„Blik 1976/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, III. hluti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 61: Lína 61:
S.Í.S. eignaðist húseignir félagsins.
S.Í.S. eignaðist húseignir félagsins.
(Heimildir: Fundargjörðarbækur stjórnar og félagsfunda Kf. Drífanda, Vestmannaeyjablöð, félagsmenn kaupfélagsins og eigin vitund og reynsla.
(Heimildir: Fundargjörðarbækur stjórnar og félagsfunda Kf. Drífanda, Vestmannaeyjablöð, félagsmenn kaupfélagsins og eigin vitund og reynsla.
[[Blik 1976/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, II. hluti|Til baka]]
{{Blik}}
{{Blik}}

Útgáfa síðunnar 28. nóvember 2009 kl. 15:46

Í ágústmánuði um sumarið gekk stjórn kaupfélagsins frá að ráða framkvæmdastjóra fyrir félagið frá 1 .janúar 1931. Ráðinn var Bjarni Jónsson, skrifstofumaður að Svalbarða hér í bæ, enda hafði S.Í.S. ekki hirt um það til þess tíma samkvæmt tilkynningu stjórnarinnar að ráða neinn mann í stöðu Ísleifs Högnasonar, þrátt fyrir beiðni félagsstjórnarinnar.

Þegar stjórn kaupfélagsins hafði gengið frá starfssamningi við Bjarna Jónson, boðaði hún til almenns fundar í félaginu. Sá fundur var haldinn 8. ágúst 1930 í Kvikmyndahúsinu Borg að Heimagötu 3.

Á fundi þessum kom berlega í ljós, að kaupfélagsmenn voru klofnir í tvær pólitískar fylkingar. sem tókust á í orðasennum á fundinum, og vönduðu foringjarnir lítt kveðjurnar hver öðrum. Hinn nýráðni kaupfélagsstjóri sat fund þennan og fékk óþvegin hnýfilyrði í sinn garð, svo að hann kvartaði sáran. Hann var þó viðurkenndur hið mesta ljúfmenni, sem starfað hefði í bænum tugi ára við góðan orðstír. En nú var fundarmönnum heitt í hamsi og þá lítið um það hirt, hvar og hvernig stungið var og mannskemmt. Kaupfélagið var nú mulið niður vegna pólitísks ágreinings.

Á fundi þessum bar hinn fráfarandi framkvæmdastjóri fram þessa tillögu frá sér sjálfum og nokkrum öðrum félagsmönnum:

„Fundurinn samþykkir að skipta Kaupfélaginu Drífanda í tvö sjálfstæð kaupfélög, sem yfirtaki skuldir og eignir félagsins eftir nánari ákvörðunum. Ástæðurnar eru þessar: Deila sú, sem risið hefur milli stjórnar kaupfélagsins annars vegar og ýmissa félagsmanna hins vegar verður eigi á annan hátt betur jöfnuð en þann. að deiluaðiljar skilji og eignum og skuldum félagsins verði skipt í réttum hlutföllum við skiptingu félagsmanna í deildinni. Vegna hinna stöðugt vaxandi skulda ýmissa félagsmanna við félagið og samfara því, að nokkur hluti félagsmanna hefur engin not af félagsskapnum, skulda ekkert, hafa myndast hagsmunaandstæður innan félagsins, sem eigi verða jafnaðar á annan hátt en með skiptingu."

Miklar umræður áttu sér stað um tilögu þessa. Hinn fráfarandi framkvæmdastjóri gat þess, að Sigurður Kristinsson, forstjóri S.Í.S., væri meðmæltur slíkum skiptum á félaginu, og skoraði á formann kaupfélagsins að bera upp tillöguna þegar í stað til samþykktar.

Þá bar Guðmundur stjórnarmaður Sigurðsson frá Heiðardal upp þessa breytingartillögu við tillögu hins fráfarandi framkvæmdastjóra: „Fundurinn samþykkir, að Kaupfélagið Drífandi starfi óskipt til næsta aðalfundar og tillaga Ísleifs Högnasonar o. fl. verði þá tekin til umræðu."

„Breytingatillaga þessi var síðan borin upp til atkvæða og samþykkt með 2/3 hluta fundarmanna gegn 1/3 sem atkvæði greiddu," segir í frumheimild.

Um haustið 1. okt. 1930 hóf Bjarni Jónsson störf í skrifstofu kaupfélagsins og starfaði með stjórnarmönnum að athugun á skuldum félagsmanna og greiðslugetu þeirra.

Í desember (1930) tjáði formaður kaupfélagsins félagsstjórninni þá ákvörðun forstjóra S.Í.S.. að Sambandið mundi ekki lána Kaupfélaginu Drífanda neinar vörur eftir næstu áramót (1930/1931). Þessi tilkynning forstjórans kostaði félagsstjórnarmenn nokkrar ferðir til Reykjavíkur á fund forstjórans, og býsna mörg símtöl.

Jafnframt var rætt við bankastjóra Útvegsbankans í Eyjum (Viggó Björnsson) um rekstrarlán til handa kaupfélaginu. Niðurstaðan af þessum umræðum og ráðagerðum varð sú, að forstjóri S.Í.S. afréð að halda áfram að lána kaupfélaginu vörur gegn tryggingu. Þá samþykkti bankastjórinn jafnframt að lána kaupfélaginu fé út á afurðir eins og öðrum. sem þær hefðu til veðsetningar.

Eftir áramótin 1931 hélt svo rekstur og starf kaupfélagsins áfram eins og ekkert hefði í skorizt, en þó með meiri gætni um öll lánaviðskipti og meiri kröfur um auknar tryggingar fyrir skuldum og lánum, ekki sízt lánum til útgerðar.

Endurskoðandi frá S.Í.S. starfaði að því öðru hvoru fyrri hluta árs 1931 að endurskoða reikninga kaupfélagsins og gera sér grein fyrir rekstri þess og fjárhag. Mikill halli hafði orðið á rekstri félagsins árið 1930. Í viðtali við stjórnarformann kaupfélagsins og hinn nýja framkvæmdastjóra þess lét forstjóri S.I.S. í ljós þá skoðun sína, að starfsfólk kaupfélagsins væri allt of margt, svo að vonlaust væri, að reksturinn gæti borið sig með ekki meiri veltu. Leiddi þetta viðtal til þess, að öllu starfsfólki kaupfélagsins nema hinum nýráðna kaupfélagsstjóra var sagt upp starfi (1931) með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Hinn 15. ágúst (1931) hélt stjórn kaupfélagsins aðalfund fyrir árið 1930. Ýmsir höfðu hugsað til þessa fundar með nokkrum spenningi. Hvað um framtíð kaupfélagsins eftir þann fund? Yrði því skipt eða það lagt niður?

Framkvæmdastjórinn, Bj. J., las upp reikninga félagsins og skýrði þá eftir beztu getu. Úr stjórninni skyldi ganga hinn reyndi verkalýðsforingi Guðmundur Sigurðsson frá Heiðardal, sem vikið hafði verið úr Verkamannafélaginu Drífanda að undirlagi „Félaga Stalíns", og Guðmundur Magnússon á Goðalandi. Báðir voru þeir endurkosnir í einu hljóði. Stungið var upp á fyrrverandi framkvæmdastjóra í stjórnina. En sú tillaga fékk ekki byr á fundinum. Það sannar okkur, að mesti vindurinn var tekinn að minnka i „Félögum Stalíns" í þessum deilumálum.

Fundarmenn litu samt fyrrverandi framkvæmdastjóra Í. H., velvildaraugum, þrátt fyrir allt, sem á undan var gengið, sökum mikilhæfni í framkvæmdastjórastörfum og einlægs velvildarhugar til verkalýðsins í kaupstaðnum.

Að fundarlokum minntist fundarstjóri á það, að stjórn félagsins hefði heitið félagsmönnum á síðasta félagsfundi að ræða skiptingu kaupfélagsins og gaf því orðið laust til að ræða það mál. Ísleifur Högnason tók þá til máls og kvaðst ekki vera undir það búinn að ræða skiptinguna að svo stöddu. Hann bar upp tillögu um að fresta því máli til næsta fundar. Sú tillaga var samþykkt í einu hljóði.

Í nóvember haustið 1931 tilkynnti S.Í.S. stjórn kaupfélagsins, að það sæi sér ekki fært að veita Kaupfélaginu Drífanda lengur stuðning og gerði ráð fyrir því, að félagið hætti störfum. Sambandsstjórn eða forstjórinn sendi kaupfélagsstjórninni lögfræðing til aðstoðar við slit kaupfélagsins. Þarna reyndist því full ástæða til að fresta skiptingu þess! Hinn 21. nóv. 1931 var boðað til almenns kaupfélagsfundar með bréfi, sem sent var inn á hvert heimili félagsmanna. Guðmundur Sigurðsson i Heiðardal, sem verið hafði í stjórn kaupfélagsins frá upphafi, var kjörinn til þess að stjórna þessum fundi. Fyrstur tók til máls Guðlaugur Hansson á Fögruvöllum, sem einnig hafði verið í stjórn félagsins frá upphafi. Eins og áður segir voru þeir báðir í hópi sexmenninganna. sem ,.Félagar Stalíns" og fylgifiskar þeirra ráku úr Verkamannafélaginu Drífanda. Nú máttu þessir baráttumenn verkalýðsins einnig þola það, að kaupfélagið þeirra væri gert upp, lagt í rúst. Lögfræðingur Sambandsins skýrði fyrir fundarmönnum hag kaupfélagsins í stórum dráttum. Síðan greindi hann frá afstöðu Sambandsins til kaupfélagsins. Hvergi er skráð orð um þá afstöðu, að ég bezt veit, svo að mér gefst ekki kostur á því hér, að tjá hana. Þegar hér var komið umræðum, bar lögfræðingur S.Í.S. upp tillögu. Hún hljóðaði þannig: „Almennur, lögmætur félagsfundur í Kaupfélaginu Drífanda í Vestmannaeyjum, haldinn í Goodtempl¬arahúsinu 21. nóv. 1931. samþykktir, að Kaupfélaginu Drífanda skuli slitið og þriggja manna skilanefnd skuli kosin á þessum fundi samkvæmt 33. gr. samvinnulaganna, lög nr. 36 frá 1921, til þess að sjá um og hafa á hendi allt, sem að skiptum á búi félagsins lýtur. Skal nefnd þessi bera alla þá ábyrgð og þær skyldur og hafa allt það vald, sem slíkri skilanefnd ber samkvæmt samvinnulögunum . . ." Formaður félagsins, Guðlaugur Hansson, tók þá aftur til máls og lýsti með skýrum rökum andúð sinni á meðferð Sambandsins á kaupfélaginu. Þá tók til máls Ísleifur Högnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, og hvatti menn að standa fast saman og biðja um eftirgjöf og greiðslufrest á skuldum félagsins. Einnig skoraði hann á fundarmenn, bæði smáútvegsmenn og verkamenn, að gera strangar kröfur til banka og stjórnvalda um nægilegt rekstrarfé handa smáútvegsmönnum." Allmiklar umræður urðu nú um þetta mál og var sumum heitt í hamsi. Nú virtist enginn ágreiningur lengur milli „vinstri" og „hægri" armanna í kaupfélaginu. Guðlaugur Brynjólfsson, stjórnarmaður kaupfélagsins, bar fram breytingartillögu við hina fyrr skráðu svo hljóðandi: „Þar sem ákvörðun sú, sem Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur tekið gagnvart Kaupfélaginu Drífanda virðist ekki nægilega vel yfirveguð, hvað hagsmuni beggja aðilja viðvíkur, þá skorar fundurinn á Samband íslenzkra samvinnufélaga að taka mál þetta nú þegar enn á ný til rækilegrar yfirvegunar að viðstöddum fulltrúum, sem stjórn Kaupfélagsins Drífanda útnefnir." Þessi breytingartillaga Guðlaugs var samþykkt einróma. Fjórum dögum síðar, eða 25. nóvember (1931) var boðað til annars almenns kaupfélagsfundar. Þar lá fyrir úrslitasvar frá S.Í.S.: Kaupfélaginu Drífanda skal slitið. S.Í.S. var aðallánardrottinn kaupfélagsins. En mér er ekki kunnugt um, hversu hárri upphæð skuldir þess námu við Sambandið, með því að reikninga þess hef ég ekki séð. Skilanefndina skipuðu fimm félagsmenn. Þeir voru þessir: Jóhann Gunnar Ólafsson. þá bæjarstjóri i Eyjum, Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri kaupfélagsins, Guðlaugur Hansson. bæjarfulltrúi og stjórnarmaður, Ísleifur Högnason, fyrrv. framkvæmdastjóri og Árni Oddsson. innheimtumaður. frá Burstafelli i Eyjum. Þegar hér er komið atburðum og sögu er neyðin orðin stærst og hjálparhellan fjærst. Það var Kaupfélagið Drífandi. Alheimskreppa þjáði alla heimsbyggðina. Fjárhagsleg vandræði krepptu hvarvetna að, og ekki minna að smáútgerðarmönnum í Vestmannaeyjum og verkamannaheimilum þar en öllum öðrum íslendingum. Allt var ástandið ömurlegt. Þó var það e. t. v. ömurlegast öllum hinum máttarminnstu í Eyjum. Verzlunin, sem hafði verið hinum smáu útgerðarmönnum í bænum og verkalýðsstéttinni í heild vernd og skjól, hjálparhella og öryggi undanfarin 10 ár, var í rúst, gjaldþrota fyrirtæki. Nú var illa fokið í það skjólið. Þessar sáru staðreyndir ollu því, að hinn fyrrv. kaupfélagsstjóri Kaupfélagsins Drífanda, I. H., bar fram á fundi þessum svohljóðandi tillögu: „Vegna yfirvofandi neyðar smáútvegsmanna og verkamann samþykkir fundur í Kaupfélaginu Drífanda eftirfarandi kröfur til lánadrottna félagsins:

  • 1. Eftirgjöf skulda; og til vara:

Frestur á greiðslum skulda félagsins í tvö ár; vextir falli niður.

  • 2. Félög smáúvegsmanna og verkamanna njóti forgangsréttar að leigu á verzlunarhúsum Kf. Drífanda."

S.Í.S. hafði veð í báðum verzlunarhúsum kaupfélagsins fyrir skuldum þess hjá því og fékk þannig ráðstöfunarrétt á þeim eftir slit félagsins. Þessar kröfur hlutu enga áheyrn. Eftir viku. eða 28. nóvember, var enn boðað til félagsfundar. Þá var endanlega orðið vonlaust um líf félagsskaparins. Fundur þessi samþykkti þá umræðulaust að slíta kaupfélaginu. Eftir þá samþykkt tóku umræður að hefjast og magnast að hita og stóryrðum. Minnisstæðastar fundarmönnum urðu þá hnippingarnar á milli fyrrv. framkvæmdastjóra cg síðasta formanns félagsstjórnarinnar, Guðlaugs Hanssonar. Hvers vegna var komið eins og komið var? Hverjar voru orsakir félagsslitanna? Um þetta deildu fulltrúar „vinstri" og „hægri" harkalega, og „Félagar Stalíns" fengu vissulega orð í eyra. Með bréfi 21. des. 1931 löggilti dómsmálaráðuneytið skilanefnd Kf. Drífanda. S.Í.S. eignaðist húseignir félagsins. (Heimildir: Fundargjörðarbækur stjórnar og félagsfunda Kf. Drífanda, Vestmannaeyjablöð, félagsmenn kaupfélagsins og eigin vitund og reynsla.


Til baka