„Saga Vestmannaeyja, endurútgáfa/ Formáli endurútgáfu“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: <br> <br> <br> <big><big><big><center>Formáli 2. útgáfu</center></big></big> ''Saga Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, þáverandi bæjarfógeta í Eyjum, kom út árið 1946.<...) |
m (Verndaði „Saga Vestmannaeyja, endurútgáfa/ Formáli endurútgáfu“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Núverandi breyting frá og með 1. september 2011 kl. 20:32
Saga Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, þáverandi bæjarfógeta í Eyjum, kom út árið 1946.
Þetta mikla tveggja binda verk þótti sœta nokkrum tíðindum því ritun héraðssagna var þá á frumstigi. Höfundur Eyjasögunnar kannaði sæg skjala í söfnum innanlands og utan, auk annarra heimilda. Hefur lagt áherslu á að afla fanga um liðnar aldir til loka hinnar 19du. Var hyggilega að verki staðið, síðari tímar bíða þá annarra sagnaritara.
Í fyrra bindi er kirkjusaga Eyjanna lengst. Í Eyjum er þriðja elsta steinkirkja landsins, talin fullbyggð um 1778. Þá segir frá Mormónum í Eyjum, sem sættu ofsóknum yfirvalda þrátt fyrir trúfrelsi sem átti að vera í ríkjum Danakonungs.
Þá eru atvinnu- og hagsögu gerð ítarleg skil fremur en persónusögu. Þjóðlífslýsingar er áhugavert efni okkar kynslóð, svo mjög sem lífshættir hafa breyst.
Tyrkjaránið er löngum talinn válegasti atburður í sögu Vestmannaeyja, margir íbúar þessa friðsœla þorps drepnir, rán framin og hús brennd til ösku. Í framhaldi af því er kafli um virki og varnir. Fyrra bindi lýkur á frásögn um Herfylkingu Vestmannaeyja sem stofnuð var 1857 og var við lýði nokkur ár. Er þessi kafli bæði fróðlegur og skemmtilegur. Einstæður þáttur Íslandssögunnar.
Í öðru bindi segir m.a. frá því er Vestmannaeyjar urðu konungseign; óljóst hvernig þau kaup gerðust. Í konungsbréfum voru Vestmannaeyjar ekki taldar hluti af Íslandi, sbr. Vort land Ísland og Vespenö. Verslunarsagan er rakin, fróðleg en eigi geðþekk, saga einokunar danskra selstöðukaupmanna sem linnti í lok síðustu aldar.
Almenn skatta- og tíundalög voru ekki í gildi í Eyjum fyrr en um 1880. Laun embættismanna, presta og sýslumanna, voru greidd í fiski eftir vissum reglum. Tekjur þessara manna réðust því af aflabrögðum.
Eyjasögu Sigfúsar bæjarfógeta var vel tekið yfirleitt. Raddir heyrðust um að stíllinn væri nokkuð þurr og myndaval hefði ekki tekist nógu vel.
— Sagnfræðirit flokkast ekki að öllum jafnaði undir „létt efni“ en geta þó engu að síður verið skemmtileg aflestrar, eins og Eyjasaga er að stórum hluta.
Sigfús sendi frá sér þrjár stórar bækur eftir að embœttisönnum hans lauk: Herleiddu stúlkuna, skáldsögu 1960, Uppi var Breki, einskonar minningaskáldsögu 1968 og Yfir fold og flæði, æviminningar 1972. Sagan um herleiddu stúlkuna (í Tyrkjaráninu) er studd sögulegum heimildum.
Dæmi um knappan og myndríkan stíl Sigfúsar er t.d. að finna í upphafi bókarinnar Uppi var Breki: ,,Sólin var löngu komin yfir Helgafell og skein í heiði. Fagurt var í Eyjum nú sem fyrr. Úti fyrir lá hafflöturinn silfurgljáandi undir sól að sjá. Fjöll og hnjúka hillti uppi á landi svo langt sem augað eygði. Hvítur jökulskallinn glóði. Fiskilegt var til sjávarins. Síldarhlaup vissi á fiskigöngur, og margan hafði dreymt sílalega nú í jafndægrastrauminn“.
Sá sem þessar línur skrifar varð þess fljótt var, að Saga Vestmannaeyja var allmikið lesin í Eyjum, jafnvel meir er frá leið. Í bréfi til bókavarðar segir höfundur: „Ánœgjulegt er að heyra um vaxandi áhuga fyrir Eyjasögunni, og það meðal yngra fólksins. Ég reyndi af fremsta megni að vanda til sögunnar og lagði á mig mikið erfiði. Heimildasöfnunin og vinnsla úr þeim kostaði geysimikla vinnu, en ég önnum kafinn við önnur störf en andi forfeðranna held ég að hafi svifið yfir vötnunum“.
Í þessari útgáfu Eyjasögunnar eru allar mannamyndir úr fyrri útgáfu, auk fjölda nýrra mynda af fólki og atburðum. Myndaval í rit sem þetta er vandasamt og verður vart gert svo öllum líki.
Saga Sigfúsar frá ,,eyríkinu“ í suðri hlaut allmikla umfjöllum fræðimanna og fleiri. Jón Á. Kristjánsson (A J. Johnson) sagði m.a. í Morgunblaðinu, að ritið tæki yfir allt sem við kemur Eyjum frá fyrstu tíð til okkar daga, þó ítarlegar frá fyrri tímum en hinum síðari. Alexander Jóhannesson, prófessor, ritaði um bókina, Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti og Steindór Steindórsson menntaskólakennari, sem sagði að Eyjasagan mætti verða ,,til fyrirmyndar um ritun héraðssagna“. Þorkell Jóhannesson prófessor taldi Eyjasöguna ,,í heild veigamikið rit til skýringar sögu vorri“. Árni Pálsson prófessor í ritdómi: ,,Einstakt fræðirit sem bætir úr brýnni þörf“.
Blöð í Vestmannaeyjum gerðu tílkomu Eyjasögu nokkur skil, þó fremur í fréttaformi en ritdóma. Í Framsóknarblaðinu 22. nóvember 1946 segir, að í Eyjasögunni sé að finna mikinn fróðleik um Eyjarnar og sögu þeirra frá öndverðu og víða leitað fanga. Þá eru nefnd nöfn aðallega embættismanna, er vanti í myndasafnið.
Í Eyjablaðinu 31. desember 1946 er skýrt frá aðalefni ritsins. Þar er klykkt út með þessum orðum:,, Þótt sitt kunni að sýnast hverjum um þetta mikla rit, þá fer ekki milli mála, að höfundurinn hefur lagt í það feikna mikla vinnu og á þakkir allra þeirra, er einhvers meta sögu byggðarlags og lands“.
Í Brautinni í Eyjum 20. mars 1947 birtist grein um tvær bækur og var önnur þeirra Saga Vestmannaeyja. Þá er bók Sigfúsar hafði verið fundið ýmislegt til foráttu án teljandi rökstuðnings segir greinarhöfundur: ,,En enginn vafi er á því að höfundurinn hefur lagt mikla elju og ástundun í að viða að sér efni og er eflaust þar að finna mikinn fróðleik fyrir þá fræðimenn, er í komandi framtíð leggja fyrir sig að rannsaka sögu þessa útskers“. — Brautargreinin varð tilefni harðrar deilu ritstjóra Brautar og Framsóknarblaðsins svo að sá fyrrnefndi ýjaði að málssókn.
Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri minntist í ritinu Bliki þeirra hjóna, frú Jarþrúðar og Sigfúsar Johnsen. Nokkru fyrr hafði Vestmannaeyjabær eignast Kjarvalssafn þeirra hjóna, 34 málverk.
Í grein Þorsteins segir um embættisferil Sigfúsar og fræðistörf:,, Hann var með afbrigðum skyldurækinn embættismaður, réttsýnn og velviljaður, og því jafnan við brugðið í Eyjum, hve alúðlegur hann var við hinn óbreytta borgara, laus við allan embættishroka og sjálfbirgingshátt. . . og hann mundi ágœtur talinn þá tímar líða fyrir afrek sín á sviði fræðimennsku og söguritunar. . . þegar fyrnist yfir hans langa og vammlausa embættisferil, mun nafn hans verða þekktast í hópi kunnustu rithöfunda þjóðarinnar á sviði félagslegra og sögulegra fræða“.
Að Sigfúsi stóðu sterkir og sérstæðir ættstofnar, danskir athafnamenn í kaupsýslustétt, séra Jóns Austmannsætt og bændaætt í Öræfum. Hann var mikill að vallarsýn, manna kempulegastur, mótaður af fasi embættismanna aldamótanna síðustu.
Sú saga var sögð af Sigfúsi að eldri konur í Reykjavík, jafnvel þær er ekki höfðu sprett úr spori í áratugi, hafi hlaupið við fót langar leiðir sæju þær Sigfús á götu, til þess eins að mæta honum. Ástæðan var sú að Sigfús heilsaði frúm með svo miklum virktum.
Það tók þennan hávaxna dökkklædda mann í síðum frakka með hatt og staf tuttugu og fimm metra að heilsa. Fyrst breyttist göngulagið örlítið, síðan fór stafur hans upp á vinstri handlegg og á réttum tíma var handsveiflan komin upp að hattinum, var þá tekið ofan og hneigt sig fyrir hinni virðulegu frú á réttu augnabliki. — Síðan færðist göngulag og fas þessa glœsimennis í fyrra horf.
Annars verður Sigfúsi vart betur lýst í örstuttu máli en í minningarorðum Freyðmóðs Þorsteinssonar fyrrv. bœjarfógeta í Tímariti lögfræðinga 1974. Lokaorð hans eru þessi: ,,Sigfús M. Johnsen var glæsimenni í útliti, hár vexti og bar sig vel og var virðulegur í fasi. Hann var háttvís í framkomu og viðmótið alúðlegt. Hann var friðsamur að eðlisfari og kaus jafnan að leysa hvert mál, er að höndum bar, á þann veg að allir mættu vel við una. Góðvild hans leyndi sér ekki í samskiptum við aðra, og ávann hann sér því vináttu margra manna, sem minnast hans með hlýjum hug.“