Blik 1940, 7. tbl./Að verja vígið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. september 2012 kl. 21:52 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. september 2012 kl. 21:52 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1940


SÉRA JES A. GÍSLASON:


AÐ VERJA VÍGIÐ


Í rúma hálfa öld samfleytt hafa nú Íslendingar rætt áfengismálin og ekki orðið á eitt sáttir. Þar hafa aðallega komið fram þrjár stefnur: stefna Good-Templara, að þurrka landið algerlega; stefna andbanninga um að leyfa vínnautn með nokkrum takmörkunum, og stefna hinna vínelsku, að öll nautn áfengra drykkja sé með öllu frjáls, svo að hver og einn megi njóta þessara eiturlyfja eftir eigin geðþótta án nokkurrar takmörkunar. Um hina síðustu stefnu af þessum þremur þarf ekki að ræða, því að hún er í raun og veru dauðadæmd, telst í raun og veru til þeirra firra, sem aðeins geta vaknað og lifað í hugsanalífi þeirra manna, sem segja má um, að ekki hafi hjartað á réttum stað. Þó má ekki leiða slíkar firrur hjá sér, þar sem þær skjóta upp höfðinu, því að alkunna er, að slík illgresi geta spillt og kæft ýmsan þann gróður, sem ætlað er að bera heilnæma ávexti, bæði fyrir þjóðina í heild og hvern einstakling. Slík illgresi sem þessi verður sem fyrst að uppræta, kippa þeim upp með rótum, svo að þau spilli ekki jarðveginum.
En hvað sem segja má um þessa stefnu, þá eru þó allflestir, eða jafnvel allir, sammála um það, að forða beri æskulýðnum frá nautn áfengra drykkja. Æskulýðurinn megi þó ekki falla í hina djúpu gröf áfengisspillingarinnar, því að þá komi fram sú kynslóð, sem verði til einkis nýt, verði vonarpeningur þjóðfélagsins. Að þessu virðast þó margir vilja vinna, þótt minna verði úr fyrir allmörgum, sökum þess að þeir byggja starf sitt á röngum forsendum, hirða ekki um að stemma ána að ósi. Þegar flóðgáttir áfengisins voru opnaðar á landi þessu, rann þessi feigðarelfa í fyrstu í ákveðnum djúpum farvegi, en þegar fram liðu stundir, hljóp áin úr farvegi sínum og breiddist yfir allar byggðir þessa lands, svo að þar var sem einn hafsjór yfir að líta sem öllum, eldri og yngri, stóð voði af, og þar við stendur enn að nokkru leyti.
Spurningin verður þá þessi: Hvernig á að bjarga þeim yngri, hinni uppvaxandi kynslóð, svo að hún farist ekki í þessu syndaflóði? Það verður að byggja vígi, og það verður jafnvel að verja þessi vígi fyrir árásum hinna mörgu, sem ekki hafa opin augu fyrir háskanum. Fornþjóðirnar höfðu sínar háborgir, sem þær vörðust úr. Svo var það í Aþenuborg, Rómaborg, Kartagó og víðar. Þaðan var varizt og barizt og áhlaupum hrundið að síðustu.
Við hér í Vestmannaeyjum eigum slíkar háborgir til skjóls og varnar þeim, sem vér viljum sérstaklega forða frá glötun áfengisnautnarinnar, og þessar háborgir eða vígi eru skólarnir okkar, þar sem kennarar hafa tekið höndum saman um að bægja hættunni frá æskulýðnum með áminningum og góðu eftirdæmi. Verður mér í þessu sambandi hvarflað í hug­anum til Gagnfræðaskólans hér, því að í þeim skóla eru nemendurnir komnir nær hættunni en í barnaskólunum, og áfengisnautn myndi hafa hin skaðlegustu áhrif á þá, ef hún næði að smeygja sér þar inn eða festa þar rætur. Þessi skóli er því sjálfkjörið vígi í þessu efni þeim, sem þangað hafa leitað. Og reynsla undanfarinna ára hefir sýnt það, að þessi skóli er það. Þar er sú bindindissemi gróðursett og ræktuð, að slíks munu eins dæmi hér á landi í skólum landsins, því að hver einasti nemandi þar er félagsbundinn í bindindisfélagi innan skólans (S.B.S.) og meiri hluti nemendanna auk þess félagsbundinn í stúkum I.O.G.T. hér á Eyju. Og starfsþrekið og starfsviljinn í skóla þessum fer einnig þar eftir. Glaðir og ákveðnir mæta nemendurnir til starfa á hverjum morgni, hresstir og endurnærðir af heilnæmustu svalalind lífsins, svefninum. Glaðir og stæltir æfa þeir líkama sinn á daginn, í frímínútum milli kennslustunda, við íþróttir og ýmsa hressandi leiki úti í hreinu loftinu, umhverfis þessa háborg bæjarins, þar sem þeir hafa heillar dagsláttu ræktað svæði, grasi gróið, til umráða til að bylta sér á undir eftirliti kennaranna. Þakklátir megum vér Eyjabúar vera fyrir það, að hópur æskumanna vorra á kost á að dvelja í þessu vígi sér til andlegrar og líkamlegrar hressingar, og getur á þann hátt safnað sér forða til framdráttar í framtíðinni. Það er því engin furða þótt þeir, sem næstir standa þessari stofnun og finna til þeirrar ábyrgðar, sem á þeim hvílir í sambandi við hana, reyni af fremsta megni að verja þetta vígi og beita öllum sínum kröftum og meðulum til þess, að á þessu vígi lendi aldrei kúlur spellvirkjans, Bacchusar, en reyni af alefli að slá vopnin úr höndum þeirra og rjúfa skjaldborg þeirra allt of mörgu manna hér sem víðar, sem vilja verja ósómann.
Heilbrigð sál í heilbrigðum líkama, það á að vera kjörorðið. Og þetta kjörorð er takmarkið, sem þessi skóli hefir. Tökum öll höndum saman, svo að þetta takmark náist, því að þá getum vér verið þess fullviss, að færri verðmæti andleg og líkamleg glatast, færri vonarpeningar verða á vegi vorum, en meiri dáð og drengskapur þróast og dafnar vor á meðal, byggðarlagi voru og alþjóð til blessunar í nútíð og framtíð.

J. A. G.