„Blik 1959/Rætt við brennukóng“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 10: Lína 10:




::::::::::::::<big><big>''Rætt við''
::::::::::::<big><big>''Rætt við''





Útgáfa síðunnar 6. mars 2012 kl. 20:49

Efnisyfirlit 1959



„Brennukóngur“ og strákarnir
„Brennukóngur“ og strákarnir

.



Rætt við


brennukóng



„Hvað hefirðu nú annars verið lengi brennukóngur?“ spyrja strákar.
„Seytján ár.“
„Varstu áður við brennustörf?“
„Já, maður lifandi, ég var fimm ár áður með Pálma í Sveitarhúsinu, sem var hér brennukóngur árum saman. Maður verður auðvitað að læra þetta starf eins og annað. Þetta er meistaranám. Já, og nú hefi ég verið þessi brennumeistari í 17 ár samfleytt og þjónað bæði Tý og Þór.“
„En hvar lærðirðu að stela brennufangi?“
„Uss, það er ekki orð á gerandi. Ég stel aldrei. — Það kom nú bara af sjálfu sér. Fyrst lærði ég svolítið af meistaranum mínum gamla og so — og so ... Ég hefi nú helzt aldrei stolið eða látið stela öðru en því, sem menn hafa verið fegnir að losna við.“

„Æ, blessaður, segðu okkur aðeins eitt hnuplævintýri, sem sannar, hvað þú ert bráð sniðugur meistari í greininni.“
„Já, ég meistari, já, þið segið það strákar. — Ævintýri, já, maður.“
„Já, hvernig var þetta með olíutunnurnar hans Magnúsar og kranann hans til dæmis?“
„Nei, við tölum ekki um það; Mangi fékk bara kranann sinn aftur; en ég skal segja ykkur annað tunnuævintýri, þegar ég lék á lögguna.“
Nú ljómuðu strákarnir. „Hvernig er það? Hvernig er það?“
„Já, það, já, — það var nú svoleiðis, skal ég segja ykkur, að ónefndur maður í bænum, þið þekkið hann, það veit ég, átti 57 síldartunnur geymdar inni í opinni kró, sem auðvitað átti að vera læst, ef hann hefði viljað eiga tunnurnar. En nú var hún opin, og þessvegna fannst mér, að hann mundi alls ekki vilja eiga tunnurnar. Já, svo tókum við tunnurnar og fluttum þær svona til vonar og vara heim í pútnakofann hennar mömmu.“
„Komust þær allar þar inn?“ spurðu strákarnir.
„Já, já, alveg leikandi, maður, allar, allar með því að geyma 20 tunnur undir Pöllum, þá komust þær allar inn í pútukofann hennar mömmu.“
,,En púturnar þá?“
„Já, bönnvaðar púturnar, já; þær voru bara svona á prikunum og sátu uppi á tunnunum.“
„Nú, hvað svo?“ spurðu strákarnir ákafir.
„Já, kva so; — jú, maðurinn kærði tunnuþjófnaðinn og Stebbi fór á stúfana, stæltur og gylltur, allur borðalagður. Hann kom heim og ég kom til dyra, þegar hann barði. Hann heimtaði tunnurnar. „Ég hefi ekki stolið neinum tunnum,“ sagði ég. „Hvernig tunnum? - Nú, síldartunnum, hafa þær nokkurn tíma verið til í þessum bæ?" „Hvað er í þessum kofa þarna?“ spurði Stebbi snöggur. „Kofanum þeim arna,“ sagði ég, „það eru púturnar hennar mömmu.“ „Fá að sjá í hann strax,“ sagði hann valdsmannslegur og vondur.
„Alveg sjálfsagt,“ sagði ég, „en hann er læstur og ég þarf að sækja lykilinn inn.“ — „Onei láttu það eiga sig,“ sagði Stebbi rólegri. Mér létti. „Það er alveg velkomið, að þú fáir að sjá allar gömlu púturnar hennar mömmu.“
Svo fór hann. Um kvöldið tókum við so allar tunnurnar í bíl, — já, það var bönnvað puð, maður, og ókum með þær vestur í sumarbústaðinn hans Gunnars. Þar settum við þær allar inn. So fylltum við alla glugga kofans af heyi, sem við fengum sona hinsegin úr hlöðu fyrir ofan hraun.
Næsta dag fór löggan um hraunið og leitaði að tunnunum. Hún lét opna alla sumarbústaðina, en þegar hún kom að kofanum hans Gunnars fannst henni ekki nokkur ástæða til að opna hann, sem var toppfullur af heyi! „Fjandakornið, ekki geta rúmast þar neinar síldartunnur,“ hugsaði Stebbi.
„Seinna fluttum við svo tunnurnar í stabbann á Fjósakletti. Það var bönnvað puð, maður; og brenndum þeim á þjóðhátíðinni. Við hlóðum að þeim gömlum bátum og spýtum og öðru timbri, so Stebbi sæi þær ekki. So spaugaði hann í hátalarann um kvenbuxur og nælur, tanngarða og aðra tapaða hluti, en við brenndum tunnunum. Seinna þakkaði Stebbi mér fyrir fallegu brennuna, sem hann sagði, að hefði verið sú stærsta og bjartasta, sem hann nokkru sinni hefði séð. Þá hló brennukóngur, það segi ég satt.
Nei, ég stal ekki í brennur að öllum jafnaði, það er satt, strákar. En þið ættuð að vita, hvernig hann Dídíus hefir það. Hann stelur — hann stelur öllu, líka því, sem ekki brennur. Hann gengur bara með stelsýki. Einu sinni kom hann með mikið af asbesti frá Tanganum eða Helga Ben. Það bara brann ekki. So helltum við olíu á það. Alveg sama, það brann ekki. Ég veit það hefði brunnið, ef við hefðum haft benzín! — Og einu sinni stal hann olíutunnu alveg fullri. So þegar við opnuðum hana og skvettum úr henni, — þá, — nei, fari það sjóðbullandi, sagði ég. Hún var þá stútfull af vatni, bönnvuð tunnan.
Nei, strákar, menn verða að vita hverju þeir stela, sko. Það er meistarinn, sko, strákar.“
Nú þagnaði brennukóngur, en strákarnir vildu auðsjáanlega fá meira að heyra.
„Hversu hátt má hlaða brennuköstinn?“ spurðu strákar.
„Já, brennuköstinn, já, — Já, svona upp undir toppinn og upp í toppinn. En upp fyrir toppinn má aldrei hlaða hann, nei, aldrei. Það er sko meistarinn. Og so má aldrei skvetta benzíni á bálið, það er stórhættulegt, því að það eltir fötuna og kemur til manns aftur, og þá getur það brennt mann.“




RITNEFND ÁRSRITSINS SKIPA NÚ:
Björn Í. Karlsson, landsprófsdeild,
Hrefna Óskarsdóttir, 3. b. verkn.,
Brynja Hlíðar, 3. b. bókn.,
Valgeir Jónasson, 2. b. A,
Hildur Axelsdóttir, 2. b. B,
Dóra Þorsteinsdóttir, 2. b. C,
Ragnar Baldvinsson, 1. b. A,
Erlendur G. Ólafsson, 1. b. B,
Arnar Einarsson, 1. b. C,
Ábyrgðarmaður:
Þorsteinn Þ. Víglundsson.
Prentsmiðja Þjóðviljans.