Blik 1950/Þáttur nemenda, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. janúar 2010 kl. 18:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. janúar 2010 kl. 18:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1950/Þáttur nemenda, fyrri hluti“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1950




Þáttur nemenda



Kaupamaðurinn

Áætlunarbíllinn kemur þjótandi úr höfuðstaðnum. Með honum er margt fólk, mjög sundurleitt, enda sitt úr hverju landshorni.
Bíllinn er kominn langt út í sveit. Fólkið smá tínist úr. Á næst seinustu áætlunarstöðinni fer úr ungur maður, hár og spóalega grannur, en auðséð er, að hann finnur mikið til sín, og álítur fáa standa sér jafnfætis.
Bíllinn er farinn áfram, en manntetrið stendur eftir á vegarbrúninni hjá föggum sínum.
Heiman frá skýlinu kemur maður með tvo hnakkhesta í taumi. Hann er í meðallagi hár, dálítið samanrekinn, og svipur og allt yfirbragð mótað af langri og erfiðri vinnu.
Maðurinn, sem heiman frá skýlinu kemur, gengur til ferðalangsins og segir: „Má ég spyrja, eruð þér maðurinn, sem ætlar í kaupavinnu að Ási?“
„Ójá, sá er maðurinn, nafn mitt er Ármann.“
„Komdu sæll, Ármann, og velkominn. Ég er Ólafur bóndi í Ási.“
„Komdu sæll, og þakka þér fyrir.“
„Við skulum geyma farangurinn þinn hérna í skýlinu í nótt,“ segir bóndi, „mér fannst ekki taka því að hafa með vagn núna, því að mjólkin verður flutt hingað í fyrramálið.“
„Já, já, fallega byrjar það, get ekki einu sinni látið farangurinn fylgja mér alla leið,“ muldrar komumaður. En upphátt segir hann: „Já, það er víst bezt að gera það.“
„Á ég að vera á þessari bykkju?“ spyr Ármann, þegar bóndi fær honum annan hestinn til reiðar.
„Þú munt vera óvanur hestum,“ segir bóndi, „en það kemur fljótt að venjast þeim.“
„Það er nú víst ekki svo mikill vandi að sitja á þessum truntum ykkar. En óneitanlega kann ég betur við að ferðast í bíl,“ segir Ármann um leið og hann tildrast heldur ófimlega á bak.
Þeir Ólafur bóndi og Ármann kaupamaður hans stöðva hesta sína heima við lítinn en snotran sveitabæ. Ólafur vindur sér þegar af baki og sprettir af hestinum. En Ármann situr á baki og horfir í kringum sig með fyrirlitningu. „Hva! er þetta húsið, sem ég á að vera í í sumar?“
„Jahá, þetta er nú það hús, þér finnst það sennilega heldur lítilmótlegt á móts við alla danssalina ykkar þarna í borginni,“ svarar bóndi, „en mér finnst nú samt, að þú ættir að koma af hestbaki.“
„Það er meiri bölvuð vitleysan að vera að þvælast upp í þessar sveitir, ekkert nema aumingjaskapurinn hjá þessum bændum. Þeir væru allir bezt geymdir á einhverju vesalmennahæli. Það væri aldeilis munur að vera í borginni ennþá og geta skroppið eitthvað og fengið sér einn snúning, já, og ef til vill eitt glas,“ hugsaði Ármann fram og aftur, þegar hann var kominn inn í herbergið sitt um kvöldið.
Sólin er komin hátt á loft. Úti á túni stendur bóndinn við slátt. Eftir hann liggur stór teigur og má af honum ráða, að hann muni hafa risið snemma úr rekkju. Húsmóðirin gegnir störfum sínum innan bæjar, en börnin leika sér í hlaðvarpanum.
En í einu herbergi bæjarins er sofið. Það er Ármann kaupamaður.
,,Er kaupamaðurinn okkar ekki kominn á fætur ennþá?“ spyr bóndi konu sína, þegar hann kemur inn að drekka morgunkaffið.
„Nei, ekki er það nú ennþá,“ svarar húsfreyja, ,,en hann hefur nú verið þreyttur eftir ferðalagið.“
„Já, við skulum lofa honum að sofa eins og hann vill núna,“ segir bóndi um leið og hann gengur aftur til vinnu sinnar.
Það var liðið fast að hádegi, þegar Ármann kemur út í teiginn til bónda. Þeir bjóða hvor öðrum góðan dag.
„Ég vona, að þú hafir sofið vel í nótt og náð þér eftir ferðalagið,“ segir bóndi, „svo er ég búinn að leggja á ljá, og slá í handa þér. Þú vilt kannski aðeins bera niður í dag, en þú slærð nú ekki mikið svona fyrsta og annan daginn,“ bætti hann við, „annars liggur orfið þarna heima á smiðjuvegg.“
„O, ég get nú víst slegið á við þessa bændahölda,“ tautaði Ármann við sjálfan sig, meðan hann lallaði heim að smiðju, þar sem hann þreif orfið, og ætlaði heldur en ekki að sýna, hvað hann gæti. En hvað var þetta? Hann velti orfinu hálf vandræðalega fyrir sér, og vissi sýnilega ekki skapaðan hlut um, hvernig hann ætti að halda á því. Ólafur sér vandræði hans og gengur til hans. ,,Á ég ekki að kenna þér þetta?“ segir hann. „O, ætli ég kunni það ekki,“ hreytti Ármann út úr sér, en hélt til allrar ólukku alveg öfugt á orfinu, um leið og hann sagði þetta. Bóndi sýnir honum nú, hvernig eigi að fara að þessu, en kaupamanni líkar stór illa þessi afskiptasemi.
Dagarnir líða óðum. Ármann kaupamaður gengur orðið að slættinum með fullum krafti, og honum fer óðum fram sem sláttumanni.
Þurrkurinn er kominn og heyið þornar.
Frammi í mýrinni standa nokkrir kaplar í sæti.
„Jæja, Ármann minn,“ segir bóndi, „ég held við ættum að skreppa fram í mýri og binda þessa kapla, sem eru þar, meðan heyið hérna heima er að þorna út af.“ „Ég hef nú alltaf heyrt, að kvenmaður og karlmaður ættu að binda saman,“ segir Ármann, ,,og ég skil ekki í öðru, en ég geti bundið þetta með kaupakonunni.“ „Fyrst þú treystir þér til þess, þá er það mjög gott,“ segir bóndi, ,,þið skuluð þá skreppa og gera það.“
„Hvernig í ósköpunum á að gera þetta?“ spyr Ármann kaupakonuna, þegar þau voru komin að fyrstu sátunni. „Ja, ég veit það nú varla,“ segir aumingja stúlkan. ,,Ég held, að það eigi fyrst að draga þarna í þessa króka, og svo átt þú að ganga upp á sátuna, en svo veit ég ekkert, hvað á að gera meira.“ Ármann hlýðir. Þau draga í hagldirnar og síðan tildrast Ármann upp á sátuna.
Í mýrarbleytunni heyrist skvamp og skellir. Sátan er fallin og maðurinn liggur í allri sinni lengd í forarpolli.
Það er ekki sjón að sjá, þegar hann rís upp. Hann er of sneyptur og reiður til þess að geta nokkuð sagt.
Heiman frá bænum kemur Ólafur bóndi. Hann hafði séð, hvað gerðist niðri í mýrinni. Á móti honum kemur Ármann kaupamaður, allur útataður í leir og bleytu.
,,Ég held bara, að ég kunni þetta ekki,“ segir hann, þegar þeir mætast.
„Það mun vera þannig,“ segir bóndi, ,,það sannast oft máltækið: Fáir eru smiðir í fyrsta sinn. Enda held ég, að þú ættir að þiggja meiri tilsögn hér eftir.“

Sigr. Þóra Gísladóttir
III. bekk.
● ● ●

Verum á verði, æskumenn

Þau sátu í hvamminum einu sinni enn. Þau voru ung að aldri, Kári og Erla. Oft undu þau sér í hvamminum. Kári var frá Hóli en Erla frá Efra-Holti. Skammt var á milli bæjanna. Þau voru leiksystkin frá því, að þau mundu fyrst eftir sér. Bæði voru þau blíð í sér og vel innrætt. Á veturna fóru þau saman á sleða, því að Hóllinn hjá Hóli, sem Kári sagði, að hann ætti, var uppáhaldið þeirra, sérstaklega þegar sleðafæri var, og eins á sumrin, þegar hóllinn var í sínum fegursta skrúða.
Það sást út yfir dalinn, sem bæirnir voru í, fallegur dalur hömrum girtur.
Það var vor. Að Efra-Holti var tekinn drengur til snúninga, því að ekki fannst Sveinbirni, föður Erlu nóg að hafa stúlkuna eina til þess að gegna ýmsu auk innistarfanna. Drengurinn var úr kaupstaðnum rétt fyrir utan dalinn.
Björn, en svo hét drengurinn, var mikill fyrir sér, en var þó nokkuð eldri en Erla og Kári. Björn sveikst um það, sem hann átti að gera, og talaði ljót orð við fullorðna fólkið og kenndi Kára ýmiskonar ódrengskap, en Birni gekk illa að fá Erlu á sitt mál. — Kári var orðinn gjörbreyttur drengur. Nú sátu þau ekki oftar í hvamminum sínum, tvö ein eða renndu sér á sleða á veturna. Nei, Erla hugsaði ekki svo hátt nú orðið. Henni hafði þótt svo vænt um Kára frá Hóli.
Nú var þetta ekki sami Kári, heldur allt annar drengur, sem talaði ljótt og gerði margt, sem Erla vissi, að hann mátti ekki gera.
Mikið var Erla fögur ásýndum í kirkjunni daginn, sem hún var fermd. Glóbjart hárið liðaðist um herðar hennar, en bláu augun hennar voru áhyggjufull vegna Kára, gamla vinarins hennar. Kári og Erla voru fermd sama sunnudaginn í kirkjunni á Haraldsstöðum. Erla tók í hendina á honum og óskaði honum til hamingju með daginn. Þau horfðust um stund í augu, en í augum Erlu mátti sjá glitra í tár.
Hann skildi hana ekki. Hann hélt, að dagurinn hefði svona áhrif á hana, en það var öðru nær.
Kári fór í kaupstaðinn eftir fermingu og var þá með Birni, en um Erlu hugsuðu þeir ekkert. En hún hugsaði um Kára, hver framtíð biði hans, og hvaða forlög hann mundi hljóta.
Haustið, sem Erla varð 15 vetra, fór hún í kaupstaðinn í fyrsta sinn. Hún hafði oft hugsað um það, hvernig umhorfs væri þar. Jú, hún var nú reyndar búin að hugsa sér stór hús og skrautlegt fólk, en sú hugsun var til einskis. Sveinbjörn og Erla fóru í kaupstaðinn og Erla átti að vera um hríð hjá föðursystur sinni.
Frænkurnar fylgdu Sveinbirni svolítið á leið heim. Kyrrð og ró ríkti yfir bænum, stjörnubjartur himinn, og norðurljósin iðuðu í sínum fagra skrúða. Það var eitt af þessum dásamlegu haustkvöldum.
Þær kvöddu Sveinbjörn og sneru við. Þær voru komnar góðan spöl út fyrir bæinn. Inni í húsi nokkru óvistlegu glumdu við jazzlög og óhljóð drukkinna manna, sem rufu kvöldkyrrðina.
Þær stöðvuðust snöggvast fyrir utan dyrnar, en um leið var hurðinni hrundið upp og út úr kránni komu tveir drengir, annar á aldur við Erlu, en hinn dálítið eldri.
Erla fékk ákafan hjartslátt. Annar drengurinn var Kári frá Hóli, fyrrverandi leikbróðir hennar, en hinn var Björn, sem forðum var heima hjá henni. Báðir voru þeir drukknir og slöngruðu utan í húsvegginn. Tóku þeir ekki eftir Erlu, enda kærði hún sig ekki um það, allra sízt núna. Í hendinni héldu þeir á vindlingi.
Þeir voru komnir á vald hins mikla Bakkusar.

Jóna Pétursdóttir
III. b.
● ● ●

Álfamærin

Ég ætla að skrifa hérna sögu, sem ég heyrði, þegar ég var lítill drengur. Ég man hana eins og ég hefði heyrt hana í gær. Kona nokkur stóð við þvottabalann einn morgun. Hún hreinsaði og vatt flíkurnar, lagði þær síðan í körfu, svo að þær voru tilbúnar til þerris. Úti var ágætt veður, þurrkur, sólskin og gola. Allt í einu var barið að dyrum. Konan opnaði og sá þá, hvar lítil vera, varla fet á hæð, stóð á þröskuldinum. Það var álfamær. Áður en konan vissi af, var hún komin inn á gólf. Engar verur eru jafn smáar og álfar. ,,Kona góð,“ mælti hún, „gefðu mér dálítið af mjöli.“ „Því miður á ég nær ekkert mjöl eftir,“ sagði konan. „Gefðu litlum vesalingi hluta af því, sem þú átt eftir, og þá mun þig aldrei skorta neitt,“ svaraði veran smávaxna. Konan var brjóstgóð. Hún gekk því að mjöltunnunni, tók úr henni þá fáu mjölhnefa, sem eftir voru og lét þá í lítinn poka, sem álfamærin hafði meðferðis. „Framvegis mun alltaf verða nóg mjöl í tunnunni þinni, ef þú lítur aldrei ofan í hana,“ sagði álfamærin, slengdi pokanum á bakið og var öll á burt í einu vetfangi. Konan stóð eftir orðlaus af undrun. Gerði hún nú um tíma eins og álfamærin hafði lagt fyrir, og alltaf var nóg mjöl í tunnunni. En hún var forvitin eins og konum er títt, og dag einn gat hún ekki stillt sig um að líta ofan í tunnuna. Upp frá því varð hún að fylla tunnuna alltaf sjálf. Og þar með lýkur sögu þessari.

Jósep Guðmundsson
I. bekk.
● ● ●

Prófdagar

Á götum bæjarins er ys og þys. Hópar af fólki streyma fram og aftur eftir gangstígnum.
Eftir einni af minni götunum gengur maðnr, stór og herðabreiður. Rétt á eftir honum kemur Nonni litli. Hann er átta ára snáði, syngjandi kátur og allra yndi. Nú er hann að koma úr skólanum og flýtir sér heim til mömmu til að segja henni allt það skemmtilega, sem við hafði borið í dag.
Rétt þegar stóri maðurinn gengur fyrir næsta götuhorn, tekur Nonni eftir því, að eitthvað skríður upp úr vasa hans og dettur á götnna. Nonni tekur undir sig stökk og er þegar kominn að staðnum. Hann lítur niður, og viti menn, fyrir fótum hans liggur glampandi veski.
„Hvað á ég að gera?“
Nonni var í fyrstu alveg utan við sig. Tvö öfl háðu harða baráttu hjá honum. Annars vegar forvitnin um að skoða, hvað væri í veskinu, og hins vegar samvizkan, sem sagði honum að skila manninum veskinu undir eins.
,,Hann hlýtur að eiga mörg veski, hann er svo ríkur.“ Nonni litli leit flóttalega í kringum sig, um leið og hann tróð veskinu í vasann.
Inn í hornið hjá tröppunum heima hjá sér skauzt Nonni. Hann var skjálfandi á beinunum af taugaæsingi. En það var girnilegt að líta í veskið. Í því voru þrír, stórir, fallegir seðlar auk smærri peninga. Slíkan auð hafði hann aldrei fyrr haft milli handanna.
„Hvað á ég að gera við þetta? Bara að enginn sjái það,“ hugsaði Nonni, þegar hann sniglaðist upp tröppurnar.
Nú var ekkert gaman að koma heim til mömmu til þess að tala við hana um allt milli himins og jarðar eins og venjulega.
Hann fleygði frá sér töskunni og þaut svo beint inn í leikherbergið, án þess að segja nokkuð.
Allan daginn var Nonni eins og úti á þekju. Hvað, sem talað var við hann, svaraði hann bara út í hött. Og þótt mamma spyrði hann, hvað gengi að honum, vildi hann ekkert segja.
Ekki var nóttin betri. Jafnskjótt sem Nonna litla kom dúr á auga, hrökk hann alltaf upp aftur við eitthvað. Alltaf var veskið efst í huga hans.
Það var ekki gaman í skólanum næstu daga. Þrásælnislega leitaði hugurinn annað en að því, sem fram fór í kringum hann. Og kennarinn ávítaði hann sýknt og heilagt fyrir eftirtektarleysi.
Dagurinn var að kvöldi kominn. Það var annar dagurinn, eftir að Nonni litli fann peningaveskið. Drengurinn var kominn í rúmið sitt en gat ómögulega farið að sofa. Mamma sat frammi í stofunni við sauma sína.
,,Mamma mín, viltu aðeins tala við mig, ég þarf að segja þér svolítið.“
„Hvað vantar þig núna, væni minn,“ segir mamma blíðlega, og sezt á rúmið hjá drengnum sínum.
„Mig vantar ekkert. — En mamma, hvað myndir þú gera, ef þú fyndir eitthvað, og vissir hver ætti það?“
„Ég mundi auðvitað láta þann hinn sama fá það undir eins, það eigum við alltaf að gera. En af hverju ertu að spyrja að þessu núna, góði minn?“
„Mamma, ég fann þetta í fyrradag.“ Hann þreif í veskíð í vandræðum sínum og rétti móður sinni það.
„Veiztu, hver á það?“
„Já, ég veit það. Stóri maðurinn í stóra, hvíta húsinu á það.“
,,En af hverju hefurðu ekki látið hann hafa það fyrr?“
„Ég veit það ekki — ég veit það ekki, mamma.“
„Jæja, góði minn, þú skalt bara fara í fyrramálið og skila veskinu. Og svo er ég viss um, að þér líður miklu betur á eftir.“
Snemma morguninn eftir stóð lítill drengur utan við stórt hvítmálað hús og hringdi dyrabjöllunni í ákafa. Í dyrunum birtist herðabreiður maður, og spyr í heldur önugum tón: „Hvað er þér á höndum, drengur?“
„Ég, ég, var að koma hérna með veski, sem ég held að þér eigið.“
„Nú, jæja, það er gott, drengur minn, ég þakka þér fyrir. Nei, bíddu nú aðeins við, þú ferð nú ekki án þess að fá fundarlaun, ekki má það nú minna vera.“
Nonni litli þakkaði fyrir sig, og sentist svo aftur út á götuna.
Hann var aftur búinn að heimta sína fyrri kæti, nema munurinn var sá, hve hann var núna langtum heilsteyptari og glaðari yfir unnum stórsigri.

S.Þ.G.
III. bekk.



seinni hluti