Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Starfsemi Rannsóknarsetursins 1995

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. apríl 2017 kl. 10:18 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. apríl 2017 kl. 10:18 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Þorsteinn Ingi Sigfússon
STARFSEMI RANNSÓKNARSETURSINS 1995


Árið 1995 var fyrsta árið sem Rannsóknasetrið í Vestmannaeyjum starfaði eftir nokkurra missira undirbúningstíma.
Í upphafi árs hóf Páll Marvin Jónsson störf við setrið, en hann hafði þá nýlokið kandídatsprófi í sjávarlíffræði frá Noregi. Fimm ágætir umsækjendur voru um stöðu forstöðumanns setursins og varð Páll hlutskarpastur þeirra. Páll er kvæntur Evu Káradóttur og eiga þau einn son.
Snemma á árinu ákvað stjórn setursins að hvetja til þess að setrið aðstoðaði nemendur í Framhaldsskóla Vestmannaeyja við þátttöku í Hugvísi, samkeppni ungs fólks í vísindum og tækni. Keppnin er haldin í samvinnu við Evrópubandalagið og voru þar valin úr verkefni til þess að senda í Evrópukeppnina sem halda átti á Newcastle í Englandi um haustið. Páll Marvin Jónsson lagði mikla vinnu í tvö verkefni sem unnin voru af nemendum, annars vegar verkefni um líffræði og þroska loðnunnar og hins vegar verkefni um veiðar á þykkvalúru með því að nota ætishljóð hennar. Þau höfðu áður verið uppgötvuð í Fiskasafni Vestmanneyja. Kristján Egilsson safnvörður veitti ómetanlega aðstoð í verkefnunum. Unglingarnir lögðu nótt við dag í kennaraverkfalli sem skall á um það leyti þegar mest á reyndi. Sjómenn í Eyjum söfnuðu lifandi loðnusýnum og gerðu nemendunum í raun kleift að vinna að þessu stóra verkefni. Vinna varð á vöktum við að fylgjast með hrygningu loðnunnar. Hrygningin var kvikmynduð af Gísla Óskarssyni en það mun vera í fyrsta sinn sem að hrygning loðnunnar og aðdragandi hennar er kvikmyndað frá upphafi til enda. Um vorið hlaut loðnuverkefnið fyrstu verðlaun Hugvísis og þykkvalúruverkefnið önnur verðlaun. Voru verkefnin nokkuð nærri hvort öðru í einkunnagjöf. Sumarið fór í ítarlega úrvinnslu og þjálfun nemenda og í september var haldið með fríðu föruneyti á Evrópukeppnina í Neweastle. Þar gerðu hinir ungu Vestmannaeyingar sannarlega garðinn frægan og hlutu þriðju verðlaun í keppninni. Félagar þeirra úr verkefninu í Framhaldsskólanum komu út til að vera viðstaddir verðlaunaafhendinguna, en verðlaunin voru veitt að viðstöddum breska og brusselska menntamálaráðherrunum. Ásamt greinarhöfundi og Gísla Má Gíslasyni prófessor voru Kristján Egilsson og Gísli Óskarsson kvikmyndagerðarmaður með í för til Newcastle, en framlag Gísla við vídeómyndatöku var ómetanlegur skerfur til verkefnisins. Velja varð þriggja manna hóp sem verja skyldi verkefnin í Newcastle. Það voru þau Aldís Helga Egilsdóttir, Jóhann Friðsteinsson og Reynir Hjálmarsson.
Þegar þetta er ritað er annar hópur að undirbúa þykkvalúruverkefnið til þess að taka þátt í keppni í Arizona í Bandaríkjunum, en þangað hefur þeim verið boðið í alþjóðlega vísindasamkeppni. Keppendur eru um eitt þúsund þannig að samkeppnin verður hörð.
Um sumarið var lokið fjármögnun endurbyggingar hússins að Strandvegi 50 með lokastyrk frá Rannsóknaráði Íslands sem nam 5 millj. kr. Nú er aðstaðan með því besta sem gerist hér á landi. Gistiaðstaðan í setrinu, þar sem eru tvö herbergi til reiðu fyrir rannsóknarfólk, hefur nýst vel og komið í góðar þarfir.
Stjórn samstarfsins hefur verið óbreytt síðan nefndin var stofnuð. Í lok ársins var ljóst að Gísli Gíslason forstöðumaður RFV myndi ganga úr stjórninni samhliða því að hann tæki að sér ný verkefni fyrir norðan. Vil ég þakka Gísla samstarfið á liðnum árum og stjórninni fyrir vel unnin störf.
Eitt verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna var unnið í setrinu sumarið 1995. Var það úttekt á vatnsnotkun í Ísfélaginu hf., en ljóst er að mikið vatn er notað í fiskiðnaði og vatn í Vestmannaeyjum er dýrt. Víglundur Víglundsson vélaverkfræðingur vann verkið undir stjórn undirritaðs og náði undraverðum árangri í því. Víglundur skoðaði ýmsa þætti vatnsnotkunar, allt frá stjórnunarþætti til atriða eins og vatnsnotkunar eimsvala í kælibúnaði. Miðað við vatnsnotkun fyrri ára þótti sýnt strax haustið 1995 að náðst hefði milljóna króna árangur og um 1% heildarsparnaður á vatnsnotkun fyrir Eyjar. Má færa að því rök að þessi sparnaður geti seinkað nýrri fjárfestingu í vatnsleiðslu ofan af landi. Verkefnið hlaut tilnefningu til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og var eitt sjö verkefna sem valin voru úr hundruðum unninna verkefna á vegum Nýsköpunarsjóðsins.
Á Sjómannadaginn 1995 var opið hús í Rannsóknasetrinu þar sem m.a. var kynnt verkefni ungmennanna úr Eyjum á sviði Hugvísis. Einnig voru kynntar nokkrar niðurstöður könnunar á vegum Sjávarútvegsstofnunar HÍ um öryggismál í vinnuumhverfi sjómanna. Góðir gestir sóttu setrið heim og fluttu fyrirlestra. Gísli Már Gíslason flutti erindi um vatnsföll Íslands um vorið. Nokkru síðar var haldin alþjóðleg ráðstefna um fiskveiðisögu Norður-Atlantshafsins undir stjórn Jóns Þ. Þórs.
Í tilefni af lundaballinu 1995 bauð Rannsóknasetrið upp á fyrirlestur Arnórs Sigurðssonar fuglafræðings um lundann. Var fyrirlesturinn vel sóttur og mátti sjá margan snjallan lundaveiðmanninn meðal gesta.
Í nóvember kom Páll Imsland jarðfræðingur til Eyja og flutti fyrirlestur um jarðvá og var hann mjög vel sóttur og þótti takast afar vel. Menn sem eru tengdir almannavörnum í Eyjum sóttu m.a. þennan fyrirlestur.
Verkefni á vegum Gísla Pálssonar prófessors voru unnin í Eyjum allt árið, en nemendur hans notuðu aðstöðuna í Eyjum til verkefnavinnu. Hugtakið „fiskifræði sjómanna“ er áhugverður þáttur Gísla Pálssonar í nýrri hugsun í þessum fræðum.
Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1995 hlaut setrið styrk nýstofnaðs Lýðveldissjóðs til undirbúnings sumarskóla fyrir erlenda stúdenta næsta sumar. Einnig hlaut Páll Marvin styrk ásamt Jörundi Svavarssyni og Hafsteini Guðfinnssyni til þess að skoða sambandið milli botndýralífs og plöntusvifs umhverfis Eyjar. Þá voru í gangi viðræður við Evrópubandalagið, Háskólann í Kaupmannahöfn og dr. G. E. Goslow jr., prófessor við Brown háskóla í Bandaríkjunum, um sumarskóla. Þegar þetta er ritað er ekki ljóst hvað úr sumarskólunum verður. Hins vegar hafa þessi áform orðið mjög góð auglýsing fyrir Rannsóknasetrið og meðal annars hefur Páll Marvin Jónsson hannað heimasíðu á heimsvefnum þar sem aðstaðan í Eyjum er kynnt ítarlega.
Sambúðin með Tölvun hf. í setrinu hefur reynst happadrjúg. Þannig má segja að setrið sé orðin þekkingarmiðstöð á breiðu bili þekkingar og drjúg viðbót við það sem fyrir var.
Þegar horft er til baka má segja að starfsemin hafi farið vel af stað. Samvinnan við RFV og Hafró í Eyjum er mjög góð og mikilvæg. Í setrinu hafa safnast saman margir kraftar sem áreiðanlega eiga eftir að vinna gott verk fyrir Vestmannaeyjar og landið í heild. Vestmannaeyingar, ekki síst sjómenn, hafa tekið drjúgan þátt í starfseminni og ástæða er til að hvetja til þess að svo verði áfram.
Þorsteinn I. Sigfússon,
formaður stjórnar samstarfsnefndar HÍ og Vestmannaeyjabæjar.