Guðríður Ragnarsdóttir (kennari)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. október 2024 kl. 11:48 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. október 2024 kl. 11:48 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Guðríður Ragnarsdóttir (kennari)“ ([Breyta=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn) [Færa=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur og kennari fæddist 13. maí 1950 á Akureyri.
Foreldrar hennar Ragnar Gísli Thorvaldsson, Gregersen, rafvirki, f. 2. ágúst 1927 í Rvk, d. 16. september 1988, og Sigríður Sveinbjörg Pálína Björnsdóttir, listmeðferðarfræðingur og listmálari, f. 5. nóvember 1929 á Flögu í Skaftártungu, V.-Skaft. Guðríður ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, þeim séra Birni O. Björnssyni og konu hans Guðríði Vigfúsdóttur húsfreyju, á Akureyri og Hálsi í Fnjóskadal, síðar í Rvk. Fósturfaðir hennar síðar var Dieter Roth, listamaður, maður móður hennar.

Guðríður lauk kennaraprófi 1971, varð stúdent í K.Í. 1972 og hefur sótt námskeið. Hún nam sálfræði við Háskóla Íslands, lauk BA-prófi 1977 og fór sama ár til Englands í rannsóknanám í atferlisgreiningu (Experimental Behaviour Analysis) við Háskólann í Exeter, og kenndi þar með náminu almenna sálfræði og verklega atferlisgreiningu.
Árið 1982 varð hún rannsóknastyrkþegi á Panum-Neurofysiologisk Institut við Kaupmannahafnarháskóla.
Hún var kennari í Vogaskóla í Rvk 1971-1972, kennari í Iðnskólanum og gagnfræðaskólanum í Stykkishólmi 1972-1973, og tók á móti kennaranemum í æfingakennslu. Hún kenndi við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum veturinn 1973-74 og svo á meðferðarheimili í Reykjavík, drengjum með náms- og hegðunarvanda.
Hún kenndi á árunum 1985-1987 list- og verkmenntakennurum í kennsluréttindanámi við Kennaraháskóla Íslands um kennslufræði atferlisgreiningar og í forföllum, klíníska sálfræði við Fósturskólann. Einnig kenndi hún nýtt námskeið í atferlisgreiningu, sem hún bauð við sálfræðiskor Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Þar setti hún síðan upp vísi að rannsóknastofu til að kenna atferlisgreiningu með tilraunum (Behavior Principles and Research Methods). Árið 1987 varð hún deildarsérfræðingur hjá Rannsóknaráði ríkisins (nú RANNÍS).
Guðríður Adda fluttist til Raufarhafnar 1988 og til að efla mögulega fjölbreyttni í náms- og starfsvali kenndi hún fullorðnum á tölvur fyrir Framhaldsskólann á Húsavík. Hún gerðist skólastjóri Bréfaskólans (áður SÍS og ASÍ) árið 1994, og 1997 varð hún atferlis- og kennsluráðgjafi hjá Skólaþjónustu Eyþings á Akureyri. Börnum með náms- og hegðunarvanda var vísað til hennar.
Sumarið 1999 dvaldi hún við Morningside Academy vestur í Seattle við starfsþjálfun í hinni gagnreyndu kennslutækni Stýrðum fyrirmælum (direct instruction) og Hnitmiðaðri færniþjálfun (precision teaching). Einnig gerðist hún atferlisráðgjafi á heilsuvefnum www.doktor.is.
Í tvo áratugi, árin 2000 – 2021 rak Guðríður Adda kennslu- og ráðgjafarþjónustuna Atferlisgreiningu og kennsluráðgjöf. Helsta verkefnið var lestrarkennsla og hraðfærniþjálfunin LÆS Í VOR, ásamt tengdri námsefnisgerð. Sumir nemendanna voru ólæsir af óþekktum ástæðum, en flest þeirra höfðu greinst með alvarlega leshömlun (dyslexiu), einhverfu, eða athyglisbrest og ofvirkni (ADHD), auk barna af erlendum uppruna, sem lærðu íslensku sem annað mál.
Frá 1985 hefur hún haldið fyrirlestra, erindi og námskeið um kennslu, hvatningaraðferðir, atferlis- og bekkjarstjórnun á ráðstefnum innan lands og utan, við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, og fyrir kennara á öllum skólastigum, víða um land. Einnig fjölda verklegra námskeiða í lestrar- og reikningskennslu fyrir starfandi kennara með eftirfygld, handleiðslu og ráðgjöf.
Hún hefur kynnt sérsvið sín í rannsóknum og kennslu fyrir háskólasamfélaginu og almenningi með handbókinni Gríptu til góðra ráða, tveimur bókarköflum, ásamt greinum í ritrýndum tímaritum, sérritum og í dagblöðum.
Undanfarin ár hefur Guðríður Adda kennt íþróttafræðingum í kennaranámi (M.Ed.) við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík um atferlisstjórnun og gagnreyndar kennsluaðferðir. Hún hefur einnig unnið að gerð íðorðasafns í atferlisgreiningu sem er í vinnslu á Íðorðabanka Árnastofnunar.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.