Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1985/ Samtíningur og sitthvað um handfæri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. júlí 2019 kl. 15:50 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. júlí 2019 kl. 15:50 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum:


Samtíningur og sitthvað um handfæri


Eyjólfur Gíslason, Bessastöðum.
Fœri með hálfteina sökku. Teiknað eftir færi í Byggðasafni Vestmannaeyja.
Vaðsteinn (1:3). Þeir voru oft kúptir og sporöskjulaga.
Handfæri með vaðsteini (1:12). Myndin eftir fyrirmynd í Byggðasafni Vestmannaeyja
Færi með ballans sökku. (Ledda með heilás (1:12)). Teiknað eftir færi í Byggðasafni Vestmannaeyja.

Alla þá löngu tíð sem róið var með handifæri var keipað fyrir fisk þegar að búið var að taka grunnmál. Grunnmál var það kallað að lyfta öngli og sökku (eða vaðsteini) vel fríu frá sjávarbotni og allt upp í hálfan faðm á hraunbotni. Að keipa fyrir fisk var það að hreyfa færið með vissu millibili og finna hvort fiskur var nærri og reyna að festa hann á krókinn sem hnýttur var á enda öngultaumsins. Öngultaumur mun oftast hafa verið um einn metri á lengd og var hnýtt neðan í sökkuna eða vaðsteininn, en vaðsteinar voru notaðir í Eyjum fram á seinni hluta nítjándu aldar. Í öllum pott- og blýsökkum var gat til beggja enda um ca. 2 til 3 sm. ummáls og í það var látin smá skinnreim úr nautshúð, með smá langskurði til beggja enda, og þar var færinu og öngultaumnum hnýtt og þessar skinnpjötlur þá nefndar forsendur: lágu þær einfaldar í sökkugatinu en tvöfaldar þar sem færinu og taumnum var hnýtt. Oft kom það fyrir að öngultaumurinn vafðist um sökkuna og varð þá ekki fisks vart og var það kallað að vera uppundinn og þá komist svo að orði, ef menn hofðu upp færi sitt til að gæta að því. „Ekki var von að ég yrði var að vera svona þræl uppundinn.“
Um og eftir 1910 fóru menn að nota hálfteina sökkur sem svo voru þá kallaðar. Járnteinn. ca. 20 til 25 sm. langur, var rekinn inn í blýsökkurnar neðan til og var teinninn festur vel þar. Á enda teinsins var beygt auga sem sigurnagli var í og var efri enda öngultaumsíns hnýtt í hann og nú vafði taumurinn sig ekki upp á sökkuna. Stuttu seinna fóru menn svo að nota ballans-sökkur svo kallaðar. Þær voru þannig að stáljárnteinn, ca. 60 sm. langur, lá í gegnum þær og var öngultaumur í hvorum enda teinsins, svo að nú var hægt að draga tvo fiska í einu. Teinarnir voru álíka að sverleika og steypustyrktarjárn. Þannig handfæri höfðu þá franskar og færeyskar fiskiskútur notað í fleiri ár við Eyjar. Að draga upp handfæri án þess að koma með fisk var kallað að draga koppgjörð, Mjög var það misjafnt. hve menn voru fisknir, sem kallað var, og var sagt um þá menn sem fisknir voru: Hann er bráðfiskinn og hann er lúsfiskinn og lúrfiskinn, en það voru menn sem voru að draga einn og einn fisk í tregfiski, þegar aðrir urðu ekki varir. En þeim, sem gekk illa að ná í fisk, voru kallaðir fiskifælur og urðu þá víst oftast að vera í andófinu sem þótti ekki nein virðingarstaða þó oftast væri þar erfiðara en hjá færamönnunum.
Alla tíð mun það hafa verið föst venja í Eyjum, og sennilega í fleiri veiðistöðum, að þegar róið var með handfæri og keipað var fyrir fisk að leggja undir sem kallað var í tregfiski. En það var að andófsmaður eða menn, sem ætíð voru tveir eða fleiri á vetrarvertíðarskipunum („Því eftir því, sem alda vex, árar fjölga á borði“) áttu að tilnefna unga og eigulega stúlku og skyldi hennar njóta sá sem fyrstur drægi fisk. En svo var líka oft höfð með gömul og leiðinleg kerling og hana fékk sá er síðastur varð til að draga fisk. Þetta gaman hafði oft orðið mikil keppni milli yngri manna. Ef ekki varð fisks vart þar sem rennt var og leita varð annars staðar, gekk þessi kvennafengur til andófsmanna.
Hætt var að keipa fyrir fisk þegar nylonfærin komu því að þau voru vafin upp á járn eða aluminium-rúllur sem voru með handsveifum til hvorrar handar, en eru nú tengdar rafmagnsgangráði.
Séra Brynjólfur Jónsson, sem var prestur í Eyjum frá 1858 til 1884, bjó góðu búi á Ofanleiti fyrir ofan Hraun, enda taldist Ofanleitið fjórar jarðir, sem allar áttu sinn leigumála, ásamt fjórum öðrum jörðum fyrir ofan Hraun og voru þær jarðir kallaðar kotin.
Í tíð séra Bryjólfs hafði Ofanleitisheimilið oftast verið mannmargt og ætíð hafði prestur tvo og þrjá vinnumenn. Einn þeirra, sem hafði dvalist þar í mörg ár, hét Einar Ásgrímsson og þótti æði-sérkennilegur í tali og töktum; og var því margt eftir honum haft. Utan vetrarvertíða reru vinnumenn prests, sumur og haust, úr Klaufinni sem var uppsátur otanbyggjararnanna alla tíð. Prestur var vanur að spyrja menn sína frétta þegar þeir komu heim af sjónum og eitt sinn, er hann talaði við Einar, hafði hann sagt: „Mér sýnist þú svo daufur. Einar minn?“. En karlinn svaraði: „Ja, er það furða, prestur góður, helvítið hún Sigga á Steinsstöðum skellti undan mér.“ En Sigríður var vinnukona á Steinsstöðum og hafði verið lögð undir þegar Einar varð fyrir óhappinu, að missa sökku og öngul, sem þótti á þeim tíma æði-mikill skaði.
Ég sendi öllum Vestmanneyingum bestu kveðjur og óskir um ánægjulegan og skemmtilegan sjómannadag.