gíslason. Eyjar gegnum aldirnar. Reykjavík: Örn og Örlygur 1982.
  • Íslendingabók ofl.