Blik 1974/Kirkjugarðurinn að Ofanleiti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. október 2010 kl. 12:00 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. október 2010 kl. 12:00 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974


Kirkjugarður og húsagarður hverfa


(Skýring vegna deyfu myndarinnar: Lengst til vinstri er kirkjugarðurinn, fyrir miðju er bærinn Svaðkot með húsagarðinum. Neðst til vinstri er Ofanleitisbærinn, en fjósið þar ofar. Vegurinn, sem liggur norður-suður er Stórhöfðavegurinn). (Heimaslóð.is)


Á undanförnum árum hefur verið gert ráð fyrir að lengja austur-vestur flugbrautina í Vestmannaeyjum til vesturs. Þar eru lendur jarðanna gömlu í Eyjum, Gvendarhúss, Svaðkots og Ofanleitis, prestssetursins.
Þegar farið var að fjarlægja gjóskuna eftir eldgosið, var hún notuð m.a. til þess að lengja flugbrautirnar. Kom þá að því, að tún jarðanna Gvendarhúss og gamla Svaðkots færu undir flugbrautina.
Frá miðöldum hafa verið bænhús á Ofanleiti og kirkjugarður þar í grennd. Merki þess sáust glögglega. Kotið Svaðkot var flutt um aldamótin og breytt um nafn á því. Það heitir síðan Suðurgarður. Umhverfis bæinn Svaðkot var húsagarður, sá einasti, sem eftir var í Eyjum. Hann stóð að mestu óhreyfður eða óskemmdur til haustsins 1973 að farið var að lengja flugbrautina til vesturs.
Í ágústmánuði 1973 hófst undirbúningur að því að aka gjósku í vesturenda flugbrautarinnar. Þá var gjört kort af þeim mannvirkjum, sem hlutu þau örlög að hverfa undir brautina. Þar er fyrst að nefna gamla kirkjugarðinn og svo húsagarðinn, sem lá umhverfis bæinn Svaðkot öldum saman, og svo Gvendarhús, þar sem hinn nafnkunni Jón í Gvendarhúsi bjó eftir föður sinn til dánardægurs 1919. Um þann sérlega bóndamann var kveðið sem kunnugt er enn: „Gamli Jón í Gvendarhúsi gekk þar fyrstur inn“ ... (Sjá Blik 1958).
Myndin til vinstri er af korti, sem gjört var af þessum gömlu mannvirkjum. Mælingarnar framkvæmdu þrír nafnkunnir „endurreisnarmenn“ í Eyjum, þeir félagarnir Viðar M. Aðalsteins verkfræðingur, Árni Sigfússon, aðstoðarmaður hans, og Hlöðver Johnsen, trúnaðarmaður jarðfræðinganna, sem fylgjast með öllu jarðfræðilegu í bænum þeim.
Rétt er að geta þess, að vísir að öðrum kirkjugarði var til í norðanverðu Ofanleitistúni. Þar sáust leiði. Yfir þau var sléttuð á fjórða áratug 20. aldarinnar.