Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Vertíðin 1983
Janúar: Skipstjórar á netabátum voru komnir með þandar taugar um áramót yfir plássum í kantinum. Á taugaspennunni slaknaði á nýársdag er þeir fyrstu fóru að leggja í leiðindaveðri er hélst næstu daga. Þó margir gagnrýni þessa taugaspennu og læti í skipstjórum um áramót, þá er það reynsla undanfarinna ára að þessir bátar sem ná góðum plássum í kantinum eru yfirleitt hæstu bátar í vertíðarlok og setja strax vertíðarsvip á bæjarlífið.
Heildaraflinn varð 1804,4 tonn. Togarar fengu 871,4 tonn í 8 veiðiferðum eða 108,9 tonn í veiðiferð. Breki VE 41 varð hæstur í janúar með 368,6 tonn. Netabátar voru 12 í janúar og öfluðu 526,6 tonn í 107 róðrum eða 4,9 tonn í róðri að meðaltali. Suðurey VE 500 var hæst með 81,7 tonn í 14 róðrum. 19 bátar voru á togveiðum og öfluðu 382,2 tonn í 51 veiðiferð, 7,5 tonn að meðaltali. Bjarnarey VE 501 var hæst með 49,5 tonn í 3 veiðiferðum. 9 bátar voru á línu og að trillum meðtöldum fengu 24,2 tonn, 0,9 tonn í róðri af úrvals fiski, aðallega ýsu. Þessi mikla ýsugegnd á línuna fannst manni lofa góðu. Alls lönduðu 43 skip í janúar og lönduðu 194 sinnum.
Tíðarfar var mjög rysjótt og leiðinlegt í mánuðinum. 4. janúar var NA 1 vindstig kl. 06, klukkustund síðar eða kl. 07 voru komin VSV 11 vindstig. 5 janúar mældist lægsti Ioftþrýstingur í 50 ár, 929,5 mb. og næstu daga voru 10-12 vindstig hluta úr sólarhring af öllum áttum. Eftir 25. janúar breytti um til hins betra.
Febrúar: Heildarafli í mánuðinum varð 4420,4 tonn. Togarar fengu 664 tonn í 5 veiðiferðum, 132,8 tonn í veiðiferð. Netabátar voru 20 og öfluðu 2363,4 tonn í 254 róðrum, 9,3 tonn að meðaltali í róðri. Sighvatur Bjarnason VE 81 aflaði 241,1 tonn og var hæstur netabáta. 25 togbátar öfluðu 1340,9 tonn í 146 veiðiferðum, 9,2 tonn að meðaltali. Huginn VE 55 var aflahæstur togbáta með 144,6 tonn. 15. febrúar var fjaran opnuð fyrir togbáta. Færðist þá töluvert líf í aflabrögð togbáta. Uppistaðan í aflanum var ýsa. 9 bátar voru á línu og öfluðu þeir ásamt trillum 45 tonn í 45 róðrum. 7,2 tonn fengust hjá 8 trillum, aðeins að færast líf hjá trillukörlum, enda spjallað mikið á Bæjarbryggjunni.
Heildaraflinn frá áramótum orðinn 6224,9 tonn. Alls lönduðu 64 skip í febrúar og lönduðu 473 sinnum.
Febrúar var sæmilegur tíl sjósóknar, en 4. febrúar varð veðrið verst ASA 11 vindstig um morguninn, en NV 12 vindstig síðdegis.
Mars er sá mánuður sem vekur hvað mestar vonir um að sá guli sé að koma. Ef bátur rekur í róður lyftist brúnin á bæjarbúum og menn ræðast meira við en ella um lífsins gang og aflabrögð. Heildaraflinn varð 12.044,7 tonn. Togarar öfluðu 1779,7 tonn í 12 veiðiferðum eða 148,3 tonn í veiðiferð. Allgóð blálönguhrota kom hjá togurunum, en einhver vandkvæði voru í verkun aflans. Þá heyrðist samtal milli fiskverkanda og skipstjóra, fiskverkandinn bað skipstjórann að hætta að fiska blálöngu. Karl sagði helvíti hart að loksins þegar hann fengi fisk væri hann rekinn úr honum og þegar hann fiskaði