Blik 1962/Frá Gagnfræðaskólanum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. september 2010 kl. 15:03 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. september 2010 kl. 15:03 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962




Frá Gagnfræðaskólanum



RÓTARYKLÚBBUR Vestmannaeyja hefur frá upphafi sýnt Gagnfræðaskólanum sérstaka vinsemd. Hvert haust hefur klúbburinn boðið nemendum gagnfræðadeildar og skólastjóra til hófs í salarkynnum klúbbsins. Svo var það einnig í desember s.l. og þá með yfirkennara skólans. — Þá hefur Rotarýklúbburinn undanfarin ár veitt þeim gagnfræðingi skólans, sem skráðst hefir brott með flest stig í íslenzku, bókmenntum, stafsetningu og ritgerð samanlagt, verðlaun við bekkjarslit.
Þann 11. febr. s.l. var gagnfræðadeild skólans slitið. Skólinn bauð gagnfræðingunum til hófs í skólanum eins og undanfarna vetur, er deildinni var slitið og þeim afhent vottorð.
Hóf þetta sátu auk nemendanna margir af kennurum skólans og konur þeirra, prófdómarar með konum sínum og svo fulltrúar úr stjórn Félags kaupsýslumanna í bænum og Rótarýklúbbsins. Þar flutti formaður Félags kaupsýslumanna, Jóhann Friðfinnsson, ræðu og afhenti verðlaun (fagran bikar) þeim gagnfræðingnum, sem hlotið hafði flest stig samanlagt í bókfærzlu og vélritun. Þessi verðlaun hlaut Sigfríð Kristinsdóttir, Urðarvegi 40. Stigin voru 79.2. Bókaverðlaun frá skólanum hlutu gagnfræðingarnir Sigríður S. Jakobsdóttir, sem var hæst í bóknámsdeild (8,60) og Guðmundur Sveinbjörnsson, sem var hæstur í verknámsdeild (8,08) Sérstaka viðurkenningu veitti skólastjóri sjálfur Sigríði S. Jakobsdóttur fyrir beztu úrlausn í skriflegri íslenzku. Hlaut hún þar einkunnina 9.3.
Rotarýklúbbur Vestmannaeyja veitti bókarverðlaun gagnfræðingnum Kristínu Bergsdóttur, sem hlaut flest stig í íslenzku samanlagt. Við þetta tækifæri flutti forseti Rotaryklúbbs Vestmannaeyja, Friðþjófur Johnsen, hdl., ræðu þá, sem hér fer á eftir. Hún er bæði fróðleg um liðna tíð varðandi framhaldsfræðslu í Eyjum og svo eru í henni sprettir, sem vöktu almennan hlátur í hófi skólans. Þó skal það tekið fram, að ræðan er svona aðeins skuggi af sjálfri sér, á móti því að heyra og sjá hdl. sjálfan flytja hana. Ekki fleiri orð um það, en hér kemur ræðan:

RÆÐA forseta Rotarýklúbbsins við slit 4. bekkjar 11. febr. 1962:
„Herra skólastjóri, kennarar, nemendur og gestir.
Enn þá einu sinni veitist okkur nokkrum félögum í Rótarýklúbbi Vestmannaeyja sú ánægja að vera staddir hér í boði Gagnfræðaskólans. En eins og ykkur er öllum vel kunnugt, hefir komizt á ánægjulegt vinasamband milli skólans og Klúbbsins.
Ekki er ýkjalangt síðan, að Vestmannaeyingar áttu þess kost að stunda gagnfræðanám í Eyjum — heldur urðu þeir að sækja það nám til annarra landshluta. Menntaskólinn var í Reykjavík og gagnfræðaskóli á Akureyri, og fékk hann seinna rétt til þess að útskrifa stúdenta. Geta allir sagt sér það sjálfir, að kostnaðurinn við að sækja námið og stunda það í öðrum landshlutum, hefir verið mjög mikill. Auk þess voru ferðirnar til og frá skólunum dýrar og á stundum hættulegar. Minnist ég þess t.d., að árið 1927 var ég 74 klukkutíma — þ.e. á 4. sólarhing á leiðinni frá Rvík til Vestmannaeyja í jólafríinu. Þá voru ekki flugsamgöngurnar hafnar. Hvað er annars langt síðan flogið hefir verið núna — eins og menn segja? — þann 11. 2.
Fyrsti vísir til framhaldsnáms í Eyjum — auk sjómannanámskeiða var hinn svonefndi Kvöldskóli. Fékk hann inni í Barnaskólanum þeim er byggður var um 1915. Skólinn starfaði aðeins á kvöldin eða seinni hluta dags; þegar lokið var kennslu í barnaskólanum. Aðeins var kennt hluta úr vetri. Oft voru kennararnir ærið misjafnir — þótt oft væru þeir góðir — á sína vísu. Man ég t.d. vel eftir því, að einn þeirra sagði um sjálfan sig: „Í svona starf fara annað tveggja, vandræðamenn eða menn, sem eru í vandræðum.“ Ekki virðist þá hafa verið vel að skóla þessum né kennsluliði búið.
Nú er þetta sem betur fer orðið gjörbreytt. Risinn er af grunni hin glæsilegasta skólabygging með fríðu kennaraliði og myndarlegum nemendum, sem skipt er í margar bekkjardeildir. Kvöldskólinn gamli var aðeins í einni kennslustofu — nemendur um 20 hræður.
Nú er í Gagnfræðaskólanum lögð mikil rækt við móðurmálið — svo sem sjálfsagt er. Flestar ef ekki allar kennslubækurnar eru á íslenzku svo sem við aðra framhaldsskóla. Öðru vísi mér áður brá. Fyrir 30—40 árum voru flestar kennslubækurnar t.d. í Menntaskólanum í Reykjavík á dönsku. Reikningur og stærðfræði að mestu kennd á dönsku, sömuleiðis eðlisfræðin, mannkynssagan o.fl. Á sænsku var kennd stjörnufræði, franska á norsku, latína á dönsku og meira að segja íslenzkan var að nokkru kennd á dönsku. Á ég þar við kennslubók Wimmers. Aftur á móti var danskan kennd á íslenzku. Já, margt er skrítið í kýrhausnum, og margur verður frægur fyrir lítið. T.d. kom það fyrir, að menn og meyjar fengu betri einkunn í dönskum stíl heldur en íslenzkum enda danskan mun léttari. Ekki er mjög langt síðan, að sagt var um mætan Íslending úti í Kaupmannahöfn, að hann væri svo vel gerður, að hann gæti verið danskur, já, og það jafnvel þýzkur — svo var útlendingadekrið mikið þar og landinn skreið fyrir Danskinum og hafði nær týnt niður tungu sinni.
Nú er þetta orðið breytt — með betri og almennari menntun, að fengnu sjálfstæði, með bættum efnahag, atvinnutækjum og tækni. Landinn hefir komizt úr kútnum og nú skilur æskan það almennt — sem hún skildi ekki ætíð áður, að við lærum fyrir lífið en ekki skólann og sé lögð rækt við námið — þá mun það veita manni gott veganesti á lífsleiðinni. Er ég ekki í nokkrum vafa um, að námið hér í skólanum gerir það.
En það er ekki nægilegt að læra eins og páfagaukur, — heldur verða menn einnig að læra að notfæra sér það, sem lært hefir verið. Afleitt er fyrir skipstjóra að taka upp á þeim skolla að fara að fiska í landhelgi — eftir að þeir — samkvæmt eigin mælingum — eru komnir langt út fyrir hana — nú eða að stranda skútunni á skeri eftir að siglt hefir verið fram hjá því. Þá er ekki síður nauðsynlegt að kunna að fletta upp í bókum þeim, er menn þurfa að nota. Illt er, ætli maður að glugga í sjórétt sér til fróðleiks, að fara að pæla í því, sem sagt er um festaslit, því festaslit á lagamáli er það, sem almennt er kallað að slitnað hafi upp úr trúlofun — og á anzi lítið við sjórétt skylt og það jafnt, þótt annar aðilinn sé sjómaður en hinn ef til vill fögur flugfreyja eða eitthvað enn þá háfleygara.
Ekki sakar að vita lítið eitt um almanakið t.d. hvaða mánaðardagur er eða svo, — ekki hvað sízt ef maður ætlar á stefnumót eða þarf að undirrita samning — þá ber oft að hafa í huga mánaðardag réttan. Hjá sumum vill þetta þó skolast nokkuð til. Einu sinni var ég dómari í máli, er risið var m.a. út af kaupum á bifreið og var samningurinn gerður 30. febrúar í Reykjavík. Sá dagur var því miður ekki til í hinu mjög svo vinsæla dagatali Gísla Gíslasonar eða annarra verzlana í Eyjum.
Ætli maður að skrifa, þá er mjög mikilvægt að stafa orðin rétt og raða þeim niður á réttan hátt. Ekki er sama, hvort sagt er hauskúpa eða kaupa hús, mjólka fló eða flóa mjólk eða mjólk úr Flóanum. Ekki er gott að segja Njálsgíta og Bandarökin eins og Moggi gerði s.l. þriðjudag. Þetta kallast að verða fótaskortur á tungunni.
Í gamla daga þótti mönnum það alveg afleitt, hve oft kennarar voru á öðru máli en nemendur. Þetta var kallað að vera á gati, eða standa á gati, jafnvel sitjandi. Nú mun hér á orðin breyting mikil. Séra Jóhann Hlíðar sagði hér áðan, að hann hefði lokið gagnfræðaprófi í maí, ég lauk því í júní — seint í mánuðinum. En þið á þorranum! Hér á ekki lengur við: heimur versnandi fer, heldur alveg bráðbatnandi.
Rótarýklúbbur Vestmannaeyja hefir á undanförnum árum veitt verðlaun þeim nemanda, sem útskrifast með bezta einkunn í samanlagðri íslenzku. Í dag hefi ég þá ánægju að afhenda þér, Kristín Bergsdóttir, þessa bók sem lítinn viðurkenningarvott frá Klúbbnum fyrir námsafrek í íslenzku. Óska ég þér og ykkur öllum, sem útskrifast, til hamingju með prófið og megi ykkur og skólanum vel vegna í framtíðinni.“

Friðþjófur G. Johnsen.

Hinir brottskráðu gagnfræðingar voru 29, 17 úr verknámsdeild og 12 úr bóknámsdeild.
Skólinn þakkar af alúð þá vinsemd og höfðingslund, sem Rotarýklúbburinn og Félag kaupsýslumanna sýndu honum og gagnfræðingum hans við þessi bekkjarslit.