Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Spjall um vertíðina o. fl.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. júní 2017 kl. 12:18 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. júní 2017 kl. 12:18 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Spjall um vertíðina og fleira

Hafnarverðirnir, Jóhann Bjarnason og Ágúst Bergsson, hafa nóg að gera á vertíðinni.
Loðnan er líka matvara.

Samkvæmt lögskráningarskýrslum hjá bæjarfógetaembættinu hafa verið gerð út 67 fiskiskip frá Vestmannaeyjum á vetrarvertíðinni 1977. Af þeim eru 39 undir 100 rúmlestum; 19 skip voru 100—200 rúmlestir og 9 voru stærri.
Stærsta fiskiskip Vestmannaeyinga er nú hinn nýi skuttogari, Klakkur VE 103, 488 rúmlestir, og þar næst skuttogarinn Vestmannaey, 461 rúmlest.

13 skipanna stunduðu loðnuveiðar lengri eða skemmri tíma. Loðnuskipin fóru svo öll á net. 33 skip, að meðtöldum togurunum Vestmannaey og Klakki, stunduðu eingöngu botnvörpuveiðar og 21 skip veiddi eingöngu í net. Auk þess stunduðu nokkrir smærri bátar og trillur veiðar með handfærum og svolítið með línu.
Fyrsta loðnan á vertíðinni veiddist 4. janúar og var landað á Siglufirði daginn eftir, og segja má að loðnuvertíð lyki 4. apríl. 81 skip stundaði loðnuveiðarnar að þessu sinni, á móti 76 skipum í fyrra. Heildarloðnuaflinn varð nú 549.000 lestir á móti 338.070 lestum í fyrra. Aflaaukningin er því um 62%. Þessa miklu aflaaukningu má rekja til margskonar orsaka. Til dæmis hófst loðnuvertíðin í fyrra ekki fyrr en 16. janúar, síðan stóð verkfall frá því seint í febrúar og fram í mars, — í rúmlega hálfan mánuð, — og stöðvuðust þannig veiðarnar á besta loðnutímanum. Loks er þess að geta, að veðráttan í vetur hefur verið sem kjörin til nótaveiða og miklum mun hagstæðara en í fyrra. Um það, hvort loðnumagnið á miðunum hafi verið meira eða minna, er ekki mikið rætt enn sem komið er. Vonandi á óttaleysi vísindamanna við hina miklu aukningu á loðnuveiði við strendur landsins á seinni árum við haldgóð rök að styðjast.

Þrír hæstu löndunarstaðirnir urðu þessir:

Vestmannaeyjar ... 90.656 lestir
Seyðisfjörður 57.720 —
Siglufjörður 34.932 —

Nú varð hlutur Vestmannaeyja mun betri en í fyrra, hvað snertir vinnslu aflans. Á þessari vertíð var landað hér, sem fyrr segir, 90.656 lestum, sem er 16,5% heildaraflans, en í fyrra var landað hér 40.380 lestum, sem var aðeins 12% heildaraflans þá. Aflahæstu Vestmannaeyjaskip á Ioðnuveiðunum voru þessi:

Gullberg 11.138 lestir
Huginn 10.451 —
Kap II 8.895 --
Sæbjörg 7.557 —
Ísleifur 7.133 —

Og enn er það stærð og burðargeta skipanna, sem ræður miklu um aflamagnið. Smærri skipin hljóta að verða undir í þessari keppni. Það veldur svo því, að mikil ásókn útvegsmanna er nú í smíði nýrra nótaskipa, stærri en almennt hafa verið notuð hingað til, eða kaup á eldri skipum utanlands frá. Menn sjá í loðnuveiðinni fram á arðbæran útveg í framtíðinni á stórum og fullkomnum skipum, — auk þess sem nýjar fisktegundir eru að koma fram í sviðsljósið í sambandi við þessa fljótvirku veiðiaðferð eða líkar aðferðir.

Útkoman á bolfiskveiðunum varð Vestmannaeyingum mun óhagstæðari á vertíðinni 1977 en 1976 og 1975. Og telja verður líklegt, að miðað við allar aðstæður sé þessi vertíð einhver sú lakasta, sem komið hefur í Vestmannaeyjum um langt árabil.
Greinilegt þykir, að magn þess nytjafisks, sem nú orðið gengur á hefðbundin mið við Vestmannaeyjar, sé svo lítið, að til vandræða horfi fyrir byggðarlag, sem allt sitt á undir fiskveiðum og vinnslu sjávarafla. Það sem ennþá bjargar málum frá öngþveiti er sífellt aukin sókn á fjarlægari mið, með auknum tækjum og mannafla og stærri skipum. Og erfitt er að þegja um það, að það vekur á vissan hátt óhug hjá mörgum gömlum sjómanni í Vestmannaeyjum, að nú erum við Eyjamenn einnig, — og út úr neyð, — farnir að senda stórvirk nýtísku togskip norður og vestur í smáfiskadrápið og rányrkjuna. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur markar vissulega tímamót í fiskveiðisögu íslendinga, og menn líta svo á að sú aðgerð geti einnig orðið og eigi að vera tímamótamarkandi í sambandi við skynsamlega nýtingu fiskimiðanna og verndun þeirra fiskstofna, sem verndunar þarfnast.
En þróun mála í þessum efnum að undanförnu, hefur valdið hugsandi mönnum nokkrum áhyggjum.
Þeirri spurningu heyrist víða varpað fram, hvort stjórnvöld sýni ekki ótilhlýðilegt tómlæti gagnvart viðvörunum vísindamanna og fleiri aðila, þ. á. m. útvegsmanna og sjómanna, í sambandi við ástand helstu fiskstofnanna.

Sigurbára VE 249, aflahæsti trollbáturinn á vertíðinni.

Á þessari vertíð bárust hér á land 18.318 lestir (22.433 lestir í fyrra). Aflinn skiptist þannig eftir veiðarfærum:

Hafnsögumennirnir í Eyjum, Jón 1. Sigurðsson og Angantýr Elíasson, njóta trausts allra, sem til þekkja.
Lokalegt um borð í Gunnari Jónssyni. (Ljósm.: Guðm. Sigfússon).

Net: 10.485 tonn 57,2%
Botnvarpa: 6.024 — 32,9%
Færi og lína: 198 — 1,1%
Togarar: 1.506 — 8,2%
Spærlingstroll: 105 — 0,6%

Til samanburðar frá 1976:

Net: 15.058 tonn 67,1 %
Botnvarpa: 6.338 — 28,3%
Færi og lína: 113 - 0,5%
Togarar: 924 — 4,1%

Skipting aflans milli verkenda er þannig, miðað við óslægðan fisk:

Fiskiðjan: 5.275 tonn 28,7%
ísfélag Vestm.: 4.687 — 25,6%
Vinnslustöðin: 4.159 — 22,7%
Eyjaberg: 1.532 — 8,4%
Hraðfrst. Ve.: 1.439 — 7,8%
Nöf: 1.244 — 6,8%

Til samanburðar frá árinu 1976:

Fiskiðjan: 6.495 tonn 29,0%
Ísfélag Vestm.: 6.441 — 28,7%
Vinnslustöðin: 6280 — 28,0%
Eyjaberg: 2.163 — 9,6%
Hraðfrst. Ve.: 1.054 4,7%

Netabátar, sem öfluðu 400 tonn og meira:

1. Þórunn Sveinsd. VE 401 685 tonn
2. Bergur VE 44 518 —
3. Árni í Görðum VE 73 507 —
4. Ölduljón VE 130 477 —
5. Kópavík VE 404 460 —
6. Danski Pétur VE 423 454 —
7. Surtsey VE 2 440 —
8. Dala-Rafn VE 508 418 —
9. Pólstjarnan KE 4 413 —

Botnvörpubátar, sem öfluðu 200 tonn eða meira:

1. Sigurbára VE 249 422 tonn
2. Björg VE 5 312 —
3. Frár VE 78 306 —
4. Þristur VE 6 240 —
5. Ver VE 200 232 —
6. Sæþór Arni VE 34 224 —
7. Haförn VE 23 201 —

Kap II. með fullfermi af loðnu.

Nokkrir litlir dekkbátar réru með línu og handfæri. Aflahæstur þeirra varð Kristbjörg Sveinsdóttir, sem fékk 73 tonn. Af trillunum fékk Ránin mestan afla, 14,5 tonn.
Allmikill hugur er í mönnum hér í Eyjum að koma sér upp trilluútgerð. En þar virðast vera ljón á veginum, sem ekki er möguleiki á að ræða um hér að þessu sinni.
Margt bendir til að þróun mála í útveginum leiði til undanhalds hjá millistærðum báta; að það verði stærstu gerðirnar og þær minnstu, er velli halda, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Á síðastliðnu hausti barst hér á land töluvert magn síldar, bæði frá heimabátum og öðrum. Síldin fór öll í frystingu og salt. Ekki er í frásögur færandi um aflamagn báta, því að nú skammtar kvótinn sóknina hjá nótabátunum, þannig að afli hvers um sig verður svipaður.
Það, sem einkum gerir þetta síldarhaust eftirminnivert er, að tekin var upp að nýju hér í Vestmannaeyjum reknetaveiðiaðferðin gemla, og nú með nýrri vinnutækni.

Fiskimjölsverksmiðjan h.f. og starfsmenn hennar á loðnuvertíðinni.
Síldarsöltun í Vestmannaeyjum 1976
Nýtt salthús Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja er risið af grunni.
Ingólfur og Sveinn Matthiassynir um borð í báti sínum, nýkomnir úr róðri

Síldveiði í reknet lagðist niður í Vestmannaeyjum fyrir 1960, og lágu til þess ýmsar orsakir. Ein orsökin var sjálfsagt háhyrningaplágan. Fyrir kom að bátar drógu öll sín net meira og minna ónýt úr sjó, eftir háhyrninginn, og fór þá heldur að kárna gamanið með afrakstur veiðanna, ef þetta gerðist tvisvar eða jafnvel þrisvar yfir úthaldið, eins og dæmi voru til um. Svo var hitt, að síldin breytti hegðun sinni, og með nýrri fiskileitartækni breyttust eða lögðust niður gamlar siðvenjur við þessa veiði, sem síðan orsakaði það, að erfiðara varð að manna bátana. Reknetaveiðar þóttu alltaf erfiðar, þó að margir eldri sjómenn eigi um þær góðar minningar. Það var úrhristingurinn, sem þótti verstur.
Hin nýja vinnutækni við reknetin, sem áður er nefnd, er fólgin í nýju tæki, sem menn kalla úrhristara. Úrhristarinn leysir menn frá því erfiða starfi að hrista síldina úr netunum. Þórður Rafn á Dala-Rafni hefur sagt mér, að úrhristarann megi kalla sambærilega byltingu fyrir reknetin og nótablökkin var á sínum tíma fyrir nótaveiðiskapinn. Héðan voru gerðir út 4 bátar á reknetin:

Dala-Rafn fékk 315 tonn
Danski Pétur fékk 202 tonn.
Guðrún Magnúsdóttir og Hrauney voru stuttan tíma að veiðum og fengu minni afla.

Nú hefur loks verið byrjað á framkvæmdum í sambandi við uppbyggingu skipalyftunnar. Áformað er að hún geti tekið til starfa að ári, og verður þá unnt að taka hér upp allt að 750 rúmlesta skip (500 þungatonn). Áætlað er að á næstu árum geti starfsmenn fyrirtækisins orðið allt að 200.
Það er nýtt fyrirtæki, „Skipalyfta Vestmannaeyja h. f.", sem reka mun skipalyftuna. Þetta aðalfyrirtæki byggist svo á þremur fyrirtækjum: Skipaviðgerðum h. f., Geisla h. f. (rafvinnustofu Þórarins Sigurðssonar) og Vélsmiðju Vestmannaeyja, sem er nýtt fyrirtæki, stofnað af Vélsmiðjunni Völundi og starfsmönnum hennar.

Óskandi væri að áætlanir um skjóta uppbyggingu skipalyftunnar fái staðist, en ekki verður betur séð en ýmislegt, sem nú liggur ekki ljóst fyrir, komi til með að spila inn í það dæmi.
Hvað sem öðru líður er þörfin fyrir skipalyftu brýn, og rekstrarmöguleikarnir ættu að vera góðir, þar sem þetta verður eini slippurinn á Suðurlandssvæðinu, sem getur tekið upp minni skuttogarana og önnur skip svo stór. Ánægjulegt er að sjá, að bæjarstarfsmenn hafa aðeins byrjað framkvæmdir við að leiða óþverrann frá bænum og frárennsli verksmiðjanna útfyrir höfnina. Þörfin er orðin svo mikil, að þessu mátti ekki velta fyrir sér lengur. Manni skilst að búið sér að mæla allt og reikna út í bak og fyrir, einu sinni ef ekki oftar, svo varla getur staðið á upplýsingum um verkið, sem óhjákvæmilega liggur fyrir að vinna.
Að margra dómi er óþverrinn í höfninni af fyrrgreindum sökum eitt stærsta vandamál Vestmannaeyinga í dag. Úr þessu verður að bæta sem fyrst.

Trillukallar hafa gengið á fund bæjaryfirvalda og vakið athygli þeirra á hinni erfiðu og á margan hátt alls ófullnægjandi aðstöðu í höfninni fyrir þennan útveg. Bæjaryfirvöld munu hafa haft sæmileg orð um úrbætur, en ekki hefur ennþá orðið úr neinum framkvæmdum.
Trillukallar munu hafa bent á hentuga staðsetningu í höfninni fyrir þessa vinsælu starfsemi, og ýmisleg úrræði smábátaeigendum til gagns, sem a. m. k. nokkur önnur bæjarfélög hafa gripið til á undanförnum árum.
Ýmsir benda á, að það geti tæplega verið í verkahring hafnarinnar, þ.e. bæjaryfirvalda, að fjármagna sérstaklega aðstöðu fyrir smábáta, því þar sé fyrst og fremst um sport að ræða. Sportmenn eigi sjálfir að borga sitt sport. Þetta er nú samt það, sem bæjarfélögin eru að gera árlega í stórum stíl og þar á meðal Vestmannaeyjabær, að stuðla að hollri tómstundaiðju sem flestra bæjarbúa, og þykir orðið svp sjálfsagður hlutur, að menn taka ekki eftir því. Nægir þar að benda á golfið.

Talsverðar breytingar hafa orðið á skipaeign Vestmannaeyinga á næstliðnu Sjómannadagsári.
Annarsstaðar í blaðinu er sagt frá hinum nýja skuttogara, Klakki VE 103. Þá hafa þeir félagar Einar Ólafsson skipstjóri og Ágúst Guðmundsson vélstjóri keypt hingað Óskar Magnússon AK, og skírt Kap II. VE 4. Þetta er 335 lesta skip — yfirbyggt og með fullkomnum nótaveiðitækjum. Gamla Kap II. á nú heima á Grundarfirði.
Erling Pétursson, sem hefur verið með Surtsey, keypti Sölva Bjarnason BA 65, — 217 lesta skip. Erling átti áður hálfa Surtseyna á móti Einari Sigurðssyni.
Gunnlaugur Ólafsson, skipstjóri, keypti Þorbjörn II. úr Grindavík, og gerði hann út á net í vetur. Helgi Bergvins hefur náð sér í nýjan Stíganda frá Hornafirði; 148 lesta bát, sem áður hét Bergá. Gamla Stíganda á nú Hallgrímur Garðarsson, skipstjóri, og heitir hann Sæþór Árni VE 34. Þá keypti Sigurður Þórðarson í Eyjabergi Mumma GK frá Sandgerði (142 lestir), og skírði Ölduljón VE 130.
Loks var keypt hingað 247 lesta skip, Lárus Sveinsson frá Ólafsvík, og heitir nú Gunnar Jónsson VE 555. Eigendur eru Jón Valgarð Guðjónsson og Sigurður Georgsson, báðir þekktir skipstjórar hér í bæ.

Allt er sextugum fært.

Gullberg, Ísleifur og Huginn voru yfirbyggðir á s.l. hausti í Noregi. Kemur öllum saman um, að mikil breyting til bóta hafi orðið á öllum skipunum. Öryggi og þægindi skipshafna er ólíkt því sem var, og burðarþol hefur aukist til muna.
Hilmar Rósmundsson mun ætla með Sæbjörgina í yfirbyggingu og lengingu í sumar, og búast má við að þess háttar breytingar liggi fyrir fleiri skipum hér á næstunni.

Elsti báturinn, sem gerður er út í Vestmannaeyjum, Haförn VE 23, er 60 ára á þessu ári. Haförn er 36 brúttó rúmlestir og byggður í Esbjerg árið 1917. Í byrjun stríðsins keyptu Pétur Andersen og synir hans bátinn frá Danmörku, og gerðu hann út fram á árið 1959. Þá hét báturinn Meta.
Í septembermánuði 1959 kaupa þeir bræður Ingólfur og Sveinn Matthíassynir Metu; skíra upp og nefna Haförn. Og undir því nafni hafa þeir átt bátinn síðan og gert hann út með miklum myndarbrag. Það er mál allra sem til þekkja, að enginn sem skoði Haförn geti látið sér til hugar koma, að þarna sé um sextugan bát að ræða, svo vel er honum haldið við, utan og innan.

Sjómannadagsblaðið sendir afmælisbarninu og aðstandendum þess sínar bestu árnaðaróskir í tilefni þessara merku tímamóta.