Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Bryggja á Eiðinu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 21:07 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 21:07 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


BALDUR JOHNSEN D. P. H. HÉRAÐSLÆKNIR


Bryggja á Eiðinu


Landbrot
Í síðasta blaði þessa rits fyrir ári skrifaði ég undirritaður grein undir söniu fyrirsögn.
Ekki hefur ábendingum mínum verið mikið sinnt, enda þess varla að vænta, þar sem svo stutt er um liðið, en meiriháttar mál þurfa langan þróunartíma.
En nú hefur komið óvæntur liðsauki, þó segja megi, að hann komi úr hörðustu átt, þ.e. suðvestanáttinni og vestanvindinum.
Við athugun kemur nefnilega í ljós, að sjór og brim eru að ganga á Eiðið, og hefur meira borið á því í vetur sem leið en oft áður, að sjór gengi yfir Eiðið í suðvestan- og vestanveðrum.
Hefur þetta orðið mörgum góðum Vestmannaeyingum hið mesta áhyggjuefni, eins og von er til, því að Eiðið er sá varnargarður, sem ver höfnina fyrir sjávargangi að norðvestanverðu.
En það er valt að treysta sandinum, hann er á sífelldu flökti fram og aftur, hverfur frá í dag og kemur máske aftur á morgun.
Má sjá þessa glögg merki hér á Eiðinu, og þekkja þeir það bezt, sem sækja þangað fínan sand í húsbyggingar.
Við vitum og að landbrot á sér stað hér í Vestmannaeyjum eins og víðast hvar við suðvesturlandið, og þarf að hafa fulla aðgæzlu við, nema hér við sandana nærlendis, þar sem framburður stórvatna suðurlandsundirlendisins gerir betur en að halda við.
En hér á Eiðinu skolar sandinum frá, en það, sem á land kemur, fýkur burtu og eyðileggur um leið gróðurlendin í næsta nágrenni, og er full ástæða til að ætla, að í gamla daga hafi sandfok úr Botni og af Eiði hjálpað til að eyða gróðurlendi hér í Eyjum. En það er önnur saga.
Og þó er sú sama saga alltaf að endurtaki sig hér hjá okkur.
Gróðurmoldin og sandurinn fýkur út í hafsauga og skilur eftir berar klappir, og sjórinn gengur á land, molar smám saman niður laust bergið og skolar gróðurmoldinni í burtu og er þá ekki von að sandströnd veiti lengi viðnám, þar sem enginn er framburður stórfljóta til að fylla í skörðin.

Landvörn
Með því að sá í mela og sanda og girða þá og hlúa að öðru leyti að landinu er bæði hægt að hefta sandfok og græða upp það, sem skemmzt hefur.
Þar sem sjór gengur á landið, þarf að byggja svokallaða brimbrjóta.
Það hlífir ströndinni innan við brjótinn, og er þá um leið hægt að koma þar upp hafnarmannvirkjum, ef ástæða þykir til o.s.frv.
Menn hafa stungið upp á að byggja þil frá Löngunefi í Klif, innan við Eiðið. Þetta væri að vísu gott mannvirki og þarft í sambandi við hafnarmannvirki á Eiðinu, en ég held, að allir geti verið sammála um, að fyrst verður að bægja brimsjóunum frá að utan eða norðvestanverðu, áður en hægt er að láta sér detta í hug að gera nokkuð á sjálfu Eiðinu.

Björgunarsveitin að starfi.

Til þess að bægja briminu frá og koma í veg fyrir að skolist sjór yfir Eiðið hefur verið talað um að hækka Eiðið með grjótáburði og með því að hlaða grjótgarða út í sjóinn til þess að hefta sandferðina og sandúrdráttinn fram með fjörunni.
Hætt er við, að grjótáburður og grjóthleðslur í sjó fram standi lítið fyrir þungabrimi, og verði slíkt fyrirtæki mesta Kleppsvinna, sem endurnýja þurfi ár eftir ár með ærnum kostnaði, og komi þó aldrei að fullum notum.
Hitt væri ráð að nota nú það fé sem fæst til landvarnar á Eiðinu í tvennu augnamiði, bæði til að hefta landbrotið, og byggja smám saman, um leið, upp skilyrði til hafnarmannvirkja.
Þá væri staðið rökrétt að málinu og byggt á bjargi en ekki sandi.
Fyrstu fjárveitinguna, sem fæst, á að nota til að byggja steinker. Það má gera það hér í slippnum, fleyta steinkerinu síðan, þegar stórstreymt er inn fyrir eyði, og sökkva því á heppilegum stað vestan til á Eiðinu, norðaustur af Skönzum, þannig að viti út í skerin.
Síðan er kerið fyllt af grjóti, sem ekið er út í það, og síðan steypt yfir.
Þannig er haldið áfram ár eftir ár. Brimbrjóturinn lengist smám saman, og fyrir innan myndast hin hægasta höfn, viðbót við höfnina, sem fyrir er og aukið athafnapláss á sjálfu Eiðinu, og væri þá hægt að leggja skipum að því bæði að innanverðu og utanverðu, eftir því sem þarf með tilheyrandi bryggjum.
Að utanverðu geta athafnað sig stærstu skip, t.d. olíuskip, og þá ætti ekki að þurfa að kvíða því, að Vestmannaeyjar lentu út úr samgöngum, ef hægt væri að koma hér við, hverju sem viðraði, jafnvel í austanaftökum, þegar leiðin annars væri ófær.
Þegar brimbrjóturinn væri búinn að sanna gildi sitt um árabil, mætti fara að velta því fyrir sér, hvort ekki kynni að vera rétt að taka rás í gegnum Eiðið, svo að hægt væri að komast í höfnina bæði að austan og vestan, en það gefur auga leið, að í slíkar framkvæmdir má ekki ráðast fyrr en byggð hefur verið sú brjóstvörn fyrir Eiðið, sem væntanlegur brimbrjótur verður.
Hér þarf snör handtók góðra drengja til þess að forða frá voða, en um leið nokkurt hugmyndaflug, framsýni og stórhug, til þess að áður en varir verði búið að snúa vörn í sókn.