Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Tvo daga að sigla sama sólarhring

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. apríl 2019 kl. 13:43 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. apríl 2019 kl. 13:43 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Eyjólfur Pétursson


Tvo daga að sigla sama sólarhringinn


Heimsigling Vestmannaeyjar VE 54 frá Japan 1973


Það var árið 1972 að þeir félagar Kristinn Pálsson og Guðmundur Ingi Guðmundsson ákváðu að ráðast í það stórvirki að láta smíða fyrir sig skuttogara í Japan, þann fyrsta sem byggður var fyrir Vestmannaeyinga og stofnuðu um hann félagið Bergur - Huginn ehf s/f.
Í maímánuði það sama ár kom Kristinn að máli við mig og bauð mér skipið, sem ég þáði skömmu síðar. Eftir það hittumst við Kristinn nokkuð oft þar sem við í sameiningu ásamt öðrum kaupendum á togurum frá Japan fórum yfir smíðalýsingar og ýmislegt fleira. Síðsumars var skipinu hleypt af stokkunum og var gefið nafn af konsúli okkar íslendinga í Japan og hlaut nafnið Vestmannaey VE-54.

Lyfjakistan hirt
Í október hélt ASIACO, umboðsaðili fyrir þessum skipakaupum, nokkrum Íslendingum, sem voru að fara til Japans til að fylgjast með smíði skipanna og taka við þeim, kveðjuhóf að Hótel Loftleiðum. Að því loknu var haldið til Keflavíkur. Fyrir Vestmannaey fór Kristinn Pálsson og ég undirritaður, fyrir Bjart NK fóru Magni Kristjánsson skipstjóri og frú, ennfremur Sigurður Jónsson 1. vélstjóri. Frá Keflavík flugum við síðan til New York og þegar þangað var komið vorum við að brölta með farangurinn. Þá kom til okkar öryggisvörður alvopnaður, benti á trékistu sem var í farangri okkar og spurði hvað í henni væri. Kristinn tók þá upp skjal nokkurt og rétti þessum verði og fór jafnframt að útskýra að þetta væri nú bara lyfjakistan í nýja skipið sem hann væri að láta byggja fyrir sig í Japan en íslensk lög krefðust að notuð yrði lyfjakista að heiman. Þetta hefði nú allt gengið ef vörðurinn hefði ekki rekið augun í að á listanum voru nöfn eins morfín og fleiri deyfilyf eins og skylt er að hafa í kistum þessum, var ekki að sökum að spyrja að kistan var tekin af okkur og héldum við satt að segja að við sæjum hana ekki meir.
Við sváfum síðan eina nótt í New York héldum svo með Pan Am til Fairbanks í Alaska, stoppuðum þar stutt en héldum síðan til Tokyo og lentum þar eftir um 12 tíma ferðalag frá New York. Vegabréfa- og tollskoðun gekk þar með ágætum.

Úti fyrir hótelinu. Frá hægri Kristinn Pálsson, Magni Kristjánsson skipstjóri á Bjarti og eiginkona hans.


Þegar út var komið beið okkar nokkuð sem enginn okkar hafði kynnst áður, en það var móttökunefnd á vegum ATAKA Ltd. sem var eins konar söluaðili fyrir skipasmíðastöðvarnar báðar. En skipin níu, sem þegar hafði verið samið um smíði á, voru byggð í tveimur borgum. Niigata á NV-strönd Honshu og Mouoran sem er sunnarlega á Hokkaido. Okkur var síðan raðað í svarta eðalvagna sem skörtuðu japanska og íslenska fánan-um á sitthvoru frambretti. Einn íslendingur var með þeim; hann var Kjartan Örn Kjartansson, sonur Kjartans í ASIACO og átti hann að vera okkur til halds og trausts sem og hann gerði þá mánuði sem við áttum eftir að dvelja þarna. Við Kristinn lentum saman í bíl, hjónin saman. Kjartan og vélstjórinn í þeim þriðja. Svo formlegt var þetta að við urðum að sitja saman afturí en fulltrúi frá fyrirtækinu frammí. Var síðan ekið sem leið lá í hið fræga hverfi sem Ginxa nefnist og að hóteli sem heitir Ginxa Dai Ichi sem átti eftir að vera okkar aðalmiðstöð næsta mánuðinn. Þegar þangað var komið var rétt gefinn tími til að þrífa sig, síðan beið okkar veisla uppi í grillinu á hótelinu sem stóð fram eftir kvöldi. Ég held ég mæli fyrir munn okkar allra ferðalanganna að mikið vorum við hvíldinni fegin þegar við fengum loks að fara í háttinn. Næstu dagar fóru svo í fundi og matarboð sem við vorum farin að kalla prjónapartý en nokkuð misjafnlega gekk hjá okkur samferðafólkinu að temja okkur þennan borðsið heimamanna að eta með prjónum. Það tók aftur á móti ekki langan tíma að venjast því að hafa ávallt borðdömur við hlið sér sem sáu um að alltaf væri nóg í glösum, nægur matur, nudduðu bakið og lærin þess á milli. Fyrst í stað fannst manni þetta dálítið undarlegt en síðan alveg sjálfsagt enda er þetta siður í landinu.

Verið að leggja síðustu hönd Vestmannaey VE 54.

Á flakki
Næstu tvær til þrjár vikur fóru í að heimsækja allmörg fyrirtæki sem framleiddu hluti þá sem skipin voru byggð utan um og urðu það fleiri fundir og fleiri prjónapartý. Heimsóttum við meðal annars Furuno verksmiðjurnar sem framleiddu öll siglinga- og fiskleitartæki í skipin en þær eru staðsettar í Nishinomiya borg sem er skammt frá Osaka en við gistum á Plasa hóteli þar í borg þá daga sem heimsóknin stóð yfir en það má segja að frá Osaka til Kobe sé ein borg og fellur Nishinomiya þar mitt á milli. Var meðal annars farið með okkur þaðan í þá gömlu höfuðborg þeirra Japana, Kyoto, en okkur skildist að fyrir Japani væri ferð til Kyoto samsvarandi og fyrir múslima að fara til Mekka, einskonar pílagrímaferð. Þeir voru duglegir að sýna okkur öll þessi Búddalíkneski og Búddahofin og ýmislegt fleira í þessari helgu borg þeirra. Þeir sögðu okkur að þegar fundið var nafnið á Tokyo hafi þeir einfaldlega tekið to aftan af Kyoto og sett það framan við kyo svo útkoman var Tokyo. Eftir þetta fórum við svo til Fukuoka sem er á eyjunni Kyushu. Þar skammt frá er borg sem heitir Shimonoseki en sú borg er á eyjunni Honshu og var ekið þangað í gegn um neðansjávargöng og þar heimsóttum við veiðarfæraverksmiðju og netaverkstæði sem hét Kaneyasu en ákveðið hafði verið að annaðhvort Vestmannaey eða Bjartur NK færu í veiðafæraprufu þegar skipin væru tilbúin þannig að menn sæju það á svörtu og hvítu að hægt væri að fiska á skipin. Þarna dvöldum við í nokkra daga. Þeir á Bjarti pöntuðu eitt troll sem þótti nokkuð víðáttumikið, japanskt að gerð ásamt varastykkjum en við pöntuðum troll af enskri gerð sem reyndar er í notkun enn í dag hér á íslandi og hefur yfirleitt verið kennt við togarann Marz.

Þar úti gekk á með eilífum prjónapartýum. Kristinn Pálsson og greinarhöfundur hakka í sig hrísggrjónin. Á milli þeirra er japönsk þjónustustúlka, ein þeirra sem minnst er á í greininni.

Með teikningar í báðum lófum
Eftir um þriggja vikna flakk víðsvegar um eyjarnar kom loks að því að leiðir skildu hjá okkur samferðafólkinu, þau héldu til Niigata en við Kristinn til Muroran. Við lentum á flugvellinum í Sapporo. Voru þar menn frá skipasmíðastöðinni sem óku okkur til Muroran á hótel eða gistiheimili sem skipasmíðastöðin átti. Þarna áttum við svo eftir að gista mestanpart sem eftir var ferðarinnar. Við komum þangað seinnipart dags og að sjálfsögðu var eftirvæntingin farin að naga í okkur að fá loks að sjá skipið eftir tæplega mánaðar veru í Japan.
Það var mjög vel tekið á móti okkur af þeim góðu hjónum sem sáu um rekstur hótelsins en þau kölluðu við alltaf Mamma san og Pabba san. Ennfremur unnu þarna líka dóttir þeirra og tengdasonur.
Við héldum síðan niður í skipasmíðastöð, skoðuðum skipið og var það eins og við var að búast, svona lítt aðlaðandi eins og alltaf er með skip í byggingu, en við sáum það strax að þetta kæmi til með að verða myndarlegt þegar smíði yrði lokið. Fóru næstu dagar í að biðja um breytingar og lagfæringar á því sem okkur fannst ekki nógu gott, og vorum við undrandi á hvað Japanarnir voru liðlegir að taka á þessum óskum okkar.
Það var svo í nóvember að Örn Aanes 1. vélstjóri kom út. Hann vildi náttúrlega ýmsar breytingar í vélarúminu sem þeir og gerðu fyrir hann. En eitt sinn hittust hann og einn verkfræðingurinn uppí stöðinni og byrjaði verkfræðingurinn að teikna í lófa sér einhverjar breytingar og útskýra fyrir Erni en Örn skoðaði í lófa hans, þreif síðan í hina hendi mannsins og teiknaði síðan breytingarnar í þann lófa eins og hann vildi hafa þær og gekk síðan burt. Manngarmurinn stóð eftir og horfði til skiptis í lófa sína og hugsaði eflaust: „Þetta er nú meiri frekjan.“
Þegar þarna var komið lá það ljóst fyrir að verulegar tafir yrðu á afhendingu Bjarts NK svo það varð að samkomulagi að seinka Vestmannaey örlítið en jafnframt flýta Páli Pálssyni frá Hnífsdal þannig að Vestmannaey og Páll yrðu í smáfloti heim til Íslands en ákveðið hafði verið að ávallt færu tvö skip heim í samfloti. Þurfti ég þess vegna að fara nokkuð oft til Shimoneseki til að fara yfir veiðarfærið sem nota átti í veiðarfæraprufuna því nú lá ljóst fyrir að Vestmannaey yrði afhent fyrst svo prufan dæmdist á hana. Þessar ferðir tóku yfirleitt tvo til þrjá daga. Það var ótrúlegt hvað þeir þurftu að hafa samband út af smáatriðum en svona er kerfið þarna.

Ældi grænu tei
Í einni af þessum ferðum var mér boðið um borð í 3500 tonna verksmiðjuskuttogara og varð ég alveg gáttaður á sóðaskapnum sem virtist viðgangast þar um borð. Var ég með svo mikla klígju þegar við, að lokinni skoðun á skipinu, settumst niður í skipstjóraíbúðinni að þegar þetta japanska te, grænt að lit, sem okkur hafði verið boðið, fór inn fyrir mínar varir þá gubbaði ég hreinlega af viðbjóði.
Skipshafnir beggja skipanna komu síðan í desember og var gaman að sjá breytingarnar sem urðu á hótelinu við að gestum fjölgaði úr þremur upp í tuttugu manns. T.d. barinn, lítill og notalegur, þar voru alltaf flöskur með hinum ýmsu víntegundum í hillum fyrir ofan en eftir nokkurra daga dvöl alls skarans var farið að hafa sumar tegundir í kassavís á barborðinu en mest var notað af hinu frábæra Suntory Whisky.

Jólahald í Japan
Það var nóg að gera þegar við fórum að fara yfir lista þá sem tilheyrðu öllum þeim varahlutum sem fylgdu skipunum og koma þeim síðan fyrir í geymslum skipsins. Halldór S. Magnússon og kona hans, Kristín Bjarnadóttir, höfðu komið út um leið og skipshafnirnar en Halldór var formaður FJAS, það er að segja félagsins sem þessi 9 félög sem voru að láta smíða japanska skuttogara, stofnuðu til að fylgjast með hagsmunum sínum og starfar það félag enn í dag. Hafði þeim verið boðið af félaginu. Halldór var jafnframt einn eiganda í Berg h/f. Kristín tók að sér að hjálpa Mömmu san að útbúa jólaborðið og var hafður kalkún og grjónagrautur með möndlu í. Það var sest að jólaborði kl. 18:00 að staðartíma en þá var kl. hér á Íslandi 09:00 að morgni aðfangadags, þannig að við tókum forskot á jólasæluna.

Dolli stýrimaður kvartaði yfir grjóti í grautnum á jólunum. Grjótið reyndist vera mandla og hér færir útgerðarmaðurinn honum möndlugjöfina.


Þorleifur Björnsson 1. stýrimaður á Vestmannaey sat við hlið mér við jólaborðið. Þegar hann var að borða grautinn segir hann við mig; „Hver andsk.. það eru steinar í þessum graut.“ Var hann þá kominn með möndluna upp í sig. Afhenti Kristinn honum þá verðlaun, stóran konfektkassa. Eftir matinn fóru nokkrir í katólska kirkju og hlýddu þar á messu. Hvað þeir, sem þangað fóru skildu mikið af því sem fram fór þar, verður ekki reynt að skilgreina hér, en flestir fóru nú bara niður í bæ til að heimsækja öldurhúsin því hjá Japönum eru jólin tími til að skemmta sér svo við gerðum það bara Iíka. Okkur fannst það furðulegt að þeir Pabbi san og tengdasonurinn fóru saman út einu sinni í viku hverri og alltaf með nýjum dömum sem þeir komu með og kynntu fyrir okkur áður en þeir fóru út. Á meðan voru eiginkonur þeirra að uppfarta okkur. Það kom svo fyrir að við hittum þá á skemmtistöðum og aldrei voru þeir með sínum ektakvinnum, svo þarna passaði vel máltækið: „Sinn er siður í landi hverju.“ Eftir jólin fór að sjást fyrir endann á byggingu skipanna. Við fórum snemma morguns frá Muroran í svokallaða veiðarfæraprufu, allir Íslendingarnir sem voru úti fóru með. Það var siglt fjóra tíma í suðaustur, kastað þar á 250 fm. togað í klukkustund, híft, afli sáralítill en allt reyndist í fullkomnu lagi.
Síðan var haldið í land aftur. Hann var duglegur skipstjórinn í þessari ferð, frekar smávaxinn Japani. Hann stóð allan tímann á upphækkun við stýrið þar til skipið hafði verið bundið við bryggju aftur.

Ein geishan komst ekki með
Nú fóru þeir að snurfusa allt og klára að mála það sem eftir var. Fimmtudaginn 28. desember 1972 kl. 18.00, Vestmannaey VE 54 afhent Berg-Hugin s/f. Jafnframt skráð 10 manna áhöfn á skipið, sem var eftirtalin:
1. Eyjólfur Pétursson skipstjóri.
2. Þorleifur Björnsson 1. stýrimaður.
3. Sverrir Gunnlaugsson 2. stýrimaður.
4. Örn Aanes 1. vélstjóri.
5. Símon Waagfjörð 2. vélstjóri.
6. Ólafur K.Tryggvason 3. vélstjóri.
7. Páll Grétarsson matsveinn.
8. Magnús Kristinsson háseti.
9. H. Suzuki eftirlitsmaður.
10. N.Chikamochi eftirlitsmaður.

Var síðan eftir þetta haldið áfram við að koma öllu því, sem skipinu tilheyrði fyrir, þannig að menn höfðu yfirdrifið nóg að gera og viti menn, þarna kom lyfjakistan fram sem tekin var af okkur í New York.

Séð gegnum toggálgann yfir skipasmíðastöðina.


Þann 31. desember 1972 kl. 14.40 er verið var að leysa landfestar í Muroran til að byrja á hinni löngu siglingu til Íslands, birtist gullfalleg japönsk stúlka með tösku en þar sem landgangur og allir endar voru lausir og skipið byrjað að bakka frá, komst hún ekki með, einum manni á skipinu til mikillar ánægju, svo eitthvað höfðu sumir greinilega verið að dufla þennan tíma í Muroran.
Mér hafði verið sagt áður en við létum úr höfn að fellibylur geisaði austur af Japan svo við skyldum sigla SA eftir í ákveðinn punkt og taka síðan stefnuna þaðan til Honolulu sem er á eyjunni Oahu sem er í Hawaiian eyjaklasanum.
Þetta gerðum við en lentum samt sem áður á þessum fellibyl. Það sem á okkur dundi var nú bara svona venjuleg bræla en nóg til þess að ýmislegt fór úr skorðum um borð í skipunum, og held ég satt að segja að flestir okkar hafi fundið fyrir sjóveiki. Við sigldum svo áfram á 12 sml. meðalhraða. Tímamunur í Japan er plús 9 tímar miðað við G.M.T. en íslenska klukkan gengur eftir G.M.T. og vegna þess að við sigldum austlæga stefnu þá urðum við að passa að fylgja tímanum rétt eftir þannig að þegar við fórum 157 og 1/2 gráðu austur þá flýttum við klukkunni fyrst um eina klst. þannig að ZT- var orðinn plús 10 tímar. Síðan skeði þetta á þriggja daga fresti að klukkunni var flýtt um eina klst í senn.

8. janúar tók tvo daga
Fyrstu daga ferðarinnar var lofthiti þetta +8 til + 10 gráður en ekki höfðum við siglt nema í 5-6 daga þegar hitinn var kominn í +20 gráður og sjávarhitinn í það sama. Það hafði verið útbúin lítil laug aftast á trolldekkinu til að við gætum kælt okkur þegar hitna færi í veðri og var þessi laug mikið notuð milli þess er menn lágu í sólbaði á frívöktum sínum. Það var svo mánudaginn 8. janúar 1973 er við höfðum verið á siglingu í rétt rúma 8 sólarhringa frá Japan að við sigldum kl. 18.00 yfir 180 gráðu bauginn og ákváðum við Dolli stýrimaður að bíða fram að miðnætti með að flýta klukkunni. Nú um miðnættið flýttum við svo klukkunni um eina klst. en seinkuðum henni jafnframt um einn sólarhring þar sem ZT- var orðinn plús 12 tímar og vorum við þar af leiðandi orðnir með ZT-mínus 12 miðað við G.M.T. og vorum við þess vegna tvo daga að sigla mánudaginn 8. janúar 1973.

Í Honolulu á Hawaiieyjum.

Það var siglt sunnan við kóralrifjaklasann frá Midway til Honolulu. Ljóst var nokkrum dögum fyrir komuna til Honolulu að við höfðum miður æskilegan ferðafélaga um borð en það var rotta sem var að þvælast milli þilja í íbúðum skipsins. Við höfðum hvorki gildru né eitur um borð svo við reyndum að kála greyinu með öllum ráðum en allt kom fyrir ekki. Samt héldum við að okkur hefði tekist það þar sem við urðum ekki varir við hana sem eftir var ferðarinnar.

Í prufutúrnum. Troll tekið inn í fyrsta sinn um borð í Vestmannaey.

Palli kokkur var eitt kvöldið að vaska upp inni í eldhúsi þegar hann rak upp skaðræðisöskur, hann var nefnilega með opið kýraugað og skipti engum togum að flugfiskur kom svífandi inn og beint í vaskinn, hélt Palli að þetta væri rottan. Þessi fiskar komu oft svífandi inn þar sem þeir virtust sækja í ljósin.
Föstudaginn 12. janúar, vegmælir 3588 sml. kl. 12.45 ZT mínus 10 var lagst að bryggju í Honolulu. Var stoppað þar í nákvæmlega í tvo sólarhringa þar sem áhafnir beggja skipanna gerðu sér glaðan dag og lentu menn þar í hinum ýmsu ævintýrum svo sem á tónleika hjá Kingston tríóinu og ýmislegu fleiru.
Sunnudaginn 14. janúar kl. 15.00, haldið sem leið liggur út frá Honolulu og siglt eftir landsýn og radar norðan við Molokai og Maui. Kl. 21.10 vegm. 3657, Lamaloa 90 gráður um stb. fj. 6.78 sml. stefna sett 90 gráður rv. í átt að Panama canal zone en það er skurðurinn sem aðskilur Kyrrahaf og Karabískahafið. Þarna var bjartviðri, lofthiti 25 gráður, sjávarhiti 25 gráður. Lífið gekk sinn vanagang um borð.

Fréttum af gosinu í útvarpi
Það var svo að kvöldi 23. janúar 1973 að ég var á vakt upp í brú skipsins og var að hlusta á fréttir NBC er ég heyrði að byrjað væri að gjósa í Vestmannaeyjum. Þá var ZT mínus 8 tímar svo klukkan hér heima var að morgni þess 24. janúar. Var síðan hlustað á fréttir um nóttina og eitthvað var það ofsagt á köflum en um morguninn kom svo viðtal við [[[Eiður Guðnason|Eið Guðnason]], núverandi ráðherra sem var þá fréttamaður sjónvarps hér heima og önduðu menn þá léttar þegar ljóst var að ekki höfðu orðið mannskaðar. Því hagaði svo til þarna í Kyrrahafinu að útilokað var að hafa talstöðvaviðskipti nema í gegn um V.H.F. sem ekki dregur nema um 50 sml. frá loftneti strandastöðvar en við vorum þarna um 2500 sml. frá næsta landi. Þetta setti ákveðið sjokk í ferðina. Skipið fór ekki hraðar en þessar 12 sml. fullt af olíu en bætti smám saman við ferðina þegar það léttist en fór hraðast 13,7 sml. en það skeði á báðum skipunum í Panamaflóanum enda ekki margir lítrar eftir af olíu þegar þangað var komið.
Þann 30. janúar kl. 24.00 vegm. 8373 sml. I Montuosa 66 ° rv.fj. 24 sml. Var þetta fyrsta landsýnin eftir rúmlega 17 daga siglingu á fullri ferð frá Honolulu. Þegar þarna var komið var ZT-6, sem sé 6 klst. á eftir íslenska tímanum.

Og ekki var nú aflinn neitt til að hrópa húrra fyrir. Meira máli skipti að allt virtist fúnkera á réttan hátt.

Fjórar járnbrautir gegnum Panamaskurð
Fimmtudaginn 1. febrúar eftir 18 daga siglingu var lagst við stb. akkeri kl. 01.15 á akkerisplássinu fyrir utan Balboa en það er bærinn Kyrrahafsmegin í canal zone. Um morguninn komu um borð menn til að skoða fastsetningapolla og klussin þar sem bannað var að nota skrúfu skipsins meðan farið yrði í gegn um skipastigana en fyrir svona lítið skip eins og Vestmannaey sögðu þeir mér að fjórar járnbrautir mundu duga til að draga hana í gegn. Ekki skildi ég nú vel hvað þeir áttu við fyrr en skipið kom að fyrsta þrepinu en kl. 14.00 kom svo lóðsinn og var siglt eftir leiðsögn hans að skurðinum og þegar þangað var komið þá voru tvær járnbrautir á hvorum bakka sem settu í okkur víra til að taka slaka af vírunum og héldu þær síðan skipinu alltaf í miðju stiganna. Gekk mjög vel að pumpa skipið upp þrep eftir þrep þangað til að komið var upp í skurðinn. Skurðurinn, sem er 81.6 km langur, liggur þvert yfir Panama-eiðið, hefur þrjú lokuhólf við hvorn enda. Hann er grafinn frá hvorum enda upp í vötn sem þarna eru og er stærst þeirra Gatúvatn. Þarna ráða Bandaríkjamenn 8 km ræmu sitthvoru megin við skurðinn en þeir luku gerð hans 1914 og held ég að fólk geri sér ekki grein fyrir hvers lags gífurlegt mannvirki þetta er nema að sigla í gegn um hann. Þegar Vestmannaey stóð í efsta þrepinu ofan við Limon flóa, sem Cristóbal og Colon standa við, var komið myrkur. Varð mér á að hugsa þegar ég horfði niður brekkuna ef eitthvað mundi nú klikka þá þyrftum við ekki að nota vélarafl yfir Karabískahafið. En sem betur fór klikkaði ekkert og lögðumst við að bryggju í Colon seint um kvöldið og lágum þar í tvo sólarhringa. Þarna var óþolandi heitt og rakt loftslag ca. +30° til +35°. Menn lentu þarna í ýmislegum ævintýrum svo sem að vera rændir og hundeltir af atvinnulausum vændiskonum. Kl. 17.15 haldið frá Colon áleiðis til Bermúda sem er eyjaklasi um 900 km út af Hattershöfða í Bandaríkjunum.

Í Panamaskurði. Til hægri má sjá eina af járnbrautunum fjórum sem sáu um að draga skipið og halda því á miðjum skurði.

Í Bermúdaþríhyrningnum
Mánudaginn 5. febrúar kl 18.10 ZT-5 vegmælir 9255, farið fram hjá Morant Cays á Jamaica í 6 sml. fjarlægð. Þarna var svo siglt sem leið lá norður eftir um Windward Passage sem er sundið milli Haiti og Kúbu. Þann 6. febrúar kl 18.50 vegm. 9542 sml, farið hjá Middle Pc í 1,5 sml. fjarlægð en þá sigldum við jafnframt inn í svokallaðan Bermúdaþríhyrning sem er svæði innan lína sem hugsast dregnar milli Flórída, Puerto Rico og Bermúda en þar telja margir dularfyllstu atburði hafa skeð. Seinna farið hjá nokkrum eyjum SA-lega í Bahamaeyjaklasanum.
Laugardaginn 10. febrúar kl. 08.00 ZT-4 vegm. 10436 sml, lagst að bryggju í Hamilton á Bermuda, hitastig + 21°, tókum þar olíu og vistir. Bermuda er bresk sjálfstjórnarnýlenda. Allt eru þetta kóraleyjar, mjög hreinlegar og fallegar að sjá. Við höfðum þarna stuttan stans því kl. 12.15 sama dag héldum við áfram ferð okkar til Íslands þar sem flestir voru búnir að ná sambandi við fjölskyldur sínar og heimþráin farin að segja verulega til sín.

Loksins heim
Það sem eftir var leiðarinnar gekk mjög vel. Það fór dagkólnandi eftir því sem norðar dró. Mánudaginn 18. febrúar kl. 14.50 GMT, farið hjá Garðskaga 1,5 sml. undan, siglt þaðan sem leið lá til Hafnarfjarðar sem búið var að ákveða að yrði heimahöfn skipsins til að byrja með. Kl. 18.10 lagst að bryggju í Hafnarfirði og var þar með lokið þessari löngu siglingu frá Japan til Íslands sem tók 53 daga samkvæmt leiðarbók, en 52 samkvæmt dagatali.

Stuðst við leiðarbók skipsins og dagbók undirritaðs.

Eyjólfur Pétursson, skipstjóri.