Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1953/ Ávarp ritstjóra

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. desember 2017 kl. 20:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. desember 2017 kl. 20:15 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Ávarp ritstjóra


Rúmlega ár er nú liðið síðan hin nýja landhelgislína okkar Íslendinga gekk í gildi. Enda þótt við Vestmannaeyingar hefðum óskað, að lengra væri gengið og þá sérstaklega að meira af fiskimiðum okkar vestan eyjanna hefðu orðið innan hinnar nýju línu, þá fögnum við því, sem áunnizt hefur og vœntum þess, að hvergi verði gefið eftir af okkar rétti, Íslendinga. Vertíðin í vetur hefur að mörgu leyti orðið erfið og afli líklega misjafnari en nokkru sinni fyrr og bátarnir, sem áður stunduðu dragnótaveiði, en nú tóku upp veiðar með línu og net, munu nær allir hafa skilað eigendum sínum og skipshöfnum mjög rírum hlut og víða er um mikinn taprekstur að ræða. Aðkomubátar voru hér fleiri en áður hefir verið og jók það á þrengsli í höfninni og var þó tæplega á bætandi.
Hafnarmálið hefir verið og er enn mál málanna hér í Vestmannaeyjum. Bátar urðu að bíða tímum saman eftir afgreiðslu vegna ónógs athafnasvæðis við bryggjur og segja má að hrein heppni hafi ráðið, að ekki skuli hafa orðið stórtjón á bátum í höfninni vegna þess að algerlega ófullnægjandi skilyrði eru til að binda bátana.
Allt eykur þetta stórlega á erfiði sjómannanna og fyrr eða síðar verður stórtjón af, ef úr verður ekki bætt.
Vestmannaeyjahöfn verður að gera stórt átak. Framkvæmdir fyrir nokkur hundruð þúsunda króna á ári duga skammt og gera ekki meira en ef þær nægja til að ástandið versni ekki frá því sem nú er. Sjómenn og útvegsmenn verða að gera þetta mál að máli málanna og linna ekki fyrr en sigur vinnst. Á sjómannadaginn hefur sjómönnum verið óspart hælt á undanförnum árum og valdhafarnir hafa gefið loforð um að gera þetta og hitt þeim til hagsældar, en minna orðið úr framkvœmdum. Sjómannastétt Vestmannaeyja verður að krefjast loforða og efnda í hafnarmálinu. Umbœtur í höfninni þola enga bið, og yfirvöld hafnar og ríkis verða að skilja, að allur dráttur er til tjóns, ekki aðeins fyrir sjómannastétt Eyjanna, heldur fyrir bæjarfélagið í heild sinni og þjóðarbúið allt.

P.Þ.