Jón Magnússon (Hofi)
Jón Magnússon frá Hofi, skipstjóri í Hafnarfirði fæddist 28. mars 1906 á Hofi og lést 13. febrúar 1983 á Vífilsstöðum.
Foreldrar hans voru Magnús Jónsson sýslumaður, f. 27. desember 1865, d. 27. desember 1947, og önnur kona hans Jóhanna Andrea Oddgeirsdóttir frá Ofanleiti, f. 26. maí 1877, d. 17. nóvember 1906.
Móðir Jóns lést, er hann var um 8 mánaða gamall. Hann ólst upp hjá föður sínum og Guðrún Sigríði Oddgeirsdóttur móðursystur sinni og bústýru sýslumanns, síðar þriðju eiginkonu hans. Hann fluttist með þeim til Hafnarfjarðar þar sem faðir hans varð bæjarfógeti.
Jón nam við Flensborgarskóla í Hafnarfirði og lauk þar gagnfræðaprófi og lauk hinu meira skipstjóraprófi 1924.
Hann stundaði sjómennsku til ársins 1958, var skipstjóri í Eyjum 1942 og bjuggu hjónin þá í Þorlaugargerði. Lengst stundaði hann sjó frá Hafnarfirði. Þá varð hann fiskimatsmaður hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og síðan hjá Fiskimati ríkisins og að síðustu var hann eftirlitsmaður hjá Framleiðsluráði sjávarafurða til ársins 1977.
Hann lést á Vífilsstöðum 1983.
Jón var tvíkvæntur.
I. Fyrri kona hans, (1. maí 1932, skildu), var Þóra Kristinsdóttir úr Hafnarfirði, húsfreyja, síðar verkakona, f. 26. júlí 1911, d. 8. janúar 2001. Foreldrar hennar voru Kristinn Kristjánsson formaður, seglasaumari og bóndi á Hliðsnesi á Álftanesi og kona hans Rannveig
Jónsdóttir húsfreyja.
Barn þeirra var
1. Rannveig Jónsdóttir skrifstofumaður í Reykjavík, f. 19. ágúst 1932, d. 8. nóvember 1969, gift Davíð Hálfdanarsyni rannsóknalögreglumanni.
II. Síðari kona Jóns, (14. maí 1940), var Karólína Guðrún Maríasdóttir húsfreyja frá Kjós í Grunnavíkurhreppi, f. 19. júní 1914, d. 19. febrúar 2005. Foreldrar hennar voru Marías Þorvaldsson bóndi í Kjós, síðar í Hafnarfirði og Pálína Pálsdóttir
Börn þeirra:
1. Magnús Jónsson vélamaður, verkamaður í Reykjavík, f. 7. apríl 1941, d. 20. júlí 1998, kvæntur fyrr Sigrúnu Guðnýju Guðmundsdóttur, síðar Helgu Gísladóttur.
2. Jóhanna Guðrún Jónsdóttir húsfreyja og ráðgjafi hjá SÁÁ í Reykjavík, f. 20. desember 1942 í Eyjum. Maður hennar var Sigurður Erling Pétursson skipstjóri, f. 25. október 1942 í Vík í Mýrdal.
3. Matthildur Sif Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, f. 3. ágúst 1946 í Vogum á Vatnsleysuströnd, gift Jóhanni S. Gunnarssyni vélstjóra og vélvirkja.
4. Freydís Jónsdóttir húsfreyja og verslunarmaður, f. 30. júlí 1950 í Reykjavík. Maður hennar, (skildu), var Vigfús Andrésson bóndi.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Knudsensætt 1-2. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Sögusteinn 1986.
- Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.