Blik 1965/Hugleiðingar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. september 2010 kl. 16:48 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. september 2010 kl. 16:48 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



Séra JÓHANN S. HLÍÐAR:


Hugleiðingar


(Hér birtir Blik efnislega þær hugleiðingar, sem voru uppistaðan í ræðu séra Jóhanns Hlíðars til gagnfræðinga skólans veturinn 1963, er þeim var haldið kveðjuhóf í skólanum).

Jóhann S. Hlíðar


Kæru ungu vinir!
Fagnaðardagur er runninn upp í lífi ykkar, dagur mikils feginleika, vegna þess að þið hafið náð stórum áfanga og merkum, eruð orðin gagnfræðingar. Á slíkri stund fer ekki hjá því, að gleðinni yfir því að vera laus við skólagönguna blandist nokkur tregi við að yfirgefa þá menntastofnun, sem ykkur hefur alið undanfarin fjögur skólaár. Og það megið þið vita, að það er engan veginn sársaukalaust fyrir skólastjóra og okkur kennara ykkar að kveðja ykkur, því að hið innra og í leyndum hafa lífsþræðir ykkar og okkar samtvinnazt á liðnum árum þannig, að við erum orðin sem ein heild, sem ein fjölskylda, og engum fjölskyldumeðlimi getur verið alveg sama um hag og gengi hins. En það er oft hulið sjónum unglinga, hvort heldur er innan veggja heimilis eða skóla, að í allri fræðslu, ögun og umvöndun, felst sú væntumþykja og ábyrgðartilfinning, sem ber framtíðarheill og hag óharðnaðs unglings fyrir brjósti í stóru og smáu.
Allt, sem þú tileinkar þér á unglingsárum þínum, mótar skaphöfn þína. Um það má segja hið fornkveðna: „Hver er sinnar gæfu smiður“. En vert er að gefa því gaum, að á sama tíma, sem verið er að byggja upp, eru öfl að verki, sem vilja rífa niður. Þá reynir á glöggskyggni að meta rétt það, sem til heilla horfir og sýna staðfestu og einbeitni. Í þessu sambandi minnist ég hins trúa drottins þjóns, Nehemía, sem getið er um í gamlatestamenti Biblíunnar. Honum hafði verið falið það mikilvæga hlutverk að hlaða upp múra Jerúsalemsborgar, sem voru í mikilli niðurníðslu. En óvinir hans vildu honum og verki hans illt. Þeir gerðu boð eftir honum, en hann sendi þeim svar um hæl: „Ég hef mikið starf með höndum og get því eigi komið ofan eftir.“ Hér er fagurt og lærdómsríkt fordæmi, sem ég óska, að þið, ungu vinir, mættuð hafa hugfast. Því að öll menntun miðar að því að gera nemendur sem hæfasta að gegna hinu háleita köllunarhlutverki, að byggja upp, sjálfa sig og þjóðfélag sitt. En mörg eru þau öfl á hverri tíð, sem vilja rífa niður, vilja ykkur illt. Gegn þeim dugar aðeins eitt, að missa ekki sjónar á takmarkinu, uppbyggingu þeirrar skjaldborgar, sem þið eruð að reisa um ykkar framtíðarheill. Ég vona, að þið berið jafnan gæfu til að vinna í anda orðanna: „Ég hef mikið starf með höndum og get eigi komið ofan eftir.“
Allt menningarstarf miðar að því, auk þess að efla andlegan þroska nemandans og víkka sjóndeildarhring hans, að vekja hann til ábyrgðar, svo að hann fljóti ekki sofandi að feigðarósi. Það miðar að því að stæla líkams- og sálarkrafta, svo að hann fái brotizt gegn þeim sterku straumum, sem á hverjum tíma vilja draga menn „ofan eftir“, niður í hringiðuna, þar sem enginn fær fótað sig.
Saga okkar litlu þjóðar er rík af dæmum um einstaklinga, sem hafa leitað á brattann og hafizt til vegs og virðingar og orðið nýtir þjóðfélagsþegnar, þrátt fyrir lítil efni í öndverðu, annað en gildan sjóð farsælla gáfna, sem hafa þroskazt jafnt og þétt með ástundun og einbeitni við námið. En sagan geymir líka dæmi um hið gagnstæða, þar sem slakað var á sjálfsaga og látið undan síga fyrir þeim öflum, sem ávallt vilja mönnum illt. Á þeirri ógæfubraut er tálbeitu hvers konar nautna beitt. Ginningarnet eru lögð um þvera þjóðbraut, og það þarf vissulega bæði gáfur og raunsæi til þess að velja og hafna, og stoðar þó ekki ávallt. En til þess eru vítin að varast þau. Eða hver er sá unglingur, að hann vilji verða ógæfunni að bráð, þeirri ógæfu, sem er í flestum tilvikum sjálfskaparvíti? Hafið jafnan fordæmi þeirra fyrir augum, sem á brattann hafa sótt til heilla sjálfum sér og þjóð sinni, en gefið þeim líka gaum, sem orðið hefur fótaskortur á leiðinni, dæmið þá ekki, en lærið af dæmi þeirra.
Þið fagnið nú á þessum degi fengnu frelsi. En minnist þess, að sönn menntun er ekki helsi, heldur hjálp til aukins frelsis. Og sá, sem eitt sinn hefur hafið göngu sína á menntaveginum, verður aldrei fullnuma, hann er allt sitt líf að læra.
Ég sá smámynd í blaði, þar sem faðir rétti syni sínum lykilinn að bifreið sinni og sagði um leið: „Sonur, hér er lykillinn, en ábyrgðin er þín.“ Þetta augnablik í dag er svipaðs eðlis. Ykkur hefur með námi ykkar hér í skólanum verið fenginn lykillinn, svo að þið getið haldið leiðar ykkar út í lífið, — en ykkar er ábyrgðin, hvernig sú ferð tekst.
En við upphaf þeirrar ferðar fylgja ykkur beztu óskir skólans ykkar um gæfu og gengi.
Megi ferð ykkar jafnan verða ykkur og öðrum til blessunar og skóla ykkar til sóma.
Guð veri með ykkur. Farið heil.