„Blik 1951/Um próf“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
m (Verndaði „Blik 1951/Um próf“ [edit=sysop:move=sysop])
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 2. júní 2010 kl. 21:49

Efnisyfirlit 1951



SIGURÐUR FINNSSON, kennari


UM PRÓF


Sigurður Finnsson

Vísindi vorra tíma veita víðtæka þekkingu á mörgum merkilegum og torskildum gátum þessa heims. Maðurinn hefur tekið vísindin í sína þjónustu og nýtur nú ávaxta þeirra ríkulega. Margur mun samt hugsa sem svo, að vísindin séu hvergi nærri óskeikul og muni aldrei verða það, og tel ég mig í þeim hópi. Fásinna myndi mér þó finnast að hafna þeim og kasta algerlega fyrir borð.
Mundu sjómenn vilja missa t.d. dýptarmælinn án þess að fá nokkuð í staðinn, þótt í ýmsum tilfellum sé ekki hægt að reiða sig á hann. Því flóknari sem tækin verða, því meiri hætta er oft á, að þau bili að einhverju leyti. Sérstaklega á þetta við um mörg nákvæm mælitæki. Með þeim þarf að hafa stöðugt eftirlit, sem kunnáttumenn einir geta framkvæmt. Þrátt fyrir slíkar varúðarráðstafanir valda bilanir á flóknum mælitækjum dauða fjölda manna á ári hverju. Tæki þessi gera þó svo mikið gagn að öllum jafnaði, og vinna þeirra er oftast svo nákvæm, að menn munu vart nú vilja né geta án þeirra verið.
Þeir, er nám stunda og búa sig undir sérstaka atvinnu, verða venjulega að leysa af hendi próf, sem sýnir hæfni þeirra, kunnáttu og leikni í námsgreininni, t.d. stýrimannapróf, vélstjórapróf, flugmannapróf, gagnfræðapróf, stúdentspróf, landspróf o.s.frv.
Öllum mun ljóst vera, að nauðsyn ber til þess, að t.d. bílstjóri, sem ber ábyrgð á lífi margra farþega, hafi sýnt og sannað færni sína; og það hefur hann gert, hafi hann staðizt prófraunir þær, er fyrir hann voru lagðar. Standist hann ekki prófið, fellur hann sem kallað er, og verður að undirbúa sig betur, ef hann vill aftur ganga undir próf.
Mundum vér vilja fljúga með flugmanni, sem ekki hefði leyst af hendi flugpróf og væri því réttindalaus? Nei, vissulega væru þeir fáir, sem hætta vildu þannig lífi sínu. Fleiri dæmi mætti nefna, sem sýna oss svart á hvítu, að mikið öryggi felst í því, að viðkomandi aðilar leysi af hendi prófraunir, er sýni og sanni, að þeir séu starfa sínum vaxnir.
En bílar rekast saman, þeim er ekið á vegfarendur, og við vitum um mörg önnur farartæki, sem valda slysum. Og voru ekki stjórnendur farartækjanna oftast með full réttindi? Jú, vér vitum vel, að svona atburðir gerast; en mundu þeir ekki verða tíðari, ef sleppt væri öllum kröfum um ökuréttindi?
Sá, er próf þreytir, verður að ná einhverri vissri lágmarkseinkunn, ef hann á að standast prófraunina. Er það nú víst, að prófið sýni rétta niðurstöðu, þ.e. gefi rétta hugmynd um hæfni og kunnáttu próftakanda í prófgreininni? Já, oftast má treysta því, að úrlausn próftakanda sé í samræmi við getu hans. En að mínum dómi er hér þó um að ræða undantekningar. Hlutaðeigendur geta verið sérstaklega heppnir eða óheppnir í prófinu. Einn hefur t.d. lesið úrlausnarefnið sérstaklega vel, betur en aðra kafla námsefnisins, og prófseinkunn hans verður þá hærri en honum ber raunverulega. Öfugt verður þetta vitanlega, sé próftakandi óheppinn; einkunn hans er þá lægri en honum ber.
Foreldrum er það oft áhuga- og nauðsynjamál, að fá fullkomna vitneskju um námsgetu barna sinna. Þeir vita, að ekki er skynsamlegt að láta börnin til langs bóknáms, ef geta þeirra á því sviði er fyrir neðan það lágmark, sem skólarnir krefjast. Það, sem foreldrar geta stuðzt við, eru umsagnir kennaranna, einkunnir í námsgreinunum, gáfnapróf og fordildarlaus athugun þeirra sjálfra.
Gáfnapróf eru notuð í æ stærri stíl og útkomu þeirra má mjög mikið treysta, en ekki er þó hægt að reiða sig á eitt einstakt próf; taka verður mörg próf og finna síðan meðaltalið. Sjaldan mun þá bregðast, að útkoman verði nærri lagi.
Um próf í einstökum námsgreinum mætti skrifa langt mál. Í vetur lagði ég eftirfarandi spurningar fyrir nemendur Gagnfræðaskólans hér, og var þeim svarað eins og skráin sýnir:

nei
1. Lestu betur námsefnið,
ef þú veizt,
að þú verður
prófaður í því?
66 1
2. Viltu hafa
prófin skrifleg
64 3
3. Viltu hafa
prófin munnleg?
3 64
4. Álítur þú,
að gefa skuli
einkunnir
nákvæmlega
eftir úrlausnunum?
31 36
5. Álítur þú rétt,
að þér sé gefin
hærri einkunn
en úrlausnin
gefur tilefni til,
ef þú hefur
verið óheppinn?
43 24
6. Álítur þú rétt,
að þér sé gefin
lægri einkunn
en prófverkefnið
sýnir, ef þú hefur
verið heppinn?
7 60
7. Finnst þér náms-
greinarnar
mismunandi
skemmtilegar?
66 1
8. Færðu hærra í þeim
námsgreinum,
sem þér finnst
skemmtilegar?
58 9
9. Álítur þú,
að þeir nemendur,
sem bezt eru
að sér í
námsgreinunum,
fái hæstu
einkunnirnar?
60 7
10. Helgar þú tómstundir
þínar einhverju
gagnlegu og
ákveðnu viðfangs-
efni?
32 35

Svo má heita, að allir séu sammála um það, að þeir sæki námið fastar, ef prófið er yfirvonandi. Þarf engan að undra, þótt svo sé. Þetta eru unglingar, sem ekki þekkja sjálfa sig og þau viðfangsefni, sem bíða þeirra í lífinu. Nauðsyn námsgreinarinnar er þeim því oft óljós og læra þeir hana því oft vegna prófsins. Þetta á þó ekki við um þær námsgreinar, er nemandinn hefur yndi af að læra. En það er eitt, sem varla mun hugsanlegt, og það er það, að allir nemendurnir hafi yndi af öllum námsgreinunum. Vera má, að námsgreinar skólanna séu of margar, en hins verður einnig að gæta, að ungt fólk þekkir ekki köllun sína eða þau viðfangsefni, sem þeim henta bezt í lífinu. Það er vandi að velja, og sá á kvölina sem á völina. Hinn víðsýni á hægara með að rata um troðninga torráðinna viðfangsefna; og sá, sem margt hefur lært, hefur því öðlazt dýrmæta þekkingu, sem á að gera honum mögulegt að þekkja betur sjálfan sig. Námsgreinar barna og unglingaskóla hljóta því að vera ærið margar og það með nokkrum rétti.
Hættulegt er að kenna til langframa, það sem nemandanum er ofvaxið að nema, og ber að koma í veg fyrir það svo fljótt, sem unnt er. Unglingurinn fyllist annars oft andúð á skólanum, kennurunum, og — það sem verra er — hann fyllist vanmáttarkennd, sem verður oft til þess, að hann hneigist inn á hættulegar brautir þjóðfélagsins til tjóns, sjálfum sér til skaða og aðstandendum til sárrar hryggðar.
Foreldrum verður að skiljast, hvílíkur háski felst í því að ætla börnum sínum nám, sem er þeim ofvaxið.
Í nýju fræðslulögunum er skólaskyldan lengd um eitt ár, en um leið er einnig gert ráð fyrir því, að skólarnir starfi í tveimur ólíkum deildum, verknámsdeild og bóknámsdeild. Með því er ætlazt til þess, að börn, sem ekki eru t.d. hneigð til bóknáms, eða hafa litla möguleika til slíks náms, geti stundað nám, sem þau hafa áhuga og getu til.
Víða er mikill áhugi fyrir því að koma þessari nýju skipan á fræðslumálin, og verður hvert fræðsluhérað að sjá um sig. Árið 1948 auglýsti skólastjóri Gagnfræðaskólans hér, að starfa mundi verknámsdeild um veturinn innan skólans. Árangurinn varð sá, að aðeins einn nemandi sótti um skólavist i verknámsdeild.
Ekki virðist þetta spá góðu um áhuga almennings hér fyrir verknámsdeildum. Reynslan ein mun þó geta sagt til. En fyrir mitt leyti tel ég lítið vit vera í lengingu skyldunámsins, ef hrúga á öllum upp til hópa í erfitt bóknám, sem aðeins fáir eru færir um að leysa af hendi.
Í spurningum þeim og svörum, er að framan getur, kemur í ljós, að meirihluti nemendanna telur rétt að hækka einkunn, ef um óheppni hefir verið að ræða (49 með, 24 á móti). En yfirgnæfandi meirihluti (60 á móti, 7 með) telur órétt að lækka einkunn nemandans, ef um heppni hefir verið að ræða. Tel ég, að þarna skorti nokkuð á dómgreind og tilfinningarnar ráði of miklu. Ef það er sanngjarnt að hækka lága einkunn, hlýtur eins að vera rétt að lækka háa einkunn, hafi verið um slembilukku að ræða.
Mitt álit er þá, að mjög sé hæpið að láta eitt próf ráða einkunnagjöfinni. Réttasta útkomu tel ég að hægt verði að fá með meðaltali sem flestra prófa og einkunnagjöf í kennslustund. Enda munu nokkrir skólar haga þessu svo. En mikið skortir á, að samræming á einkunnagjöfum hafi farið fram í hinum ýmsu skólum landsins, en það er hverjum skóla metnaðarmál að hafa sem ákveðnasta og réttlátasta skipan á málum þessum. Kennari finnur oftast sárt til með þeim nemanda, sem er óheppinn í prófi og vill bæta úr því eftir getu. Allar ágizkanir í þeim efnum tel ég fráleitar og komi ekki til greina annað en samanburður á fyrri einkunnum í öðrum prófum fyrr á skólatímanum. Á skólaskírteini eða prófskírteini ætti bæði að sýna vetrareinkunn nemandans og einkunn við lokapróf.
Hafa verður að lokum hugfast, að einkunnir þær, er skólarnir gefa, ná ekki út fyrir viðkomandi námsgrein, að undantekinni „manndáðareinkunn“ og segja því oft lítið um hæfileika nemandans til þess að komast áfram í lífinu eins og t.d. þrautseigju, sammvizkusemi og reglusemi. Þeir nemendur, sem ekki hafa þessa hæfileika, fá þó sjaldan háar einkunnir í bóklegum greinum. En einkunnir samvizkusamra og reglusamra nemenda geta verið lágar, ef hæfileikar þeirra til náms eru að öðru leyti litlir.
Áður nefndar dyggðir er erfitt að mæla nákvæmlega. Hér í skólanum er þetta þó reynt og gefin „manndáðareinkunn“. Það er mikils vert hverjum nemanda, að sú einkunn sé ekki lág.