Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Athafnasamur aldamótamaður

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. febrúar 2019 kl. 13:43 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. febrúar 2019 kl. 13:43 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Aðalsteinn Jóhannsson:

Athafnasamur aldamótamaður


Höfundur þessarar greinar, Aðalsteinn Jóhannsson, er fœddur 1913 á Bolungarvík, en flyst ungur til Vestmannaeyja og verður uppeldissonur Th. Thomsen, vélsmíðameistara. Aðalsteinn lauk Iðnskóla og sveinsprófi í vélsmíði 1935 og framhaldsnámi í Danmörku 1944. Stofnaði A. Jóhannsson & Smith hf. og rekið það síðan.

Vestmannaeyjakaupstaður 1927

Tómas M. Guðjónsson var borinn og barnfæddur í Vestmannaeyjum, og þar átti hann heima alla ævi. Hann var orðinn áberandi í atvinnulífi Eyjanna, þegar ég kom þangað ungur drengur síðast á öðrum áratug aldarinnar. Hann hafði þá með höndum afgreiðslu skipa, eins og betur kemur fram síðar í þessari grein. Segja má að hann hafi borið á sér lykil Eyjamanna að „hliðum" þeirra til umheimsins. Þessu fylgdi að hann þurfti á dugandi mönnum að halda við uppskipun og affermingu flutningaskipa, en á þessum árum var atvinna oft stopul. Oft fylgdu honum því eftir hópar manna í atvinnuleit og var haft á orði hve vel honum gekk að miðla vinnunni svo þeirra á milli, að allir máttu vel við una.
Tómas fæddist 13. janúar 1887, þ.e. fyrir rúmri öld. Móðir hans var bóndakona úr Dölum, Guðríður Bjarnadóttir, Bjarnasonar, en móðir hennar hét Margrét Guðmundsdóttir. Guðríður ólst upp við þröngan kost og varð fljótt að bjargast á eigin spýtur. Guðjón Jónsson, faðir Tómasar, var ættaður úr Rangárvallasýslu en fluttist til Eyja árið 1880. Gerðist hann þar sjómaður, bátsformaður og fékkst einnig við útgerð, uns hann var skipaður hafnsögumaður. Við það starf lét hann lífið, er bát sem hann var á hvolfdi við skipshlið 13. október 1896.
Þegar Guðríður stóð uppi ein og efnalítil með tvo unga syni (Tómas var þá 9 ára) var eins og þrá hennar til sjálfstæðis færði henni aukinn kraft. Að vísu var ekki um fjölbreytt störf að ræða fyrir hana, en hún bjargaðist af þrátt fyrir erfiðleikana og kom drengjunum sínum til manns. Enda verður ekki dregið í efa. að þeir tóku til höndum við ýmis störf, sem til féllu, strax og geta þeirra leyfði.
Tómas kom fljótt víða við sögu, lagði gjörva hönd á margt. Hann stundaði sjó á æskuárum sínum og gerðist meðeigandi í útgerð. Og að þeim atvinnuvegi vann hann til hins síðasta. Enda þótt óhöpp sneiddu ekki hjá garði hans fremur en margra annarra kom fljótt í ljós að hann var hygginn vel og rasaði ekki um ráð fram. Og ef um félagsrekstur var að ræða gætti hann þess að láta þungann fyrst og fremst mæða á sjálfum sér, tók þá áhættuna af skertum hlut.
Fljótt eftir komu mína til Vestmannaeyja árið 1918 fékk ég að vita, að Tómas Guðjónsson væri einn mesti athafnamaður Eyjanna, þá liðlega þrítugur að aldri. Á því ári, þegar Ísland varð fullvalda ríki, voru líka að verða miklar breytingar í íslenskri útgerðarsögu. Vélar höfðu nú verið teknar í notkun í bátum sem hafði verið róið með árum fram að því. Tómas eygir þarna mikla möguleika eins og fleiri útgerðarmenn. Hann hafði fyrir nokkru búið sig undir þetta og lært niðursetningu og meðferð véla (síðar verður kannski tækifæri til að segja hér í blaðinu frá þessum merka þætti íslenskar útgerðarsögu). Tómas gerist mótoristi og gengur með opnum huga móti nýjum tíma.

Höfn, heimili Tómasar, ofantil við sundlaugina.

Við skipakomur til eyja frá útlöndum var það siður, að héraðslæknirinn færi um borð til að kanna heilsufar áhafnar og farþega, svo að hefta mætti eftir megni að smitandi sjúkdómar bærust í land. Ekki skal fullyrt, að það hafi alltaf tekist, en það hef ég fyrir satt, að þessi varúð hafi oft borið góðan árangur. Atvik koma upp í hugann. Árið 1924 er nær á enda runnið, þegar mikið sjóslys á sér stað við Eyjar. Fórust þar 7 manns, þ.á.m. héraðslæknirinn, en einn maður bjargaðist. Í „Öldinni okkar" segir svo um þetta:
„Það slys vildi til í Vestmannaeyjum 16. des. að róðrarbát hvolfdi með 8 manns rétt við land nálægt svonefndu Eiði, vestan við höfnina. Fórust þar 7 menn, þeirra á meðal héraðslæknirinn í Eyjum. Báturinn var á leið út í Gullfoss, sem þar lá. Var hann þá nýkominn frá útlöndum og átti báturinn að flytja lækni þeirra Eyjabúa, Halldór Gunnlaugsson, út í skipið. En rétt í því, að þeir voru að komast á flot skall yfir þá alda. sem hvolfdi bátnum og tók hún mennina með sér í útsoginu. Slysið sást frá Esju sem lá þar skammt frá og var komið þaðan til hjálpar á vélbát sem lá við skipshliðina. Einn maður náðist af kili og læknirinn náðist einnig með lífsmarki og hafði hann haldið sér uppi á sundi. Voru þeir fluttir út í Esju, en þá var læknirinn svo langt leiddur að eigi tókst að lífga hann. Valdir sjómenn höfðu verið í bátnum, er venjulega fluttu lækninn út í skip, sem frá útlöndum komu, þegar eins stóð á og í þetta sinn. Veður var hvasst á austan og stóð upp á hafnarmynnið, en þegar svo er fara skipin ekki inn, en leggjast í hlé vestan við Eiðið."
Því er sagt frá þessu slysi hér, að þarna voru Eyjamenn að vinna verk náskylt einu aðalstarfi Tómasar Guðjónssonar, skipaafgreiðslu, en ekki hélt hann sjálfur að sér höndum þennan sama dag, 16. desember. Mjög hvasst hafði verið um morguninn, en nokkuð lygndi er á daginn leið. Tvö önnur millilandaskip heldur en Gullfoss áttu eftir að koma til Eyja þennan dag. Síðdegis var ég sendur á pósthúsið. Er ég kom inn í afgreiðslusalinn var þar fátt manna, því að enn var veðrið ekki gengið niður að fullu. En skömmu eftir komu mína birtist þar gustmikill maður og segir: "Hafið þið fengið menn á flutningabátinn út í millilandaskipið?" Þeir kveða nei við. Tómas Guðjónsson segir þá fastri röddu, en sá var maðurinn: „Ég fer þá einn." Ekki vissi ég hvort hann meinti þetta fullkomlega, en raunin varð sú, að menn fengust til fararinnar, og skipin voru afgreidd.
Ekki gat ég varizt þeirri hugsun, að hér væri á ferð dæmigerður Eyjabúi, gæddur áræði og útsjónarsemi, og teldi sig geta gengið á hólm við höfuðskepnurnar, ef svo bæri undir, því að ótrúlega oft hafa Eyjamenn orðið að taka á sig mikla áhættu í daglegum störfum.
Í upphafi þessa máls var á það minnzt, hve vel Tómasi gekk að miðla vinnu milli þurfandi manna á krepputíma. Til þess bendir frásögn grandvars sögumanns míns sem var góðkunniungi Tómasar. Hann greindi frá því, að tvö skip hefðu verið væntanleg til Eyja ákveðinn dag. Falaðist hann eftir uppskipunarvinnu við þau hjá Tómasi. Var það auðsótt mál í sambandi við fyrra skipið. Sú vinna stóð u.þ.b. hálfan daginn. Átti þá að byrja að losa hitt skipið, og vonaðist sögumaður eftir að vera ráðinn áfram við það, því nóga hafði hann þörfina fyrir skildinginn. Kom hann aftur að máli við Tómas þar að lútandi, en svar hans var neikvætt. Tómas sagðist vera fyllilega ánægður með störf hans, en sjálfum væri honum kunnugt hvað ástæður væru slæmar víða, því að hann hefði kynnt sér hagi manna á staðnum, Hann yrði því að breyta til og láta aðra komast að við seinna skipið. Sögumanni mínum fannst þetta sanngjarnt og skildu þeir sem góðir kunningjar áfram.
Á þessum árum eru Vestmannaeyjar í hröðum vexti, byggjast mikið upp frá nágrannasveitunum undir Fjöllunum. Fljótshlíð og Landeyjum. Hafnaraðstaða var þar allt önnur og betri heldur en hafnlaus strönd sveitanna. Hinir aðfluttu Eyjabúar höfðu mest eigin dugnað á að treysta, því að skotsilfur var lítið hjá flestum þeirra. Upp í hugann kemur erindi úr aldamótaljóði Einars Benediktssonar:

Sá veglegi arfur hvers Íslendings þarf
að ávaxtast gegnum vort líf og vort starf
sem sterkasti þáttur alls þjóðarbandsins
við þrautirnar stríðu og lífskjörin blíð.
Lát fyllast hljóm þeirra fornu strengja,
lát frumstofninn haldast, en nýtt þó tengja
við kjarnann, sem stóðst, svo að kyn vort ei hvarf
sem korn eitt í hafi sandsins.
Fegurra mál á ei veröldin við,
né varðveitt betur á raunanna tíð;
og þrátt fyrir tízkur og lenzkur og lýzkur
það lifa skal ómengað fyrr og síð.

Án þess að týnast einkenni og þjóðerni mannsinns,
án þess glatast metnaður landsins.

Lagarfoss á leið út úr Vestmannaeyjahöfn.

Um langt árabil var á heimili Tómasar vertíðarfólk, sem naut þar bezta atlætis, og sumir voru jafnvel „innlimaðir" í fjölskylduhópinn.

Þá taldi Tómas að hann hefði verið einstaklega heppinn með formenn á báta sína, þeir hefðu haft hin ágætustu tök á starfi sínu, verið útsjónarsamir með afbrigðum, þannig að bæði aflamagn og nýtni var með því besta sem þekktist.
Gott vinfengi var með Tómasi og fóstra mínum. Th. Thomsen vélsmíðameistara. sem fannst mikið til um dugnað Tómasar og árvekni. Átti fóstri minn margar góðar minningar um Tómas Guðjónsson.
Þrír synir Tómasar af fyrra hjónabandi urðu allir vinir mínir og þá sérstaklega jafnaldri minn. Hannes stýrimaður, sem er heitinn eftir afa sínum. Hannesi lóðs, sem var frægur maður í Eyjum á sínum tíma.
Í lok þessarar greinar um heiðursmanninn. Tómas M. Guðjónsson skulu tilfærð ummæli vinar hans. Jóhanns Þ. Jósefssonar. þingmanns Eyjamanna um langan aldur og sjávarútvegsráðherra um skeið. Ummælin birtust í minningarorðum, sem rituð voru í Morgunblaðið 15. júlí 1958. en Tómas hafði orðið bráðkvaddur mánuði fyrr. Eru því senn liðin rétt 30 ár frá andláti hans. Þar segir m.a:
"Við Tómas höfðum frá æskuárum náin kynni hvor af öðrum og alla tíð til dauðadags hans. Við sættum svipuðum örlögum í æsku vegna ástvinamissis og urðum báðir hvor í sínu lagi mjög ungir að leggja fram alla krafta okkar í þágu heimila okkar til stuðnings mæðrum okkar, þegar hafið hafði hrifið til sín feðurna. Í þessu sem öður var Tómas einskis manns eftirbátur. Hann gerðist sjómaður á unga aldri og varð "háseti snemma harður og snar/við hryðjur vos og svakk" eins og segir í kvæðinu um Þorgeir í Vík. En Tómas lét ekki lengi við það sitja að vera háseti, hann varð brátt formaður á vélbát og eigandi að sínum parti. Útgerð rak hann síðan ásamt öðrum störfum alla ævi og alltaf af góðri fyrirhyggju og mesta myndarskap.
Annars vann hann verzlunarstörf og að skipaafgreiðslu, sem hann hafði með höndum til æviloka, fyrst í annarra þjónustu, meðan hann var starfsmaður hjá Gísla J. Johnsen konsúl, en síðan fyrir eigin reikning og tókst jafnan vel, þótt oft væri við ramman reip að draga meðan vöru- og póstskip varð að afgreiða fyrir opnu hafi, oft í vondum veðrum. Kom honum þá mjög að haldi hin meðfædda kunnátta til sjós og reynsla hans sem bátsformanns.

Tómas M. Guðjónsson.

Tómas Guðjónsson var maður félagslyndur og ötull við hvert það starf, sem hann tók sér fyrir hendur, hvort heldur einn eða í félagi með öðrum.
Hann var traustur fylgismaður allra helztu framfaramála, sem Vestmannaeyingar komu á fót eftir aldamótin, til þess að treysta atvinnulífið, og starfaði að þessum hugðarefnum sínum til æviloka. Þegar Björgunarfélag Vestmanneyinga var stofnað var hann frá upphafi ein af sterkum stoðum þess félagsskapar. Í stjórn Lifrarsamlagsins var hann áratugum saman og reyndist þar tillögugóður og forsjáll, eins og vænta mátti. Af Olíusamlagi Eyjamanna hafði hann frá byrjun og alla tíð, meðan kraftar leyfðu, hin farsællegustu afskipti. Munu hér þó ekki talin öll þau trúnaðarstörf er Tómasi voru falin, því að þau voru mörg, en góður málstaður átti sér vísan stuðning hvarvetna þar sem hann var. Í félagsskap Oddfellowa í Eyjum var hann áhugasamur meðlimur allt frá því að félagið var stofnað og til dauðadags.
Í ágætri minningagrein um Tómas, er birtist í Vestmannaeyjablaðinu Fylki 27. júní, segir ritstjóri m.a: "Ef leitast væri við að finna Tómasi M. Guðjónssyni stað í sögu Vestmannaeyja 110 mundi hann hiklaust verða settur á bekk með þeim mönnum, sem stundum eru nefndir alda mótamenn, þ.e. þeir sem voru ungir og fullir starfsorku og starfsþrár í dögun íslenzks sjálfstæðis.
Það voru einmitt þeir ungu menn, sem sýndu, svo að ekki varð um villzt, að Íslendingar gátu vel staðið á eigin fótum og höfðu hug og dug til að afla sér þeirra tækja, sem þurfti til að sækja björgunina, leggja grunninn að þeirri framtíðarhöll, sem allir þráðu að risi sem fyrst af grunni, frjálst land, sjálfstæð þjóð. Þeim fækkar nú óðum, sem þátt tóku í því grundvallar starfi. En starf þeirra verður til eftirbreytni ungum framfarasinnuðum mönnum á öllum tímum, það verður niðjunum hvöt til að feta dyggilega í fótsporin. Tómas M. Guðjónsson skilaði miklu dagsverki.
Nú þegar því er lokið ber að þakka öll störf Tómasar, unnin af trúmennsku og ríkri réttlætiskennd. Við eigum á bak að sjá hjartaprúðum dreng, góðri og göfugri sál, sem ávallt var reiðubúinn til að rétta hönd, þar sem þörf var á hverjum tíma".

Uppskipunarbátarnir spiluðu stórt hlutverk í allri útskipun og uppskipun, þangað til farmskip gátu lagst að bryggjum í Eyjum.


Frá árinu 1952 var Tómas skipaður konsúll Danmerkur í Vestmannaeyjum og var hann í því starfi sem öðru samvizkusamur og mjög vel látinn og naut góðs álits danska sendiráðsins hér.
Tómas var tvíkvæntur. Var fyrri kona hans Hjörtrós, dóttir Hannesar hafnsögumanns Jónssonar á Miðhúsum og Margrétar Brynjólfsdóttur frá Norðurgarði í Eyjum, en Hjörtrós lézt árið 1926. Síðari kona Tómasar, Sigríður Magnúsdóttir frá Brekkum í Oddasókn á Rangárvöllum, lifir mann sinn. Tómas var jarðsunginn í Landakirkju í Vestmannaeyjum 21. júní og var svo mikið fjölmenni þar saman komið, að kirkjan tók langt frá því allan þann mannfjölda. Sýnir þetta hinar miklu almennu vinsældir hins látna og hluttekningu Eyjamanna við fráfall þessa þrautreynda forustumanns þeirra á ýmsum sviðum."
Þannig skrifar Jóhann Þ. Jósefsson, vinur og samstarfsmaður Tómasar M. Guðjónssonar, um athafnamanninn, sem hann þekkti frá fyrstu tíð og kunni að meta. Báðir þessir látnu ágætismenn reistu sterkar stoðir undir velferð Vestmanneyinga og sjálfstæði þjóðarinnar í heild.