Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Fáein kveðjuorð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. desember 2017 kl. 15:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. desember 2017 kl. 15:38 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
EINAR SIGURFINNSSON:


Í Kirkjugarði hafskipa


Langt er síðan að útlendingar fóru að stunda fiskveiðar við Íslandsstrendur, og mikill er sá auður, sem þeir hafa ausið upp úr Ægisdjúpi og haft á brott.
Lengi notuðu þeir aðeins seglskip og handfæri; svo komu gufuskipin til sögunnar og botnvarpan, þetta stórvirka en varasama veiðitæki.
Mér er það minnisstætt frá bernskudögum, hversu frönsku segiskipin — skúturnar — lágu þétt undan Meðallandsfjörum, þegar á vetur leið. Þær sáust vel heiman frá bæjunum, svo langt austur og vestur sem augað eygði. Stundum skein sólin á þanin seglin. Það var bernskuhuganum eins konar ævintýr að horfa á þennan flota.
Oft vildi það til, að þessi skip bárust of nærri landi og strönduðu. Þótti það jafnan nokkrum tíðindum sæta, og margt festist í minni í sambandi við þá atburði. Gufuskipunum varð líka einatt hált á nærveru sinni við skaftfellsku brimströndina. Enda hefur hún stundum verið kölluð „kirkjugarður skipanna“.
Það var snemma árs 1912, að franskur togari strandaði á Þykkvabæjarfjöru, skammt vestar en Skaftá féll í sjó. Þetta var stórt skip, með rúmlega 30 manna áhöfn, gert út til langrar útivistar, en var ekki byrjað á veiðum, þegar því hlekktist á. Það hafði innanborðs mikið af veiðarfærum og ríflegan matarforða. Einn skipverja drukknaði í lendingu. Hinir björguðust ómeiddir og voru fluttir til bæja.
Ég átti þá heima á Efri-Steinsmýri í Meðallandi og var því ekki langt frá þessum vettvangi.
Hreppstjóri Kirkjubæjarhrepps var Björn Runólfsson í Holti. Hann hafði umsjón þessa strandaða skips í umboði sýslumanns.
Innan fárra daga var tekið til við að bjarga úr skipinu öllu lauslegu, og var ákveðið, að þeir, sem að björgun unnu, fengju einn þriðja söluverðs þess, er á land næðist bvern dag.
Helgi Þórarinsson, bóndi í Þykkvabæ, var settur verkstjóri úti á skipinu, en hreppstjóri tók á móti og skrásetti það, sem á land kom. Helgi var dugnaðarmaður, útsjónargóður og röggsamur.
Var nú gengið vasklega að verki og hröð handtök viðhöfð, því vel þurfti að nota tímann á meðan lágsjávað var. En um fjöruna var næstum þurrt að skipinu að framanverðu á milli ólaga. Mikið góss bjargaðist þennan og næsta dag, og var því öllu komið fyrir þar sem öruggt þótti fyrir sjó og vötnum til uppboðsdags. — Meðal margs annars var í skipi þessu allmikið af vínföngum, margir kassar með flöskum, sem ýmsir renndu hýrum augum til.
Þá voru bannlög í gildi á landi hér, og lagði sýslumaður, sem var Sigurður Eggerz, ríka áherzlu á, að ekkert áfengi kæmist frá borði. Sumir, sem voru að vinna um borð, reyndu að laumast með flösku á land, en Helgi hafði auga á hverjum fingri, tók vægðarlaust allt slíkt af hverjum sem var, sló flöskunum við öklustokkinn, svo „Rán“ fékk þessa dreypifórn.
Undir káetugólfinn — aftast í skipinu — voru 12 kútar eða litlar tunnur, fullar af koníaki. Þangað var safnað öllum þeim flöskum, sem heilar fundust, hlerinn negldur aftur og innsiglaður með signeti hreppstjóra.
Þessar vörur eru þarna djúpt grafnar í sandinn undir öruggri gæzlti Ægis konungs, því eftir stuttan tíma var skip þetta sokkið, svo að um vorið sást aðeins framhnýfill þess upp úr sandinum.
Heill væri það sjómannastéttinni og landslýð öllun, ef vald Bakkusar væri hvarvetna í jafntrausta fjötra fært.