Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Þau björguðu 18 mannslífum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 21:17 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 21:17 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
EINAR H. EIRÍKSSON


Þau björguðu 18 mannslífum


Í Landnámabók segir frá því, er Flóki sá, er kenndur var við hrafnana, kom til Íslands og hafði um skeið búsetu í Vatnsfirði við Breiðafjörð, að hann gekk dag einn upp á fjall eitt hátt „ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landit Ísland ...“
Það var engin furða, er þessi kaldranalega sýn bættist ofan á reynslu Flóka af búsetunni í Vatnsfirði, að honum væri ekki sérlega hlýtt til landsins. En þó mun hugur flestra manna nú orðið vera meira í ætt við Þórólf smjör, sem kvað þar drjúpa smjör af hverju strái.
Því er vissulega ekki að leyna, að Íslendingar hafa alla tíð frá því er fyrsti landnámsmaðurinn festi hér byggð, orðið að berjast til smjörsins. Það hefur ekki runnið fyrirhafnar- né áhættulaust í munn þeim. Þeir, sem byggt hafa bólin norður við Ísafjarðardjúp, þar sem Hrafna-Flóki sá fullt af hafís, eru þar engin undantekning, nema síður sé.
Inn úr Vestfjarðakjálkanum að norðvestan skerst hann, þessi fjörður, sem í daglegu tali vestra er aldrei kallaður annað en Djúpið. Þar vita allir, hvað við er átt með því orði. Nafnið er síður en svo viðfelldið, en það er sannarlega réttnefni, því að þar er engum heiglum hent að eiga fangbrögð við náttúruöflin.
Beggja vegna djúpsins eru há fjöll, og inn úr því vestanverðu skerast langir firðir og flestir fremur mjóir, en fjöllin, brött og hömrum girt, ber hátt við himin. Þar eru veður öll válynd, og óvíða eru þau hættulegri við landið en eimnitt þar. Það gera sviptivindarnir, sem brjótast fram úr fjörðunum og fjallaskörðunum, en á milli getur verið dúnalogn. Margur sæfarinn á erfitt með að átta sig á þessu, og er því oft og tíðum gersamlega óviðbúinn, er vindhviðan skellur yfir, hamslaus og eirir þá engu. Í stórhríð og náttmyrkri hefur mörgu skipinu orðið hált á því að freista þess „að taka Djúpið“, eins og það er nefnt þar vestra. Eru engir til frásagnar um ýmislegt, sem telja má fullvíst, að borið hafi að höndum á þessum slóðum.
Inn úr Djúpinu norðanverðu gengur fjörður einn mikill, og greinist hann síðan í fleiri firði. Þessir firðir eru einu nafni nefndir Jökulfirðir, kenndir við Drangajökul, sem þar liggur uppi á hálendinu, ekki allfjarri. Við einn þessara fjarða stendur Hesteyri, en þar var um skeið hvalveiðistöð, síðar síldarbræðslustöð, en byggð er nú að mestu komin í eyði. Þá er þar líka Hrafnfjörður, en á Hrafnfjarðareyri segir sagan, að þau séu grafin, Halla og Eyvindur, útileguhjónin frægu, ef rétt er þá að kalla þau „hjón“.
Þegar Jökulfjörðunum sleppir, tekur við Snæfjallaströndin, sem myndar norðurtakmörk Djúpsins. Yzt á Snæfjallaströnd heitir Bjarnanúpur. Er það sæbrattur hamar, og kynni hann vissulega frá mörgu að segja, mætti hann mæla. Þar skeði það t.d., að maður einn, er var í póstferð, hrapaði þar fram af. Leitarmenn komu á brún núpsins, en brast þá snjórinn undan þeim fjórum og hröpuðu þeir einnig. Undir Bjarnanúp að norðan er vík ein, Grunnavik. Þar var um skeið allmikil byggð, en fólki hefur fækkað þar nokkuð á síðari árum, svo sem víðar á Vestfjörðum norðanverðum. Í Grunnavík var um margra ára bil merkispresturinn, séra Jónmundur Halldórsson, kempulegt þrekmenni. Hann var sóknarbörnum sínum ekki einasta sálusorgari, heldur leiðtogi, jafnt í andlegum sem veraldlegum efnum. Hann sat á Stað í Grunnavík. Auk Staðar voru byggð ból á þessum slóðum Oddsflöt, Sútarabúðir og Nes. Vestast í Grunnavík stóð bærinn Nes, sem stundum var einnig kallaður Naust. Þetta er kotbýli, og var þar, er það gerðist, sem nú verður greint, tvíbýli. Þá bjó á öðrum partinum með fjölskyldu sinni Elías Halldórsson, sem var oddviti þeirra Grunnvíkinga.
Í Nesi voru harðir kostir. Jörðin var rýr, og varð því heimilisfólkið að sjá sér farborða með öðrum hætti en búskapnum, því að kotið fleytti ekki nema einni kú og nokkrum kindum. Meginhlutann af lífsviðurværi sínu varð þetta fólk því að sækja á sjóinn, þreyta fangbrögð við ægi, og er þó erfitt þarna um sjósókn. Þar verður ekki komið við öðru en smábátum, trillum eða róðrabátum, því að þarna er hafnleysa og lending ill.
Í Grunnavík eru, eins og víðast annars staðar við Djúp og áður er á minnzt, válynd veður. Eins og örskot þjóta sviptibyljirnir milli hárra, sæbrattra fjallanna, og þarf jafnan mikillar aðgæzlu við, ekki síður í Grunnavík en annars staðar. Grunnvíkingar hafa líka oft mátt sjá á bak mörgum manninum af því að hann varaðist ekki vindana, og er til af því mikil saga. En þeir hafa líka borið gæfu til að hrifsa margan manninn úr greipum dauðans, og sjálfsagt hefur engin fjölskylda hérlendis, og er þá á engan hallað, bjargað fleiri mannslífum en Elías í Nesi og börn hans, og verður nú sagt lítið eitt frá því.
Fjögur eru þau börn Elíasar, sem hér koma við sögu, synirnir Magnús og Sigurður, og dæturnar, Jónína og Elísa. En það mun hafa verið á árinu 1920, að fyrsta afrekið var unnið. Synirnir voru þá börn að aldri, er vélbáti hvolfdi á Grunnavík. Á bátnum voru 10 manns, og tókst þeim feðgunum á Nesi að bjarga öllu þessu fólki.
Hinn 29. maí var bátur á siglingu inn á Grunnavík. Veður var heldur hvasst þennan dag og byljótt. Á báti þessum voru 4 menn. Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en skellur á með harða vindhviðu. Hvolfdi bátnum á augabragði, og enn gerðust þeir Nes-feðgar björgunarmenn.
Og svo eru það dæturnar. Þeim auðnaðist með snarræði að bjarga 4 mönnum, sem höfðu kollsiglt báti sínum á svipuðum slóðum og hinn, sem áður er greint frá. Þegar sá atburður gerðist, var Elías ekki heima, og þeir bræður höfðu einnig brugðið sér burtu. Heima voru því aðeins þær ásamt móður sinni og ungbörnum. Þær voru innan við tvítugt, er þetta gerðist. Þær settu fram lítinn bát, er þær sáu atburðinn á víkinni, enda enginn mannafli til að ráða við hinn stærri. Sigling var hættuleg á víkinni vegna sviptivindanna, sem gátu, ef ekki var vel að gáð, hvolft fleytunni, á sama hátt og fór um hinn bátinn. Þá var ennfremur hætta, að skipbrotsmenn misstu stjórn á sér, yrðu ofsahræddir eða töpuðu dómgreind sinni á annan hátt. En þá er mikil hætta á ferðum, í því veðri, sem þá var þarna, mátti ekki halla bátnum. Gripu þær systur þá til þess ráðs að láta skipbrotsmenn hanga á borðstokkunum, tvo hvoru megin. Réru þær þannig til lands og var þeim öllum borgið. Fengu þeir hinar hlýlegustu viðtökur heima í Nesi.
Þess er vissulega vert að geta, að aðeins einn af þeim 18 mönnum, sem Nesfólkið bjargaði, var syndur. Það, sem varð þeim til lífs, annað en aðstoð Nesfeðgina, var, að þeir fleyttu sér á lóðabelgjum eða að loft komst í hlífðarfatnað þeirra, og héldust þeir þannig uppi, unz hjálpin barst. Margir þessara sjóhröktu manna voru nær dauða en lífi, er komið var með þá til lands, en í Nesi var húsmóðirin jafnan tilbúin að veita hrjáðum gestum hlýlegan viðurgerning, og hresstust þeir því furðufljótt.
Þær systur, Jónína og Elísa, voru sæmdar verðlaunum úr hetjusjóði Carnegies, að upphæð 300 krónum, sem að vísu var talsvert fé á árunum fyrir stríð, en að öðru leyti hefur þessari fjölskyldu ekki verið sýnd nein virðing af opinberri hálfu.
Fólki hefur nú fækkað á þessum slóðum. En ennþá er byggð í Grunnavík, og meðan hún helzt, verður mörgum búandmanni litið út um gluggana til hafs að svipast eftir bátaferðum, einkum þegar veðrahamur gerist vályndur og úthafsöldurnar brotna í flæðarmálinu.