„Blik 1969/Tólf ára dvöl í Eyjum“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 74: | Lína 74: | ||
Þann 14. september 1959 kom ég á morgunvakt að vanda. Magnús stöðvarstjóri kom til mín hýr í bragði eins og jafnan. „Átt þú ekki stór-afmæli í dag?“ spurði hann. „Ekki mjög stórt,“ svaraði ég. „Þú átt frí í dag og með hamingju með þrjá aldarfjórðungana,“ sagði Magnús með þéttu handtaki. Með þökk þáði ég boðið. | Þann 14. september 1959 kom ég á morgunvakt að vanda. Magnús stöðvarstjóri kom til mín hýr í bragði eins og jafnan. „Átt þú ekki stór-afmæli í dag?“ spurði hann. „Ekki mjög stórt,“ svaraði ég. „Þú átt frí í dag og með hamingju með þrjá aldarfjórðungana,“ sagði Magnús með þéttu handtaki. Með þökk þáði ég boðið. | ||
Ýmsir vinir og vandamenn gjörðu sitt til, að dagurinn varð mér ánægjulegur. M.a. komu þeir [[Sigurjón Jónsson símritari|Sigurjón]] símritari og [[Jóhann Björnsson|Jóhann póstfulltrúi]] og afhentu mér skrifborð og stól, fallega gripi. Sögðust þeir vera sendir frá starfsfólkinu með þessa kveðju ásamt skrautritaðri heillaósk með 34 nöfnum. Þegar ég þakkaði og dáðist að | Ýmsir vinir og vandamenn gjörðu sitt til, að dagurinn varð mér ánægjulegur. M.a. komu þeir [[Sigurjón Jónsson símritari|Sigurjón]] símritari og [[Jóhann Björnsson póstfulltrúi|Jóhann póstfulltrúi]] og afhentu mér skrifborð og stól, fallega gripi. Sögðust þeir vera sendir frá starfsfólkinu með þessa kveðju ásamt skrautritaðri heillaósk með 34 nöfnum. Þegar ég þakkaði og dáðist að | ||
þessari fallegu gjöf, sagði Sigurjón: „Ef þú, vinur, gætir séð í hugina, sem | þessari fallegu gjöf, sagði Sigurjón: „Ef þú, vinur, gætir séð í hugina, sem | ||
að baki eru, mundirðu ekki undrast kveðjuna. Njóttu heill.“ | að baki eru, mundirðu ekki undrast kveðjuna. Njóttu heill.“ |
Útgáfa síðunnar 20. maí 2008 kl. 20:51
Tólf ára dvöl mín í Vestmannaeyjum hefur til muna auðgað forða minninganna. Þess vegna finnst mér vert að festa á blað nokkuð af því helzta, sem hugur minn geymir í sambandi við þessa útverði suðurstrandar okkar kæra fósturlands og veru mína þar.
Þegar í æsku vissi ég, að skammt fyrir sunnan land voru eyjar. Þar bjuggu menn, sem orð lék á að væru góðir sjómenn og aflasælir. Þar voru góð fiskimið umhverfis og þangað fóru „til útvers“ menn, sem ég kannaðist við, og öfluðu sér þar fjár og frama.
Svo kom þar sögu, að jafnaldrar mínir einhverjir fóru „út í Eyjar“ til sjóróðra og létu vel af. En mín leið lá ekki þangað þeirra erinda, heldur suður með sjó, - þær vertíðir, sem ég þóttist vera sjómaður. Þar var líka gott að vera.
Stundum á vorin fór ég með strandferðaskipi frá Reykjavík til Víkur. Þá voru Vestmannaeyjar viðkomustaður. Og alltaf blöstu þær við augum manna alla landleiðina milli Reynisfjalls og Hellisheiðar. Oft voru þær að einhverju leyti hjúpaðar þokuslæðu, en oftar þó sem gulltypptar hamraborgir í síbreytilegum hillingum, og þó í óhagganlegri varðstöðu.
Tímar liðu og nákomnir ættingjar höfðu gerzt búsettir Eyjamenn. Ég heimsótti þá yfir sundið. Svo var afráðið að flytja búferlum í „útsker það“ eftir 70 ára ævileið á sjálfu Íslandi.
Svo var það þá sólbjartan júnídag 1956, að vélbátur lætur úr Þorlákshöfn. Innanborðs voru öldnu hjónin frá Iðu og farangur þeirra.
Formaður bátsins lét konunni í té klefa sinn, svo að sem bezt færi um hana í hennar fyrstu sjóferð.
Báturinn brunar fram lognkyrran hafflötinn og brátt sjást rísa úr hafi hnjúkar sæbrattir, sem hækka og stækka, eftir því sem skrúfan knýr farkostinn nær og nær. Þarna eru Þrídrangar og Úteyjarnar margar. Og um það leytið, sem bærinn sést yfir Eiðið, kemur konan fram í stjórnklefann furðu hress.
Formaðurinn opnar dyrnar, svo að betur sjáist til lands. - Strax varð hún hrifin af því, sem fyrir augu hennar bar, og sú hrifning varð ekki endaslepp.
Síðdegissól stafaði geislum yfir húsaþök og hnjúkana háu, svo að allt varð ljóma vafið. - Skeiðin skreið með jöfnum hraða örstutt frá þverhníptu berginu, sem gnæfði himinhátt stjórnborðsmegin. Leiðin lá um Faxasund, sem nú var spegilslétt. Óteljandi grúi fugla sat í skorum, á syllum og í skútum bjargsins, en aðrir svifu á þöndum vængjum við brúnirnar.
Svo er beygt fyrir Yzta-Klett, og þá gefur á að líta. Útsýn yfir Heimaey er undrafögur í augum innflytjendanna.
Á bryggjunni eru bræðurnir Sigurfinnur og Guðmundur viðbúnir að veita móttöku og flytja farangur á ákvörðunarstað, - heim að Heiðartúni. Rishæðina þar höfðum við tekið á leigu, þó að hún væri ekki nærri fullgerð. Svo hafði um samizt, að ég gerði það, sem á vantaði, og mætti sá kostnaður síðan húsaleigunni. Til þessara framkvæmda þurfti mikla vinnu og ýmiskonar efni. Tréverk vann ég sjálfur, en Ólafur Stefánsson vann fyrir mig að allri múrhúðun af röskleika og kappi. Húsráðandann Lúðvík Reimarsson reyndi ég alltaf að drengskap og prúðmennsku.
Fámennur var kunningjahópurinn fyrst um sinn.
Eina viku vann ég að viðgerð á Höfðavegi, sem valmennið Guðmundur í Heiðardal sá um. Undir stjórn hans var gott að vinna.
Eitt kvöld símaði Sigurgeir Kristjánsson til mín. Hann mæltist til þess, að ég hjálpaði til að lagfæra lóð Gagnfræðaskólabyggingarinnar, sem þá var nærri fullgerð. Sigurgeir er Árnesingur og var mér nokkuð kunnugur að góðu einu. Ég féllst á það. Þarna var talsvert verkefni, sem var aðkallandi. Hafði skólastjóri beðið Sigurgeir að byrja á því, en sjálfur var hann ekki heima þessa daga. Ég tók til verka með reku, kvísl og haka, og Sigurgeir vann með mér í frístundum frá skyldustörfum sínum.
Þorstein Þ. Víglundsson skólastjóra þekkti ég lítið eitt. Hafði setið með honum á Stórstúkuþingi í Reykjavík. Fann ég þá, að þar fór skapfestumaður, sem hélt vel á sínum málstað. Hafði ég hug á að kynnast þessum manni nánar, en bjóst þó ekki við að svo yrði, því að „djúpir eru Íslands álar“, einnig sálarlega séð, og torkannaðir stundum. En nú er ég allt í einu orðinn Eyverji og tekinn til verka á umráðasvæði þessa manns.
Svo var það einn morgun, að maður nokkur kemur kvikur í hreyfingum, heilsar vingjarnlega og segir: „Gott er að sj á hér mann að verki, - mann, sem mun óhætt að treysta“. Fleiri orð fóru á milli okkar, m. a. um það, hvar við höfðum hitzt síðast.
Og svo vann ég þarna við skólabygginguna um sumarið, ýmist úti eða inni eftir atvikum. Ég kynntist Þorsteini skólastjóra þetta sumar, dugnaði hans og kappi samfara drenglund og orðheldni. Hreinskilnislega langar mig að segja það, að ýmislegt hef ég lært af samvinnu og samskiptum við þennan mann, og tel það eitt af höppum mínum í lífinu að mega telja hann meðal vina minna.
Það haustar. Finnur sonur minn segir mér, að auglýst sé eftir sendisveini á Símstöðinni, og hvort ég vilji ekki sækja um það starf.
Samtalinu lauk með því, að við fórum báðir á fund stöðvarstjórans, Þórhalls Gunnlaugssonar. „Jú, það vantar alltaf sendil", segir hann. ,Nú hef ég dreng, sem getur aðeins verið seinni hluta dagsins. Það mætti reyna þetta. Kaupið er 14-1500 á mánuði. - Við skulum koma og tala við hann Árna.“
Og svo elti ég stöðvarstjórann niður á ritsímann. Þar sat Árni, sem ég sá nú í fyrsta sinn, - við sín undratæki.
„Hér er sendilsefni,“ segir Þórhallur. „Ratar hann nokkuð um bæinn, nýkominn hingað og alveg ókunnugur?“ segir Árni. „Já, það er ég, en mér datt í hug að reyna þetta," svara ég. Árni: „Ekki lýst mér á, en reyna má það. Komdu kl. 8 á morgun, og sjáum þá til.“
Ekki grunaði mig þá, að þessi maður yrði einn af mínum beztu samverkamönnum og tryggðavinum, sem ég seint gleymi.
Það var að morgni 9. sept. um haustið, að ég mætti á Símstöðinni. Árni sýndi mér lítinn klefa, þar sem ég átti að hafa bækistöð mína. Hann sýndi mér, hvernig ég ætti að færa kvittanabók, brjóta símskeyti o. fl. Hann lagði mér þarna í sem stytztu máli sagt lífsreglurnar í ljósu máli.
Það fór nú svo, að á þessum stað var ég í stöðugu starfi í rúmlega 5 ár. Og eftir að ég hætti þar föstu starfi, hljóp ég einatt í skarð, ef með þurfti.
Starfið var fólgið í því að skrásetja öll símskeyti, sem stöðin tók á móti, hvaðan og hvenær þau komu, og skila þeim til viðtakanda svo fljótt sem hægt var. Koma skyldi ég einnig samtalskvaðningum til skila. Um þær gilti sömu reglur. Svo voru það smáerindi öðru hvoru fyrir starfsfólkið.
Nokkuð var þetta örðugt fyrst í stað, einkum vegna þess, hve ókunnugur ég var og þekkti fáa. Einatt varð ég að spyrja: „Hvar er þetta hús? Í hvaða átt er það?“ En sjaldan stóð á svari símastúlknanna, sem af velvilja og áhuga reyndu að leiðbeina mér eftir beztu getu. Sumar þeirra virtust vita allt og geta greitt úr öllu. - Já, samvinnunnar við þetta fólk, hennar minnist ég alltaf með þökk og af hlýjum huga.
Með aðstoð Árna Árnasonar, þessa fjölfróða vitrings, gjörði ég riss af götum bæjarins og afstöðu þeirra frá Stöðinni, svo að það var ekki lengi vandamál. En þessi fjöldi húsa, sem heita og eru oft skráð alls konar nöfnum, - við þann vanda var lakara að glíma, - vita, hvar þau voru öll. Þá varð sá fáfróði að leita ráða hjá þeim, sem betur vissu. Og helzta ráðið var að eiga vingott við blessaðar símastúlkurnar í þeim efnum. Málaleitan minni tóku þær jafnan vel. Ef til vill þáðu þær stundum ljóðstaf að launum. - Það var torráðin gáta, ef áletran skeytanna var t.d. Jón Sveinsson Vestmannaey eða Helgi Landakoti eða Halldór Lögbergi - Fífilbrekku, Stafholti o.s.frv. Oft kvaddi ég dyra á einhverju húsi og spurði: „Kannast þú við þetta nafn? Þekkirðu þetta hús?“ - Jú, hann á heima þar eða þar. „Húsið er númer ...“ Eða: „Ég held hann sé ekki hér í grennd“. Alltaf var svarað af vingjarnlegri kurteisi.
Við þetta basl mitt kynntist ég fólki víðsvegar um bæinn og öllum að góðu. Loks átti ég skrifuð í bók um 300 húsanöfn og hvar húsin var að finna í bænum. Sá listi sparaði mér margar spurningar. Þórhallur Gunnlaugsson var góður húsbóndi. Hann kvaðst verða að búa til aukavinnu eða hafa einhver ráð til að halda í sendil, sem hann gæti treyst.
Svo varð Magnús H. Magnússon stöðvarstjóri, ágætur húsbóndi og drengur hinn bezti. Hann kom því á, að sunnudagavinna var greidd aukalega. Ýmsum öðrum bættum kjörum fékk hann framgengt.
Af því að ég er ekki mjög morgunsvæfur, kom ég oft á Stöðina nokkrum mínútum fyrir afgreiðslutíma. Þá átti ég jafnan skemmtilega stund með næturverðinum, en það var gráhærður unglingur, Jónas frá Skuld, - alltaf síkátur og glettinn og kunni frá mörgu að segja. Að þeim morgunglaðningi bjó maður lengi dags.
Fljótt komst ég í góð kynni við fólkið á pósthúsinu, sem er undir sama þaki og Símstöðin og náið samstarf þar á milli.
Yfirleitt féll mér starfið vel, þó að nokkuð væri það erilsamt og oft örðugt, t. d. þegar skila skyldi erindum út í báta, sem lágu einhversstaðar við bryggju í höfninni, oft í slæmu veðri og dimmu.
Þann 14. september 1959 kom ég á morgunvakt að vanda. Magnús stöðvarstjóri kom til mín hýr í bragði eins og jafnan. „Átt þú ekki stór-afmæli í dag?“ spurði hann. „Ekki mjög stórt,“ svaraði ég. „Þú átt frí í dag og með hamingju með þrjá aldarfjórðungana,“ sagði Magnús með þéttu handtaki. Með þökk þáði ég boðið.
Ýmsir vinir og vandamenn gjörðu sitt til, að dagurinn varð mér ánægjulegur. M.a. komu þeir Sigurjón símritari og Jóhann póstfulltrúi og afhentu mér skrifborð og stól, fallega gripi. Sögðust þeir vera sendir frá starfsfólkinu með þessa kveðju ásamt skrautritaðri heillaósk með 34 nöfnum. Þegar ég þakkaði og dáðist að þessari fallegu gjöf, sagði Sigurjón: „Ef þú, vinur, gætir séð í hugina, sem að baki eru, mundirðu ekki undrast kveðjuna. Njóttu heill.“
Þótt samvinna mín með þessu ágæta fólki væri í alla staði ánægjuleg, megnaði hún ekki að hamla á móti vaxandi ásókn Elli kerlingar á mig. Ég gat ávallt búizt við, að hún kynni að koma mér á kné, og það þá verst stæði á fyrir mér og þeim, sem ég vann fyrir. Þess vegna þorði ég ekki annað, þegar vetur (1960-1961) nálgaðist en að segja upp stöðunni. „Það er nú verri sagan,“ sagði Magnús stöðvarstjóri, „og ekki mun hitt starfsfólkið síður sakna þín.“
Svo kom 14. okt. Þá var okkur hjónunum haldið veglegt samsæti, kvöldverðarboð, þar sem símstöðvarfólkið var allt saman komið. Um það segir Árni Árnason í Símablaðinu: „Samsæti það, sem myndin er af, fór fram með miklum glæsibrag, etið og drukkið og mikið sungið. Voru Einari færðar þakkir af miklum innileik fyrir framúrskarandi góð störf, og honum færð bókagjöf áletruð af öllu starfsfólkinu.“
Vissulega var ánægjulegt að hætta starfi á þennan hátt, finna hlýhugann, sem andaði frá öllum og ekki er hægt að fullþakka. Þótt ég yrði þannig að hætta, átti ég oft leið á Stöðina, og stundum lagði ég leið þangað, ef liðs var þörf eða liðsauka í bili. Þannig hélt ég vingjarnlegu samstarfi við starfsfólkið.
Ég bar út dagblað í um 50 hús. Þess vegna átti ég daglega erindi á pósthúsið. Þar átti ég einnig vinum að mæta. Og blaðakaupendur urðu góðkunningjar mínir.
Eins og fyrr greinir, bjó ég fyrst að Heiðartúni. En um áramótin 1956-1957 festum við Guðmundur sonur minn kaup á húseigninni nr. 29 við Kirkjuveg og fluttum þangað. Þetta er gamalt en gott timburhús. Þar í miðjum bæ var gott að vera, nærri vinnustað, og góðir nágrannar til beggja hliða, sem gott var að leita til.
Meðal annarra góðra minninga frá þessum árum eru drengjafundirnir í K.F.U.M. Ég var þar alltaf með þeim góðu mönnum séra Jóhanni Hlíðar og Þórði Gíslasyni meðhjálpara. Með þeim var ánægjulegt að vera. Og þessi stóri drengjahópur átti vinsamleg ítök í huga mér. Oft mætti ég hlýju brosi frá þeim á götunni. Og það hygg ég og veit, að sumir þessara ungu manna eiga góðar minningar um þessa samfundi. Einhver frækorn, sem þar var sáð, munu bera ávöxt, þótt seinna verði.
Margar góðar, já, hugðnæmar minningar á ég frá dvöl minni í Landakirkju. Þangað lá leið mín oft og þar naut ég margra unaðsstunda. Prestanna beggja minnist ég með þökk og virðingu, og svo annars starfsfólks safnaðarins. Þannig komst ég í allnáin kynni við marga Eyjabúa, - man og þakka samskiptin í orði og viðmóti.
Ekki má ég gleyma deginum þeim, er ég hóf gönguna inn á 9. áratuginn. Vináttumerkin voru mörg, er þá komu í ljós: heimsóknir, gjafir og símskeyti. Mér bárust um 150 afmælisskeyti þá, þar af helmingur frá Eyjabúum. Ríkur var sá þáttur, sem konan mín og börn áttu í þessum ánægjuríka degi, enda eru orðin ein ónóg til að lýsa ást þeirra og umhyggju þá eins og endranær.
Þótt ekki væri það ætlan mín að breyta til um dvalarstað, urðu viss atvik til þess, að við afréðum að vel athuguðu máli að hverfa frá eyjunum fögru og flytja til meginlandsins. Eins og þessi orð mín gefa til kynna, var vissulega margs að sakna og margt að þakka, þegar hugsað var til brottflutningsins, - þakka vinum og góðkunningjum og þó fyrst og fremst guðs handleiðslu og vernd þessi ár sem endranær.
Klökkur er hugur á kveðjustund, en minningarnar um samskipti við mæta menn verma og gleðja aldraðan og nokkuð reynsluríkan þegn.
Sólbjartur var vordagurinn 1967, þegar flugfákurinn sveif með okkur burt frá hnjúkunum háu í átt til hinna fyrirhuguðu heimkynna, þar sem við áttum fyrir guðs hjálp og góðra manna að opnu húsi að hverfa. Heill sé Eyjum og Eyverjum og guði sé lof fyrir allt.
Skráð að veturnóttum 1967.
- Einar Sigurfinnsson,
- Hveragerði.
- Einar Sigurfinnsson,