Snið:Grein vikunnar
Landakirkja
Saga Landakirkju er löng og merk. Fyrsta Landakirkjan var byggð árið 1573 og var hún byggð fyrir tvær sóknir Eyjamanna sem voru þá. Núverandi Landakirkja mun vera fyrsta kirkja á Íslandi sem reist var utan kirkjugarðs. Henni hefur verið vel við haldið og verið söfnuði sínum kær. Eyjamenn hafa lagt metnað sinn í að hafa búnað og aðstöðu Landakirkju sem veglegastan.
Árið 1573 stóðu sr. Bergur Magnússon á Ofanleiti og Símon Surbech kaupmaður fyrir því að reist var allstór timburkirkja að Löndum í suðvesturhorni gamla kirkjugarðsins þar sem sálnahliðið er nú. Henni heyrðu til þær tvær kirkjusóknir sem í Vestmannaeyjum voru, það er Kirkjubæjar- og Ofanleitissóknir, og voru kirkjur þær, er fyrir voru, þá gerðar að bænahúsum. Kirkja þessi var brennd í Tyrkjaráninu árið 1627. Fjórum árum síðar var reist ný kirkja á sama stað. Sú kirkja var þrívegis endurbyggð og í notkun þar til núverandi Landakirkja var fullgerð á flötinni vestan kirkjugarðsins.