Blik 1965/Þáttur spaugs og spés

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. september 2010 kl. 17:33 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. september 2010 kl. 17:33 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



ctr
Tígulkóngarnir, sem annast ritstjórn þessa þáttar.


Suddakróki í Reykjavík, 16. febrúar 1965.

Sæll og blessaður.

Ég sendi Bliki í Eyjum og lesendum þess ástarkveðju guðs og mína með nokkrum myndum, sem ég mun skýra sérstaklega.
Ég sé á bréfi þínu, að þú telur mig enn með tígulkóngunum þínum, þó að árin færist nú ört yfir mig, að mér finnst, og ég fjarlægist æ meir þessa tilveru. Það er í rauninni blessuð konan mín, sem heldur í mér tórunni og þess vegna datt mér í hug að segja lesendum Bliks frá því, þegar ég fyrst sá hana og amor skaut. Það var einmitt í Eyjum fyrir nærri hálfri öld.
Síðast sá ég í Bliki þínu mynd af mér með harða hattinn minn, oddborgarahattinn, sem ég nota alltaf, er ég fylgi félögum mínum í frímúrarareglunni til grafar. Það er einhver munur, eða þegar Lárus Gíslason frá Hlíðarhúsi tók af mér mynd með pottlokið á höfðinu, sem pabbi keypti á uppboði eftir látinn vin sinn og gaf mér. Margir afkomendur þess vinar föður míns sálaða eru nú í Eyjum, þess vegna nefni ég hann ekki.
Eftir að ég flutti hingað suður, reyndi ég að dóla mér í það að selja ýmis konar varning. Ég vildi verða kaupmaður eins og Simsen, Bryde og Duus.
Þetta var á fyrri heimsstyrjaldarárunum. Ég fór í söluferð til átthaganna, Vestmannaeyja. Einhvern veginn fékk ég far með bílskrjóð til Stokkseyrar. Þeir voru þá ekki á hverju strái, og Vestmannaeyjar einhver afskekktasta byggð á öllu Íslandi að Hólsfjöllum naumast undanskildum.
Frá Stokkseyri komst ég til Eyja með V/b Ásdísi VE 144, sem Edinborgarverslun eða Gísli J. Johnsen sendi til Stokkseyrar endur- og eins til þess að rjúfa einangrunarmúrinn og sækja vörur og fólk.
Þegar til Eyja kom, renndi vélbáturinn sér upp að vestanverðri bæjarbryggjunni, sem þar var úr timbri, og ég sté á land.
Í Edinborgarskrifstofunni hitti ég sjálfan kaupmanninn og útgerðarmanninn m.m. og hóf þegar að pranga inn á hann varningnum mínum. Sumt seldi ég fyrir sjálfan mig og nokkuð fyrir aðra. Ég átti mikið af ýmis konar smávarningi, sem ég hafði pantað á sínum tíma frá Importören í Kaupmannahöfn. Sýnishorn af varningnum sýndi ég Gísla þarna í skrifstofunni hans. Það voru nankinsbuxur, axlabönd, rakhnífar, blásteinn, hellulitur, styttubönd, sjálfskeiðingar, kaskeiti, silkihálsklútar og fleiri tízkuvörur. Og síðast kem ég að hárkömbunum, sem öllu hinu komu af stað. Ég bauð þarna forláta hárkamba með löngum tindum. Þeir ollu satt að segja rúsínunni í pylsuendanum á þessu ferðalagi mínu. Ég gæti ef til vill fullyrt, að út á þá fékk ég hvorki meira né minna en konuna mína, sem ég hef nú búið með í hálfa öld. Það atvikaðist á þessa lund:
Gísli kaupmaður ferðaðist títt til annarra landa. Þar kynntist hann ýmsum nýjungum. Mér skildist, að í einni utanlandsferðinni hefði hann náð sér í nýtízku ritvél, eða var það fremur reikningsvél? — Hvað um það.

Baksvipurinn.


Stúlka vann við vélina þarna í skrifstofunni og lét ekkert á sér kræla, meðan við Gísli þinguðum um varninginn og prúttuðum. En þegar ég tók fram hárkambana með viðeigandi lofsorðum og aðdáun, þá leit stúlkan við og athygli hennar var vakin. Þá sá ég, að þetta var kvennablómi, svo að ég varð þegar fanginn af. En þegar ég hafði sýnt henni kambana, fannst mér eins og ég sæi það í augnakrókunum hennar, að hún mundi vera tilkippileg.
Ég bauð henni á skemmtisamkomu íþróttafélagsins Þórs um kvöldið. Þar skyldi m.a. leika einþáttunginn „Fegurðarsamkeppnin“. Það hafði ég frétt á leiðinni til Eyja. Þá hló hún hátt, því að hún var þá einmitt ein af leikendunum og þurfti ekki mín við til þess að njóta þeirrar ánægju. En hvað um það. Þetta gekk allt eins og í sögu.
Fegurðarsamkeppnin hófst í Goodtemplarahúsinu, sem var þéttsetið. Líklega er þetta fyrsta fegurðarsamkeppni, sem um getur í veraldarsögunni. Og svo kom augnablikið, sem ég gleymi aldrei. Stúlkan, sem ég hafði orðið sjóðandi ástfanginn af um daginn, kom nú fram á sjónarsviðið svo fáklædd, að ég fór næstum hjá mér, því að ég óskaði satt að segja ekki eftir því, að allir sæju það, sem ég einn vildi fá einkarétt á að sjá og þreifa á. — Ó, ó, ég má ekki fara neinum orðum um þetta, því að konan mín bannar mér það, og ef til vill kæmi ég þá til með að hneyskla einhvern, ef ég tæki að lýsa því, eins og það leit allt út. Þetta var allt eins og í westrænu dátasjónvarpi nú til dags.

Maðurinn með þýzka keisaraskeggið mælir konuefnið mitt hátt og lágt.



Einhver náungi, sem ég hef gleymt nafninu á, lék „matsmanninn“, sem mældi fegurðardísirnar og dæmdi eftir „alheimsmælikvarða“, eins og það hét í leiknum. Ég fann til sárrar öfundar gagnvart þessum náunga með hið þýzk-keisaralega yfirskegg. O, bara hann yrði ekki of nærgöngull við „ástina mína“, hugsaði ég, bannaður pjakkurinn sá arna. Leikur gat líka stundum verið alvara.
Eftir leiksýninguna var haldinn dans. Þá reyndi ég að ná „minni“ og dansa við hana, en komst ekki að, eins og mér líkaði, því að margir ungir Eyjapiltar vildu líka svífa með hana um gólfið. Þær stundirnar varð ég að gera mér gott af öðrum. Mest dansaði ég þá við hnellna hnátu, sem sagðist heita Magga og eiga heima niður við Strandveginn í Miðbænum. Hún dansaði býsna vel, var kát og lífleg. — En svo rann upp gæfustundin mikla fyrir mér. Ég fékk dans, — langan og góðan dans við hana. Ef til vill var það rælender eða polki, — líklega hvort tveggja. Ég man það ekki, enda var ég naumast í þessum heimi þá stundina.
Þegar ég loksins kom til sjálfs míns aftur, vorum við á leiðinni út úr „Gúttó“. Skemmtun Þórs var á enda. Og þegar ég kvaddi stjörnuna mína, var afráðið, að ég stæði við í Eyjum næstu vikuna. Sú vika var mér mikil happavika. Ég mangaði og prangaði út vörunum mínum við Gunnar og Kaupfélagið, Pál og Pétur, en mest hafði ég upp úr ástarmanginu mínu. Þessa viku var landlega hvern dag og vertíðarball hvert kvöld. Ég segi ekki meira um það. Tímarnir hafa að vísu breytzt og við með þeim, en ekki hafa þeir versnað.
Þegar ég fór úr Eyjum, hafði ég öðlazt ástríka hjartað hennar, skrifstofustúlkunnar hans Gísla Johnsens, sem kunni svo vel á nýju vélina hans og hefur einnig alltaf kunnað vel á mig, — vél vélanna í hennar lífi.
Ég hafði orðið úti með 4 langtindaða hárkamba til hennar, þegar ég fór frá Eyjum. Það voru tryggðapantar svona til bráðabrigða.
Blessaður, haltu nafninu mínu leyndu. Konan treystir því, þess vegna hefur hún leyft mér að senda þér þennan pistil.
Kaffið færðu nýlagað, þegar þú lætur sjá þig hérna næst. Láttu það ekki dragast lengi.
Svo legg ég hérna með í umslagið mynd af baksvipnum á elskunni minni, er ég fyrst varð ástfanginn í skrifstofunni hans Gísla, — og svo mynd af mælingunum á senunni í „Gúttó“, þegar maðurinn með þýzka keisaraskeggið var að mæla og strjúka konuefninu mínu. Og loks færðu hér mynd af nágranna mínum, piparsveini ómenguðum, sem nýtur svölunar hjá westræna dátasjónvarpinu svo að segja á hverju kvöldi og svolítið sýnishorn af myndunum, sem veita honum mestan unað.


Hugleiðingar meðan horft er á sjónvarp Westrænna dáta.


ctr


Vissulega tek ég undir með mínum vísu forfeðrum, sem sögðu svo spaklega:
Með lygum skal land byggja og með ólögum efla. Kúreka-sjónvarpið westræna er sætur ávöxtur þessara spekiorða, þar sem þeim er framfylgt af dyggð og kostgæfni. Lengi gat ég með sanni sagt eins og skáldið:

Verður margt að meini
mörgum piparsveini;
ég hljóðaði lágt í leyni,
þegar brími holdsins brann í merg og beini.




En nú er ævin önnur, síðan ég tók að njóta dátasjónvarpsins. Síðan nýt ég þó fjandakornið reyksins af réttunum. Ó, þær allsberu hnátur, brjóstamiklar og búlduleitar og sumar í gildara lagi, svona til þess að sanna okkur allsnægtirnar vestan hafs. Allar þessar dásamlegu sýnir sefa mér kynóra og konuþrá. Þetta er mér nýr heimur eins og glæpaveröldin westræna.



Eitt sinn iðkuðu námsmeyjar Gagnfræðaskólans „húlahopp“ og dönsuðu það af mikilli list. Til þess að gera það nægilega Vestmanneyiskt notuðu þær björgunarhringi af fiskiflotanum í Eyjum. Hugfanginn áhorfandi situr undir trénu.





ctr


Kunnur Vestmannaeyingur í baði suður í Monaco. Hver getur það verið? — Verðlaun kr. 500,00 — veitt fyrir rétta ráðningu. Skilist í pósthólf 100, Vm.


ctr


„Það er þó alltaf munur að drösla honum heim, síðan hann blessaður minn í Draumbæ lánaði mér truntuna þá arna.“



ctr


Við mjólkurbúðina: Sœl og blessuð, Bústa mín. Þó að við séum ekki allar háar í loftinu, húsmœðurnar, þá finnum við jafnan, hvað að okkur snýr. Mikil déskotans-ekki-sin dásemd er sjálfsafgreiðslan hérna í Mjólkursamsölunni. Svona œttu heir að hafa það með brennivínið hérna á pósthúsinu. Þá þyrfti ekki mannfýlan hann Jón minn að vera snuðrandi í kringum lyfjabúðina eða pósthúsið alla daga, þegar hann er í landi. Segirðu annars nokkuð? Hvernig líður annars honum Krumma þínum núna? Er hann með sjálfum sér þessa stundina?


ctr


„Hér mundi aðeins handleggurinn á honum herra „borgmester“ ná til botns.“


ctr


Sólbað í Klaufinni. — Hún: „Vertu ekki svona handóður, Jóakim minn, þeir geta kíkt á „troloronum“, þó að suðrið sé öruggt, því að Gísli er fluttur.


ctr


Um árabil lærðu nemendur Þorsteins dans hjá Heiðari.


ctr


Ó, blessaður litli góurinn minn, kauptu fyrir mig brennsluspritt á þetta glas. Segðu, að það sé fyrir hana mömmu þína. Segðu spritt, mamma slæm í stóru tánni.




Þetta er mynd af hinni sögulegu ávísun, er Þ.Þ.V. greiddi ríkisvaldinu sektir fyrir að vinna að byggingu Gagnfrœðaskólans fyrir ríki og bæ. Allt á sína sögu, — líka talan 5, sem skrifuð er ofan í núllið. Lýsing af þeim réttarhöldum birtist næst í þætti spaugs og spés.








Blik veitir verðlaun, kr. 200,00 fyrir verulega hnyttinn botn við þennan vísuhelming:

Hugsjónasnauð er gyltan gild
græðgin er hennar aðal


Fallegur skutur. — Margan fallegan skutinn sá ég til sjós, en þessi tekur þeim öllum fram.


Eyjadrengir unnu mikla og fræga knattspyrnusigra á s.l. ári.


ctr

Nú sneyðist um á Snældubeinsstöðum,
snoðaðir foringjar skrefum með hröðum,
krossaðir ofan og kýldir neðan,
keppast nú við að flýja héðan.
Sá fjórði leikur á fjármálaglópa, —
flekar Þorstein, svo nemur hann sópa
fúlgum miklum í bankabauka,
ef bankinn svo vildi fé að honum gauka.


Gudda mín, nú hef ég kynnt mér rækilega ástarlífið á Reykjavíkurtjörn. — Komdu nú með mér austur að Vilpu til þess að telja með mér stjörnurnar.














Ég skrifa alltaf undir framtöl mín að viðlögðum drengskap, enda skattleysingi ár eftir ár, sem vinn myrkranna á milli árið í kring. Ég læt mér nægja að safna íbúðum og bílum. Mikið fjári mega þeir annars vera stæltir, sem hafa efni á því að greiða bæði útsvar og skatt af tekjum sínum, eftir að hafa varið þeim í bílakaup og húsabrask. Einu sinni velti skattstjórinn vöngum yfir framtali mínu. Þá tók ég til minna ráða. Hverra, haldið þið? Ég lánaði honum gleraugun mín á nebbastrýtuna. Eftir það brást honum ekki réttsýnin. Ég bætti við íbúð og bíl.