Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Lifrarsamlag Vestmannaeyja 50 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. ágúst 2017 kl. 10:50 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. ágúst 2017 kl. 10:50 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Arnar Sigurmundsson


Lifrarsamlag Vestmannaeyja 50 ára
Arnar Sigurmundsson

Eitt elsta og merkilegasta fyrirtæki í sjávarútvegi í Eyjum áttí 50 ára afmæli 7. desember 1982. Hér er um að ræða Lifrarsamlag Vestmannaeyja sem starfað hefur samfellt í hálfa öld. Afmælisins var hátíðlega minnst á aðalfundi samlagsins 11. desember 1982. Þá birtust greinar um Lifrarsamlagið 50 ára í jólablaði Fylkis 1982 og 2. tbl. Ægis 1983, tímarits Fiskifélags Íslands. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja bað undirritaðan að segja í nokkrum orðum frá starfsemi Lifrarsamlagsins í 50 ár og helstu framtíðardraumum stjórnenda fyrirtækisins.

Stofnfundur Lifrarsamlagsins
Það var einkum tvennt sem átti stóran þátt í stofnun Lifrarsamlags Vestmannaeyja 7. desember 1932.
Í fyrsta lagi var mikil mengun af starfsemi lifrarbræðsluskúra útvegsbænda sem staðsettir voru víðsvegar nálægt hafnarsvæðinu og neðstu íbúðarhúsum í bænum. Höfðu komið fram háværar kröfur um flutning á lifrarbræðsluskúrunum vestur í hraun fyrir sunnar Torfmýrina. Stóðu mál þannig þegar Útvegsbanki Íslands hf. varð eigandi að fiskimjölsverksmiðjunni Heklu eftir gjaldþrot verksmiðjunnar í kreppunni.
Eftir að ljóst var að bankinn var tilbúinn að útvega fjármagn til breytinga á fiskimjölsverksmiðjunni í fullkomna lifrarbræðslustöð og selja hana þannig fullbúna var boðað til stofnfundar til að koma á fót lifrarsamlagi fyrir Vestmannaeyjar. Á stofnfundinum 7. desember 1932 var samþykkt með atkvæðum 72 útvegsbænda að stofna Lifrarsamlag Vestmannaeyja. Formaður stjórnar var kjörinn Jóhann Þ. Jósefsson alþm.

Ljósmynd af málverki Engilberts Gíslasonar frá fyrstu starfsárum samlagsins.

Rekstur í hálfa öld
Fyrsta starfsár samlagsins var 1933. Í vertíðarbyrjun hafði samlagið nokkra bræðsluskúra á leigu, en flutti í verksmiðjuna seinni hluta vertíðar. Þar hefur samlagið verið til húsa síðan. Var þá búið að búa bræðsluna fullkomnum tækjum á þeirra tíma mælikvarða. Síðar var svokallað „stálhús" byggt, en þar er niðursuðuverksmiðja samlagsins til húsa. Stálhúsið var nauðsynlegt þar sem lýsið var sett á tunnur og þannig flutt úr landi til erlendra kaupanda.

Úr kaldhreinsuninni, hluti af búnaði

Þá eignaðist samlagið á fyrstu starfsárum sínum lifrarbræðsluhús sem stóð fyrir vestan „stálhúsið". Er húsið nú leigt fyrir umbúðarlager frystihúsanna.
Stáltankar undir lýsi voru reistir löngu seinna, en mikið tankarými var nauðsynlegt þegar mikil framleiðsla var, og stundum gekk illa að selja lýsið, einkum á sjöunda áratugnum.
Nú kemur sér mjög vel að hafa mikið tankapláss eftir að farið var að kaldhreinsa lýsi í samlaginu á sl. ári.
Í rekstri samlagsins hafa skipst á skin og skúrir eins og í öðrum rekstri í sjávarútvegi á Íslandi. Komið hafa góð ár með mikilli framleiðslu og háu lýsisverði. Þá hafa komið ár með minni lýsisframleiðslu og lágu heimsmarkaðsverði á lýsi.

88 þúsund tonn af lifur
Á þeim 50 árum sem samlagið hefur starfað hefur það tekið á móti 88.069 tonnum af lifur í vinnslu. Lýsisframleiðslan úr þessu lifrarmagni er 52.262 tonn.
Nýting á lifur í lýsi hefur að meðaltali í 50 ára starfsemi verið rétt tæp 60%. Lýsisframleiðslan hefur yfirleitt verið seld á Evrópumarkað, en kaupendum á ókaldhreinsuðu lýsi hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Var það ein af meginástæðum þess að ráðist var í stofnun hlutafélags um frekari vinnslu á lýsi í árslok 1981, með aðilum á Ólafsvík, Patreksfirði og Reykjavík.

Úr niðursuðuverksmiðjunni, unnið við niðursuðu á síld

Bræðsla, kaldhreinsun og niðursuða
Nú er rekstri Lifrarsamlagsins þannig háttað að stærsti hluti allrar lifrar er bræddur í samlaginu, og því nær allt magnið yfir vertíðina.
Skiptist framleiðslan í meðalalýsi og lútlýsi. Á síðasta ári var hafin kaldhreinsun á lýsi í húsnæði samlagsins á vegum Lýsisfélagsins hf., en Lifrarsamlagið er stærsti eigandi þess fyrirtækis. Auk kaldhreinsunar á lýsinu hér kemur lýsi frá bræðslum á Patreksfirði og Ólafsvík hingað í vertíðarlok.
Vinna við kaldhreinsunina krefst ekki mikils mannafla, en hún tekur langan tíma, og skapar vinnu fyrir starfsmenn frá vertíðarlokum í maíbyrjun út árið.

Núverandi stjórn Lifrarsamlagsins ásamt greinarhöfundi. Talið frá vinstri: Magnús Kristinsson, útgm., Óskar Matthíasson, útgm., Arnar Sigurmundsson, skrifststj., Haraldur Gíslason, frkvstj. og formaður stjórnar, Stefán Runólfsson, frkvstj., og Einar Sigurjónsson, frkvstj

Fer kaldhreinsaða lýsið á Evrópumarkað, og er yfirleitt flutt úr landi í 18 tonna lýsisgámum. Þá hefur Lýsisfélagið selt fóðurlýsi á 5 ltr. brúsum til Búvörudeildar S.Í.S. og Mjólkurfélagsins í nokkrum mæli, en bændur kaupa lýsið af ofangreindum aðilum fyrir bú sín.
Ljóst er að leggja verður áherslu á frekari vinnslu lýsis í framtíðinni, og væntir Lifrarsamlagið góðs samstarfs við meðeigendur í Lýsisfélaginu hf., en auk bræðslnanna á Ólafsvík og Patreksfirði er Pétur Pétursson í Reykjavík eigandi; hann hefur mikla og góða reynslu í sölu lýsisafurða á erlendum mörkuðum.
Niðursuðuverksmiðja samlagsins hefur nú starfað í þrjú ár. Ljóst er að skapa verður verksmiðjunni fleiri verkefni, þar sem lifur kemur aðeins yfir veturinn í nægjanlegu magni til niðursuðu. En gæðakröfur til lifrar í niðursuðu eru mun meiri en í bræðslu.
Verksmiðjan hefur soðið niður lifur yfir vertíðir frá 1980 og 1982 var farið í niðursuðu á síldarflökum í sósum, auk fjölbreyttari framleiðslu á síldarafurðum. Var þessi framleiðsla sett í gang eftir markaðskannanir á vegum Sölustofnunar lagmetis.
Hefur síldarframleiðslan farið víða, m.a. á Nígeríumarkað, Evrópu og til Bandaríkjanna.
Þegar þetta er ritað er ekki vitað um viðbrögð á mörkuðum í ýmsum löndum við síldarframleiðslunni, en sumstaðar lofa viðtökur góðu, og líkar framleiðslan vel. Aftur á móti er samkeppni gífurlega hörð í niðursuðunni, og íslendingar oft í erfiðleikum með verð.
Starfsmannafjöldi í niðursuðuverksmiðjunni er um 15 manns, og var unnið í tæpa 10 mánuði á sl. ári. Er það sá vinnslutími sem nauðsynlegur er til að halda starfsfólki og gera reksturinn hagkvæman.
Í vetur fer framleiðslan á niðursoðinni lifur mest á sovéskan markað og til Tékkóslóvakíu. Þá fer einnig töluvert magn til Kanada, Hollands og Vestur Þýskalands.
Stjórnendur Lifrarsamlagsins hafa í hyggju að reyna gera rekstur sem mest samfelldan. Stærð og tækjabúnaður er hagkvæmur, en oft eru markaðir fyrir ýmsar tegundir það smáir, að stóru niðursuðuverksmiðjurnar geta ekki sinnt þeim.
Verksmiðjustjóri í samlaginu frá 1972 hefur verið Alfreð Einarsson.
Það er von forráðamanna samlagsins að framtíðin verði rekstri þess og byggðarlaginu til farsældar eins og undanfarin 50 ár.

Nýleg ljósmynd af stœrsta húsi samlagsins, bræðslunni

Arnar Sigurmundsson