Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Vitinn á Geirfuglaskeri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. janúar 2017 kl. 13:05 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. janúar 2017 kl. 13:05 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Eyjólfur Gíslason:


Vitinn á Geirfuglaskeri


Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, 15. árgangi 1966, skrifaði ég grein um byggingu Þrídrangavitans, en hér ætla ég að segja frá uppsetningu vitans á Geirfuglaskeri, því þar var ég með og ætti því að geta sagt nokkuð rétt frá, auk þess hefi ég nokkra punkta um það skrifað í gamla vasabók, sem ég styðst við.
Þegar sjómenn höfðu fengið langa og góða reynslu af öryggi Þrídrangavitans og að ekki þurfti að skipta um ljósgjafa (gashylkin) til hans nema einu sinni á ári fóru menn að tala um, að gott væri að koma svona ljósvita upp á Geirfuglaskeri og sennilega væri það framkvæmanlegt.
Þetta mál var svo tekið til umræðu á Verðandifundi og voru allir félagsmenn samþykkir því að fylgja þessu máli fast eftir og að ljósviti yrði settur upp á Geirfuglasker svo fljótt og aðstæður leyfðu. Þegar svo einn Verðandifélagi var kosinn til að mæta á Farmannasambandsþinginu í Reykjavík fyrir félagsins hönd var honum falið að bera þetta mál þar fram og fylgja því þar eftir.
Fulltrúi frá Verðandi á þessu þingi og fleirum var okkar ágæti félagi, Júlíus Sigurðsson frá Skjaldbreið, en hann þurfti ekki mikið að hafa fyrir þessu máli, því þá fyrir stuttu höfðu skipstjórnarmenn í félögum í Reykjavík samþykkt áskorun og beiðni til vitamálastjóra, að ljósviti yrði reistur á Geirfuglaskeri við Vestmannaeyjar eins fljótt og aðstæður leyfðu. Þetta mál fékk því fljóta og jákvæða fyrirgreiðslu hjá Vitamálastjórninni og 26. júní 1956 var vitaskipið Hermóður komið til Vestmannaeyja með vitahúsið fullsmíðað í heilu lagi. Og þó það væri ekki stórt um sig reyndist þó fullerfitt að draga það með handaflinu einu upp á skerið, án þess að geta komið fyrir hjólblökk til að létta mönnum dráttinn.
Vitahúsið er að utanmáli tveir metrar á hæð, 1,3 metrar á lengd og 1,1 metri á breidd. Ekki var hægt að koma fyrir í því nema gaskútum og þó húsið sé ekki stórt er það sterklega byggt og níðþungt.
Þetta erfiða verk hefði varla unnist nema fyrir það að þarna voru til átaka margir úrvalsduglegir menn. Eyjamennimir voru flestir góðir og vanir fjallamenn, en nokkrir skipverjar af Hermóði voru þeim til hjálpar.
Þar sem varð að draga húsið upp á skerið er ekkert loft svo að húsið lá fast við bergið og stoppaði því undir hverri bergnibbu og snös sem útúr því stóð. Varð því einn maður að fylgja húsinu alla leið upp á bjargbrún. Þetta erfiða og áhættusama verk tók Sigurður Jóelsson frá Sælundi að sér. Hafði hann í höndum sér um sex feta langan battingsplanka og með honum hélt hann húsinu lausu frá berginu þar sem það vildi festast. Tel ég að þá hafi Sigurður Jóelsson verið mesti fjallamaður Eyjanna og er þá mikið sagt því margir voru þar góðir. En Sigurður var mikill krafta og kjarkmaður, öruggur, fisléttur og lipur utan í bergi.
Þegar menn höfðu náð húsinu upp yfir bjargbrúnina var því velt að þeim stað þar sem það átti að standa. Hafði því verið valinn staður uppi á háskerinu þar sem ekkert skyggði á til neinna átta.
Var því næst farið að hugsa til heimferðar, enda dagur að kvöldi kominn. Hröðuðu menn sér svo niður bergið og að steðjanum þar sem báturinn lá við og beið þeirra að flytja þá út í Hermóð, sem fór svo með þá heim til Friðarhafnar og skilaði þar af sér öllum Eyjamönnum eftir vel unnið dagsverk.
En morguninn eftir var farið á m.b. Lunda VE 141 suður að Geirfuglaskeri til að reisa vitann. Formaður með m.b. Lunda var Þorgeir Jóelsson, eins og ætíð. Ekki voru nema fáir menn sem fóru með í þessa ferð af þeim mörgu sem voru með að draga húsið upp á sker, deginum áður. Hafður var með í þessa ferð góður skjöktbátur, því farið var með töluverðan flutning sem tilheyrði vitahúsinu og niðursetningu þess. Svo var og hafður með matarforði handa mannskapnum; mest var það nú brauðmatur og svo nægar kaffibirgðir og var ég, sem þetta skrifa ráðinn kaffikokkur í þetta ferðalag, því ég kunni vel á prímus.
Þegar við komum suður að skeri var ládauður sjór og var svo allan tímann á meðan við dvöldumst þar. Var strax byrjað á að taka allt dótið upp úr bátnum og handlanga það upp á skerið eftir venjulegri uppgönguleið þangað, þar sem ekki þarf að nota band til stuðnings, hvorki upp né niður fyrir sæmilega brattgenga menn. Þegar allt var komið upp á sker, menn og farangur, var drukkinn góður kaffisopi og að því loknu farið að vinna við vitahúsið, reisa það upp og bora fyrir járnaugaboltum, sem það var fest niður með og rammlega gengið frá því á allan máta. Járnkeðjur voru festar í hvert horn hússins að ofan og þær svo lásaðar við járnaugaboltana sem voru reknir niður í móbergsholurnar.
Þegar búið var að koma gashylkjunum fyrir inni í húsinu og tengja þau við ljóskastarann á húsþakinu, en það gerði Kjartan í Magna, var flaggstöng reist upp við húsið með okkar fagra íslenska flaggi áfestu. Að því loknu var ég kosinn sem aldursforseti í þessum hóp að kveikja ljósið á vitanum og það gerði ég með lotningu og hljóðri bæn, að ljósið logaði vel og lengi og að allir sæfarendur, sem á það treystu, næðu heilir í höfn.
Vitaljósið á Geirfuglaskeri kveikti ég kl. 5 síðdegis fimmtudaginn 28. júní 1956.
Þegar farið var í þetta ferðalag var gert ráð fyrir, að menn yrðu að dveljast uppi á skerinu næturlangt sem varð og raunin á.
Haft var því með í ferðina ágætt tjald sem stagað og hælað var niður á sléttri grasflöt þar uppi og fengu menn sér inni í því smákríublund yfir blánóttina, þó ekki færi þar mikið fyrir sængurfötum eða svefnpokum. En þetta tel ég að muni vera eina nóttin sem legið hefur verið við í Geirfuglaskeri, því hefði það skeð áður, hefði örugglega geymst um það sögur og sagnir fram að þessari öld, því að þannig töluðu menn í Eyjum á fyrsta tug þessarar aldar um Tyrkjaránið og fleiri löngu liðna atburði eins og þeir hefðu gerst þar fyrir stuttum tíma.
Þegar gengið hafði verið vel frá því, sem tilheyrði vitanum, var farið að hugsa til heimferðar og taka saman dótið sem heim átti að fara, koma því niður á steðja og ofan í skjöktbátinn sem beið okkar og flutti um borð í Lunda og haldið heim í höfn.
Ég undirritaður óska öllum sjómönnum til hamingju með daginn sinn.
Með góðri kveðju.

Eyjólfur Gíslason
frá Bessastöðum