Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Afturgöngutröll

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 19:55 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 19:55 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Afturgöngutröll færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Afturgöngutröll)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Afturgöngutröll.


Pétur Resen háskólakennari í Kaupmannahöfn skrifaði á árunum 1684—1688 Íslandslýsingu á latínu. Í 28. kafla ritsins segir hann frá hjátrú, einkum draugatrú, Íslendinga, og getur hann þar atburðar, sem orðið hafi í Vestmannaeyjum fyrir nokkru, þar sem grafið var upp lík manns, er talið var að gengið hefði aftur. Heimildarmaður Resens var Gísli Vigfússon skólameistari, og er frásögn hans á þessa leið í íslenzkri þýðingu:
„Gísli Vigfússon, sem sjálfur er Íslendingur, hallast að sömu skoðun í handriti því, sem ég hefi undir höndum og fjallar um anda og vofur, og telur hann þess konar sálir og anda dáinna manna suma hættulega, en aðra hættulausa.
Um hina meinlausu anda getur hann þess í 1. kafla, að þeir birtist mönnum oft í svefni og aðvari þá um óorðna hluti, en beiðist þess stundum af þunguðum konum, að þær láti barn sitt bera nafn þeirra og heiti því góðri giftu, ef svo verði gjört, og telji fólk engan vafa á, að þetta séu andir framliðinna og nefni þær venjulega draumamenn, af því að þær birtast mönnum í svefni, en þar eð þessir andar beiðist þess, að barni verði gefið nafn, þá er þetta nefnt vitjun eða að vitja nafns. Þá er og fullyrt, að gæfa fylgi, ef látið er að ósk þeirra, en að ógæfa hljótist af, ef brugðið er út af.
Um hina hættulegu anda getur hann þess í 2. kafla, að einatt beri þá fyrir vakandi menn nálægt haugum og legstöðum, ýmist í gervi mennskra manna eða þá miklu stærri, svo að stundum séu þeir háir sem fjöll. Ýmist hafi þeir það að gamni sínu að hæfa hver annan með grjótkasti, eða að þeir sitji fyrir vegfarendum og reyni að varna þeim vegarins og hrekja þá út af honum út í eyðilegar vegleysur, einatt til sjávar eða að vötnum. Sé þeir klæddir hvítum líkklæðum, ef þeir hafi dáið eðlilegum dauða, en sé í rökum eða rennvotum fötum, ef þeir hafi drukknað, og loks sé þeir í blóði drifnum fötum, ef þeir hafi verið með vopnum vegnir. Telur hann, að fyrrum hafi þeir bæði nótt og dag valdið reimleikum á stöðvum þeim, er þeir hafi verið drepnir á og dysjaðir.
Einnig minnist hann í 3. kafla á aðra tegund skaðræðisanda, og hafi sumir þeirra heitazt við menn í lifanda lífi um það, að ef þeir gæti ekki hefnt sín á óvini sínum lifandi, skyldi þeir gera það eftir dauðann. Sé heift þeirra jafnmögnuð, er þeir sé dánir og sé þá kallaðir afturgöngutröll, enda fylgi margir þeirri hjátrú, að þessir andar hafi reynzt þeim þungir í skauti eftir dauðann, er þeir hafi heitazt við í lifanda lífi, og staðfestir hann þetta með ýmsum sögnum, og á meðal þeirra með einni sögu um frændkonu sína, er hann segir, að oft hafi orðið fyrir ásókn af afturgöngu manns nokkurs, sem í lifanda lífi reyndi að ná ástum hennar, en fékk ekki áheyrn.
Því bætir hann og við, að gegn þessum ófögnuði og skaðræðisöndum sé meðal annars það ráð, að grafin sé upp lík þeirra, höfuðið því næst höggvið af og lagt við hinn óæðri enda þeirra, en síðan sé allt saman brennt til ösku, því að þá losni menn við ásókn þeirra. Segir hann og, að á sínum dögum hafi í Vestmannaeyjum verið grafið upp lík manns nokkurs og höfuðið verið höggvið af. En lík slíkra manna, sem upp eru grafin að þeim látnum, sé, þótt undarlegt megi virðast, á að líta sem lifandi væri og órotnuð, og að fingri sé stungið í munn þeirra, og sjúgi þeir hann, eins og börnum er títt, svo að enginn geti efast um, að þeir sé í rauninni dánir, sem eru á þessu sveimi.
Þar sem hann minnist á það, að höfuðið sé höggvið af þeim, þá er það víst, að Kristján konungur IV, háloflegrar minningar, taldi það nauðsynlegt, í opinberri tilskipun, er gefin var út 25. febrúar 1609, að banna slíka hjátrú. Í tilskipan þessari segir konungur að sér hafi borizt til eyrna, að nokkrir fávísir menn úti á Íslandi hafi af heimskulegum og alls óleyfilegum sökum einatt framið þann fíflskap, að grafa upp lík dáinna manna, sum eftir misseri, önnur eftir heilt ár, höggvið af þeim höfuðið og brennt þau síðan eða eyðilagt á annan veg. Leggi hann nú blátt bann við því, að nokkur leyfi sér framar að fremja þá fásinnu eða vinna svo guðlaust verk.“
(Heimild: Islandiæ nova descriptio, í handritasafni Jóns Sigurðssonar nr. 38 fol., bls. 174—176).