Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Kapalskipið Henry P. Ladin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. júlí 2017 kl. 14:13 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. júlí 2017 kl. 14:13 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson


Kapalskipið Henry P. Lading


Þetta skip á mikilvægan og sögulegan sess í sögu Vestmannaeyja. Það var sérstaklega útbúið og því breytt vegna framleiðslu og lagnar vatnsleiðslu frá fastalandinu og út til Vestmannaeyja árið 1968.

Lögn vatnsleiðslna milli lands og Eyja.
Vatnsleiðslurnar sem liggja á milli lands og Eyja voru framleiddar af verksmiðju fyrirtækisins Nordisk Kabel og Traadfabrik (NKT) í Kaupmannahöfn sem sá einnig um útlögn leiðslunnar. Þetta eru sérstaklega vandaðar leiðslur. Vatnsleiðslan sem var lögð sumarið 1968 er 4 tommur í bvermál, en leiðslan sem var lögð árið 1971 er 6 tommur í þvermál fyrstu 3 kílómetrana, en síðan stækkar leiðslan í 7 tommu þvermál.
Leiðslan er þannig framleidd vegna þess að 7 tommu leiðslan þoldi ekki svo mikinn þrýsting nærri landi. Þetta eru plastleiðslur úr 11,4 mm hörðu plasti (plast polyethylen), en utan um plastleiðsluna eru vafin fjögur lög af sinkuðum stálplötum, lérefti og tjörubornum striga, síðan er leiðslan vafin með 6 mm stálþráðum (armeringu) og asfaltstriga sem tæringavörn utan og innan við stálbræðina Leiðslurnar liggja frá Bakkafjöru, austan við Ingimundarklakk og vestan við Kúksklakk, Ellirey og Bjarnarey og inn Víkina. Síðasta spölinn inn Leiðina var sprengdur skurður í gegnum móhellu. Þegar Henry P Lading var kominn inn fyrir Hringskersgarðinn á móts við gamla Kornhúsið var drjúgur endi dreginn upp í Skansfjöruna.
Hvor leiðsla er 12,9 kílómetrar á lengd. Samanlagt flytja þessar tvær vatnsleiðslur um 5.000 tonn af vatni á sólarhring.

Framleiðsla og lögn vatnsleiðslnanna 1968 og 1971
Mikill vatnsskortur var í Vestmannaeyjum í upphafi árs 1965 og hinn 28. janúar 1965 samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyja að láta gera kostnaðaráætlun um lagningu vatnsleiðslu frá fastalandinu út til Eyja.
Hinn 25. júní 1965 var sambykkt með öllum atkvæðum bæjarstjórnar að leggja vatnsveitu frá landi. Framkvæmdir hófust árið 1966 og var ákveðið að virkja tvær vatnslindir í landi Syðstu-Merkur sem eru í 220 metra hæð yfir sjávarmáli og gefa 70 lítra á sekúndu.
Árið 1966 var gerður samningur viö Nordisk Kabel & Traadfabrik (NKT). Framleiðsla vatnsleiðslunnar og útlögn var algjör frumraun þessa merka og gróna fyrirtækis.
Neðansjávarleiðslan á milli Vestmannaeyja og fastalandsins var fyrsta neðansjávarvatnsleiðsla sinnar tegundar í heiminum.
NKT flutti verksmiðjuna sem framleiddi vatnsleiðsluna niður að höfhinni í Kaupmannahöfn.
Síðan keypti fyrirtækið gamalt olíuflutningaskip, sem átti að fara í brotajárn, Esso Kobenhavn, sem sést hér á mynd. Úr framhluta olíuflutningaskipsins var síðan byggt kapalskipið Henry P Lading og á mitt skipið sett heljar mikið kefli eða rúlla. Vatnsleiðslan var síðan eftir því sem framleiðslunni miðaði áfram vafin beint frá verksmiðjunni upp á keflið.
Dráttarbáturinn Frigga frá björgunarfélaginu Switzer dró Henry P Lading yfir hafið frá Danmörku og komu skipin með vatnsleiðsluna upp til Íslands í júlímánuði 1968.
Fyrri vatnsleiðslan (4"- leiðslan) var lögð út frá Bakkafjöru 17. og 18. júlí 1968 og hófst útlögn frá sandinum klukkan 21:00 að kvöldi 17. júlí. Þá hafði leiðslunni um daginn verið fleytt frá Henry P Lading á tunnum í land og dregin talsvert upp fyrir fjörukambinn. Hafnsögu- og dráttarbáturinn Lóðsinn frá Vestmannaeyjum og Frigga drógu Henry P. Lading frá sandinum yfir Eyjasund og til Eyja. Klukkan um þrjú um nóttina (02:50) 18. júlí í fögru sumarveðri með þokuslegin fjöll, var lögninni lokið og Henry P Lading lagðist við Nausthamarsbryggjuna.
Hinn 20. júlí fór Fjallavatnið úr vatnslindum Syðstu-Merkur að streyma til Vestmannaeyja. Þetta var söguleg stund og lauk þar með aldagömlum vatnsskorti í Eyjum sem oft höfðu fylgt miklir erfiðleikar. Þessari útlögn fyrstu vatnsleiðslunnar á milli lands og Eyja sumarið 1968 var lýst nákvæmar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 2000. Síðari vatnsleiðslan (6"II" leiðslan) var lögð 18. júlí 1971. Í eldgosinu 1973 rann hraun yfir þá leiðslu og skemmdi hana. NKT sendi þá kapalskipið Henry P Lading til Vestmannaeyja og skeytti nýjan bút við vatnsleiðsluna í febrúar 1974.

Ný vatnsleiðsla milli lands og Eyja
Það er vitað mál að vatnsleiðslurnar milli lands og Eyja gegna svo mikilvægu hlutverki í lífi Eyjanna að ólíklegt er að byggð hefði komist þar á svo fljótt aftur eftir eldgosið og allar þær hremmingar sem því fylgdu árið 1973 og næstu árin á eftir, ef gott og heilnæmt neysluvatn hefði ekki verið komið til Vestmannaeyja. Við alla fiskvinnslu og þá sérstaklega loðnuvinnsluna er t.d. höfuðatriði að hafa nægilegt vatn.
Vatnsleiðslurnar milli lands og Eyja eru því sannkallaðar lífæðar Vestmannaeyja. Á undanförnum árum hafa komið upp bilanir á vatnsleiðslunum, sérstaklega á vatnsleiðslunni sem var lögð árið 1971, 7 tommu leiðslunni sem flytur meginhluta vatnsins.
Hitaveita Suðurnesja h.f. (HS) sem nú á og sér um rekstur Vatnsveitu Vestmannaeyja og þar með viðhaldi vatnsleiðslnanna ákvað því sumarið 2006 að hefja undirbúning að kaupum og lögn nýrrar neðansjávarvatnsleiðslu á milli lands og Eyja.
Sjómælingar Íslands unnu við sjómælingar við Eyjarnar sumarið 2006 með fjölgeislamæli og einum fullkomnustu sjómælingatækjum sem til eru í heiminum í dag. Árangurinn er eftir því og stórkostlegt að sjá svo greinilega sjávarbotninn. Hitaveita Suðurnesja samdi við Sjómælingar Íslands um afnot af kortunum og að setja út legu leiðslunnar og gera hnitaskrá.
Á haustdögum 2006 var auglýst forval og verkið boðið út. Tvö fyrirtæki, NKT og Íslenskir Aðalverktakar, skiluðu inn gögnum. Ákveðið er að fyrirtækið JD-Contractor ApS í Holsterbro í Danmörku, sem var eitt sinn deild innan NKT, leggi vatnsleiðsluna sumarið 2008 og verður hún 8 tommur í þvermál.

Sagan á bak við kapalskipið Henry P. Lading
Elsta útgerðarfélag í Danmörku sem sneri sér einvörðungu að útgerð olíuflutningaskipa var „Det Danske Petroleums Aktieselskab“ (DDPA) sem var stofnað 2. apríl 1889. Útgerðarfélagið var stofnað af þremur kaupmönnum sem versluðu með steinolíu. Strax árið 1889 var samið um smíði olíuflutningaskips við skipasmíðastöð Burmeister & Wain sem var þekkt skipasmíðastöð í Kaupmannahöfn nær alla 20. öld. Burmeister & Wain smíðaði m.a. mörg íslensk skip eins og fyrsta skip Eimskipafélags Íslands, eldri Gullfoss, einnig Gullfoss II og flesta fossana, Goðafoss, Dettifoss, Lagarfoss (þrílembingana) eftir stríðið, varðskipið Ægi árið 1929 og fleiri skip langt fram eftir 20. öld.
Þetta fyrsta danska olíuflutningaskip var nefnt „Christine“ eftir konu eins aðalaeigandans. Skipið var 3.146 burðartonn (t.dw) og risti 19 fet, en mesta dýpi í Kaupmannahöfn og Árósum var þá 20 fet.
Skipafélagið blómstraði og eignaðist árið 1922 olíuflutningaskipið „Scandia“ sem var þá eitt af stærstu olíuflutningaskipunum sem sigldi um heimshöfm eða 11.673 burðartonn. Þetta skip var í siglingum fram til 1950.
Þegar síðari heimsstyrjöldin skall á árið 1939 tóku Bretar tvö skip félagsins, „Scandia“ og „Christian Holm“, herskildi. Þrátt fyrir hlutleysi Danmerkur sökktu Þjóðverjar einu stærsta skipi félagsins, „Danmark“ sem var 16.400 burðartonn.
Áhafnir skipa frá DDPA sem var sökkt eða hertekin fóru yfir á olíuflutningaskip ameríska útgerðarfélagsins Standard Oil og sigldu með skipum frá því félagi í síðari heimsstyrjöldinni. Eitt þeirra skipa var olíuflutningaskipið „Peter Hurli“ sem var 17.585 burðartonn. Eftir lok stríðsins árið 1945 komst þetta skip undir danskan fána og í eigu hins danska skipafélags DDPA. Skipið var þá nefnt „Esso København“.
Í desember árið 1952 varð „Esso København“ fyrir sprengingu af tundurdufli en fyrstu árin eftir stríðið lágu virk tundurdufl, segul- og hljóðdufl, mjög víða í dönsku sundunum og fórust nokkur skip af völdum þeirra. Fram yfir 1960 var í dönsku sundunum siglt eftir skipaleiðum sem voru sérstaklega slæddar af tundurduflaslæðurum danska flotans. Dönsk herskip sigldu þá með sérstakan útbúnað, rafleiðslur sem lágu eftir báðum skipssíðum í skipinu (minesikringskabler), innan við bolinn, og mynduðu þannig segulsvið sem var gagnstætt því sem var í skipinu. Enginn maður fórst á Esso København við þessa tundurduflasprengingu og skipið laskaðist ekki meira en svo að gert var við það.
Þegar „Esso København“ var lagt og skipið var komið til Óðinsvéa þar sem átti að skera það í brotajárn var skrokkurinn seldur til NKT. Skipið var bókstaflega sniðið til og framhluti „Esso København“ var notaður í kapalskipið Henry P. Lading sem hefur gegnt svo mikilvægu hlutverki við útlögn vatnsleiðslnanna á milli lands og Eyja árin 1968 og 1971 og síðan eftir eldgosið 1973 vegna viðgerðar á leiðslunni í febrúar 1974. Við útlögn næstu vatnsleiðslu, sumarið 2008, mun Henry P Lading sem er nú í eigu JD.-Contractor sem fyrr getur væntanlega koma hingað enn eina ferðina.

Guðjón Ármann Eyjólfsson
Heimildir: Grein eftir Jörgen H Jensen, "Fra malteserkors til oval -Dansk Essos historie", í siglingablaðinu Söfart, nr. 49 frá 8. desember 2006. Kœrar þakkir til Ivars Atlasonar tœknifrœðings hjá HS sem veit- ti mér allar upplýsingar um þátt HS og útvegaði myndir af vatnsleiðslunum og svæðinu vestan við Ellirey. 15