„Blik 1969/Ungmennafélagið Baldur, Hvolhreppi“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 16: Lína 16:


<big>Ungmennafélagið Baldur í Hvolhreppi var stofnað árið 1924. Áður hafði þar starfað ungmennafélag, sem bar nafn Stórólfs sterka á Stórólfshvoli. <br>
<big>Ungmennafélagið Baldur í Hvolhreppi var stofnað árið 1924. Áður hafði þar starfað ungmennafélag, sem bar nafn Stórólfs sterka á Stórólfshvoli. <br>
Forgöngumenn fyrir stofnun Baldurs voru þessir menn: Ólafur Bergsteinsson, Árgilsvöllum, Sigurjón Gunnarsson, Velli, Þorkell Jóhannsson, Miðkrika, og Ólafur Sigurðsson, Vindási.<br>
Forgöngumenn fyrir stofnun Baldurs voru þessir menn: Ólafur Bergsteinsson, Árgilsstöðum, Sigurjón Gunnarsson, Velli, Þorkell Jóhannsson, Miðkrika, og Ólafur Sigurðsson, Vindási.<br>
Í Hvolhreppi voru 24 bæir eða jarðir í byggð, þegar ungmennafélag þetta var stofnað. Í félagið gengu bæði piltar og stúlkur, og urðu félagar 44 þá flestir voru. Fundi hélt félagið hálfsmánaðarlega frá veturnóttum fram að áramótum.<br>
Í Hvolhreppi voru 24 bæir eða jarðir í byggð, þegar ungmennafélag þetta var stofnað. Í félagið gengu bæði piltar og stúlkur, og urðu félagar 44 þá flestir voru. Fundi hélt félagið hálfsmánaðarlega frá veturnóttum fram að áramótum.<br>
Á ári hverju efndi ungmennafélag þetta til 3-4 almennra skemmtana og var ein af þeim álfadans.<br>
Á ári hverju efndi ungmennafélag þetta til 3-4 almennra skemmtana og var ein af þeim álfadans.<br>

Útgáfa síðunnar 28. september 2010 kl. 21:35

Efnisyfirlit 1969


ÓLAFUR SIGURÐSSON FRÁ VINDÁSI:


Ungmennafélagið Baldur, Hvolhreppi


Í ljósmyndasafni Kjartans heitins Guðmundssonar rakst ég á mynd þá, sem fylgir grein þessari. Hún er af nokkrum félagsmönnum Ungmennafélagsins Baldurs í Hvolhreppi. Með því að ég þekkti þriðja mann í aftari röð frá vinstri á myndinni, Ólaf Sigurðsson að Vestmannabraut 3 hér í bæ, kom mér til hugar að leita eftir fræðslu hjá honum um félaga hans á myndinni.
Nú hefur Ólafur Sigurðsson sýnt Bliki þá velvild að skrifa dálitla grein fyrir það um Ungmennafélagið Baldur, sem hann var félagi í, og gera um leið nokkra grein fyrir piltunum, sem með honum eru á myndinni.

Þ.Þ.V.


Ungmennafélagið Baldur í Hvolhreppi var stofnað árið 1924. Áður hafði þar starfað ungmennafélag, sem bar nafn Stórólfs sterka á Stórólfshvoli.
Forgöngumenn fyrir stofnun Baldurs voru þessir menn: Ólafur Bergsteinsson, Árgilsstöðum, Sigurjón Gunnarsson, Velli, Þorkell Jóhannsson, Miðkrika, og Ólafur Sigurðsson, Vindási.
Í Hvolhreppi voru 24 bæir eða jarðir í byggð, þegar ungmennafélag þetta var stofnað. Í félagið gengu bæði piltar og stúlkur, og urðu félagar 44 þá flestir voru. Fundi hélt félagið hálfsmánaðarlega frá veturnóttum fram að áramótum.
Á ári hverju efndi ungmennafélag þetta til 3-4 almennra skemmtana og var ein af þeim álfadans.
Ungmennafélagið Baldur hafði góð áhrif á andann í byggðinni, jók samheldni unga fólksins í hreppnum og stuðlaði að bindindi, því að bindindisheit félagsmanna var í heiðri haft.
Félagsmenn æfðu glímu og sýndu sundáhuga sinn í verki með því að byggja sundlaug, sem notaðist vel, þó að frumstæð væri.
Ef veikindi steðjuðu að heimilum, svo að erfiðleikum varð bundið að fullnægja þörfum heimilisins utan veggja sem innan, hlupu ungmennafélagarnir undir bagga, veittu heimilishjálp ýmist innan bæjar eða utan eftir ástæðum.
Stæði bóndi höllum fæti við öflun heyja um sláttinn, veittu ungmennafélagarnir hjálp með vinnugjöfum dag og dag.
Á sumrum beitti Ungmennafélagið sér fyrir sameiginlegum skemmtiferðum unga fólksins í hreppnum. Þá var farið á hestum inn á Þórsmörk eða Hraunteig, sem er skóglendi vestur af Heklu, og víðar var dvalið stund úr degi. Á þessum árum var lítið um bifreiðar í hreppnum og flestar ár óbrúaðar.
Þrisvar eða fjórum sinnum á vetri hverjum voru fengnir fyrirlesarar, sem fluttu okkur unga fólkinu fræðandi erindi. Þar má nefna Sigurð Greipsson, bónda og skólastjóra í Haukadal, Ragnar Ásgeirsson, garðyrkjuráðunaut Búnaðarfélags Íslands, Guðmund Guðfinnsson lækni á Stórólfshvoli, Björgvin Vigfússon, sýslumann á Efra-Hvoli, og Sigfús Sigurðsson, barnakennara hreppsins. Fleiri voru fyrirlesararnir, þó að nöfn þeirra séu ekki nefnd hér.
Ungmennafélagið Baldur sendi stundum efnilega íþróttamenn til Reykjavíkur til þess að keppa þar í glímu, sundi og fleiri íþróttum.
Menntafólk í hreppnum var Ungmennafélaginu ómetanlegur styrkur, svo sem læknishjónin á Stórólfshvoli, - kona Guðmundar læknis var Margrét Lárusdóttir, sýslumannshjónin á Efra-Hvoli, - kona Björgvins sýslumanns var frú Ragnheiður Einarsdóttir, ættuð úr Breiðdal o.fl.
Ungmennafélögin í Rangárvallasýslu höfðu samtök sín á milli. Þau samtök voru til menningar og ánægju, gleði og kynningar, hjálpar og þroska öllu ungu fólki í sýslunni, sem þar var að alast upp. Þessi ungmennafélög voru: Ungmennafélagið Þórsmörk í Fljótshlíð, Ungmennafélagið Hekla á Rangárvöllum. Og svo voru einnig ungmennafélög undir Eyjafjöllum og í Landsveit, þó að eigi séu þau nafngreind hér.
Flest þessi ungmennafélög mynduðu með sér Ungmennasambandið Skarphéðin, sem Sigurður Greipsson var formaður fyrir.
Ungmennafélögin í Rangárvallasýslu héldu íþróttamót að vorinu, ýmist að Þjórsártúni eða Kambstaðarbökkum.
Hvolhreppur lánaði Ungmennafélaginu Baldri barnaskólahúsið til fundarhalda og skemmtana, því að ráðandi menn hreppsins skildu vel hið mikilvæga gildi ungmennafélagsstarfsins fyrir unga fólkið í hreppnum og hreppsfélagið í heild. Þá mun Baldur hafa verið eini félagsskapurinn í hreppnum.
Kvenfélag var þá ekki stofnað þar. Stofnun þess átti sér stað, eftir að þorp tók að myndast á Hvolsvelli, og það gerðist, þegar Kaupfélag Hallgeirseyjar byggði verzlunarhús þar og flutti bækistöð sína þangað.
Ungmennafélagið Baldur er enn við lýði, og líklega er það öflugra nú en nokkru sinni fyrr. Hið myndarlega félagsheimili á Hvolsvelli er því ómetanlegur styrkur og aflgjafi. Þar rekur Ungmennafélagið starfsemi sína. Þar er bækistöð þess. Hvolhreppur er líka orðinn tvisvar eða þrisvar sinnum fólksfleiri en hann var, þegar Ungmennafélagið Baldur hóf tilveru sína og starf. Því veldur þorpið á Hvolsvelli.
Þá kem ég að myndinni, sem fylgir þessum orðum mínum um ungmennafélagsstarfsemina í Hvolhreppi á æsku- og duggarabandsárum mínum. Þau minni ylja mér og fylgja mér til hinztu stundar.
Kjartan ljósmyndari Guðmundsson frá Hörgsholti tók þessa mynd af okkur félögunum úti í Vestmannaeyjum á páskum 1934. Þar höfðum við þá unnið þá vertíð.
Skal nú fyrst greint frá ferðalagi okkar til Eyja.
Hinn 3. janúar 1934 1ögðum við af stað frá Stórólfshvoli og vorum reiddir á hestum út að Steinslæk í Holtum. Veður var sæmilegt.
Við gengum svo frá Steinslæk að Kotströnd í Ölfusi. Við komum þangað í kafaldsdrífu, en um nóttina rauk hann upp með mikinn gadd. Um morguninn kl. 5 fórum við frá Kotströnd. Áður höfðum við „brætt hann“, því að tvísýnt var, hvort við ættum að leggja upp, því að veður útlit var ískyggilegt.
Þegar við komum upp á Kambabrún, búnir að keifa upp Kambana rennsveittir, var kominn brunagaddur og svartabylur á norðan. – Þarna bárum við saman ráð okkar, hvort við ættum að snúa við eða freista þess að komast að Kolviðarhóli. Hið síðara var afráðið. Rifu þá tveir okkar upp nesti sitt, og snæddum við beingaddað kjöt og svo kökur. Smjörið á þeim var gaddað, - og hafði ég aldrei borðað með vettlingum fyrr.
Snjórinn var svo mikill, að ekki mótaði fyrir vörðunum, og ekki hefði sézt á milli þeirra sökum dimmviðris, þó að þær hefðu staðið upp úr snjónum. Ekki mótaði fyrir veginum heldur. Tókum við þá það ráð, að við fylgdum símastaurunum.
Hver okkar bar á milli 50-60 pund (25-30 kg), - nesti okkar og öll föt.
Sá yngsti okkar var 16 ára og sá elzti eitthvað yfir fertugt.
Sumir okkar tóku að örmagnast á miðri leið. Var þá tekið það ráð að láta Helga Jónsson í Króktúni ganga fyrstan og mig síðastan til þess að sjá um, að enginn drægist aftur úr.
Svo rak að því að taka varð byrðar af einum þrem okkar, og skiptust hinir á að bera þær.
Kl. hálf sex um daginn komum við að Kolviðarhóli. Það var fegins stund. Við hjálpuðum þá hver öðrum að skafa snjóinn af sér og gera sig húsum hæfan.
Þá voru fyrir á Kolviðarhóli um 40 manns. Vakað var um nóttina við að þurrka föt ferðalanganna.
Morguninn eftir var komin asahláka, og fórum við ekki af stað fyrr en um hádegi. Þá urðum við að vaða Sandskeiðið í kálfa og mitt læri. Nokkru síðar um daginn gerði útsynningsbyl. Undir kvöld komum við að Lögbergi og gistum þar um nóttina. Þar skiptum við um föt, en svo var kuldinn mikill í húsinu, að við festum naumast blund um nóttina. Frá Lögbergi fórum við um níuleytið um morguninn og komum við á Árbæ um tvö-leytið. Þar er nú byggðasafnið nafnkunna.
Að Árbæ keyptum við okkur sætt kaffi og kringlur, hvíldum okkur þar vel og sungum mikið af ættjarðarsöngvum. Margrét húsfreyja, sem þar réði húsum, varð svo hrifin af söngnum, að hún eldaði vatnsgraut handa okkur og bar hann fram með púðursykri. Það fannst okkur sá bezti matur, sem við þá gátum átt völ á. Þegar við svo ætluðum að greiða grautinn, vildi hún ekki taka við neinum peningum af okkur. Þá létum við sína krónuna hver í sykurkar þar á borðinu.
Sumarið 1967 kom ég að Árbæ og í stofuna, þar sem við sungum mest. Þar sá ég sykurkarið, sem við létum krónurnar í.
Þegar við kvöddum, þakkaði Margrét okkur fyrir sönginn og kyssti okkur á kinnina hvern og einn.
Síðan þrömmuðum við niður í Reykjavík og beina leið um borð í Lýru, sem fór kl. 8 um kvöldið til Vestmannaeyja. Á leiðinni lágum við allir í lest og komum kl. 3 daginn eftir til Eyja í austan stórviðri, svo að knappast var hægt að flytja fólkið í land fyrir Eiðið. Farið frá Reykjavík til Eyja kostaði þá 7 krónur. Að heiman fór ég með 30 krónur í vasa. Þær hafði ég fengið að láni í Sparisjóðnum í Garðsauka hjá Sæmundi „sparisjóðshaldara“. Þetta þóttu þá miklir peningar til ferðarinnar. Ég hafði selt Sparisjóðnum víxil, sem Helgi læknir Jónasson hafði skrifað upp á. Af þessum 30 krónum átti ég 11 krónur eftir, þegar ég steig á land í Eyjum.
Á vertíð tók ég enga peninga uppí kaupið mitt fyrr en á lokadag, en ég var sérlega heppinn um veturinn. Aflahluturinn nam 1250 krónum, og þóttu það miklir peningar þá. Auk þess fékk ég fæði og húsnæði endurgjaldslaust en fyrir það hvorttveggja var venjulega greitt þá kr. 65,00 á mánuði.
Við, sem á myndinni erum, dvöldumst allir við vertíðarstörf í Vestmannaeyjum 1934, og óska ég nú að gera nánari grein fyrir hverjum okkar eftir því sem ég veit sannast og réttast.


Vertíðarmennirnir úr Ungmennafélaginu Baldri, er um ræðir í greininni.
Aftari röð frá vinstri: 1. Ingimundur Þorkelsson, Vestri-Garðsauka - 2. Pálmi Jóhannsson, Miðkrika - 3. Ólafur Sigurðsson, Vindási - 4. Helgi Jónsson, Króktúni - 5. Sigurður Einarsson, Vestri-Garðsauka - 6. Jón Gunnarsson, Velli - 7. Sigurjón Gunnarsson, Velli - 8. Þorkell Jóhannsson, Miðkrika - 9. Ingólfur Gíslason, Laugagerði, nú til heimilis að Hólagötu 33 hér í bæ - 10. Björgvin Guðjónsson, Brekkum.
Fremri röð frá vinstri: 1. Halldór P. Jónsson, Krókatúni – 2. Sigursteinn Þorsteinsson, Djúpadal – 3. Kári Ingvarsson, Markaskarði – 4. Sigurður Jóhannsson, Miðkrika – 5. Sigurður Gunnarsson, Velli – 6. Hjörleifur Gíslason, Laugagerði – 7. Árni Þorleifsson, Miðhúsum.