Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1970/ Sigmund

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. mars 2018 kl. 13:21 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. mars 2018 kl. 13:21 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sigmund


Sigmund Jóhannsson.

Ekki er þó minna um vert, að Sigmund er einn kunnasti hugvitsmaður okkar Íslendinga á síðari árum og hefur fundið upp afkastamiklar fiskvinnsluvélar. Er þetta í senn merkilegt og gagnlegt fyrir okkur Eyjamenn.
Það á því vel við að kynna stuttlega þennan snjalla uppfinningamann, sem á vafalaust eftir að bæta mörgu enn við hugsmíðar sínar, þjóð og landi til gagns og aukinnar framleiðni í fiskiðnaðinum.
SIGMUND Jóhannsson er maður nefndur, búsettur að Brekastíg 12 hér í bæ. Er hann löngu landskunnur fyrir bráðsnjallar skopmyndir sínar, og hefur Sjómannadagsblað Vestmannaeyja oft notið góðs af góðum grínmyndum hans.
Sigmund er fæddur í Noregi 22. apríl 1931, og er móðir hans norsk, faðir íslenskur. Fluttist hann með foreldrum sínum til Íslands, er hann var á fjórða ári. Hingað til Vestmannaeyja fluttist Sigmund árið 1955, og er hann kvæntur Helgu Ólafsdóttur (Jónssonar). Þau búa á Brekkustíg 12, fallegu heimili, og eiga tvö börn.
Sigmund er margt til lista lagt og hefur auk skopteikninga sinna fengist við listmálun og smíði líkana. Þá teiknaði hann forsíður í Fálkann og myndskreytti það blað. Fast starf hans er eftirlit með flökunar- og fiskvinnsluvélum frystihúsanna hér.
Sigmund byrjaði á uppfinningum sínum árið 1965, og hefur hann fundið upp þessar vélar:
1. Humarflokkunarvél og garnúrtökuvél, sem hefur margfaldað afköst við humarvinnslu.
2. Steinbítsflökunarvél.
3. Gelluvél, sem hann fann upp í vetur og þegar hafa verið seld 20 stk. af.
Þá gerir hann nú tilraunir með vél til að kinna fisk. Eru þá flestar verkanir orðnar véltækar. Sigmund hefur fundið upp sérstaka gerð snurpihringja, sem hafa reynst vel. Fleira hefur hann haft á prjónunum, þó að það verði ekki talið hér.

Humarflokkunarvél.

Vélsmiðjan Þór h.f. hér í Vestmannaeyjum hefur séð um smíði vélanna, sem hafa reynst ágætlega og eru hinar traustustu að allri gerð. Hafa þeir selt vélar til 5 þjóðlanda.
Við óskum Sigmund alls góðs og vonandi á hann eftir að auka fjölbreytni og létta störfin í fiskiðnaðinum með frjóum huga sínum. Gjarnan mætti hann snúa sér að bátaflotanum og vinnunni um borð, en þar er þörf mikillar vinnuhagræðingar og léttis á erfiðum störfum.