Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Sjólestur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 16:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Sjólestur færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Sjólestur)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Sjólestur.


Meðan opnu skipin gengu úr Vestmannaeyjum var aldrei svo farið í sjóferð, að sjóferðabæn væri ekki lesin. Þegar farið var í hinn fyrsta róður á vertíð hverri, útdráttarróðurinn, var meira haft við. Útdráttarbæn var þá lesin við ljós, og var það venjulega hálfgildings stólræða, og að lokum var sunginm sálmur áður en lagt væri í róðurinn. Að jafnaði var skipinu róið út á Botn eða inn undir Löngunef, og las formaðurinn þar bænina, en skipshöfnin sat öll berhöfðuð meðan á lestrinum stóð.
Bænir þessar voru eftir prestana, og var það jafnan siður, að prestarnir gjörðu nýjar bænir, er þeir tóku við brauðinu. Bænir þær, sem hér fara á eftir, eru teknar eftir handriti frá 1840. Eru það sjóferðabænir Jóns Þorgeirssonar, bónda á Oddsstöðum (d. 1866), en hann var mikill formaður og fjallamaður. Um hann er þessi vísa í gömlum formannavísum:

Svo er hann Jón minn Þorgeirsson á þorskastrindi,
formaður í frægðarstandi,
frækinn eins á sjó og landi.

Ekki er nú kunnugt eftir hvaða prest bænir þessar eru, en þær virðast vera allgamlar. Með vélbátaútvegnum lagðist þessi siður að mestu niður, en þó hefur einstaka formaður fram að þessu lesið sjóferðabæn á útdráttardaginn.

Útdráttarbæn. (Sjófarandi formanns bæn): „Ó, þú allra hæsti almáttugi, góði guð, sem öllum hlutum stjórnar og stýrir á himni og jörðu. Þú, sem ert líknsamur og miskunnar þig yfir öll þin handaverk og mettar allar þínar lifandi skepnur með þinni blessun. Í þínu heilaga guðdómsnafni dreg ég nú út á það hættusama sjávardjúp með skipverjum mínum í þeim tilgangi, og eftir þínu boði og nauðsyn vorri, að leita oss þar lífsbjargar á höndfarandi vertíðartíma. Af djúpinu hrópa ég til þín, drottinn: Gef oss náð til að ákalla þig í anda og sannleika, þá megum vér hugga oss við það, að þú veita munir föðurlega ásjá vorum kveinstöfum, og að þú munir þann aldrei yfirgefa, sem á þig treystir.
Ó, vertu nú vor allra leiðtogi og afvend náðarsamlega frá oss öllum þeim voða og háskasemdum bæði til lífs og sálar, sem á því óttalega sjávarhafi búnar eru. Veittu mér þitt guðdómlega fulltingi, himneski faðir, til að stjórna svo skipi og fólki án allra slysfara, að einskis frekara verði af mér krafizt, hvorki í bráð né lengd. Allt mitt ráð, áform, tiltektir og tillögur, fel ég nú og fæ þínu alvísa ráði til beztu úrræða. Allra vor augu mæna nú upp á þig, drottinn.
Almáttugi guð, afmarkaðu oss sjálfur fiskimiðin til fiskidráttarins, blessaðu skip og veiðarfæri, og gjörvallt það, sem vér höfum innan skipsins borða. Uppljúk þinni örlætis hendi, svo að þín blessun, eftir hverri vér leitum, falli ríkulega með degi hverjum úr sjávarins djúpi, þínu nægtabúri, í vort skaut. En gef oss þá jafnframt ánægt hjarta og þakklátt með það, sem þú oss úthlutar.
Þú, sem forðum hastaðir á vindinn og sjóinn, svo að þar varð kyrralogn, haltu enn nú í taumi þessum höfuðskepnum, svo að þær ekki verði oss né skipi voru, eða nokkru því, sem vér meðferðis höfum, að hinu minnsta grandi. Varðveittu oss frá brimi og blindskerjum, stórfiskum, sjóskrímslum ókenndum, samt öllum þekktum og óþekktum háskasemdum til lífs og sálar, sem annars mundu oss að margföldu meini verða, væri ekki þín föðurlega hlífð og vernd yfir oss.
Gef oss greind og varúð, en þó undir eins hughreysti og manndáð við hvað helzt, sem upp á kann að falla, svo að vér ekki séum orsök í eða sjálfum oss ollandi nokkurra vísvitandi slysfara. Gef að eindrægni og auðsveipni, hlýðni og siðsemi, vandaðar munnræður án allrar hæðni, blóts, illyrða, en þó engu að síður hóflegt glaðlyndi, fírugheit og trúlynd ástundunarsemi drottni innan vorra skips borða. Þá muntu friðarins guð vera í för með oss og þá er oss að fullu borgið.
Lát oss við hvað eina handarvikið altíð þenkja til þín og ákalla þig um hjálp og liðveizlu, þá munt þú, sem allt eins hyggur að málfæri munnsins og hjartans, veita föðurlega áheyrn vorum andvörpunum og greiða úr vorum nauðþurftum. Lát oss við hverja eina öldu, sem umhverfis rís vor skips borð, og afmálar berlega fyrir oss hversu þá er skammt á milli lífs og dauða, ávallt hefja vora þanka í hæðirnar til þín, hvaðan oss kemur hjálpin.
Leið oss svo að kvöldi hvers dags heila á hófi, auðgaða með blessan þinni, til réttrar hafnar, heim til ástvina vorra, fyrir hvert oss þá aldrei gleymist án allrar sjálfshælni, að lofa af hjarta þitt háleita guðdómsnafn.
Með lífi og sálu, skipi og veiðarfærum, felum vér oss þá á vald þinni almáttugu verndarhendi. Leiddu oss eftir þínu guðdómlega vísdómsráði, og gef oss ætíð að vera viðbúnum að gegna dauðans kalli, hvort heldur það á fyrir oss að liggja á sjó eða landi. Lát oss þá með Jesú andlátsorðum í hjartanu út af sofna, þegar vor sjóhrakningur gegnum þetta hættufulla veraldarhaf er á enda, svo að vér loksins náð fáum lukkusælli landtöku í þeirri rósömu höfninni eilífs lífs, á landi lifandi manna í himnanna sæluríki. Ó, heyr nú, heyr þú þessar mínar og allra okkar hjartans andvarpanir í himininn til þín upp sendar, heilagi faðir, og uppfyll allar okkar nauðsynjar.
Æ, hversu erum vér mikils til óverðugir allra þinna velgjörninga, og alls þessa sannleika og trúfesti, sem þú hefur auðsýnt þínum þénara. Æ, drottinn, vér megum með blygðan vors andlits meðkenna að vér höfum í tráss fyrir þína velgjörninga alltaf þrásækilega brotið út af þínum vilja, hvergi nærri svo þakklátlega þegið þínar velgjörðir ellegar brúkað þær, sem oss bar og hæfði.
Vér höfum syndgað í himininn, og fyrir þér og erum óverðugir að kallast þín börn. Þetta angrar oss nú af hjarta. Ó, drottinn, gakk ekki í dóm við oss, en vertu oss náðugur. Lát oss ei glæpa gjalda, gæzkustreymandi foss, heldur virztu fram halda, hjálp og náð samt við oss. Fyrirgefðu oss allar vorar umliðnu syndir og taktu oss alla, sem hér erum innan skips borða undir þína kröftugu vernd og varatekt á þessari vertíð, samt um alla vora ókomna æfi, svo sem vér og felum oss með lífi og sálu, og öllum efnum í þínar miskunnar hendur.
Vertu vor fyrirliði og vort ráðaneyti í hverri einustu af vorum sjóferðum. Blessaðu þetta skip og allt hvað því tilheyrir. Blessaðu hvern einasta mann, sem hér er innanborðs, blessaðu vor verk og veiðarfæri. Farsældu svo vora atvinnu, að vér ekki heldur en aðrir förum varhluta af þinni blessan neinu sinni. Gef oss náð til hana þakklátum að þiggja og henni vel að verja. Gef sérhverjum af oss ánægt hjarta jafnan með það, sem þú honum úthlutar.
Bannaðu öllum háska að granda oss. Fjarlægðu tjóni og töpun frá öllu því, sem vér meðferðis höfum. Gef oss af þínum guðdómlega vilja þóknast að spara oss svo lengi eftir afstaðna vertíðina ununarsamlegt tækifæri til að lofa þig og þakka þér fyrir hlífð og varðveizlu, björg og blessan, heill og hamingju. Gef oss bæði á sjó og landi, að hafa þig fyrir augunum og láta þinn vilja vera vors lifnaðar mælisnúru. Gef oss náð til að haga oss svo og hegða, hvar sem vér erum staddir, að vér megum vera þess fullvissir, að hvort sem vér lifum eða deyjum, þá séum vér þínir. Gef oss að afstöðnu sjóvolki þessa lífs, að fá borgið vorum sálar skipum inn á sæluhöfn himneskrar dýrðar og gleði. Drottinn, heyrðu vora bæn og láttu vort ákall koma til þín. Amen. Í Jesú nafni. Amen.“
Síðan söng skipshöfnin þennan sálm:

Drottin mildi miskunnar faðir,
mannkyn, sem af syndum frelsaðir,
bauðst því meður ástundan iðja,
elska nafn þitt, lofa og biðja.
Líkn oss send, að ljúfir þér þjónum,
sem leitum vorrar atvinnu af sjónum,
frels af æði öskrandi boða,
ógna vindi og sérhverjum voða.
Lægðu storm svo lífi ei týnum,
líkt sem gjörðir postulum þínum,
en bjóðir þú að hafsdjúp oss hylji,
himnafaðir, verði þinn vilji.
Hvenær sem að héðan oss bendir,
hug vorn í þá fullvissu sendir,
með þolgæði í þrautunum kífsins,
þín séum vér börn og erfingjar lífsins.


Sjóferðabæn. (Sjóferðamannsbæn): Er komið var út á móts við Nausthamar, tók formaðurinn ofan höfuðfat sitt og byrjaði bænina með þessum orðum:
Við skulum nú allir biðja guð almáttugan að vera með okkur í Jesú nafni. Tóku þá allir skipverjar ofan höfuðfötin, og lásu bænina í hljóði, en hún var á þessa leið:
Almáttugi guð og faðir. Þú ert sá vísi og góði höfuðskepnanna herra og undir eins minn faðir. Í trausti þinnar náðarríku handleiðslu, byrja ég nú þessa hættusömu sjóferð. Þú þekkir bezt þær hættur, sem mér og voru litla skipi eru búnar af hinu óstöðuga sjávarins hafi, er afmála mér dauðans ímynd á hverri öldu, er rís í kringum þessi veiku skipsborð. Æ, vertu nú minn verndari og minn bezti förunautur, því hverjum skyldi ég þora að trúa fyrir mér, ef ekki mínum bezta föður og trúfasta lífgjafara. Banna þú þínum skepnum, vindi og sjó, að granda mínu og vor allra lífi, þá hlýða þær. Gef oss forsjállega að geta séð við öllum fyrirsjáanlegum hættum af blindskerjum, boðum, grynningum og öðru, en afstýrðu sjálfur þeim óþekktu. Uppljúk þinni mildu hendi og send oss þína blessun. Bjóð þú sjávarins grunni, að opna sitt ríka skaut til að uppfylla vorar nauðþurftir, þá viljum vér lofa og prísa þína gæzku, sem svo dásamlega annast sín börn. En sé það þinn náðugur vilji, að þetta skuli vera vor dauðagangur, þá gef mér og oss öllum vel búnum að mæta voru síðasta. Í þínum höndum er vort líf. Amen.
Að endaðri bæninni las formaðurinn upphátt:
Höldum við svo allir okkar leið í ótta drottins. Guð almáttugur leggi sína vernd og blessun yfir okkur, þenna dag og alla tíma. Í Jesu nafni. Amen.
Því næst signdu menn sig og lásu blessunarorðin, létu svo upp höfuðföt sín og réru til miða.
(Bænakver Jóns Þorgeirssonar er nú í Landsbókasafni, gefið þangað af Eyjólfi Gíslasyni, Bessastöðum. Sjóferðabænin er eftir Eyjólfi).